Fyrir um það bil tuttugu árum átti ég erindi við Valdimar Jóhannesson bókaútgefanda í Reykjavík. Þegar samtali okkar um það var lokið vék Valdimar að Siglufirði. Hann sagðist fáum Siglfirðingum hafa kynnst, en sér væri þó alltaf minnisstæður maður frá Siglufirði er hann hefði kynnst á Kristneshæli þar sem þeir voru báðir til lækninga.
 
Þessi maður hét Óskar, hafði eitthvert sjaldgæft föðurnafn, og virtist alltaf vera uppteknari af líðan annarra sjúklinga en sínum eigin veikindum, og önnum kafinn við að hjálpa þeim og gera þeim greiða.

Þessi lýsing gat ekki átt við neinn annan en Óskar Garibaldason og kom mér ekki á óvart. Óskar var alla ævi önnum kafinn að hjálpa meðbræðrum sínum og systrum, gera þeim tilveruna léttbærari, bæta samfélagið, berjast fyrir betri kjörum til handa þeim sem fátækastir voru og áttu erfiðast uppdráttar, styðja fólk sem stóð höllum fæti í lífsbaráttunni, koma á fót menningar- og hjálparsamtökum af ýmsu tagi og stuðla að því að þau næðu markmiðum sínum.

Og ekki var hann fyrr hættur sínu daglega brauðstriti vegna aldurs en hann tók að leggja fyrir sig svonefnt svæðanudd, en það er óhefðbundin lækningaaðferð sem er stunduð víða um heim, hliðstæð nálastungu, grasalækningum og fleiri áþekkum lækningaaðferðum. Kunnáttuna hygg ég að hann hafi aðallega sótt í bækur, meðal annars í tvo hnausþykka doðranta á þýsku sem ég sá einu sinni heima hjá honum. Hann virtist ná árangri og sumir sögðu að hann hefði meiri „praksis“ en læknarnir í bænum samanlagt. Ekki veit ég hvort hann tók nokkurn tíma eyri fyrir þetta; mér er næst að halda að hann hafi aldrei gert það.

Meðal þess sem einkenndi Óskar var hve opinn og einlægur hann var. Á fundi í fulltrúaráði Sósíalistafélags Siglufjarðar skömmu eftir að Gunnar Jóhannsson var kjörinn á þing var rætt um hvern félagið ætti að styðja til forustu í Verkamannafélaginu Þrótti. Þóroddur Guðmundsson stakk upp á því að haft yrði samband við Óskar, sem þá var sjómaður á sænsku skipi, og hann beðinn að taka að sér rekstur félagsins.

Eitthvað var síðan rætt um Óskar og hæfni hans til starfsins. Það eina sem einhver hafði út á hann að setja var að hann ætti ekki til þau pólitísku klókindi, sem stundum þyrfti að beita gegn erfiðum mótherjum. En engin önnur uppástunga kom fram og enginn dró í efa getu hans til að vinna þau verk sem starfið útheimti og aldrei var ýjað að því að hann notaði aðstöðu sína til að skara eld að eigin köku. Og engin dæmi veit ég þess að neinn hafi beðið hnekki vegna þess hvað Óskar var opinn, einlægur og hreinn og beinn í samskiptum.

Í Dettifossslagnum svonefnda 1932 var Óskar einna harðast leikinn, og lauk svo að honum var hrundið í sjóinn, en hann tók tvo af þeim sem harðast sóttu að honum með sér. Voru þeir báðir ósyndir, en Óskar allgóður sundmaður, og bjargaði þeim til lands. Eftir slaginn var kommúnistum úthúðað rækilega í málgögnum andstæðinganna – nema einum manni, Óskari Garibaldasyni. Í einni greininni var honum meira að segja hrósað fyrir drengilega baráttu og fordæmt hve illa hann var leikinn í slagnum.

Óskar var mjög fjölhæfur maður; öll vinna á sjó og landi lék í höndum hans. Hann var góður og nákvæmur bókhaldsmaður og hafði gott yfirlit yfir rekstur og fjármál. Þá var hann fær í öllum norrænu málunum, skildi þau og talaði, einnig vel mæltur á þýsku. Ekki veit ég hvar eða hvenær hann tileinkaði sér þessa kunnáttu, nema þýskuna, sem hann sagðist hafa lært af þýskum vélfræðingum sem hann vann með við að setja niður verksmiðjuvélar í síldarverksmiðju.

Svo starfhæfur maður sem Óskar komst ekki undan því að á hann væri hlaðið trúnaðarstörfum. Hann sat í bæjarstjórn Siglufjarðar, stjórn norðlenskra verkalýðssamtaka, stjórn Alþýðusambandsins og var í ótal samninganefndum. Þá var hann helsta driffjöðrin í stofnun og rekstri Tónskóla Siglufjarðar meðan hann starfaði, svo fátt sé nefnt.

Auk þessa kom svo forsjá heimilis og stórrar fjölskyldu, en um það verkefni – og raunar líka um mörg þau störf sem nefnd voru hér að framan, átti hann afburðatraustan félaga, þar sem var kona hans, Anney Jónsdóttir.

Flestir vinir mínir og samferðarmenn frá æskuárunum á Austurlandi og fullorðinsárunum á Siglufirði eru horfnir af vettvangi og aðeins minningin um þá eftir til að ylja sálinni. Óskar Garibaldason er einn þeirra sem notalegast er að minnast.

 Benedikt Sigurðsson. 

Meira HÉR:> https://timarit.is/page/2894289?iabr=on#page/n11/mode/2up/search/%22Anney%20%C3%93lfj%C3%B6r%C3%B0%20J%C3%B3nsd%C3%B3ttir%22/inflections/true