Bjarni Jóhannsson

Bjarni Jóhannsson

Bjarni Jóhannsson f. 10 október 1910 - d. 28. júní 1970

Þegar ég í fjarlægð frétti hið sviplega fráfall Bjarna Jóhannssonar útsölustjóra, komu mér fyrst í hug orðin: Óhamingju Íslands verður allt að vopni. Það var Siglufjörður er fyrst kom í huga minn og þeir miklu erfiðleikar, sem Siglfirðingar hafa orðið að glíma við á síðustu árum.

Mér fannst, eins og þeim, er um hafði tilvitnuð orð um Ísland, að „óhamingja" Siglufjarðar hefði þegar fengið næg vopn, þótt ekki bættist við, að burtu væri svipt, fyrir aldur fram, þeim úr framvarðarsveit í vörn og sókn Siglufjarðar, sem enn stóðu þar báðum fótum; ódeigur, bjartsýnn og úrræðagóður á hverju sem gekk. En því skyldi svo mælt á tungu tilfinninganna.

Hafði ekki Bjarni Jóhannsson með störfum sínum hér í Siglufirði, um 35 ára skeið, lag það mikið af mörkum fyrir samborgara og bæjarfélag, að aðrir höfðu ekki betur að unnið, og meira var en mátti krefjast. Jú, rótt er það, en þörfin er svo mikil og mannvalið svo fátt, af mönnum eins og Bjarna, að erfitt er að sætta sig við mannskaðann á skjótan hátt.

En sízt myndi það að skapi Bjarna vinar míns að sýta og kvarta, heldur safna liði og starfa, því merkið stendur þótt maðurinn falli, og lífið heldur sinn gang. — Og svo mundi Bjarna bezt þakkað, að þeir, sem nú taka við störfum hans, á hvaða vettvangi sem er, störfuðu að þeim með réttsýni, bjartsýni og dugnaði Bjarna, sem öllu vildi til vegs koma, er mátti verða samborgurunum og Siglufirði til framdráttar.

Ég mun ekki hér rekja ætt Bjarna, æviferil eða einstök störf. Það mun gert á öðrum vettvangi, sem verðugt er. Þessi fáu orð eru aðeins kveðja mín og annarra samherja Bjarna hér í Siglufirði. Konu Bjarna, Guðlaugu Þorgilsdóttur, þakka ég hennar góða hlut í störfum manns hennar og stuðning við hin mörgu góðu málefni, er hún lagði mikið að. Eg bið henni, fjölskyldu þeirra Bjarna, svo og öllu ættfólki, Guðs blessunar.

Jóhann Þorvaldsson