Þrír Siglfirðingar: Rósa Þorsteinsdóttir - Anton Jóhannesson og Kristján Sæby

Toni og Stjáni Sæby

MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 10. MAÍ 1968 - Mining:  

Þrír Siglfirðingar

 • Rósa Þorsteinsdóttir (f. 2. júní 1879 — d. 27. febr. 1968)
 • Anton Jóhannesson (f. 10. marz 1889 — d. 19. marz 1968)
 • Kristján Sæby (f. 16. sept. 1888 — d. 19. marz 1968).

Þann 19. f. mán. fór fram óvenjuleg kveðjuathöfn í Siglufjarðarkirkju. I>á voru til moldar bornir tveir háaldraðir Siglfirðingar úr sjómanna- og verka mannastétt.

Létust þeir báðir á sama degi og gegndu skyldustörfum sínum, að kalla má, alveg fram í andlátið.
Þessir öldnu dugnaðarmenn voru þeir Anton Jóhannesson og Kristján Sæby.

Eins og að ofan getur voru þeir báðir um áttrætt þegar þeir féllu niður og komust ekki til meðvitundar aftur.

Rúmum mánuði áður lézt kona Antons, Rósa Þorsteinsdóttir, eftir langvarandi sjúkdómslegu á sjúkrahúsinu.

Rósa Þorsteinsdóttir Hún var Þingeyingur að ætt og fædd á Húsavík 2. júní 1879 Skömmu eftir að hún fluttist til Siglufjarðar gekk hún að eiga Anton Jóhannsson.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið en tóku í fóstur og ólu upp sem sitt eigið barn Erlend Stefánsson Erlendssonar frá Grundarkoti í Héðinsfirði.
Rósa heitin var fríð kona, prúðmannleg og aðlaðandi í allri sinni látlausu framkomu. í mörg ár starfaði hún af miklum dugnaði í stjórn kvenfélagsins „Hlíf" — enda löngu kjörin  heiðursfélagi þessa ágæta félags-

Hefir félag þetta, svo sem kunnugt er, beitt sér í áratugi fyrir líknastarfsemi og átt drjúgan þátt í þeim árangri, sem náðst hefir með byggingu hins nýja sjúkrahúss hér í bæ. Rósa Þorsteinsdóttir lézt eftir allþunga sjúkdómslegu rúmum mánuði á undan manni sínum og var hér jarðsungin að viðstöddu miklu fjölmenni

Anton Jóhannsson. Hann var fæddur að Efri —Skútu og ólst hér upp í firðinum. Hann hafði náð 11 ára aldri þegar hann missti föður sinn. Drukknaði hann í fiskiróðri og eftir það varð Anton að gerast fyrirvinna móður sinnar, svo sem sorglega oft hefir verið títt hér á Íslandi. Framanaf aldri stundaði hann mest sjómennsku en gerðist síðar fastur starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins og gekk þar til vinnu sinnar fram í andlát.

Á blómaskeiði sínu var Anton hið mesta hraustmenni og kom það kannski gleggst fram þegar hann féll fyrir borð af síldveiðiskipinu „Njáli". Anton var ósyndur en tókst með snarræði sínu að ná taki í kaðalspotta — og varð það til að bjarga lífi hans. Enginn skipsfélaga hans hafði tekið eftir slysinu og leið alllöng stund þar til honum var bjargað.

Þá vil ég minnast á annað atriði úr lífi hans þar sem það gerðist hlutverk hans að bjarga mannslífi. Lítil stúlka, 6 ára að aldri var að leika sér alein á svokölluðu „Tynesarplani". Féll hún þá í sjóinn niður um gat á bryggjunni — og var þetta því hættulegra, sem þetta skeði í matmáls tíma og enginn viðstaddur.

Ung stúlka Rannveig Sveinsdóttir Jónssonar frá Steinaflötum (látin 1940) var á heimleið um Suðurgötu heyrði hún óglöggt hljóðin í telpunni en þegar hún komst á slysstað varð það henni þegar ljóst, að hún var ekki einfær um að koma við björgun. í þess stað hvatti hún telpuna til þess að halda sér fastri, en þetta var ekki auðvelt.

Eftir drykklanga stund bar þarna Anton að og var hann einnig á heimleið úr vinnu sinni. Er það skemmst frá að segja, að þeim Rannveigu og Anton tókst að bjarga telpunni og bera hana meðvitundarlausa heim til sín — þar sem hún raknaði við. Það er mikil guðs gjöf, að verða fyrir því láni, að bjarga mannslífum úr slysahættu og við aðstandendur þeirra, sem lífgjafarinnar njóta, stöndum í ævarandi þakkarskuld við guð og menn.
----------------------------------------

Kristján Sæby. Það mun hafa verið kringum 1880 að hingað til Siglufjarðar kom Andreas Christian Sæby, beykir, frá Danmörku. Var þetta harðduglegur og að mörgu leyti sérkennilegur maður.

Hann festi hér ráð sitt og gekk að eiga Kristínu Stefánsdóttir frá Efri—Skútu en ættaðri frá Fljótum í Skagafirði.

Þau hjón eignuðust 8 börn og frá þeim er kominn mikill ættbálkur og stór, — er það allt hið mesta dugnaðar — og myndarfólk.
Af þessum 8 systkinum munu nú vera 4 á lífi, þau

 • Andrea, Pálína Saby,
 • Jóhanndíne Sæby og
 • Rudolf Sæby
  en 4 eru látin —
 • Ágúst,
 • Kristján,
 • Björg og
 • Vilhelm. 

Í æsku og fram eftir aldri stundaði Kristján sjómennsku og algeng verkamannsstörf, — en fyrst og fremst lagði hann fyrir sig (svo sem og bræður hans) iðn föður síns og var eftirsóttur díxilmaður vegna dugnaðar og vandvirkni.

Í mörg ár stundaði hann hákarlaveiðar og fiskiróðra á báti föður síns „Brödrene" og eru nú fáir eftir hér á Siglufirði af þeim „gömlu víkingum" sem stunduðu hákarlaveiðar í „gamla daga". Ef einhversstaðar er til gamall manndrápsbolli, sem fyrir tugum ára stunduðu hákarlaveiðar þá er það öruggt, að í dag fæst enginn til að stunda sjósókn á þeim fleytum.

Hér hefir í stuttu máli verið minnst þeirra heiðurshjóna, Rósu Þorsteinsdóttir, Antons Jóhannssonar svo og Kristjáns Sæby.

Öll voru þau í blóma lífsins þegar allskonar þrengingar, fátækt og fáfræði steðjuðu að íslenskum þjóðinni. Þetta var í kringum aldamótin síðustu þegar hópur manns sá enga aðra leið út úr ógöngunum en að flýja land. Svo margt hefir breyst á langri æfi þeirra, en með fullu sanni má slá því föstu, að þau hafa séð tímanna tvenna.

Þau minntust oft þessara þrengingaára en kunnu einnig að meta þær framfarir, sem orðið hafa á síðustu áratugum og okkur hinum er það ljóst, að það er fyrst og fremst slíku fólki að þakka, fórnfúsu starfi þeirra, að mikið hefir áunnist á þessu tíma bili. Á unglingsárum höfðu þau tamið sér iðjusemi og ráðdeild sem aldrei brast.

Í samfélagi við okkur Siglfirðinga sýndu þau okkur þroskaða þjónustulund, sem var til fyrirmyndar og sem við njótum góðs af. Þess vegna kveðjum við Siglfirðingar þau öll — með söknuði í huga. Séra Ingþór Indriðason frá Ólafsfirði jarðsöng þau hjón, Rósu Þorsteinsdóttir og Anton Jóhannsson svo og Kristján Sæby. Við Siglfirðingar þökkum honum og sjómönnunum sem fluttu hann hingað í hjáverkum við skyldustörf á sjónum.

Aage Schiöth