Guðmundur Konráðsson

Neisti 23 desember 1988

Guðmundur Konráðsson. Fæddur9. Maí 1897 Dáinn28. nóv. 1988
Þetta veða aðeins fá og fátækleg orð um sómakæran alþýðumann, sem með trúmennsku og eljusemi til allra verka vakti traust meðborgara sinna og allra þeirra, sem kynntust honum á löngum lífsferli hans.

Guðmundur var sonur merkishjónanna Önnu Pétursdóttur og Konráðs Kristinssonar.
Þau hjónin eignuðust ellefu börn, en fimm þeirra dóu á unga aldri. Um þau Konráð og Önnu segir svo í Skagfirskar æviskrám: ,,Hann var annálaður stjórnari á opnu fari, framúrskarandi veðurglöggur og fiskisæll vel. Þau hjónin voru samhent í að finna úrræði og sjá farborða sínu heimili." ,,Anna var vel gefin kona, há vexti, þrekmikil og bráðdugleg.

Búforkur hinn mesti. Sjaldan fellur epli langt frá eikinni." Þau Anna og Konráð áttu góða afkomendur og hefur þetta fólk þeirra sett mikinn svip á Siglufjörð með daglegu lífi sínu í starfi og önn dagsins. Allt mannkosta og virðingarvert fólk, sem Siglfirðingar mega vera hreyknir af og sem margir standa í þakkarskuld við.

Kona Guðmundar var Dýrleif Bergsdóttir, vel gerð kona og voru þau hjónin mjög samhent. Þau voru aldrei rík af veraldlegum gæðum, en samt voru þau alltaf veitendur, þó að efnin væru oft ekki mikil. Alltaf var staðið í skilum með greiðslur, og að skulda þekktist ekki á því heimili. Það geta margir í dag tekið sér þessi látnu hjón til fyrirmyndar.

Guðmundur var eftirsóttur til allrar vinnu, enda samviskusamur verkmaður. Hann var stéttvís og verkalýðssinnaður, sem fann til með þeim sem minni máttar voru í þjóðfélaginu — hann vildi betra og réttlátara þjóðfélag. Hann var grandvar til orða og verka, með létta lund, sem vildi öllum vel.

Þau Guðmundur og Dýrleif eignuðust tvo syni, Óli Guðmundsson og Pétur Pétur Guðmundsson, sem bjuggu með foreldrum sínum að Hafnargötu 16.

Voru þeir foreldrum sínum góðir synir. Nú að leiðarlokum eru Guðmundi þökkuð góð kynni, sem gleymast ekki, því að hann var heilsteyptur og góður maður.
Guð blessi minningu Guðmundar Konráðssonar.
Jóhann G. Möller