Hafliði Jónsson skipstjóri

Hafliði Jónsson skipstjóri

Morgunblaðið - 17. október 1967  Minning

Hafliði Jónsson. F. 4. maí 1913. D. 19. sept. 1967.

Á FYRSTU áratugum aldarinnar, þegar vélaafl og véltækni nútímans voru enn draumsýnir norður hér, var sjósókn frá „ströndu hins yzta hafs" harðsóttur bjargræðisvegur. Hafliði Jónsson, skipstjóri, ýtti á þeim árum úr vör margri fleytunni, jafnt í skammdegi vetrar sem á náttlausum dægrum, og hélt skipi sínu ætíð heilu í höfn og jafnan með góðan feng.

Nú hefur hann ýtt úr vör í hinzta sinni — og lagt þar að landi, sem er heimahöfn. Hafliði skipstjóri er máske síðasti „hákarlaformaðurinn", upp á gamlan og góðan íslenzkan máta, síðasti fulltrúi hinna eldri sjósóknara, sem lögðu grunninn að þeirri þróun og uppbyggingu, er síðar varð. Hann var búinn þeim dyggðum og mannkostum og á að baki þann lífsferil, .að enginn, sem hann þekkti, efar, að hann hefur enn sem fyrn siglt heilu skipi í höfn. og haft með þann feng, sem góðir menn sækjast eftir í lífi sínu.

Hafliði Jónsson var fæddur að Hraunum í Fljótum hinn 17 marz árið 1894, sonur Þuríðar Sumarliðadóttur og Jóns Magnússonar. Fljótin hafa um aldir varðveitt gamalgróna bændamenningu og alið dugmikla sjómenn og lögðu hinum unga sveini á herðar þá hefð, sem síðar mótaði líf hans allt. Sautján ára að aldri fór hann í sína fyrstu hákarlalegu á seglbúnu en vélarvana fleyi. Síðar nam hann siglingafræði hjá Þorsteini bónda í Neðra-Haganesi og gekk undir skipstjórapróf á Akureyri, er hann lauk með sæmd. Og aðeins 21 árs að aldri réðist hann sem skipstjóri á hákarlaskip hjá Gránufélagsverzluninni á Siglufirði

Á þriðja áratug sótti Hafliði sjóinn. Reyndi þá oft á þrautseigju og karlmennsku hans, kunnáttu og hyggjuvit. Og sú var gifta hans, að skila ætíð skipum og mönnum heilum til 'hafnar. Eftir farsælan feril á sjónum gerðist Hafliði starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins og vann þeim til dauðadags af trúmennsku og skyldurækni.

Hafliði Jónsson kvæntist árið 1915 frú Jóhanna Sigvaldadóttir. Bjuggu þau fyrstu hjúskaparár sín í Fljótum en fluttust snemma til Siglufjarðar en þar stóð heimili þeirra meðan báðum entist líf.

Þeim varð fimm barna auðið:

  • Guðrún Hafliðadóttir, gift Ásgeir Gunnarsson  Siglufirði,
  • Björg Hafliðadóttir, gift Gústafi Júlíussyni Akureyri,
  • Björn Hafliðason, kvæntur Jónínu Jónasdóttur Siglufirði,
  • Halla Hafliðadóttir, gift Haraldi Guðmundssyni Hafnarfirði og
  • Haraldur Hafliðason, kvæntur Sigurbjörgu Sæmundsdóttur Hafnarfirði.
  • Auk þess ólu þau hjón upp eina fósturdóttur,
  • Jóhanna Ragnarsdóttir, sem er gift Emil Helgi Pétursson frá Siglufirði.

Hafliði var hógvær maður, jafnvel hlédrægur. En hann var fastur fyrir og trygglyndur. í hógværð sinni sameinaði hann hvort tveggja; fastheldni við fornar dyggðir og framsýni í mál efnum samtíðar sinnar. Hann var einn traustasti og bezti stuðningsmaður sjálfstæðisstefnunnar á Siglufirði og er vissulega skarð fyrir skildi í röðum siglfirzkra sjálfstæðismanna nú, þegar Hafliði Jónsson er látinn. Og á kveðjustundu þökkum við látnum vini langa og góða viðkynningu, drengskap og vinarhug. Vert þú, góði vinur, blessaður og sæll.

Siglufirði í október 1967. Stefán Friðbjarnarson.