Sigurjón Sigtryggsson fræðimaður

Sigurjón Sigtryggsson og Kristbjörg Ásgeirsdóttir kona hans

Mbl.is 3. júní 1993 | Minningargrein

Sigurjón Sigtryggsson ­

Um páskana í vor frétti ég að Sigurjón Sigtryggsson fræðimaður og rithöfundur á Siglufirði væri kominn á sjúkrahúsið á Akureyri. Mánuði seinna barst mér til útlanda fregnin um andlát hans. Liðið er hátt í hálfa öld síðan við Sigurjón hittumst fyrst, á matsölu á Siglufirði.

Fljótlega þróaðist með okkur kunningsskapur og síðan vinátta sem varð því traustari sem lengra leið. Síðustu árin stóð ég svo í þakkarskuld við þennan gáfaða og stórfróða mann fyrir ráð og leiðbeiningar sem hann gaf mér þegar ég byrjaði sjálfur að fást við grúsk.

Síðastliðna hálfa öld hafa orðið aldahvörf hér á landi í mörgum efnum, ekki síst menntunarmöguleikum ungs fólks. Það er freistandi að velta fyrir sér hver hefði orðið ævibraut Sigurjóns Sigtryggssonar ef hann hefði í æsku átt kost á að feta þá beinu og breiðu braut til æðstu mennta sem nú má heita opin hverjum unglingi, í stað þess að flytjast milli þrettán heimila fyrstu fimmtán æviárin og hefja síðan hina eiginlegu lífsbaráttu í þrengingunum og atvinnuleysi heimskreppunnar miklu.

Lærdómur er raunar ekki einhlítur til að vinna merkileg afrek, til dæmis að rita merkar bækur. Til þess þarf fyrst og fremst merkilega menn, sem hafa metnað, greind og eljusemi til að skila góðu verki. Þetta hefur þó ýmsum greindum og gegnum mönnum tekist í hjáverkum frá erfiðisvinnu og þrátt fyrir kröpp æskukjör. Einn þeirra var Sigurjón Sigtryggsson.

Prentaðar bækur Sigurjóns eru í sex bindum, Sjóferðaminningar Sigurpáls Steinþórssonar, Frá Hvanndölum til Úlfsdala í þrem bindum og Hreiðarsstaðakotsætt í tveim. Greinar hans í Súlum, Sögu og Siglfirðingabók, Skagfirskum æviskrám og víðar nema eflaust vænu bindi. Ótalið er þá stærsta og merkasta verk hans, sem ekki var að fullu lokið þegar hann lést, en það eru æviskrár Siglfirðinga og Ólafsfirðinga allt aftur til 1835. Það verk var þó svo langt komið, að horfur eru á að það verði gefið út innan skamms og mun þá væntanlega fylla nokkur bindi.

Hér verður ekki rakið lífshlaup Sigurjóns í einstökum atriðum. Það var gert í ágætri minningargrein Þorsteins Jónssonar ættfræðings, sem birtist á útfarardaginn, og ástæðulaust er að endurtaka. Tilgangurinn með þessum orðum er einungis að votta minningu góðs vinar og ágæts fræðimanns skylduga virðingu og ástvinum hans samúð.

Benedikt Sigurðsson.