Árið 1940 - Stuttar fréttir

Mjölnir. 5. júlí 1940

»Rauðka« fær löndunartæki.

Verksmiðja bæjarins, •Rauðka• hefir nú fengið ný löndunartæki, eru það af líkri gerð og löndunartækin á Hjalteyri og Djúpavík.

Löndunartæki þessi hafa verið smíðuð hér að nokkru leyti, en Vélsmiðjan Héðinn Reykjavík hefir gert mælitækið, rennuna í skipin og flutningsböndin.

-Kraninn- hefir verið smíðaður hér sem og allt tréverk og hafa smiðir héðan og verkamenn -Rauðku- unnið að þessu undir yfirumsjón verksmiðjustjórans, Snorra Stefánssonar.

Áætlað er, að með tækjum þessum verði hægt að landa ca. 300 málum á klukkustund.

2 skip hafa þegar landað í •Rauðku• og tækin gefist vel. Talið er, að þau muni kosta 50-60 þúsund krónur.

Ríkisverksmiðjustjórnin hér hefir þóst ætla að koma upp hjá sér löndunartækjum (síldargrip og flutningsböndum).

Er sagt, að hún hafi skrifað útgerðarmönnum i vetur um að stækka lestarop skipa sinna í þessu skyni. Raunin hefir hinsvegar orðið sú, að engin löndunartæki verið sett upp, og það eina, sem til var, sent austur til Raufarhafnar.

-------------------------------------------------------------

Mjölnir, 26. júlí 1940

Verkamenn S. R. fara fram á áhættuuppbót, - en stjórnin neitar.

Verkamenn í Síldarverksmiðjum ríkisins hafa nú farið þess á leit við stjórn verksmiðjanna, að þeim yrði greitt áhættuuppbót á kaupi og fengju styrjaldarvátryggingu, með því að verksmiðjurnar séu helstu hættusvæði hér, et til loftárása komi.

Kröfur þessar verða að teljast í alla staði sanngjarnar. Það er vitað mál, að einmitt verksmiðjurnar yrðu helsti skotspónn óvinaflugvéla, ef til árása kæmi.

Verksmiðjustjórnin sjálf hefir viðurkennt þetta með auglýsingum um loftvarnabyrgi o.fl. er hún hefir látið festa upp og fyrirmælum til verksmiðjustjóranna um ráðstöfun starfsmanna, ef loftárás ber að höndum, fréttabanni um vinnslu o.fl.

Það hefði mátt ætla að stjórn S.R. tæki þessari málaleitun verkamanna vel. En hún hefir hér sem oftar opinberað innræti sitt með því að neita þessum sanngjörnu kröfum.

--------------------------------------------------------------------

Mjölnir, 26. júlí 1940

Síldveiði og söltun.

Mikill síldarafli hefir verið undanfarið - og svo mikið borist að, að tugir skipa hafa daglega orðið að bíða löndunar við SR - og oft ekki komist að, fyrr en eftir 2-3 daga.

Það mun ekki ofmælt, að hvað eftir annað hafi meirihluti flotans legið löndunartepptur i höfn, er sjór var svartur af síld og veiðiveður gott. -

Það sýnir sig nú hvílík afglöp voru framin, er synjað var um stækkun Rauðku, því að hin lofaða aukning SR reyndist að mestu kák eitt.

Og nú tapa sjómenn, útgerðarmenn og þjóðin öll hundruðum þúsunda króna á því, að ekki er hægt að taka nógu ört á móti.

----------------------------------------------------------------------

Einherji, 9. ágúst 1940

Sala síldarafurða.

það mun öllum gleðiefni að samningar hafa tekist um sölu á 25 þúsund tonnum síldarolíu og 25 þúsund tonnum síldarmjöls á nálægt 25 miljón krónur til Bretlands. Tvö síðustu árin hefur sala þessara afurða verið sem hér segir:

1939 - 174 þúsund tonn síldarolía og 18.6 þúsund tonn síldarmjöl á 11.654.990 krónur.

1938 - 21.5 þúsund tonn síldarolía og 17.9 þúsund tonn, síldarmjöl á 9.049.380 krónur.

Verðmæti útfluttrar síldar var 1938 nálægt 12 miljónum króna og 1939 tæplega 10 miljónir króna.

Mjög er enn óvist um þá sölu nú og eins þeirrar framleiðslu sem er umfram nefndan samning, sem sennilega verður talsverð.

-----------------------------------------------------------------

Einherji, 16. ágúst 1940

Ónógur verksmiðjukostur !

Maður, sem eitt sinn var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, skrifar nýlega tvær langar greinar í Alþýðublaðið um tjón það, sem löndunarbið valdi síldarskipum á Siglufirði, en kemst að þeirri vísdóms legu niðurstöðu, að síldarverksmiðjurnar séu of margar og stórar í landinu, samanber eftirfarandi kafla úr grein hans:

"Sumarið 1936 er var ágætt síldarsumar, má gera ráð fyrir að tapast hafi um 100-150 þúsund mál síldar fyrir það hvað skipin þurftu lengi að bíða löndunar, vegna ónógs verksmiðjukosts eða geymsluþróa"

----------------------------------------------------------------------

Einherji, 16. ágúst 1940

Rauðka.

Blöð kommúnista láta ófriðlega yfir því, að Rauðka var ekki endurbyggð á s.l. vetri og vilja kenna meirihluta stjórnar S.R. um það.

Margsannað er, að peningar voru aldrei fyrir hendi til þess. En sennilega má þakka sama meirihluta, að Rauðka var ekki rifin niður á s.l, hausti í fávisku og fyrirhyggjuleysi.

Hún hefur því, það sem af er þessu sumri, getað unnið úr 37 þúsund málum síldar og séð 36 mönnum fyrir fastri atvinnu.

------------------------------------------------------------

Neisti, 29. ágúst 1940

"Móvinnsla Einherja".

Fyrir skömmu síðan birtist grein í Alþýðublaðinu eftir Jón Sigurðsson erindreka Alþýðusambands Íslands. Fjallaði hún m.a. um tilraunir Gísla Halldórssonar verkfræðings með kælingu á síld til bræðslu.-

Á einum stað í greininni hefir prentvilla slæðst inn. Þar stendur: -"vegna ónógs verksmiðjuskorts", en á að vera: "vegna ónógs verksmiðjukosts" - Ritstjóri Einherja, sem í efnisfátækt sinni rís upp við "dogg" og skyggnist inn eftir efni í blað sitt, sem uppfylli allar kröfur aðdáenda sinna og lesenda, staðnæmist við prentvillu og leggur út af henni skrautlegan leiðara í anda flokksmanna sinna og við þeirra hæfi. Mjög nærgætnislegt !!

Vanmat ritstjórans á flokksmönnum sínum kemur þarna skýrt fram, enda bera skrif hans undanfarið greinilega vott um einlægni og einfeldni, samfara þekkingarleysi á málefnum sjávarútvegsins, og afstöðu framsóknarlokksins til þeirra.

Ef hin "andlega móvinnsla" Einherja fer vaxandi, eins og allar líkur benda til, þarf hinn ungi prentvillusnati ekki að óttast um að taðið falli langt frá kindinni.

því það mun hirt af hans flokksmönnum og breytt til þerris á síðum Einherja eins og að undanförnu.