Samantekt nokkurra skrifa um samgöngur og fleira

Siglufjarðarskarð - Ljósmynd. Hinrik Andrésson

Vísir  22 júní 1945

Mörgum nýjum sérleyfisleiðum bætt við og ferðum fjölgað á þeim eldri Fargjöld hafa hækkað nokkuð frá í fyrra. 

Hestflutningar yfir Siglufjarðarskarð.

Hestflutningar. Leiðin milli Sauðárskróks og Haganesvíkur hefir verið lengd til Siglufjarðar. Verður farið yfir Siglufjarðarskarð. Verður fyrst ekið á bifreið frá Sauðárkróki að Hraunum, en þaðan verður fólk og farangur flutt á hestum yfir Siglufjarðarskarðið. Þegar yfir það er komið verður ekið áfram í bifreið til Siglufjarðar.

------------------------------------------

Þjóðverjinn  16 ágúst 1945

SIGLUFJÖRÐUR AÐ KOMAST í VEGASAMBAND Það hefur lengi verið eitt brennandi áhugamál Siglfirðinga, að komast í vegasamband. Það hefur valdið þeim margháttuðum erfiðleikum og staðið bænum fyrir þrifum, að allar aðalsamgöngurnar hafa farið fram á sjó. Nú fer óðum að styttast þangað til þetta kemst í lag. Vegurinn yfir Siglufjarðarskarð er kominn það langt áleiðis, að vonir standa til að hann verði opnaður í haust. Áætlunarferðum er haldið uppi yfir Siglufjarðarskarð í sumar, og eru farþegar fluttir á hestum hluta af leiðinni. Það verður merkisviðburður í sögu Siglufjarðar þegar vegarsambandið opnast og er ástæða til að óska Siglfirðingum innilega til hamingju, þegar þar að kemur. 

------------------------------------------ 

Íslendingur 21 júní 1946

Siglufjarðarvegurinn tilbúinn í sumar Gert er ráð fyrir, að lagningu vegarins yfir Siglufjarðarskarð verði lokið í sumar. Hófst vinna við veginn upprunalega fyrir 10—12 árum og hefir verkinu því miðað mjög seint. Er akfært verður til Siglufjarðar, verður farið út af þjóðveginum skammt frá brúnni yfir Héraðsvötnin og ekið norður Fljótin.

------------------------------------------ 

Morgunblaðið 16 júlí 1946

Fólkið streymir í síldina á Siglufirði 

Siglufirði, mánudag. Frá frjettaritara vorum. 

MIKILL fjöldi fólks streymir nú hingað til Siglufjarðar og stafa af því mikil húsnæðisvandræði. Eru margir í vandræðum með húsaskjól þó hver kytra sje notuð. Ríkisverksmiðjurnar hafa tekið barnaskólann á leigu fyrir starfsmenn sína. Öll matsöluhús eru full og margir hafa sett upp fæðissölu, sem ekki hafa áður átt við þess háttar viðskipti.

Þá eru samgönguvandræði mikil. Aðeins lítill vjelbátur sem annast ferðir frá Sauðárkróki, Hofsós og Haganesvík. — Siglufjarðarskarð er illfært, þar sem það hefir ekki verið rutt snjó af veginum og hefir legið nærri hrakningum hjá fólki, sem hefir farið yfir Siglufjarðarskarð með börn og farangur, en hefir ekki gætt þess að klæða sig til þess háttar ferðalags.

------------------------------------------------- 

Þjóðviljinn 20 júlí 1946 

Úrdráttur frá viðtali við Sæmund Hermannsson formann verkamannafélags Fljótamanna.

........ Þegar opnast til Siglufjarðar — Hvert ætilið þið að selja vörur mjólkurbúsins? — Auðvitað til Siglufjarðar. Siglfirðingar munu hafa þörf fyrir meiri mjólk en þeir hafa undanfarið átt kost á, en það hefur verið erfitt um flutninga þangað. Þegar vegurinn um Siglufjarðarskarð verður fullgerður er enginn efi á því að mikill markaður fyrir Fljótamenn, opnast á Siglufirði. — 

Vegurinn um Siglufjarðarskarð? — Í vor var eftir um 4 km. kafli vestan skarðsins. Til að byrja með unnu fáir menn i við veginn, það var frekar erfitt að fá menn til vinnu þar- 

Hvenær vegurinn opnast í sumar fer eftir því hve mikið kapp verður lagt á að ljúka við þennan kafla. — Hve langan tíma á ári yrði fært um skarðið?  — Reynslan ein sker úr því, en talið er að það muni verða 4—5 mánuði........

--------------------------------------------------

Mjölnir 24 júlí 1946

Fyrsta bifreiðin, sem farið hefur hjálparlaust yfir Siglufjarðarskarð, fór yfir það í gær. Var það Sigurpáll Árnason garðræktarmaður frá Varmahlíð, sem ók jeppabifreið, hingað til Siglufjarðar. Var hann einn í bifreiðinni, ók gamla veginn á kafla. Sagði hann leiðina vel færa. — Er vonandi, að úr þessu verði ekki löng bið á því, að bílferðir yfir Skarðið geti hafizt fyrir alvöru.

--------

Mjölnir 30 júlí 1946

Leiðrétting  Í síðasta blaði Mjölnis var sagt frá ferð jeppabifreiðar yfir Siglufjarðarskarð, og sagt að það væri fyrsta ferðin, sem bifreið færi hjálparlaust milli Fljóta og Siglufjarðar. Nú hefir blaðinu verið tjáð, að í fyrrasumar hafi oftar en einu sinni verið farið á jeppum yfir Skarðið, og mun það vera rétt. Eru menn hér með beðnir afsökunar á missögninni í síðasta blaði.

------------------------------------------------------------

Mjölnir 21 ágúst 1946 - Bæjarpósturinn

Göturnar.

Í síðasta blaði Mjölnis var farið nokkrum orðum um ástandið í gatnamálum. bæjarins. Því miður er ekki hægt að segja, að ástandið hafi batnað mikið síðan. Þó er vert að gefa því gaum, að nú síðustu dagana hefur verið byrjað að bera ofan í stærstu gígina á helztu umferðagötunum, og er það þakkarvert. En þó þarf að gera betur. Það þarf að fara með veghefli yfir allar malargöturnar, svo oft, að þær séu alltaf sæmilega sléttar, og ennfremur allan veginn upp á Siglufjarðarskarð. Sá vegur er svo ósléttur, að furðulegt má heita, að nokkur bílstjóri skuli leggja bifreið sína í keyrslu þangað upp. 

---------------------------------------------------- 

Þjóðviljinn 28 águst 1946

Fyrsti langferðabíllinn fór yfir Siglufjarðarskarð í gær Talið að slarkfært verði yfir skarðið eftir hálfan mánuð Fréttaritari Þjóðviljans á Siglufirði símaði í gærkvöld að fyrsti langferðabíllinn hafi farið yfir Siglufjarðarskarð í gær. Var það bifreiðin K- 73, bílstjóri Baldvin Kristinsson á Sauðárkróki. Ferðin frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar tók tvær og hálfa klst. Baldvin fór fyrstur manna yfir Siglufjarðarskarð árið 1938

Enn eru ólagðir 600 metra r af veginum og eru á þeim kafla tvö ræsi sem verið er að vinna að. Þessi kafli er mjög slæmur og var bifreiðin dreginn með jarðýtu þessa 600 metra. Baldvin telur að með sama mannafla við vegagerðina muni bílar geta komizt hjálparlaust yfir skarðið eftir hálfan mánuð. Baldvin Kristinsson fór fyrstur manna yfir Siglufjarðarskarð 1. október 1938, var hann þá í fólksbifreið, Pontiag model 1930. Auk Baldvins hafa aðeins örfáir menn farið yfir Siglufjarðarskarð í jeppabílum í sumar 

---------------------------------------------------- 

Tíminn 29 ágúst 1946

Fyrsti langferðabíll fer yfir Siglufjarðarskarð

Sami bifreiðastjórinn, sem fyrir átta árum brauzt fyrstur manna á bifreið yfir Siglufjarðarskarð, fór skarðið á langferðabifreið á þriðjudaginn var. Hann er frá Sauðárkróki og heitir Baldvin Kristinsson. Bifreiðin var K-73. Ferðin frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar tók tvo og hálfan klukkutíma. Enda þótt Baldvin kæmist klakklaust á leiðarenda, er vegurinn yfir skarðið ekki nærri fullgerður, þótt vonir séu til, að hann verði fær bifreiðum í haust, eins og frá var sagt hér í blaðinu nú fyrir nokkru.

Enn eru ólagðir um 600 metrar af veginum, og á þeirri leið eru tvö ræsi, sem verið er að vinna við. Varð bifreiðarstjórinn að láta jarðýtu, sem notuð er við vegagerðina, draga sig yfir torfærurnar á þessum kafla. Bújzt er við, að Siglufjarðarskarð verði slarkfært bifreiðum um miðjan septembermánuð. Auk þessara tveggja bílferða Baldvins Kristinssonar yfir skarðið, hefir leiðin nokkrum sinnum verið farin á jeppabílum, bæði í fyrrasumar og nú í sumar. 

---------------------------------------------------- 

Dagsbrún 1 september 1946

STJÓRN DAGSBRÚNAR í KYNNISFERÐ TIL SIGLUFJARÐAR 

Fyrstu helgina í ágústmánuði fór stjórn Dagsbrúnar í heimsókn til Siglufjarðar. Var farið í bifreið yfir Siglufjarðarskarð. Stjórn Verkamannafélagsins Þróttar tók á móti sunnanmönnum og var gestrisni Siglfirðinganna frábær. Farið var um og skoðað allt það markverðasta, svo sem verksmiðjur og síldarplön, en nokkuð skyggði það á ánægjuna að engar verksmiðjur voru í gangi vegna síldarleysis.

Í heimferðinni var komið á Skagaströnd og nýbyggingarnar þar skoðaðar. Slíkar ferðir geta verið mjög gagnlegar, ekki síst fyrir það að þær stuðla að aukinni kynningu milli verkalýðsfélaganna.

----------------------------------------------------------------

Morgunblaðið 13 september 1946 – Hluti úr grein um brúargerð

Bílfært til Siglufjarðar um mánaðamót. Gert er ráð fyrir, að lokið verði við að tengja saman vegaendana yfir Siglufjarðarskarð upp úr næstu mánaðamótum. Var skarðið lækkað um 11 metra til þess að hægara væri að koma vegi þar yfir. Eins og er, er 10 mínútna gangur milli vegaendanna. Allmikið hefir verið unnið að Ólafsfjarðarveginum í sumar og kemst Ólafsfjörður sennilega í samband við vegakerfi landsins næsta sumar. 

-------------------------------------------------

Þjóviljinn 24 október 1946

Hvers vegna er ekki unnið í Siglufjarðarveginum

FARIÐ Í BÍL FRÁ SIGLUFIRÐI ALLA LEIÐ TIL REYKJAVÍKUR Í FYRRADAG

Bílferðir um Siglufjarðarskarð voru hafnar seinni hluta sumarsins þótt þá væri vegurinn enn ekki fullgerður. Vinnu má nú heita hætt við veginn þótt ágæt tíð hafi verið fyrir norðan. Siglfirðingum er það áhugamál að lokið sé við veginn og hefur bæjarstjórnin samþykkt áskorun um að unnið verði við hann í haust eins mikið og hægt er.

Í fyrradag kom jeppabíll frá Siglufirði alla leið til Reykjavíkur. Voru þeir ekki nema tvo tíma frá Siglufirði til Haganesvíkur. Nokkur snjór var í skarðinu en vegurinn hafði verið ruddur með ýtu. Vegurinn hefur nú verið lagður alla leið, en eftir er að malbera hann og er hann því frekar slæmur. 

Vinnu við veginn mun að mestu hætt og veldur það almenni undrun fyrir norðan því tíð hefur verið þannig að vel hefði mátt vinna meira og má enn, og nú er tæpast hægt að bera því við að ekki fáist menn til verksins. Siglfirðingum er það mikið áhugamál að vegurinn verði fullgerður sem fyrst og hefur bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkt áskorun til vega málastjóra um að hraða veginum sem mest

------------------------------------------------- 

Tíminn 26 febrúar 1947  - Niðurlag viðtals við Jón Kjartansson

Margra ára draumur rætist. —En þú hefir ekki minnzt á veginn yfir Siglufjarðarskarð. — Vegurinn yfir Siglufjarðarskarð mun komast í samband við þjóðvegakerfið næsta sumar. Þann dag, sem það verður, rætist margra ára draumur Siglfirðinga og Skagfirðinga og sennilega fjölmargra annarra. Um 12 eða 13 ár eru liðin síðan fyrst var farið að vinna í Skarðinu, og munu fáir vegir hafa verið jafn lengi á döfinni, enda erum við orðnir óþolinmóður eftir að sjá veginn, ná saman. 

Ég vona, að þú leggir þá leið þína til Siglufjarðar, og þér gefist tækifæri til að virða fyrir þér í góðu skyggni útsýnið af Siglufjarðarskarði, þegar leiðin hefir verið opnuð. En útsýnið þaðan er mjög fagurt, og í byggð austan megin skarðsins gefst þér kostur að sjá margt, sem fýsilegt er að sjá.