Bland frétta og fleira frá árinu 1915-1916

Dagblaðið - 3. janúar 1915

2. árgangur 1915, 55. tölublað, Blaðsíða 110

Frá Siglufirði. 2. jan.

Í norðanhríðinni 30. f. m. brotnuðu 2 símastaurar alveg hjerna í bænum, og verða að bíða viðgerðar þangað til samband fæst við Akureyri.

Álfadans hjeldu unglingar hjer annan jóladag, ágóðinn sendur pilti hjeðan á Vífilstaðahælinu.

Á gamalárskvöld hjeldu fullorðnir álfadans og ágóðanum skift á milli fátækra.

--------------------------------------------------

Norðurland - 13. febrúar 1915

15. árgangur 1915, 6. tölublað, Blaðsíða 19

 

-------------------------------------------------

Dagblaðið - 18. febrúar 1915

2. árgangur 1915, 95. tölublað, Blaðsíða 190

Gestaþrautin.

»Ekkert er ómögulegt milli himins og jarðar,« heyrðist mjer kerlingin segja í gær, er hún heyrði talað um »gestaþraut« Siglfirðinganna »Fænomenið«, sem varð Siglfirðingum að svokallaðri »gestaþraut« er sagt, að hafi verið nokkrir farþegar á »Mjölni«. Þegar þeir komu í land á Siglufirði var svo mikill óstyrkur á þeim, að svo mátti heita að þeir gerðu ekki betur en að standa á fótunum, og hjelst hann víst þann dag allan og næsta dag.

Nú var þrautin þyngri fyrir þá löghlýðnu Fjarðarbúa að ákveða hverskyns óstyrk hjer væri að ræða um. Þeir vissu sem var, að tvenskonar óstyrkur gat það verið: Víneitrun eða s j ó v e i k i. Mun nefnd manna, skipuð helstu borgurum bæjarins, að lokum hafa komist að þeirri niðurstöðu að víneitrun gæti ekki átt sjer stað vegna bannlaganna, sem heimila enga vínsölu á landi eða í landhelgi nema með læknisráði eða vottorði prests.

Nú voru auðfengnar upplýsingar um það, að hvorugur þessa »factora« var með skipinu; þessvegna hlaut það að vera sjóveiki. Allir sjófarendur hafa fyr eða síðar hlotið að reka sig á sjóveikan mann eða konu og sjeð allar þær hörmungar, sem slíkum kvilla eru samfara. Veikin byrjar vanalega með höfuðþyngslum og velgju en ágerist og verður að svima, óstyrk og uppsölu. Þetta gátu Siglufjarðarlæknarnir, sem betur fór, frætt fólkið á og gestaþrautin varð loksins leyst öllum í hag. —

Sjúklingarnir þurftu ekki að kvíða óþarfa rannsóknarrekstri, hreppstjórinn þurfti ekki að bursta rykið af einkennishúfunni sinni og þorpsbúar losnuðu við eitt af þessum »hefði getað orðið« lögreglumálum og alt var þetta að þakka þeim sjálfum, með því, að þeir lögðust allir á eitt að leysa þessa »gestaþraut«. Þetta mætti, með heppilegu orði, kalla samvinnufjelagsskap.

Álfur.

-------------------------------------------------------------

Lögrétta - 31. mars 1915

10. árgangur 1915, 16. tölublað, 58-59

Birkirunnar / reyniviður/ skógur ! -- Niðurlag greinar um gróðurfar í Skagafirði

Á Almenningum fyrir utan Hraun í Fljótum er skógur.

Sjer hann hver maður, sem fer póstleiðina frá Hraunum að Siglufirði.

Alstaðar er hann lágur, óvíða mannhæð, en hríslurnar eru kræklóttar og jarðlægar eftir vetrarsnjóa og sauðatennur; væri rjett úr þeim, mundu sumar þeirra verða hátt á 4. alin eða meira.

Víða er þetta kjarr mjög þjett og þrífst ekki þess vegna frekar en Geirmundarhólaskógur og aðrir skógar hjer á landi.

Fyrir framan Hraun vex r e y n i v i ð u r.

Fann Guðmundur Davíðsson hann fyrir nokkrum árum. Hann vex sunnan á móti i gili einu í engjunum, en nær ekki að verða hærri en liugt fet.

En það eru allmargar plöntur og líta þær út fyrir að vera rótarskot frá sömu eða fáum reyniviðarrótum þar í gilinu. Hafa þær víst barist þar við snjóa og óblíða náttúru, sauðfje og exi mannanna, í margar aldir.

Þetta bið jeg þá, sem hjer eftir rita um útbreiðslu birkisins hjer á landi, að taka til greina, því við Skagfirðingar unnum okkar hjeraði sannmælis á við hin, og viljum ekki að menn, þó óafvitandi sje, segi ósatt um það.

Auk þess vil jeg beina því til skógræktarstjórans sjerstaklega, hvort hann vildi ekki athuga þessar skógarleifar, og, ef hægt væri, gera ráðstafanir þeim til eflingar.

Hvanneyri 15. mars 1915. P á l l Z ó p h ó n í a s s o n.

----------------------------------------------------------

Norðurland - 10. apríl 1915

15. árgangur 1915, 13. tölublað, Blaðsíða 41

Sjúkrahús á Siglufirði.

»Den norske Sömandsmission« ætlar að láta byggja í sumar mikið og veglegt stórhýsi á Siglufirði. Það á að standa rétt hjá símastöðinni þar, verður tvílyft með portbyggingu, 30 álna langt og 22 at. að breidd Húsið skiftist í deildir.

Í því verður rúm til guðsþjónustu eða einskonar kirkja og herbergi fyrir tvo presta. Annar hluti þess er ætlaður fyrir veitingasal með lestrarherbergi og skrifstofu, þar sem menn eiga hægan aðgang að geta skrifað bréf og annað smávegis, en í veitingasalnum verða á boðstólum með vægu verði, kaffi, óáfengir drykkir og matur. — Þriðji og mesti hluti hússins verður sjúkrahús.

Í þeim hluta þess verður bústaður fyrir yfirumsjónarmann alls hússins, herbergi fyrir hjúkrunarkonur, skrifstofa og lyfjabúð fyrir lækni, skurðarstofa, vandað baðrúm eltir nýjustu tízku, sem almenningur fær aðgang að gegn sanngjörnu verði, og sjúkrastofur með samtals 20 rúmum. Allur frágangur og útbúnaður hússins verður hinn vandaðasti, vatnsveita um það alt, skolpræsi frá nær því hverju rúmi, vatnssalerni nægilega mörg o. s. frv.

Umsjón með byggingu þessa stórhýsis og alla yfirumsjón með framkvæmdum er að því lúta, hefir hr. O. Tynes kaupmaður á Siglufirði, norskur maður að ætt, en búsettur á Siglufirði nokkur síðastliðin ár, kvæntur íslenzkri konu og íslenzkur orðinn í orði og verki. Það mun áreiðanlegt að það er eingöngu hr. Tynes að þakka, að þetta komst ( framkvæmd, og ennfremur hefir »Nl.« heyrt að hann hafi fyrstur hreyft hugmyndinni um það. Bygging slíks húss og þetta er hið mesta þarfaverk og óskar »Nl. « Siglfirðingum til hamingju með það.

Allir sjúklingar fá aðgang að sjúkradeildinni meðan rúm leyfir, hverrar þjóðar sem eru. Fyrst um sinn mun þó húsið aðallega verða opið til afnota fyrir almenning yfir sumartímann, meðan síldveiðin varir, en ef nauðsyn krefur verður hægt að fá sjúkraherbergi til afnota á hvaða tíma árs sem er.

---------------------------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 14. maí 1915

2. árg., 1914-15, 189. tölublað, Blaðsíða 1

Hafís.

Fréttaritari vor á Siglufirði símaði oss i gær um að Christiansund, skip Sameinaða félagsins, sem von var á hingað í lok vikunnar, hefði orðið að snúa við er það var komið um 25 sjómílur frá Skagaströnd, vegna mikils hafíss, sem þar væri á reki. Skipið kom inn á Siglufjörð i fyrrakvöld, en ætlaði að reyna að komast austur fyrir Langanes og suður um land til Reykjavikur.

Skipstjóri sagði mikinn ís fyrir Norðurlandi, um 10 mílur frá Skagatá væri þykk spöng, sem ekki sæist út yfir. Reykjarfjörður mundi vera fullur af ís og sjálfsagt fleiri firðir norðanlands. — Mönnum þykir ótrúlegt að Christiansund komist austur fyrir land; hefir heyrst hingað frá Akureyri að Mjölnir hafi freistað burtfarar þaðan, en hafi orðið að snúa við skamt fyrir utan Hrísey vegna hafíss. Ísafold, sem hingað kom í gær, hafði og séð töluverðan hafís, einkum fyrir Vesturlandi.

Tafðist skipið í heilan sólarhring á Dýrafirði. ísinn lá þar landfastur þá, en mun hafa rekið frá skömmu eftir að Ísafold var á ferðinni. Búast má við því, að siglingateppa verði einhver á Norðurlandi ef ísinn eigi hverfur þaðan fljótlega.

----------------------------------------------------------

Íslendingur - 1915

1. árgangur 1915, 6. tölublað, Blaðsíða 24

Chr . Möller fór með fjölskyldu sína á »Mjölni« alfarinn til Siglufjarðar.

Bauðst honum þar verslunarstarf hjá Helga Hafliðasyni kaupm.

Munu allir Akureyrarbúar sakna hans vegna sönghæfileika hans.

-------------------------------------------------------------------

Norðurland - 15. maí 1915

15. árgangur 1915, 18. tölublað, Blaðsíða 60

Frá S i g 1 u f i r ð i.

»Norðurland«! Eg sendi þér hér með kæra kveðju norðan af hjara veraldar, þar sem Siglufjörður unir við vetrarríki og brims og, ofsastorma og illhleypur, en einnig við fjör og framkvæmdir, þó oftast sé dauft í sölum á vetrum. Siglufjarðar er lítið getið opinberlega, nema þá í skýrslum. Má þó vel geta hans, bæði hefir landssjóður drjúgar tekjur héðan, og fólk leitar sér atvinnu hér frá ýmsum héruðum landsins.

Er hér því á sumrum samsafn mikið af fólki, útlendu og innlendu, enda eru tekjur sveitarinnar miklar. Er ekki hægt að segja, að sú stjórn, sem hér er við völdin —á Siglufirði láti þá peninga sem færast héraðinu liggja sem dauðan sjóð, heldur hefir hún leitast við að halda uppi framkvæmdum og framförum fyrir héraðið. Hefir hún heldur ekki látið fyrir brjósti brenna að taka drjúgum lán, er fé hefir vantað til viðbótar, og hvorki hræðst háar rentur né afföll bankavaxtabréfa. Eg vil leyfa mér að nefna þau fyrirtæki sem hér hafa verið sett á stofn. Má þar fyrst telja ágæta vatnsleiðslu, bæði hvað gæði vatns, og annan útbúnað snertir. Að vísu kostaði hún nokkuð meira en áætlað var, og jafnvel meira en þurfti, en nú er hún komin og allir þakklátir fyrir.

Ennfremur er komin hér rafmagnsstöð með öllum útbúnaði. Þó hefir ljósunum verið mjög ábótavant ennþá, og er það sprottið af vanþekkingu og hirðuleysi þeirra, sem var falið að hafa umsjón með fyrirtækinu. Mun þar hafa komið fram, sem reyndar í fleiri málum er hérað þetta snerta kappsemi fram úr hófi, en ekki fyrirhyggja að sama skapi. Starfsmenn þeir, er P. Smith, í Reykjavík, sem tók að sér verkið, hefir sent hingað, hafa leist verk sitt mjög illa af hendi að því er snertir lagning rafmagns þráða og niðursetning véla.

Ennfremur eru vélarnar mjög óvandaðar og af lélegustu tegund, að sögn manns þess er hér dvelur nú til að yfirlíta verkið. Þrátt fyrir þetta hefir þó ekki verið komið fram ábyrgð á hendur Smith sem hlýtur að vera hægt, ef samningar hafa verið í góðu lagi. Rafmagnsleiðslan hefir nú þegar kostað offjár fram yfir áætlun, og þarf þó enn meira fjárframlags, til aðgerðar á vatnsþró o. fl.

Eru menn yfirleitt mjög óánægðir með alt saman, en oflangt komið áleiðis til þess að snúa aftur, enda vonandi að alt lagist með tímanum. Þá er enn ógetið um vandað barnaskólahús, sem Sigtryggur Jónsson frá Espihóli hefir bygt, og leyst vel af hendi, sem honum er lagið. Þó er sá annmarki á, að kjallarinn er ofmikið grafinn niður, svo vatn kemur upp um gólfið en ekki er það Sigtryggi að kenna. Skólann sækja um 100 börn, og fá þar þá fræðslu er lög segja fyrir.

Yfirkennari er Guðrún Björnsdóttir frá Kornsá í Húnavatnssýslu og fer henni starfið vel úr hendi. Annar kennari er Lára Bjarnadóttir prests hér og þriðji kenndri Hans Einarsson cand. phil. Um pólitík er hér lítið rætt. Þó munu flestir kunna ráðherra litla þökk fyrir frammistöðuna í ríkisráðinnu og ekki mun það hugsun manna hér að geðjast Knud Berlin með algerðri svæfingu á málum þeim, sem nú eru viðkvæmust Íslandi. Þarf þar ekki neitt fram að taka.

Einungis vonandi að þjóðin kunni nú að aka seglum eftir vindi. Er vitanlegt, að frekast fáum við framgang okkar mála, með viturlegum ráðum, eftir því sem skilyrði liggja fyrir, en ekki með ofstopa og háreisti, sem þó virðist vera efst á baugi hjá ýmsum blaða- og þingmönnum. Að endingu nokkur orð um Siglufjörð í heild sinni. Hér er gott að vera hverjum dugandi manni. En þrek og góðan vilja þarf til þess, að nota sumarið vel. Tíminn er stuttur sem aðalvinnan stendur yfir, en mikið peninga »uppgrip« meðan hún helst. En peningar eru versta vara sem maður á og sýnir það sig vel hér. Óþarfi og prjál er hér á of háu stigi og meiri peningar muna ganga hér hjá fjöldanum til fata en fæðis, ef rétt hlutföll væru tekin.

H.J.

(ath. sk: Sennilega Hannes Jónasson bóksali)

-------------------------------------------------------------------

Vestri - 16. júní 1915

14. árgangur 1915, 23. tölublað, Blaðsíða 89

Hafísinn.

Hann liggur enn fyrir Norðurlandi, en þó ekki jafn nærri lundi og áður.

Frá Horni hafði ísinn rekið dálítið frá, og vélkútterar allmargir, sem tóru héðan til þorskveiða norður á Siglufjörð, komust þangað að um helgina. Skagafjörður og Húnaflói voru sagðir auðir að innanverðu á dögunum, en í dag fréttist að Siglufjörður væri fullur af ís.

-----------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 13. júlí 1915

2. árg., 1914-15, 248. tölublað, Blaðsíða 1

Siglufirði í gær.

Snjór og kuldar. Litill ís er hér nú — aðeins nokkrir jakar i stangli. Norðanátt með úrkomu hér í gær.

Snjóaði alveg niður í bygð og öll fjöll hvít.

------------------------------------------------------------

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi - 14. júlí 1915

29. árgangur 1915, 32.-33. tölublað, Blaðsíða 116

Mjög hefir hafísinn þjappast fastar að landinu í norðan-stórviðrunum 11.—12. þ. m.

Fjöll urðu þá og alþakin snjó nyrðra, og f sumum útkjálkahéruðunum, t. d. á Siglufirði, snjóaði jafn vel i byggð.

------------------------------------------------------------

Norðurland - 14. ágúst 1915

15. árgangur 1915, 30. tölublað, Blaðsíða 93

Eimskip norskt strandaði á Siglufirði um fyrri helgi og fór ræðismaður Norðmanna O. C. Thorarersen þangað vestur í vikunni, til rannsókna um strandið, og kom heim aftur í gær.

Eigandi skipsins var sjálfur á því er það strandaði. Hann fékk svo með aðstoð ræðismannsins björgunarskipið »Geir« til þess að reyna að ná skipinu á flot aftur, og hepnaðist það að lokum svo vel að talið er að hægt verði að gera það sjófært aftur.

-------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 30. ágúst 1915

2. árg., 1914-15, 296. tölublað, Blaðsíða 1

Skipsbruni. Útlent seglskip brann á Siglufirði. Fálkinn veitti aðstoð til þess að slökkva eldinn.

Landhelfissektir. Fregn kemur um það i morgun frá Siglufirði, að Fálkinn hafi þessa dagana sektað mörg skip fyrir veiðar í landhelgi.

--------------------------------------------------------------

Vísir - 16. september 1915

5. árgangur 1915, 278. tölublað, Blaðsíða 4

»Fálkinn«: kom að norðan í morgun. Ekki hefir heyrst að hann hafi sjálfur handsamað nein skip þar nyrðra fyrir ólöglega veiði, en rannsakað hafði hann kærur, sem strandvarnarbátur þeirra Eyfirðinga bar á ein 9 útl. skip og reyndust þær allar réttar.

Óeyrðir allmiklar höfðu verið á Siglufirði um tíma meðan »Fálkinn« var þar, og setti hann menn á land til að hjálpa til að halda uppi reglu.

--------------------------------------------------------------

Fréttir - 4. október 1915

1. árgangur 1915-1916, 3. tölublað, Blaðsíða 9

Siglufirði í gærkveldi.

Hér er hin ágætasta tíð sem menn hafa þekt á þessum árstíma. Logn og sólskin alla daga. Ganga kýr úti enn, sem er með öllu óvanalegt hér. Síldveiðamenn eru nú allir farnir og hafa þeir haft afarmikinn hagnað af veiðinni. Reitingsfiskur er hér en heldur smátt.

--------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 5. október 1915

2. árg., 1914-15, 332. tölublað, Blaðsíða 2

Dýr sauður var það, er slátrað var nýlega á Siglufirði. Kjötið af honum vóg 35 kg. og var hvert kg. selt á 1 kr. og 50 au.

Alls gerði þá kjötið 52 kr. og 50 au. mör og slátur gerði 9 kr. og ull og skinn 10 kr. —

Alls lagði þá sauðurinn sig á 71 kr. og 50 aura. Sauður þessi var úr Fljótum og var kjötið af honum selt i skip.

Íslendingur.

-----------------------------------------------------------

Dagsbrún - 6. nóvember 1915

1. árgangur 1915, 18. tölublað, Blaðsíða 70

Siglufjörður. Jóhann Einarssón frá Laufási skrifar ritstjóranum um Siglufjörð: — —

Þar er nú lífið margbreytilegt um sumartímann meðan síldin er — höfnin full af skipum, stórum og smáum og krökt af fólki á bryggjunum og götunum, sem hangir saman í hnöppum á sunnudagskvöldunum og eru auðþekt útlendingseinkennin. Sumir eru góðglaðir og allháværir. Á einum stað heldur Herinn samkomu; þar hrúgast fólk að, sumt af einskærri guðhræðslu og aðrir af forvitni til að horfa á andlit þeirra sem viðstaddir eru.

Suðureftir öllum vegi, jafnvel lengst inn með firði, eru hópar af fólki á skemtigöngu, það hefir valið sér kvöldkyrðina til þess að kynnast í, og uppi í hlíðarlágunum er sitjandi og liggjandi fólk í margvíslegum hugleiðingum. Rökkrið legst hægt og hægt yfir alt og alla og hugirnir laðast meir og meir saman. Alt i einu drynur í síldardalli úti á höfninni. Það er kveikt á rafmagnsluktunum niður á bryggjunni og skipsskrokkurinn líður upp að bryggjunni hlaðinn silfri til að sjá.

Síðan er farið að aka síldinni upp í síldarkassana. Litlu síðar heyrist undirgangur mikill og dynkir, það eru skjaldmeyjar hervæddar gulum olíuklæðum stirndum af glansandi síldarhreistri, í klofháum rosabullum. Þær ganga beint að síldarstampahlaðanum, berandi á kvið sér, eða dragandi þaðan eins marga stampa og orkan leyfir, og reyna að velja sér sem beztan stað við kassana. En samlyndið er sjaldan gott og eru þess ekki allfá dæmi að slys hafi hlotist af olnbogaskotum þeirra og rassaköstum.

----------------------------------------------------

Fréttir - 11. nóvember 1915

1. árgangur 1915-1916, 41. tölublað, Blaðsíða 169

Siglufirði i gær.

Ágætisveður hefir verið hér í alt haust þar til á sunnudaginn var að gerði rok með frosti.

Ísafoldin hefir verið hér síðan á sunnudag veðurteft, eins og mörg önnur skip, er fór í morgun.

Síldarverksmiðjurnar eru nú hættar hér nema ein.

Er nú engin vinna í kaupstaðnum nema hjá þeirri verksmiðju.

-------------------------------------------------------

Fréttir - 24. nóvember 1915

1. árgangur 1915-1916, 54. tölublað, Blaðsíða 221

Siglufjörður.

Samningur sá, er landssíminn gerði við Hvanneyrarhrepp árið 1910, um starfrækslu stöðvarinnar á Siglufirði, gekk úr gildi 30. sept. síðastl. og var þá endurnýjaður um næstu 5 ár.

Um leið keypti landssíminn innanbæjarsímakerfið, sem var eign hlutafélags, fyrir 1600 kr. — 18 notendur með 20 áhöld.

Afnotagjaldið verður 36 kr. á ári. Stöðin verður áfram á sama stað og stöðvarstjórinn hinn sami.

(Elektron)

--------------------------------------------------------

Lögrétta - 1. desember 1915

10. árgangur 1915, 55. tölublað, Blaðsíða 197

Frá Siglufirði segja „Frjettir" þetta 21. f. m.:

Róið er nú til fiskjar hjeðan á mörgum bátum og aflast vel af vænum þorski. Hákarlalegur eru að byrja og hyggja menn gott til afla. Atvinna hjer mikil við vegagerðir. Kirkju á að byggja hjer, sem kostar um 30 þús. kr., einnig stórt samkomuhús og sjúkrahús.

Leggur hreppurinn i ár 5000 kr. til kirkjubyggingarinnar, 6½ þús. kr. til samkomuhússins og 4 þús. kr. til sjúkrahússins.

Útsvör eru hjer um 34 þús. Krónur

----------------

Frá Siglufirði er „Frjettum" símað 29. f. m.:

„Norðaustanrok var hjer í nótt sem leið, og braut það eina af bestu bryggjunum hjer, átti hana Bretevig síldarkaupmaður. Voru það tvær bryggjur út, en pallur milli þeirra að framan. Alt fór þetta í smátt og liggur spýtnaruslið í fjörunni.

Ekki urðu aðrar skemdir verulegar af roki þessu. Súldarveður er hjer í dag og frostlaust.

Ágætisafli er hjer þegar gefur á sjó, en gæftir eru stopular. „ísland" hefur ekki enn komið hinga, og bíður þess mikill farmur hjer. Það liggur nú á Akureyri.

--------------------------------------------------------

Norðurland - 4. desember 1915

15. árgangur 1915, 44. tölublað, Blaðsíða 143

Brúðkaup sitt halda i kvöld á Siglufirði Andrés Hafliðason bókhaldari(hreppstj. Guðmundssonar) og ungfrú Ingibjörg Jónsdóttir frá Akureyri. —-

Siglfirðingar eru að mynda hlutafélag til þess að kaupa prentsmiðju og ráðgera að gefa út blað á Siglufirði með vorinu. —

Ofviðri var á Siglufirði á sunnudagsnóttina og skemdist þá mikið hafskipabryggja Torm. Bakkevig.

--------------------------------------------------------

Íslendingur - 1915 - 10. desember

1. árgangur 1915, 36. tölublað, Blaðsíða 144

A u g l ý s i n g,

Fundist hefir á Siglufirði »Nóta« upp á 2 úr, í aðgerð hjá Haraldi úrsmið á Akureyri.

Úrin hefi jeg tekið og borgað viðgerð á þeim.

Rjettur eigandi getur vitjað úranna hjá mjer og borgað áfallinn kostnað og fundarlaun ásamt auglýsingu þessa.

Úrin hafa verið lögð inn á verkstæðið til viðgerðar í janúar s. l. undir nafni Stefáns Hallgrímssonar á Siglufirði.

Verði rjettur eigandi ekki búinn að gefa sig fram eftir 4 vikur frá auglýsingu þessari, verða úrin seld.

Siglufirði 23. nóv. 1915. Jóhann Sigurgeirsson.

---------------------------------------------------------

Árbók Háskóla Íslands - 1916

Háskólaárið 1915-1916, Fylgirit, Blaðsíða 29

Hluti af mati um skipulag byggða á Íslandi.

............. Um Siglufjörð er öðru máli að gegna. Þar hafa flest hús þotið upp á síðustu árum og var því frekar von til þess, að bygðin yrði lagleg og skipuleg. Viðleitni hefur og verið í þessa átt, eftir uppdrættinum að dæma, götur verið lagðar og húsareitir afmarkaðir, en ekki verður sagt að skipulagið hafi tekist allskostar vel.

Nýju göturnar sýnast gerðar með reglustiku, sumir húsareitir of litlir, aðrir of stórir og húsum skipað mjög óhentuglega á mörgum reitunum. Fáránleg og einkennileg er ströndin með öllum bryggjunum, timburpöllunum og stóru húsi úti í miðjum Polli! Aftur sýnist öll húsaskipun á hafnarspildunni, sem er afar dýrmæt, miklu lakari en hefði þurft að vera, og lóðir miður hagnýttar en skyldi.

Ef til vill hefur hinn hraði vöxtur bæjarins komið mönnum á óvart og skipulagið farið því í handaskolum..............

Smelltu á myndina til að sjá hana stærri

---------------------------------------------------

Morgunblaðið - 16. janúar 1916

3. árg., 1915-16, 73. tölublað, Blaðsíða 1

 

 

Auglýsing:

Vísir - 23. janúar 1916

6. árgangur 1916, 22. tölublað, Blaðsíða 1

 

---------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 30. janúar 1916

3. árg., 1915-16, 87. tölublað, Blaðsíða 4

Bardaginn gegn rottunum. Í haust sem leið hófu Siglfirðingar ákafan bardaga gegn rottunum, sem þar voru orðnar hin megnasta landplága. Var samningur gerður við rottueitursfélagið »Ratínt« í Kaupmannahöfn um kaup á töluverðu af eitri. Því var síðan stráð hingað og þangað um bæinn eftir fyrirsögn fálagsins, og voru rotturnar drepnar í þúsunda tali.

Bréfi, sem oss hefir borist frá ný lega frá Ratin-félaginu, fylgir vottorð héraðslæknisins á Siglufirði, Guðmundar T. Hallgrímssonar. Segir hann að tilraunin til þess að úirýma rottunum á Siglufirði hafi hepnast ágætlega, og að það sé sín skoðun, að hefði verið tækifæri til þess að eitra á ný litlu seinna, mundi hafa tekist að útrýma þeim að fullu.

— Reykjavík er full af rottum. Allir vita það, að rottur gera mikið tjón, bæði efnalega og heilbrigðislega. Þær skemma vörur og hús og þær flytja með sér næma sjúkdóma fremur öllum öðrum dýrum, að flugunum undanteknum. Það verður ekki sagt með neinni vissu, hve miklu það tjón nemur, sem rottur gera í þessum bæ. En það hlýtur að vera afskaplega mikið.

Ætti bæjarstjórnin sem allra fyrst að fara að dæmi Siglfirðinga og gera einhverjar ráðstafanir til þess að ráða bót á rottuplágunni, sem hér er orðin. Það yrði þá varla gert betur með öðrum meðulum en þeim, sem notuð voru á Siglufirði og fengin er sönnun fyrir að tekist hefir vel. Erlendis er »Ratin« mikið notað. Þar gera bæjarstjórnirnar mikið til þess að útrýma rottum.

---------------------------------------------------------------

Norðurland - 5. apríl 1916

16. árgangur 1916, 15. tölublað, Blaðsíða 52

„Hafliði," hákarlaskip Helga Hafliðasonar kaupm. á Siglufirði, er talið var af um daginn, er komið fram heilu og höldnu vestur á Önundarfirði.

En „Njáll" frá Siglufirði, er einnig var að hákarlaveiðum í ofviðrinu, vantar enn og veit enginn um hann.

---------------------------------------------------------------

Íslendingur - 1916

2. árgangur 1916, 25. tölublað, Blaðsíða 98

Áfengi í sjónum.

Þegar »Báran« var á leið hingað á þriðjudaginn, fann hún 3 kúta með áfengi f fyrir framan Siglufjörð.

Goðafoss var nýfarinn út af firðinum og bátur var þar á sveimi nærri kútunum. Skipstjórinn á »Bárunni« flutti kútana til lögreglustjórans hjer. Hver á að borga fundarlaunin?

---------------------------------------------------------------

Vísir - 23. júní 1916

6. árgangur 1916, 168. tölublað, Blaðsíða 2

Kútarnir frá Siglufirði . —o—

Skipstjórinn á Goðafossi hefir beðið Vísi að birta eftirfarandi athugasemd, út af símfregninni sem Vísi barst frá Akureyri um brennivínskútana, sem vélbáturinn Báran átti að hafa fundið fram af Siglufirði daginn eftir að Goðafoss fór þar um:

»Er eg hafði lesið grein þá, er V+isir flutti 20. þ. m., þar sem Goðafoss er nefndur í sambandi við 3 brennivínskúta, sem áttu að hafa fundist á sjónum fram af Siglufirði, átti eg tal við M. Kristjánsson alþm. á Akureyri, sem var farþegi á bát þeim, sem á að hafa fundið kútana. 'En hann (M. Kr.) hafði ekki orðið var við þennan fund, sem Vísir getur um. Það er annars undarlegt, hve blöðin hér fyrir sunnan leggja þessi skip okkar í einelti, en ef til vill er það vegna þess að þau eru íslenzk, því aldrei heyrist neitt slíkt um útlendu skipin, af hverju skal eg ekki um segja. En ef blöðin sjá sér ekki fært að láta okkur njóta réttar okkar og sannmælis heldur skrifa um okkur ástæðulausar greinar, sem ekki verða sönnur á færðar, en miða að því að sverta okkur í augum væri betra að við værum látnir hlutlausir.

T. J. Júliníusson».

Hvernig sem á því stendur, þá hefir Vísir orðið þess var, að það er álit manna að bannlagabrot eigi sér ekki síður stað á skipum Eimskipafélagsins en öðrum skipum sem hingað sigla. En ekki þykist Vísir hafa hallað þar máli útlendum skipum í vil, enda aldrei haft neitt sérstakt skip að umtalsefni í sambandi við bannlagabrotin.

Í umræddu símskeyti frá Akureyri, sem fréttaritari blaðsins verður að bera aðalábyrgðina á, er þess getið, _að Goðafoss hafi verið nýfarinn vestur um, er kútarnir fundust; en ekkert fullyrt um að hann hafi skilið þá eftir. En auðvitað verður ekki annað ráðið af skeytinu, en að svo hafi verið. — Hugsanlegt er að Bárumenn hafi haft kútana meðferðis lengra að, en sagan um fund þeirra sé tilbúin sem vörn gegn ákærum á þá um bannlagabrot. — En ólíklegt þykir Vísir að tíðindamaður hans hafi logið sögunni upp.

Annars er það ekki eins óskiljanIegt og skipstjóranum kann að virðast, að landsmönnum sárni það og þeir hafi fremur orð á því, sem þykir fara aflaga á ísl. skipunum, því »sá er vinur sem til vams segir«. En að því eru mjög lítil brögð, og má óhætt fullyrða að það stafi af því, að sáralítið verði með réttu fundið að framferði skipanna, En eins og um hnútana er búið, er ómögulegt að krefjast þess af skipstjórunum, og því síður stjórn féIagsins í landi, að þeir geti varnað einstökum mönnum af skipshöfninni eða farþegum að brjóta bannlögin. Það væri þeim ókleift verk og hlýtur að koma mest til kasta löggæzlunnar í landi.

Vísi er því óhætt að fullyrða að umrædd símfregn hefir ekki átt að vera nein hnúta til skipstjórans á Goðafossi, enda er það alkunnugt um hann, að hann er einhver reglusamasti og duglegasti skipstjóri sem nú fer með skip hér við land. Almennings.

-------------------------------------------------------------

Dagsbrún - 15. júlí 1916

2. árgangur 1916, 27. tölublað, Blaðsíða 90

Ameríkumenn eru komnir til Siglufjarðar og munu ætla að afla þar síld.

-------------------------------------------------------------

Stóri slagurinn 1916

Ekki fann ég frásögn á www.timarit.is um „Stóra slaginn“ sem Torfi Halldórsson skrifar um í bók sinni „Klárir í bátana“

En til fróðleiks þá hafði ég fyrir allnokkur tekið mér það „bessaleyfi“ ljósmynda síður úr bókinni, um þennan bardaga.

Ég hafði raunar heyrt eitthvað um þennan bardag (að gefnu tilefni, vegna afa míns) í heimahúsum þegar ég var unglingur.

Tengiill til sögunar er hérna:

https://sites.google.com/site/sksiglo/home/stori-slagur-1916

-----------------------------------------------------------

Íslendingur - 1916

2. árgangur 1916, 39. tölublað, Blaðsíða 154

Stórtjón.

Í norðvestan ofviðrinu, síðastliðinn sunnudag, urðu stórskemdir á ýmsum mannvirkjum, og urðu ýmsir menn hjer við Eyjafjörð fyrir stórtjóni. Er t. d. fullyrt, að 11 bryggjur hafi sópast á brott á Siglufirði og enn aðrar skemst, og um 1500 síldartunnur hafi tapast í sjóinn, þar af mun Evanger hafa átt 800 tunnur.

Má áætla tjónið á hundrað þúsund urðu talsverðar skemdir i bryggjum f Hrísey. Sagt er og, að mótorbátur frá Höfða hafi sokkið, og að 2 mótorbátar úr Grenivík hafi brotnað.

---------------------------------------------------

Ægir - 1916

9. Árgangur 1916, 10. Tölublað, Blaðsíða 126

Næsta óskiljanlegt er það, að enn skuli eigi komið klukkudufl við Helluboðana fram af Siglunesi við Siglufjörð.

Það er ýmislegt, sem mælir með, að því væri lagt þar hið bráðasta.

Siglingar inn og út fjörðinn munu hinar mestu hjer við land; þokur eru tíðar og þá er lóðið, sem dýpið er stikað með, oft hið eina, sem farið verður eftir, og dýpi fyrir framan Siglufjarðarmynni er svipað og sumstaðar á Skagafirði, og frá Haganesi að Dalatá er ekki að reiða sig á kompásinn, svo sjómennirnir, sem um þetta svæði fara í þoku, verða viltir. Vanalega er stefnan sett rjett frá fiskimiðum á fjörðinn, en skelli þoka á áður en inn er komið, þá getur verið hættulegt að halda áfram, en það getur orðið dýrt, að liggja lengi í þoku með góðan afla innanborðs, auk þess, sem kolum er eytt. Að staðurinn sje hættulegur sýna skipströnd þau, er þar hafa orðið.

Klukkudufl á þessum áðurnefnda stað mundi koma að hinum mestu notum. Ef vildi mætti taka það upp á haustin og leggja því á vorin, og dýpið, sem það lægi á, væri um 11—12 metrar, ½ sjómílu í VNV af Siglunesi. Hljómur klukkunnar mundi heyrast greinilega yfir um fjörðinn að Lambanesi. Á stað eins og Siglufirði ætti slíkt leiðarmerki síst að Vanta. Væri því lagt á áðurnefndum stað, benti það um leið á hvar grynst má fara fyrir Helluboðana, þegar stormur er og sjór úfinn.

Jeg átti tal við hr. Þorstein Gíslason á Meiðastöðum um þetta, mun hann einna kunnugastur manna í kringum Garðskaga og telur hann vist að klukkudufl kæmi að notum.- Sumir halda að slíkt dufl geti ekki legið þarna vegna sjávargangs. Það hjeldu menn einnig um vitaskipið við Hornsrev, en það liggur þó.

Rvík, 14. okt. 1916. Sv. Egilson.

--------------------------------------------------------------

Dagsbrún - 20. október 1916

2. árgangur 1916, 39. tölublað, Blaðsíða 126

Þjófnaður var framinn á Siglufirði f septemberlok. Var mölvað upp kofort og stolið 250 kr. í seðlum frá pilti er Árni hét,

Ólafsson, og ætlaði að stunda nám í vetur við gagnfræðaskólann á Akureyri.

----------------------------------------------------------------------------------------

Fram - 22. nóvember 1916

1. árgangur 1916-1917, 1. tölublað, Blaðsíða 1

Til lesenda.

—o—

Um leið og hið fyrsta blað af »Fram« kemur fyrir almenningssjónir, viljum vér gera nokkra grein fyrir tilveru þess og tilgangi.

Siglufjörður hefir nú um nokkurra ára bil, verið aðalstöð hins mesta peningastraums er að landinu hefir borist. Hefir sá straumur verið til mikils gagns fyrir sveitina sjálfa, fólk víðsvegar frá, og ekki síst fyrir landsjóð.

Eigi að síður hefir Siglufjörður verið settur á lægri bekk, bæði í áliti manna úti um land, og að nokkruleiti í fjárveitingum til opinberra fyrirtækja. Eitt af erindum þeim er þetta blað þykist eiga er það að gefa mönnum kost á að kynnast Siglufirði nánara, með réttari og sannari frásögnum en áður hafa gengið manna á milli.

Opinber landsmál mun blaðið ræða án þess þó að taka saman við nokkurn sérstakan stjórnmálaflokk. Innanhéraðsmál munu tekin til rækilegrar íhugunar. Fréttir, innlendar og útlendar mun blaðið gera sér far um að flytja sem mestar og réttastar, og höfum vér til þess fengið góð sambönd. Að svo mæltu felum vér blaðið velviljuðum lesendum.

Ritstjórar: Friðbjörn Níelsson og Hannes Jónasson.