Geta gömul hús, sem að falli eru komin, haft nokkurt gildi?

Bragi Magnússon

Grein: Baragi Magnússon

Maður heyrir oft sagt: „Af hverju eru þessir gömlu hjallar ekki rifnir?"

Sumir þessara gömlu hjalla hafa verið rifnir. Ég sakna þeirra margra. Ef til vill voru þeir orðnir illa farnir vegna vanhirðu, og ef til vill er meiri þrifnaður að moldarflagi, en bærinn verður svipminni, — Og þegar allir hjallarnir hafa verið rifnir verður þetta allra þrifalegasti bær, sem enginn þarf að skammast sín fyrir gagnvart hvaða útlendingi sem er, en alveg steingeldur.

Ekki má samt bregða fæti fyrir þróunina, en þróunin verður að" taka tillit til sögunnar. Þróunin er ekki yfir það hafin, frekar en aðrir lífsins þættir. Þessvegna á að fara að fara að með gát.

Við skulum rölta dálítið um Þormóðseyrina. Langi brakkinn á Jarlsstöðinni, sem sumir kalla Hoffmann-Ólsen, er líklega elzta síldarhúsið í firðinum. Thormod Bakkevig byggði það um 1905. Niðri var síldarskemma, en í risinu verbúð og geymsla. Máttarviðir hússins eiga sennilega fáa sína líka hér á landi. Gróft tilhöggnar stoðir með hnjám úr hnyðjum undir bitum. Á sama plani er Rotterdam, lítið hús, sem eitt sinn var „blandaður brakki, þ.e. karla og kvenna.

Sunnan við Jarlsstöðina stendur Baldur, vinsælt hús á sinni tíð. Beint upp af því, við Tjarnargötu, er Amsterdam, byggt 1908 eða 9. Lítið timburhús, er lengst af var notað sem verbúð og kontór.

Að utan er húsið klætt láréttum borðum, nótuðum, af venjulegri þykkt, en innan á grind er klætt með mjög þykkum nótuðum borðum, einnig láréttum. Þakklæðning undir járni er „standandi". Þessi háttur bendir til þess að nóg hafi verið af timrinu í þá daga, og minnir, að ymsu leyti, á byggingaraðferðina við Norska sjómannaheimilið.

Henriksenbrakkinn er horfinn fyrir löngu, en eitthvað stendur eftir af gömlum húsum Wedins-stöðvarinnar, þar sem Sigfús Baldvinsson saltaði seinast. Neðan við „Gránu"-verzlunina er gamalt pakkhús klætt timbri að utan, lóðréttum borðum. Máske það sé elzt allra síldarhúsa. Þeir eru áreiðanlega teljandi á fingrum annarrar handar, Siglfirðingarnir, sem ekki sakna Gránuskorsteinsins. Hann var brotinn niður til að ryma fyrir fiskiðjuveri.

En hvers vegna? Ef þessi reykháfur hefði staðið í grennd við Reykjavík, hefði enginn arkitekt þorað að hanna fiskiðjuver honum til falls. Hann var búinn að standa þarna við hlið Gránu í meira en hálfa öld, listilega hlaðinn úr múrsteini, teinréttur og ósprunginn nema í tveim til þremur efstu lögunum. Handbragðið eitt hefði verið næg ástæða til að varðveita hann. Þessi fallegasti verksmiðju reykháfur á landinu hefði getað staðið enn í nokkur hundruð ár, sem óbrotgjarnt minnismerki um það tímabil í sögu bæjarins, sem ekkert annað tímabil mun komast í hálfkvisti við.

Og hann hefði ekki þurft að vera fyrir neinum.

Grána er líka farin. Hún var annað dæmi um virkilegt handverk. Hennar saga hefði tæplega getað orðið jafn löng, og þó ég sakni hennar, fellst ég á rétt þróunarinnar, að vissu marki. En mikið er hann kollóttur suðurhlutinn á Eyrinni. Þessi nýbyggði kassi með öfuga þakinu hressir lítið upp á hana. Nú hefur Rauðkubrakkinn verið rifinn. Þarna var skrifstofa Rauðku, verkstjórakompa og lager í austurenda og niðri í vesturenda, en uppi að vestan var brakki.

Ofar í Gránugötunni var Jakobsensbrakkinn. Þar var mikið líf fyrrum. Húsið var rifið til grunna fyrir mörgum árum. Þar suður af var Kristinsbrakkinn. Eiginlega of nýr til að eiga sér sögu; nú saltgeymsla. Enn ofar við götuna var Kveldúlfsbrakkinn (Kaupfélagsbrakkinn). Þegar Ingvar Guðjónsson saltaði á þessari stöð mun hafa búið í brakkanum um 51 síldarstúlka, eða síldarkerling, eins og þær hétu í daglegu tali.

Þær voru yfirleitt kallaðar að- komukerlingar, og svo var 51 bæjarkerling. Þær voru ræstar út til skiptis eða þá báðir hóparnir í einu. Annar hópurinn alltaf vestan til á planinu, hinn að austan, og 12 karlar til að sinna hvorum hópnum við söltunina. Þarna gekk mikið á í tíð Ingvars. Seinna dofnaði yfir því, en alltaf var eitthvað sérstakt við fólkið í þessum brakka. Nú er hann horfinn.

Beint þarna suður af er Hjaltalínsbrakkinn, sem líka á sína merku sögu, og ofar á eyrinni, á Reykjanesplaninu, stóð ef til vill sérkennilegasti brakkinn, 60-70 m. langt hús með skúrþaki. Vistarverur fólks uppi, en síidargeymsla niðri. Hann var rifinn fyrir nokkrum árum, og líka lifrarbræðslan, sem stóð austan við brakkann.

Fyrst maður er staddtur við endann á Grundargötunni, er bezt að staldra við hjá Ytra-húsinu. Það íbúðarhús var byggt 1861-2, og er elzt allra húsa í Siglufirði. Það lítur að mestu út eins og þegar það var byggt. Að vísu var seinna byggt austan og norðan við það, en suðurhlutinn er upprunalegur. Þetta hús hefur litla umönnun hlotið nokkur síðustu árin, þó eigandinn reyndi af veikum mætti og litlum efnum að hlúa að því seinustu mánuðina, sem hann lifði. Það sést ennþá við hvað hann gafst upp.

Í krikanum milli Ólagötu og Suðurgötu var, í gamla daga, lind, sem hafði merku hlutverki að gegna. Hún var landamerki milli Hafnar og Hvanneyrar. í staðinn fyrir að gera vel í kring um hana var hún hulin, því lækur eða lind er náttúrulega til óprýði í svona fögru umhverfi. Utarlega í Ólagötu er reykhús.

Áður var það notað til annars. Gaman væri að vita til hvers, og hver byggði það og hvenær. Sunnan við það, og áfast, er Tynesarbrakkinn, þ.e. Sunnubrakkinn. Bryggjuhúsið langa er að stofni til frá tíð Ole Tynes. Skemman syðst á lóðinni er falleg og ber byggingameistaranum vitni um tvennt: Smekk og forsjálni. Þakið á henni er gert fyrir okkar veðráttu. Það sligast ekki undan snjó, — hann tollir ekki á þessum bratta.

Sunnan við skemmuna stóð Mallabrakki, eða Doddabrakki. Hann var rifinn 1973. Þar suður af stóð annar brakki, (annar Mallabrakki?), sem rifinn var fyrir löngu. Þá kemur Antonsbrakkinn, sem nú er ekki nema svipur hjá sjón, síðan viðbyggingin vestan við hann var fjarlægð að mestu. Sunnan við Antonsbrakkann stóð Snorrabrakkinn, og sneri norður og suður. Rifinn fyrir löngu. Þá er komið að Ingvarsbrakkanum, sem er stór kumbaldi.

Skaftabrakkinn er eiginlega þrjú hús: Gamla bryggju húsið, íbúðarhúsið og vesturhúsið. Það væri gaman að vita sögu gamla bryggju hússins. Njarðarbrakkinn er næstur, en sunnan við hann er svo perla brakkanna: Roalds brakkinn, eins og gamlir Siglfirðingar kalla hann, eða Ísfirðingabrakkinn, eins og hann er nefndur nú, er mikið hús að útliti og byggingu. Líkist Vestersenshúsinu í stíl. Þetta hús er a.m.k. 60 ára gamalt, byggt sem verbúð og síldarskemma og hefur ávallt verið það.

Ég held það sé lítið breytt frá fyrstu gerð. Fyrst kom ég í þetta hús 9 ára gamall, og á þaðan góðar minningar um lykt af síld, netum og kryddi, en auðvitað eru minningarnar um fólkið hlýlegastar. Morten Ottesen réði þar þá ríkjum. Hann hafði hirð í kringum sig, með mötuneyti. Þar borðuðu síldarspekúlantar, háskólaborgarar og séní. Mér fannst þetta skemmtilegir karlar, sem körpuðu og hlógu ósköpin öll. Stúlkurnar bjuggu í sjálfum brakkanum uppi, en karlarnir í viðbyggingu að norðan.

Seinna keypti Samvinnufélag ísfirðinga eignina og fólkið var flest að vestan. Ég var orðinn fullorðinn þegar ég kom í brakkann í annað sinn. Mér fannst ég kannast við hvert skot, og þar er enn lykt af kryddi. Þarna er ekki margt úr sér gengið, enda hefur húsið lengst af verið í umsjá snyrtimennis.

Ég hleyp yfir Ásgeirsíshúsið, því þó þar hafi verið búið í nokkrum kompum yfir sumarið, og þarna hafi verið merkilegt íshús, er varla hægt að lýsa því nú. Þá tekur Bein við. Þarna var beinaverksmiðja, þ.e. fiskbein voru möluð þar. Væri ekki ráð að einhver þeirra, sem við bygginguna unnu eða unnu í sjálfri verksmiðjunni, tæki að sér að skrá sögu hennar?

Syðsti-brakkinn var sá eini af öllum þessum brökkum, fyrir utan Hjaltalínsbrakkann, þar sem stúlkur bjuggu á neðri hæð. Uppi á lofti bjó saltandinn og hafði kontór. Þar bjó líka kvenfólk, og niðri var kvenfólkið einrátt. Þessi brakki var mest út úr, og þar varð oft róstusamt í grennd, en þó aldrei úr hófi. Þarna beint austur af var Anleggið. Söltunarstöð með öllu tilheyrandi byggð á staurum úti á sjó, án tengsla við land. Það er löngu fyrir bí.

Þau eru mörg gömlu húsin, önnur en brakkar, sem vert er að gefa gaum að. Það hafa verið byggð mörg snotur hús í bænum, úr steini og gleri, en ekkert þeirra jafnast á við Wedinshúsið að formi og stíl, að ég tali nú ekki um Vestersenshúsið, sem mér finnst fallegasta hús bæjarins. Sem betur fer eru þessi hús í góðra manna höndum, er láta sér annt um viðhald þeirra.

Fyrst ég er farinn að tala um íbúðarhús, og kominn út í Hvanneyrarbraut er bezt að bregða sér út í Bakka. Þar eru tvö hús byggð 1907. Annað þeirra snoturt portbyggt hús, byggði Guðmundur Bjarnason. Hann var ávallt kallaður Guðmundur í Bakka. Eftirminnilegur og mikill persónuleiki.

Íshúsið í Bakka er orðið hrörlegt, en brakkinn er nú íbúðarhús. Ef við förum suður fjöruna, sjáum við máske móta fyrir sökkli Goosbrakkans sunnan Hvanneyrarár, og þar skammt fram af, á sjávarbotni, eru leyfar af bryggjunni.

En til að sjá þær þarf fleytu og logn.

Við Hvanneyrarkrókinn var Ásgeirsbrakkinn, tveggja hæða steinhús, byggt árið 1917. Hann brann og var felldur. Svo förum við niður með flóðvarnargarðinum. Þetta var rómantískur garður í gamla daga, á fögrum vor og sumarkvöldum. Nú er gamli garðurinn brotinn og illa farinn, en sá nýi gersneyddur allri rómantík.

Þá komum við að Lúðvíksbrakkanum, sem byggður var 1917. Þar er nú bifreiðaverkstæði og smurstöð. Þarna norður af var plan og löng bryggja. Af henni sést nú hvorki tangur né tetur. Það eru mörg önnur merkileg gömul hús í bænum, sem ég hefi ekki talið upp. Þau bera flest vott um, að fyrir 50-100 árum kunnu menn að byggja hús fyrir siglfirzkar aðstæður, en vert er að leiða hugann að því, að hentugustu og fallegustu húsin byggðu útlendingar.

Ég hefi heyrt unga menn og framsækna tala um, að réttast væri „að setja jarðýtu á þetta gamla drasl." Jarðýtan er þarfaþing, það sést bezt á Hólsánni. En væri ekki nær að ganga betur um sum þessara gömlu húsa, og jafnvel nota þau til einhvers, sem hæfir framsæknum anda jarðýtualdarinnar?

Saga Siglufjarðar er alltof snar þáttur í þjóðlífinu, til þess að henni sé sýnt tómlæti. Varðveizla gamalla húsa er virðingarvottur við liðna tíð og söguna. Gömlu húsin mega ekki öll fara á haugana, eins og meginið af söltunaráhöldunum okkar. Það er ekki hægt að varðveita öll gömul hús, og söltunarstöð er ekki hægt að varðveita í heilu lagi. En það má ýmislegt betur gera en nú tíðkast. t.d. mætti búa til líkan af síldarplani með öllu tilheyrandi, og gera það þá áður en allt er glatað, sem hægt er að styðjast við.

Bragi Magnússon.    Myndir HÉRNA

--------------------------------------------------

Þess þarf vart að geta að Bragi teiknaði auðvitað meðfylgjandi listaverk, sem flestar  fylgdu grein hans í Mjölnir 17. október 1975 -  og eru hér fyrir neðan..

Ljósmynd af Braga: (sk)  og sk bætti við teikningu Braga af Íshúsi og brakka.