Árið 1930 - Vígsla SR30 Vígsla ríkisverksmiðjunnar.

Löndunarbryggjur-Hábryggjur SR30 -EA 396 -Ljósmynd Gísli Halldótsson

Frétt úr Siglfirðing, 6. september 1930

Kommúnistum sagt stríð á hendur.

Dómsmálaráðherra á batavegi.

Í gær, föstudaginn 5, september Fór fram sú athöfn hér í bænum, sem almennt er kölluð ofangreindu nafni en sem dómsmálaráðherra vildi heldur kalla minningarathöfn.

Átti athöfnin að hefjast með útisamkomu kl. 2 e. m. en með því að Ægir var þá enn ekki kominn með dómsmálaráðherra og alla Eyfirsku boðsgestina, var upphafinu frestað um tvo tíma. Klukkan 4 söfnuðust menn saman á lóð verksmiðjunnar og hófst athöfnin með því, að dómsmálaráðherra bauð gesti velkomna og sagði að Bernharð Stefánsson myndi fyrir hönd atvinnumálaráðherra halda aðalræðuna.

Ekki minnist, sá er þetta ritar að hafa séð Jónas með aumlegra yfirbragði en þarna í ræðustólnum, enda mun hann hafa verið dasaður eftir sjóvolkið.

Var síðan flutt hver ræðan eftir aðra og töluðu þessir: Bernharð Stefánsson, Þormóður Eyjólfsson, Guðmundur Skarphéðinsson, Sveinn Benediktsson og Bæjarfógeti.

Ekki verður farið út í efni þessara ræðuhalda að þessu sinni að öðru en því að Magnúsi sáluga Kristjánssyni var með réttu eignuð hugmynd þessa fyrirtækis og voru allir sammála um gagnsemi þess.

Að lokinni útisamkomunni var gengið til átveislu í Bíó. Voru þar samankomnir fyrst og fremst starfsmenn verksmiðjunnar, stjórn hennar, bæjarstjórnin, 3 þingmenn og margt boðsgesta bæði héðan úr bænum og frá Akureyri.

Var þar etið og drukkið og margar ræður fluttar og töluðu þar allir þeir sömu og á útisamkomunni, og að auki alþingismennirnir Jón Ólafsson og Erlingur Friðjónsson.

Af ræðum þessum vakti sérstaka athygli síðari ræða dómsmálaráðherra Þar tók hann það fram, sem raunar Sjálfstæðismenn hafa alltaf haldið fram, að öll framfaraspor í menningar og atvinnumálum geti. fyrst - og þá fyrst komið að tilætluðum notum, að þjóðin öll sé samhuga um það að verkin fái að njóta sín.

Um þetta fyrirtæki sérstaklega ríkisverksmiðjuna sagði hann að þegar hefði borið á því, að það ætti ekki samhug allrar þjóðarinnar - og þeim mönnum eða flokki, sem inni gegn því að síldarverksmiðjan kæmi að tilætluðum notum, þeim notum sem Magnús sálugi Kristjánsson hefði ætlast til, þeim myndi engin vægð sýnd.

Það myndi ekki verða hikað við að leggja niður rekstur verksmiðjunnar um eitt eða tvö ár, ef rekstur hennar fengi ekki að hafa frið fyrir þessum mönnum, og þá myndi sjást hverjir hefðu verst af stöðvun hennar.

Og hann kvaðst vona, að hver sú stjórn, sem með völd færi í þessu landi, myndi taka sér í munn orð Lofts ríka:

“Fyrir hvern einn mann sem þið drepið af mér, drep ég þrjá af ykkur”.

Þessi ummæli ráðherrans verða ekki skilin á annan veg en þann, að með þeim hafi hann sagt Kommúnistum stríð á hendur, því vitanlega leggja ekki aðrir en þeir stein í götu verksmiðjunnar.

Eru slík ummæli virðingarverð hvaðan sem þau koma, jafnframt því sem þau gefa manni von um, að ráðherrann sé á batavegi.

Ef til vill verður síðar skýrt nánar Frá athöfn þessari.