Árið 1936 - Lýsi í sjóinn - Hver ber ábyrgðina?

Mynd úr safni Gísla Halldórssonar framkvæmdastjóra SR - Á bryggjuplaninu austan við lýsistanka um 1936 +/-

Einherji, 4. desember 1936

Nýlega var þess getið í Einherja, og var reyndar hljóðbært í bænum áður, að ríkisverksmiðjurnar hérna hefðu orðið fyrir allmiklu tjóni við það, að nokkur hluti lýsis, sem flytja átti milli "tanka" rann skakka "boðleið" og að talsverðu leyti í sjóinn.

Líklega fæst aldrei full vissa fyrir því, hve mikið þetta lýsi hefir verið, sem þarna fór forgörðum, en ekki hefir það getað verið neitt smáræði, sem best sést á því, að daginn eftir að þetta vildi til var allhvasst og talsverður öldugangur, en bátum, sem hér voru á innsiglingu þótti kynlega bregða við, er þeir allt í einu komu í ládauðan sjó.

Bátverjar héldu þetta fyrst dularfullt fyrirbrigði, en uppgötvuðu þó bráðlega hverskyns var: Þeir voru farnir að sigla í lýsishafi.

Opinberlega hefir verið furðu hljótt um þetta mál. Réttarhöld fóru fram út af því en öllu sem þar kom fram hefir verið haldið vandlega leyndu og hefir þó oft verið heimtuð opinber skýrsla um það sem minna máli hefir skipt.

Afkoma sjómannastéttarinnar stendur og fellur að mjög miklu leyti með því hvernig verksmiðjureksturinn gengur.

Útgerðin, (sjómenn og útgerðarmenn) fá litið í aðra hönd þegar afurðaverðið er lágt og veiðin lítil, en þeir, eiga líka að njóta hagnaðar góðu áranna á tvennan hátt: Í hækkuðu hráefnisverði og í því að þá séu tækifærin gripin til þess að fylla sjóðina, og lækka stofnkostnaðinn sem er svo gífurlega hár, að á hverju ári, um og neðan við meðallag, er verksmiðjunum illbærilegt að standa straum af honum.

Það kann að vera, að verksmiðjurnar þoli það þetta ár að verða fyrir svona tapi. Það hefir verið uppgripa ár fyrir þær:

Afurðaverð langt um hærra og afli miklu meiri, en nokkru sinni áður síðan verksmiðjurnar voru reistar.

Hagnaður þeirra hlýtur að vera ágætur, en það er nóg við þann hagnað að gera. Hann má hvorki renna út í sjó né sand. - Í þetta skipti hefir þó svo farið.

En hver ber ábyrgðina? Hver hefir haft yfirumsjón, í haust og vetur, með allri vinnu í verksmiðjunum utan skrifstofunnar?

Það er vitanlegt að framkvæmdarstjórinn hefir dvalið fjærri verksmiðjunum, - í Reykjavik eða erlendis, - því nær óslitið síðan um mánaðarmót ágúst og september, eða frá því nokkru áður en síldarbræðslu var lokið og að heita má allan karfavinnslutímann.

Er þetta með leyfi verksmiðjustjórnarinnar eða að ráði hennar?

Það er víst, að fyrri framkvæmdarstjórar verksmiðjanna, þeir O.Ottesen og Jón Gunnarsson, töldu sig ekki mega fara burtu dag stund meðan á rekstri stæði, Þeir von, allstaðar á varðbergi, töldu sér skylt að athuga hvaðeina sem aflaga fór, vera allstaðar nálægir og viðbúnir til athugunar og úrræða.

En hver hefir nú, í fjarveru framkvæmdarstjóra, haft slíka yfirumsjón og eftirlit með höndum?

Hver berábyrgðina á mistökunum?

Er það verksmiðjustjórnin?

Er það framkvæmdarstjórinn?

Er það "yfirverkstjórinn" eða lendir hún á einhverjum óbreyttum verkamanni verksmiðjanna sem ekki situr í svo "háum söðli" að fallið verði sérlega þungt? -

Hver er það sem ber ábyrgðina?

Sú spurning verður háværari og háværari. Hún verður ekki þögguð niður lengur.

-------------------------------------------------------------------

Einherji, 26. nóvember 1936

Það óhapp vildi nýlega til hér við Ríkisverksmiðjurnar að allmikið af lýsi var af vangá dælt í sjóinn.

Átti upphaflega að dæla lýsið á milli tanka, en leiðslur þær sem liggja frá verksmiðjunni og fram á bryggjurnar höfðu, þá nýlega verið notaðar og láðst að skrúfa fyrir þær, rann því alimikið af lýsinu í sjóinn.

Réttarhöld hafa staðið yfir í málinu, en enn sem komið er hefir blaðið ekkert af þeim frétt.