Brunar 1963-1966

Morgunblaðið 19 apríl 1963

Hænsni farast í eldi Siglufirði, 17 apríl. KLUKKAN rúmlega 8 á skírdags kvöld kom upp eldur í þrílyftu timburhúsi fyrir innan bæinn. Hús þetta er notað í sambandi við rekstur hænsnabús og munu þar hafa verið á þriðja hundrað hænsni. Nálægt 100 hænur, sem voru á efstu hæð hússins drápust úr reyk. Það tókst fljótlega að slökkva eldinn og urðu litlar skemmdir á húsinu. Gert er ráð fyrir að eldsupptök hafi orðið út frá rafmagni. Eigandi búsins er Óskar Sveinsson, Siglufirði. — Stefán. 

-------------------------------------------------- 

Vísir 28 júní 1963

MIKILL BRUNI Á SIGLUFIRÐI Skömmu eftir miðnætti í nótt kom upp eldur í síldarbragga hjá söltunarstöðinni Sunnu á Siglufirði. Þetta er stórt timburhús, hæð og hátt ris. Í rishæðinni eru íbúðarherbergi fyrir starfsfólk 2ja söltunarstöðva, Sunnu og Vestu, en ekki var flutt f herbergin. Á neðri hæð var geymt salt og sykur auk ýmiss annars varnings og tækja.

Eldurinn magnaðist fljótt og tók þrjár klukkustundir að ráða niðurlögum hans. Rishæðin brann mjög mikið og allt sem í henni var eyði lagðist. Á neðri hæð er talið að um 300 tonn af salti hafi eyðilagzt af vatni og reyk og ýmis annar varningur. Ekki er enn vitað um eldsupptök. Er þetta mikið tjón fyrir síldarstöðvarnar og kemur sér einkum illa nú, þar sem á næstunni er von á síldarstúlkum sem áttu að búa í þessu húsnæði.

-------------------------------------------------- 

Þjóðviljinn 28 júní 1963

Eldur í síldarbragga á Siglufirði Skömmu eftir miðnætti hringdi fréttaritari Þjóðviljans á Siglufirði og hafði þá kviknað í vertíðarbragga Söltunarstöðvarinnar Sunnu og logaði glatt meðan á símtalinu stóð. Mikinn reyk lagði yfir bæinn. Þetta er gamalt timburhús og er vistarvera síldarstúlkna á sumrum. Eitthvað af síldarstúlkum var flutt í braggann, en engin mannslíf voru í hættu. Greinilegt er að húsið stórskemmist. Slökkviliðið var komið á vettvang. — K. F

--------------------------------------------------  

Morgunblaðið 29 júní 1963 –

Eldsvoði á Siglufirði 

Siglufirði 28. júní.

Tuttugu mínútur yfir miðnætti í nótt varð elds vart í stórum bragga á Söltunarstöð SUNNU hf.., er notaður hafði verið í senn sem íveruhús síldarverkunarfólks, skrifstofu og  geymslu- húsnæði. 

Hér er um stórt tréhús að ræða, gamalt og gegnum-þurrt. Mikill eldur var uppi í húsinu, er slökkviliðið kom á vettvang, en því tókst af dugnaði miklum að ráða niðurlögum hans á u.þ.b. 1 klst og 15 mín. Efri hæð byggingarinnar skemmdist allmikið, sér í lagi íverupláss starfsfólks, sem eldurinn lék verst. Skrifstofuhúsnæðið skemmdist af vatni og reyk og ýmsar geymslu vörur (salt ofl.) munu hafa skemmst. 

-------------------------------------------------

Morgunblaðið 19 september 1964 Siglufirði, 18. sept

Sjálfsíkveikja í Verksmiðju S.R..

SLÖKKVILIÐIÐ hér var ræst út kl. rúmlega 6 í morgun og var eldur laus í soðkjarnamjölsverksmiðju S.R. Vinnslu var hætt í gærkvöldi kl. 12, en kl. sex í morgun er menn komu til vinnu í fyrirtækinu sáu þeir reyk, þar sem ekki átti að rjúka. Þegar slökkviliðið kom á vettvang uppgötvaði það að sjálfsíkveikja hafði orðið í mjöli. Eldur var lítill og fljótt slökktur og engar teljandi skemmdir. 

S.K.

----------------------------------------------------------------

Vísir 7 febrúar 1966

Eldur í Hafliða við Færeyjar

Eldur kom upp í gær í Siglu fjarðartogaranum Hafliða þegar hann var á heimsiglingu úr söluferð til Þýzkalands. Togarinn leitaði þá inn til Klakksvíkur og tókst að slökkva eldinn. Vegna þess að slæmt símasamband er milli Þórshafnar og Klakksvíkur, höfðu ekki fengizt ýtarlegar fréttir um atburð þennan og vita forráðamenn skipsins ekki nánar um hann.

Fregn sú sem blaðið hefur um þetta, sem enn er lausafregn segir að enginn maður hafi meiðzt. Sjópróf vegna atburðarins eiga að fara fram í Klakksvík.

------------------------------------------------- 

Tíminn 8 febrúar 1966 - SJ—Reykjavík, mánudag.

ELDUR f HAFLIÐA í gær kom upp eldur í togaranum Hafliða frá Siglufirði er hann var á heimleið úr söluferð til Þýzkalands. Eldurinn var slökktur í hafi, en togarinn sigldi til Klakksvíkur til frekara öryggis. Togarinn er væntanlegur til Siglufjarðar um hádegi á morgun og fara sjópróf fram þar.

Blaðið hafði samband við Baldur Eiríksson á Siglufirði, og hafði hann ekkert frekar um málið að segja, annað en það, að sér skildist að eldurinn hafi komið upp undir katlinum og ekki væri kunnugt um slys á mönnum. Hafliði er í eigu bæjar útgerðar Siglufjarðar; áður hét hann Garðar Þorsteins son, smíðaður 1948. 

-------------------------------------------------

Þjóðviljinn 4 nóvember 1966

Sigldu brennandi bátnum til lands í gær kom upp eldur í vélbátnum Æskunni frá Siglufirði úti á sjó. Tókst áhöfninni að sigla bátnum til lands í Ólafsfirði við illan leik, en þar beið slökkviliðið tilbúið við höfnina. 

Mikið tjón varð á bátnum, en engan mannanna sakaði.

--------------------------------------------------