Eldsneytislaust slökkvilið

Aflaskipið Ingvar Guðjónsson, þarna fullfermdur af síld – Ljósmynd: Kristfinnur

Þjóðviljinn 17 janúar 1961Siglufirði í gær. Frá fréttaritara Þjóðviljans.

Um átta leytið í morgun var slökkviliðið hér á Siglufirði kvatt að vélskipinu Ingvari Guðjónssyni. 

Var eldur uppi sem mun hafa kviknað út frá rafsuðutækjum, sem verið var að vinna með um borð í skipinu.

Benzínleysi á tækjum slökkviliðsins olli miklum erfiðleikum. 

Í fyrstu hafðist brunabíllinn, sá eini hér á staðnum, ekki í gang og var - öflug vatnsdæla, sem einnig er í eigu slökkviliðsins, flutt fram að skipinu. Hún fór þegar í gang, en áður en hún hafði náð að dæla upp nokkrum sjó stöðvaðist hún og komi þá í ljós að hún var benzínlaus.

Var þá það ráð tekið, að nota vatnsfötur og voru þær sóttar í skyndi, en of hátt reyndist úr skipinu og engir spottar í fötunum. Hinsvegar hefði mát fá sjó af bryggjunni og handlanga uppí skipið, en það hugkvæmdist engum.

Á meðan þessu fór fram niðri við skipið var stöðugt reynt að koma bílnum í gang. En það var ekki fyrr en í ljós kom að annar af tveim benzíngeymum bifreiðarinnar var tómur — sá sem tengdur var við vélina — að árangur fékkst af stritinu.

Um leið og skipt var yfir á hinn tank - inn fór bíllinn í gang og var honum ekið niður á næstu bryggju og dældi hann þaðan sjó yfir skipið. Gekk greiðlega að slökkva eldinn, þegar loks tókst að ná í vatn, en það leið um það bil ein klukkustund frá því að brunakallið kom og þar til byrjað var að slökkva eldinn.

Mistök, eins og þau er þarna áttu sér stað, eru algerlega óafsakanleg og hefðu getað haft alvarlegar afleiðingar í för með sér undir öðrum kringumstæðum. Hlýtur þetta atvik að kalla á róttækar ráðstafanir til að fyrirhyggja endurtekningu. —

Allmiklar skemmdir urðu á skipinu, en ekki er þó búið að rannsaka þær eða meta til fulls.

------------------------------------------------

Verkamaðurinn 21 janúar 1931

Eldsneytislaust slökkvilið!

Á MÁNUDAGSMORGUNINN varð eldur laus í vélskipinu Ingvari Guðjónssyni, þar sem það lá við bryggju á Siglufirði. Verið var að vinna með rafsuðutækjum um borð í skipinu, og er talið, að kviknað hafi út frá þeim.

Slökkvilið Siglufjarðar var þegar kvatt á vettvang, en það dróst alllengi, að það kæmi með útbúnað sinn. Ástæðan var sú, að bifreið slökkviliðsins komst ekki í gang fyrr en eftir a. m. k. þrjá stundarfjórðunga. Leið því um það bil klukkustund frá því eldurinn varð laus í skipinu, þar til bifreiðin kom niður á bryggjuna og hægt var að taka hana í notkun til að ráða niðurlögum eldsins.

Meðan verið var að koma bifreiðinni í gang var farið á vettvang með önnur tæki slökkviliðsins, tvær dælur. Önnur þeirra fór þegar í stað í gang, en stöðvaðist aftur eftir svo sem hálfa mínútu, eða áður en hún var farin að dæla nokkrum sjó á eldinn. Kom í ljós, að hún var benzínlaus. Hin dælan fékkst alls ekki í gang, og orsökin var einnig benzínlaus.

Þegar blaðið hafði samband við Siglufjörð í vikunni, fór tvennum sögum af því, hvort heldur hefði valdið því, að bifreiðin fór ekki í gang, skortur rafstraums eða benzíns. Eftir að bifreiðin loks kom á vettvang gekk greiðlega að ráða niðurlögum eldsins, en vegna þess, hve löng bið varð á, að slökkvistarfið hæfist urðu verulegar skemmdir á skipinu og tækjum þess. Mun viðgerð þess taka nokkrar vikur.

Bæjarráð Siglufjarðar skipaði í vikunni sérstaka rannsóknarnefnd til að kanna ástæður til þess, að tæki slökkviliðsins voru ekki í nothæfu ástandi, þegar til þeirra þurfti að grípa í þessu tilfelli. Þykir Siglfirðingum alleinkennilegt, að svo skyldi vera, þar sem sérstakur maður er ráðinn til þess að starfa þrjá tíma á dag að eftirliti með tækjum og viðgerð- um á þeim, og hann hefur ennfremur heimild til að vinna lengur að þessu, ef svo stendur á, að þess sé þörf. 

Ath. sk 2017: Það „broslega“ við þetta mál, er að aðeins um 200-300 metrar voru frá slökkvistöðinni til skipsins sem var að brenna.

------------------------------------------------  

Morgunblaðið 25 janúar 1961

Nær 400 þúsund króna brunatjóntjón

SIGLUFIRÐI, 23. jan. — Eins og skýrt var frá í fréttum um daginn, kom upp eldur í vélskipinu Ingvar Guðjónsson hér í Siglufjarðarhöfn á þriðjudaginn var. Vitað var að skemmdir urðu miklar á yfirbyggingu skipsins.

Nú hafa þessar skemmdir verið kannaðar og brunatjónið allt metið til fjár. Urðu matsmenn sammála um að brunatjónið væri metið á 357 þúsund krónur. 

Í ljós kom að öll hin dýru siglinga- og öryggistæki skipsins ýmist eyðilögðust eða stórskemmdust, en sem fyrr segir var eldurinn í yfirbyggingu; stjórnpalli, kortaklefa og íbúð skipstjóra. — Guðjón