Gunnar Salómonsson (oft nefndur Gunnar Úrsus)

Þarna er Gunnar í einu af atriðum sínum. Þrír menn á hvorum enda og togað af krafti. Hann setti hökuna niður að bringu og minnkaði með því áhættuna á að um háls hans þrengdi. -Mynd frá Morgunblaðinu

Íslenskur  aflraunarmaður og sýningarmaður aflrauna á Íslandi og víða erlendis.

Árið 1957 var hann  á ferðalagi umhverfis landið og sýndi listir sínar á sviði samkomuhúsa. Hann kom einnig á Siglufjörð þar sem mikils gróða var von í formi sölu aðgöngumiða, sem og rættist þar sem húsfyllir var í nokkur skipti. 

Ég var einn af þeim sem sat á fremsta bekk á fyrstu sýningu og fylgdist vel með sem ekki er í frásögu færandi. En daginn eftir kom Gunnar í Veiðarfæraverslun Sig Fanndal þar sem ég var innanbúðarmaður við afgreiðslu. 

Erindið var að honum vantaði kaðal, mjúkan kaðal. Hann sagði að í einu atriðanna þar sem  var lykkju brugðið um háls hans og þrem fílhraustum mönnum raðað á hvorn enda, hann héldi einnig um kaðalinn til að byrja með til gera sig kláran fyrir átökin áður en hann sleppti kaðlinum og sexmenningarnir toguðu svo af fullum krafti. 

Hann sagði að þessir karlmenn (þar voru minnir mig Helgi Sveins, Alli king kong, Þórir Konráðs á meðal)  hefðu verið aðeins sterkari en hann hefði gert ráð fyrir, því  kaðallinn hefði sært hann á hálsi, hann sagði kaðalinn vera of hrjúfan og að sig vantaði mjúkan kaðal af sama sverleika. 

Ég fór með kappann í næsta hús þar sem kaðalgeymslan var og sýndi honum úrvalið. Hann fékk fljótlega augastað á kaðalrúllu sem innihélt 20mm sísalkaðal með mjúka áferð og grænan blæ þar sem kaðlinum hafði af framleiðanda verið dýpt ofan í grænt fúavarnarefni, sem þá var nokkuð algengt.

Þá kom upp í mér hrekkjafýsn sem lengi hefur „hrjáð mig“ og ég sagði: „Gunnar, þennan kaðal geturðu ekki notað, hann er ekki nógu sterkur“ 

Gunnar horfði á mig undrandi og spurði hvað ég ætti við. Ég endurtók fullyrðingu  mína. Gunnar tók þétting fast um kaðalinn til að prófa þol hans. 

Hann sagði svo.  Ég sé ekki betur en þetta sé alveg tilvalinn spotti.  Ég seildist eftir kaðlinum og hann lét mig fá endann. Áður en hann áttaði sig þá tók ég þéttingsfast um kaðalinn snéri örlítið upp á hann og sleit í sundur. 

Augun ætluðu út úr höfði hans og hann galopnaði munninn en kom ekki upp orði. Hann horfði undrandi á þennan unga mann, mig rúmlega tvítugan horgemling sem sleit kaðal eins og tvinna, kaðal sem hann gat ekki slitið. 

Hvað er í gangi hefur hann ef til vill hugsað og ég fór að skellihlæja af undrun hans og því hvað hrekkurinn tókst vel, en ég fékk svo eftirþanka, þetta var ekki góð hegðun afgreiðslumanns sem átti að gera allt fyrir kúnnann. 

Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að segja honum sannleikann, þegar Gunnar tók aftur á af öllu afli í kaðalinn án þess að geta slitið hann. 

Hann leit á mig vandræðalegur  á svip og spurði hvernig ég hefði farið að þessu, greinilega farinn að huga að því að hann gæti ef til vill lært af mér trikk. 

Þá sagði ég honum sannleikann með bros á vör. Þessi kaðalrúlla hafði árin áður verið í slæmri geymslu í gömlu netastöðinni og þar legið í vatni að hluta þar sem rúllan stóð á „belgnum“ óátekin. Þrátt fyrir fúavörnina, hafði sá hluti hennar, hver hringur fúnað svo að örlítið bar á litamun, en ef tekið var vel á og snúið örlítið upp á nefndan blett þá hrökk kaðallinn í sundur. Þetta hafði ég nokkru áður uppgötvað og sagt mínum yfirboðara frá. 

Þegar Gunnar heyrði sannleikann var ekki  laust við að honum létti og síðan hló hann dátt af öllu saman og fyrirgaf mér hrekkinn. 

Við fundum kaðal sem hann var sáttur við og við kvöddumst með bros á vör og með handabandi yfir búðarborðið, eftir að hann hafði greitt fyrir kaðalinn.

Steingrímur.