Snorri Stefánsson, frumkvöðull
Minning: Snorri Stefánsson íHlíðarhúsi
Fæddur 6. ágúst 1895 Dáinn 23. janúar 1987
Föstudaginn 23. janúar sl. féll í valinn mikill öðlingur, Snorri í Hlíðarhúsi, eins og hann var nefndur í daglegu tali af Siglfirðingum, eftir stutta legu í Sjúkrahúsi Siglufjarðar á 92. aldursári. Snorri var fæddur á Akureyri 6. ágúst 1895. Foreldrar hans voru Stefán Ólafsson sjómaður þar, síðan á Siglufirði, og kona hans, Anna Sigurbjörg Jóhannesdóttir. Hann fluttist með foreldrum sínum til Siglufjarðar 1907 og settist að í Hlíðarhúsi og bjó þar til dauðadags.
Snorri hóf að nema járnsmíði hjá vélaverkfræðingnum Gústav Blomquist 1913, norskum manni, sem kom hingað á vegum Sören Goos til að byggja síldarverksmiðju, svonefnda Goos-verksmiðju eða öðru nafni Rauðku. Hann stundaði það nám í 4 ár, en eftir það vann hann hjá fyrirtækinu sem járnsmiður og vélagæslumaður til haustsins 1920, að undanskildum vetrinum 1916, en þá stundaði hann járnsmíðanám í Stavanger í Noregi.
Haustið 1920 innritaðist Snorri í Vélstjóraskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1922. Hann stundaði vélgæslu á skipum til 1924 en þá réðst hann sem verksmiðjustjóri við síldarverksmiðjur Sören Goos á Siglufirði til ársloka 1933, en þá seldi Goos Siglufjarðarkaupstað verksmiðjurnar Rauðku og Gránu. Hann tók á leigu 1934, ásamt &. Sigurði Kristjánssyni sparisjóðsstjóra, síldarverksmiðjuna Gránu til 10 ára og jafnframt síldarverksmiðjuna Rauðku í félagi við Steindór Hjaltalín útgerðarmann til 3 ára.
Og annaðist Snorri daglegan rekstur þeirra.
Sumarið 1937 hóf Siglufjarðarkaupstaður rekstur verksmiðjunnar Rauðku og var hann
þá ráðinn framkvæmdastjóri hennar og gegndi því starfi til 1963. Hann fékkst auk þess við útgerð fiskiskipa í félagi við aðra um árabil ríkisskoðunarmaður
skipa á Siglufirði var hann frá 1948—1963, hann var skipaður í byggingarnefnd Síldarverksmiðju ríkisins 1945—47, kosinn í sóknarnefnd 1948—63. Formaður Iðnaðarmannafélags
Siglufjarðar var hann um skeið, kosinn í Iðnráð Siglufjarðar, félagi í Búnaðarfélagi Siglufjarðar og Rotaryklúbb Siglufjarðar frá 1938. Heiðursfélagi í
Iðnaðarmannafélagi Siglufjarðar 1961.
Eiginkona Snorra var Sigríður Jónsdóttir frá Stóru-Brekku í Fljótum, síðar á Siglunesi, mikil mannkostakona. Þau gengu
í hjónaband 6. desember 1924.
Einkadóttir þeirra er Anna Snorradóttir, gift Knútur Jónsson skrifstofustjóra, og eiga þau tvö fósturbörn,
- Fjóla og
- Óskar,
og eitt barnabarn, - Önnu Þóru, dóttur Fjólu og unnusta hennar, Jóhanns Ragnarssonar.
Snorri var einn af þessum sérstæðu aldamótamönnum, sem gott var að kynnast og margt mátti læra af. Hann var fjölfróður um allt er snerti síldveiðar og síldarverksmiðjur svo og vélar og búnað er tilheyrði sjávarútveginum. Enda var starfssvið hans meginhluta ævinnar á þeim vettvangi og þar fór maður er menn tóku mark á og var þekktur fyrir samviskusemi og áreiðanleika. Hann var mikill atorkumaður í sér og allar nýjungar á sviði véltækni og verksmiðjurekstrar var hann fljótur að tileinka sér, ef þær voru til hagsbóta.
En Snorri kom víða við. Hann lagði mörgum góðum málum lið, sem voru óskyld hans sérsviði. Óhætt er að segja að framkvæmdastjórastarfið við Rauðku hafi verið honum hugleiknast. Hann lagði allan sinn metnað og kunnáttu í að hafa verksmiðjuna sem hagkvæmasta. Hann breytti °S byggði við, svo að hún var af kunnáttumönnum talin mjög til fyrirmyndar. Þá var og öll afgreiðsla og viðskipti við sjómenn og útgerðarmenn mjög til eftirbreytni en þeir gátu oft verið óþolinmóðir varðandi löndun og fleira. Mikill afli oft á miðum og erfitt að bíða. Þetta þekkja allir er unnið hafa við síldariðnaðinn.
Snorra tókst að komast framhjá öllum slíkum árekstrum, sem oft hentu hjá öðrum verksmiðjum við sjómenn og útgerðarmenn, með sinni einstöku lipurð, réttsýni og stakri ljúfmennsku. Aldrei hallaði hann réttu máli, hver svo sem í hlut átti og reyndi alltaf að miðla málum ef ágreiningur var uppi. Slíkir hæfileikar eru mikill kostur en það orð fór af Snorra að munnleg loforð hans væru sama og skrifleg — gulltryggð.
Aldrei heyrði ég hann hallmæla mönnum. Þó var hann oft í erfiðri aðstöðu vegna starfs síns þar sem ólík sjónarmið komu oft fram. Það er trúlega sjaldgæft að forstjóri fyrirtækis, sem aðrir eiga, leggi nótt við dag þegar vinnsla var í gangi um sumarmánuðina eins og Snorri gerði um langt árabil, þó hann væri þess fullmeðvitaður að þar væri hann að tefla á tæpasta vaðið heilsunnar vegna, en Snorri hafði kennt augnsjúkdóms, sem virtist ágerast og voru næturvökur hættulegar manni með slíkan sjúkdóm.
Svo kom að því, sem hann hafði sjálfsagt lengi óttast, að skyndilega hvarf honum nær öll sjón, þrátt fyrir viðleitni lækna að hefta sjúkdóminn. Getur hver
maður ímyndað sér hvílík ógnarreynsla það hefir verið fyrir mann í umsvifamiklu starfi með óskerta líkams- og sálarkrafta að verða allt í einu umluktur
myrkri þau ár sem hann átti eftir ólifuð, sem urðu 26.
Að vera nær bjargarlaus og mikið upp á aðra kominn, var mikil reynsla fyrir mann sem sjálfsbjargarviðleitnin var í blóð
borin. En Snorri átti fágætan trúarstyrk, sem hjálpaði honum að halda sálarró sinni og sætta sig við orðinn hlut, þó þungbært væri að hverfa frá
starfi sínu og öðru, sem sjáandi maður nýtur daglega.
En Snorri háði ekki einn þessa baráttu, við hlið hans stóð hans elskulega eiginkona, Sigríður, sem hughreysti og talaði kjark í hann og stóð með honum eins og klettur. Reyndi eftir bestu getu að stytta honum stundirnar. Hún fann af eðlisávísun sinni hve gífurleg vonbrigði og viðbrigði það hlytu að vera fyrir maka sinn að koma úr iðandi athafnalífinu og þurfa að setjast að um kyrrt í húsi sínu það sem eftir væri ævinnar.
Sigríður var stillt kona
og ræddi lítt um sínar áhyggjur og vandamál varðandi heilsu bónda síns, hvað þá sína eigin. Og árin liðu. Snorri aðlagaðist smám saman umhverfi sínu
og var nú orðinn sæmilega sjálfbjarga innanhúss, enda þekkti hann þar hvern krók og kima.
Hann hafði það fyrir venju að fara í göngutúr meðfram húsi sínu
tvisvar á dag. Handrið var fest á húsið svo hann gat haldið sér í það. Hann hafði mikla ánægju af þessum göngum og þær efldu þrótt hans og bjartsýni.
Á heimili þeirra hjóna bjuggu tengdaforeldrar mínir frá 1924, ásamt dætrum sínum, Guðbjörgu og Margréti, sem ólust upp með Önnu dóttur þeirra. Þetta sambýli var til mikillar fyrirmyndar. Þar ríkti einstök reglusemi og verkaskipting systranna Sigríðar og Ólafar var aðdáunarverð. Hér skulu færðar þakkir konu minnar og mágkonu fyrir öll þessi ár, þar sem þessar tvær fjölskyldur voru sem ein og þar sem hjálpsemi og eining ríkti. Þann 27. desember 1972 dró ský fyrir sólu. Þá andaðist Sigríður kona Snorra eftir stutta legu í Sjúkrahúsi Siglufjarðar.
Var það mikill og sár missir fyrir hann eftir 48 ára sambúð. En Snorri stóð af sér þessa raun með trúna á Guð að leiðarljósi. Eftir lát Sigríðar tók Ólöf að sér að annast heimilið með hjálp Önnu dóttur hans. Var reynt að halda heimilinu í því horfi sem það hafði verið. Eftir lát Ólafar 15. október 1980 önnuðust dóttir hans og tengdasonur hann af mikilli alúð og ræktarsemi. Við hjónin og börnin okkar áttum margar ógleymanlegar stundir í Hlíðarhúsi. Þegar fjölskyldurnar báðar voru þar samankomnar var oft glatt á hjalla. Húsið hlýlegt og einhver sérstök stemmning í því sem orkaði á mann og manni leið vel.
Snorri var með afbrigðum barngóður og það var stundum broslegt að sjá börnin okkar kjaga upp stíginn að Hlíðarhúsi til að hitta ömmu sína, frænku Sigríði og Snorra, misjafnlega fljót í förum en með vissu um það þegar áfanga væri náð að eitthvað góðgæti stæði til boða og að Snorri lét ekki standa á sér, seilst var í sælgætið og því útbýtt. Þegar svo börnin uxu úr grasi varð sælgætið ekki aðalatriðið, heldur væntumþykjan. Hann kærði sig ekki um vegtyllur pólitískar sem stóðu honum vissulega til boða. Hann var reglumaður í hvívetna og eignaðist fjölda vina gegnum starf sitt.
Enginn hávaðamaður, frekar hlédrægur en fastur fyrir. Góðir vinir hans heimsóttu hann reglulega í áraraðir og var hann þeim mjög þakklátur. Nú er þessi elskulegi maður horfinn á vit feðra sinna í öruggri vissu um endurfundi við ástvini sína. Hann kveið ekki dauðanum, til þess var trú hans of sterk, það hefir trúlega verið honum fagnaðarefni að endalokin voru í aðsigi þegar árin voru orðin þetta mörg. Við hjónin, börn okkar og fjölskyldur þeirra þökkum órjúfanlega vináttu gegnum árin.
Guð blessi minningu hans. Óli J. Blöndal
------------------------------------------------------
Góður vinur á Siglufirði er látinn,
Snorri Stefánsson í Hlíðarhúsi. Margar minningar koma í hugann nú þegar Snorri hefur kvatt. Við höfum þekkst í liðlega þrjátíu ár. Ég var oft á
sumrin hjá Önnu dóttur hans og frænda mínum Knúti, kynntist ég þá þeim sæmdar hjónum Snorra og Sigríði.
Það var einkar ánægjulegt og notalegt
fyrir ungan dreng. Snorri var í áratugi framkvæmdastjóri Rauðku á Siglufirði. Rak hann það fyrirtæki með, fádæma dugnaði og lagði oft nótt við dag þegar mikið
lá við. Snorri varð fyrir þeirri miklu raun að missa sjónina rúmlega sextugur. Þetta hlýtur að hafa verið þungbært manni með slíka starfsorku og brennandi áhuga.
Snorri var alla tíð mikil áhugamaður um fiskveiðar og sjávarútveg. Það var athyglisvert hvað hann fylgdist vel með öllu sem var að gerast í þeim efnum og reyndar fleirum, eftir að hann varð blindur. Þessum fróðleik miðlaði hann óspart til vina og kunningja. Sem ungur maður varð ég margs fróðari þær fjölmörgu stundir, sem við sátum saman í Hlíðarhúsi og spjölluðum saman. Minnisstætt er mér, að þessar stundir var baukurinn góði með brjóstsykri og fleiru góðgæti oft á lofti. Gestkvæmt var hjá Snorra og Sigríði. Vinir komu til að spjalla og þáðu rausnarlegar veitingar.
Eftir lát Sigríðar konu Snorra, hélt Anna einkadóttir þeirra hjóna föður
sínum heimili í Hlíðarhúsi af miklum myndarskap. Anna, Knútur og börnin voru ávallt nærstödd til að stytta honum stundir og aðstoða í amstri daganna. Snorri Stefánsson
andaðist í sjúkrahúsi Siglufjarðar 23. þ.m. eftir stutta legu þar. Hann var á 92. aldursári. Verður hann jarðsunginn í dag frá sóknarkirkju sinni á Siglufirði. Hér
kveð ég Snorra með söknuði og þakklæti fyrir góð kynni. Kær vinur er genginn yfir móðuna miklu. Ég og fjölskylda mín vottum Önnu, Knúti og börnunum þeirra
okkar dýpstu samúð.
Gísli Jón
-----------------------------------------------------
Hann Snorri í Hlíðarhúsi hefur nú lokið göngu sinni. Hann er kominn yfir landamæri lífs og dauða, inn í eilífðina. Þrautum hans hefur linnt og hann fær að leggjast til hinstu hvíldar við hlið eiginkonu sinnar, Sigríðar Jónsdóttur. Þær minningar sem standa mér hvað skýrast fyrir hugskotssjónum eru frá þeim árum þegar ég sem barn fór með föður mínum á hverjum sunnudegi í Hlíðarhús. Það var sama hvaða veður var, hve snjóskaflarnir voru háir. Ég gekk í vari við pabba, við urðum að gleðja Snorra, hann vænti okkar. í Hlíðarhúsi greip mig sama tilfinning og í kirkju.
Ég fann fyrir hátíðleik, virðing mín var líka mikil fyrir þeim hjónum. Snorri leit mig aldrei augum, hann missti sjón sína áður en ég fæddist. Hann þekkti rödd mína og hug. Við héldum ávallt sambandi þótt ég flyttist suður. Síðast kom ég til Snorra í sumar. Ég varð vör við breytingu. Hann var farinn að þrá önnur heimkynni.
- Hversu yndislegir eru bústaðir þínir
- Drottinn hersveitanna.
- Sálu mína langaði til, já hún þráði
- forgarða Drottins.
- Jafnvel fuglinn hefur fundið hús
- og svalan á sér hreiður,
- þar sem hún leggur unga sína.
- Sælir eru þeir menn, sem finna
- styrkleika hjá þér.
- Þótt þeir fari gegnum táradalinn,
- breytir hann honum í vatnslindir,
- og haustregnið hylur hann blessun.
(84. Davíðssálmur 2.-7. vers.)
Snorri vildi alla tíð bjarga sér sjálfur, þrátt fyrir fötlun sína. Síðustu árin bjó hann einn í Hlíðarhúsi. Hann var svo lánsamur
að eiga Önnu dóttur sína að. Daglega færði hún honum mat og hlýju. Verk hennar verða ekki metin í jarðneskum gæðum. Nú er án efa dauflegt að líta yfir í
Hlíðarhús án pabba og þess ljóss sem hann bar með sér. Ég og fjölskylda mín vottum þér Anna, fjölskyldu þinni og öðrum vandamönnum samúð okkar.
Guð styrki ykkur og verndi.
Blessuð veri minning Snorra Stefánssonar.
Sigríður Jónsdóttir
---------------------------------------------------------
Snorri Stefánsson.
Mér finnst að sumum þeim sem lifðu og áttu stóran í síldarævintýrinu, jafn vel frá „upphafi,“ hafi ekki verið gert nógu hátt undir höfði, í kynningum þeim, sem fylkt hefur þeirri þróun að minnast hinna gömlu góðu daga. Einn af þeim sem mikið bar á og ekki af ástæðulausu í þessu mikla ævintýri, hét Snorri Stefánsson.
Ég vil hér með nokkrum línum minnast þessa merka manns, Snorra Stefánssonar verksmiðjustjóra og síðar framkvæmdastjóra Síldarverksmiðjunnar
Rauðku. Snorri Stefánsson fæddist á Akureyri 6. ágúst 1895 og lést 23. janúar 1987 – Stefán Ólafsson faðir hans fór á litlum árabát undir seglum frá
Akureyri áleiðis til Siglufjarðar.
Með honum í för var sonur hans Snorri, þá 11 ára gamall.
Til Siglufjarðar komu þeir eftir sjö daga hrakningar. Móðir Snorra, Anna
Sigurbjörg Jóhannesdóttir og systir höfðu fengið far með norsku skipi til Siglufjarðar, en þau hjón höfðu ákveðið að hefja búsetu á Siglufirði. Mikið atvinnuleysi
var á þessum tíma á Akureyri.
Þetta sumar fór Snorri að vinna við síldarsöltun með móður sinni, hjá Bakkevig. Fyrsta sumarið bjó fjölskyldan í einu herbergi undir súð, en næsta vor fluttu þau búslóð sína til Siglufjarðar. Faðir Snorra hafði fest kaup á litlu húsi, Hlíðarhús og borguðu þau 700 krónur fyrir það. Aðeins tvær hliðar þess voru úr timbri, en hinar hlaðnar úr torfi og grjóti. Húsið hafði verið byggt árið 1898.
Snorri fékk snemma áhuga á öllu sem snéri að vélum, og árið 1913 hóf Snorri nám í járnsmíði hjá Gustav Blomquist, sem hingað kom frá Noregi til að byggja síldarverksmiðju, sem var Goos verksmiðjan og vann Snorri við byggingu hennar. Að loknu námi árið 1916 fór hann til Noregs, undir verndarvegg Blomquist og stundaði þar iðn sína, en árið 920 innritaðist hann í Vélstjóraskóla Íslands og lauk þar prófi árið 1922.
Hann stundaði sjóinn sem vélstjóri á togara og flutningaskipi til ársins 1924, eða þar til hann tók við verkstjórn og síðar verksmiðjustjórn verksmiðjanna. En árið 1933 keypti Siglufjarðarkaupstaður síldarverksmiðjurnar Rauðku og Gránu. Árið 1934 tók Snorri í félagi við aðra, verksmiðjurnar á leigu (Rauðku og Gránu) og stjórnaði rekstri þeirra næstu árin.
Sumarið 1937 tók Siglufjarðarbær aftur við rekstri Rauðku og var Snorri ráðinn framkvæmdastjóri hennar. Árið 1945 var Rauðka endurbyggð með fimmföldum afköstum, einnig undir stjórn Snorra.
Það er óhætt að segja, af öðrum ólöstuðum að enginn Siglfirðingur (hann leit sjálfur svo á að hann væri Siglfirðingur, þó svo að hann væri fæddur ná Akureyri) hefur öðlast jafn mikla reynslu á síldarbræðslu, lýsisbræðslu, of síldarverksmiðjurekstri en Snorri Stefánsson.
Hann byrjaði sem unglingur að fást við vélar, og á ferli sínum sem verksmiðjustjóri, þróaði hann ýmsan búnað við verksmiðju sína Rauðku, sem og aðrar verksmiðjur, á Siglufirði og víðar tóku upp eftir honum síðar.
Snorri var oftast kallaður „Snorri í Rauðku“ og allir þekktu hann undir því nafni, hvar á landinu sem var, ef viðkomandi kom á einhvern hátt í tengsl við síld eða síldarvinnslu.
Snorri var framkvæmdastjóri Rauðku allt til þess tíma er hann varð að hætta störfum vegna heilsubrests, en hann varð fyrir þeirri þungu raun að missa sjónina vegna gláku. Sá sjúkdómur var honum ættgengur.
Að öðru leiti var Snorri við nokkuð góða heilsu og vel ern.
Auk verksmiðjustarfa sinna, gaf hann sér tíma til hinna ýmsu starfa fyrir bæjarfélagið. Hann átti aðild af ýmsum hlutafélögum og rekstri.
Ég varð þeirra ánægju aðnjótandi að kynnast Snorra persónulega, bæði sem unglingur þegar ég var að innheimta ýmsa reikninga vegna síldarskipa og fleira sem Snorri þjónustaði fyrir útgerðir víða um land, skipa sem lönduðu síld hjá Rauðku og fleira.
Þegar ég átti síðast samtal við Snorra, þá sat hann í grasflötinni norðan við girðingunni sem var umhverfis hús hans Hlíðarhús árið 1976, þar sem hann bjó, þá fyrir nokkuð löngu orðinn blindur. Venjulega sat hann í garðinum sunnan hússins og naut sólar þar er hennar naut.
En þarna sat hann vegna óvenjulegs vélaglamur sem hann hafði numið, vélahljóð sem vakti forvitni hans sem manns sem þekkti flest vélahljóð. Hann var að velta fyrir sér hvaða vélahljóð þetta væru, en hann hafði numið nokkur vélahljóð sem komu neðar frá hlíðinni. Hann hafði velt vöngum yfir en þekkti ekki. Hús Snorra er efsta hús í hlíðinni, nokkuð afsíðis.
Ég var á þessum tíma kranamaður og var við vinnu mína þaðan sem hljóðin komu, hljóðin sem Snorri hafi numið og ekki þekkt. En hljóðin komu frá, við grunnbyggingu á nýju húsi nokkru neðar þar sem Krani minn, dráttarvélagrafa, steypuhrærivél og „víbrator“ komu frá. Gert hafði verið smá hlé á vinnunni og ég sem hafði veitt Snorra athygli þar sem hann sat, gekk uppeftir til hans og tók hann tali.
Ég sagði honum aðspurður, hvaða hljóð þetta hefðu verið og hvað verið væri að gera tengt þeim. Þarna töluðum við um daginn og vegin. Snorri spurði mikils, og greinilegt var að hann var vel að sér og sáttur við tilveruna, svo langt sem það náði vegna blindunnar. Hann lék á alls oddi með bros á vör. Það var greinilegt að hann hafði ánægju af upprifjun á fyrri kynnum, en faðir minn og hann þekktust vel.
Steingrímur Kristinsson.
Heimildir: Persónuleg kynni og bókin Saga úr Síldarfirði, höfundur Örlygur Kristfinnson.
og skólaverkefni Óskars Einarssonar.