Gísli Halldórsson verkfræðingur

Gísli Halldórsson verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins.

Hann var vissulega umdeildur maður, ekki endilega á meðal starfsmanna SR þó, heldur voru það pólitískir allsherjargoðar sem á hann herjuðu.
Ekki þekkti ég Gísla persónulega, enda aðeins eins árs þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri, en sumir gömlu karlarnir, starfsmenn SR dáðu þennan mann, þvert á pólitískar skoðanir þeirra.
Þar má nefna Hall Garibaldason sem sagði mér margar sögur af Gísla og sagðist hann ekki hafa alltaf verið sammála sumum flokkssystkinum sínum „utan lóðar“ þar með skrifum í Mjölni málgagni kommúnista, eða hvað þeir nefndu sig í þá daga.

Hallur Garibalda sagði mér ma. einnig frá einu umtalastaða þrætuepli pólitíkusanna hvað Gísla varðaði, það er byggingin „Síbería“ sem Gísli hannaði og lét byggja árið 1937 

Húsið var ein risastór síldarþró sem allir vildu að yrði byggð en flestir voru með hugmyndir um þrær eins og þær sem fyrir voru, en Gísli var framsýnn maður og vildi byggja þró þar sem sólskin næði ekki til að skemma hráefnið eins og oft hafði skeð. Þar fyrir utan ætlaði hann nota nýja aðferð til að varðveita síldina sem best og ná þannig góðum afurðum, mjöl og lýsi úr hráefninu. 

Síðari hluti áætlunarinnar tókst meið einstökum árangri, að vissu marki þó. Hann lét blanda saman ís og salti sem sérstakur búnaður blandaði og blés síðan blöndunni yfir hráefnið á leið sinni í þrærnar. 

Tveggja mánaða gamalt hráefnið þegar það loks að hausti, var það sem ferskt þegar það fór til bræðslurnar og sagði Hallur mér að aldrei hefði gengið jafn vel og hnökralaust að vinna hráefni eins og úr þessari Síberíusíld. 

Þess skal þó getið að óvæntir byrjunarörðuleikar áttu sér stað þegar byrjað varað opna gáttir þróarinnar þá höfðu þeir sem stjórnuðu því verki ekki undan að mata verksmiðjuna vegna þess að síldin var of þurr og rann því ekki af sjálfdáðum eins og gert hafði verið ráð fyrir. Það þurfti því meiri mannskap en venjulega til að lempa síldina. Eftir það fór allt af stað.

En Síbería og Síberíusíld nafngiftin varð einmitt til vegna meintra mistaka við hönnun mannvirkisins. Ástæðan var í raun einföld. 

Verkfræðingurinn gerði ekki ráð fyrir að síldin yrði eins þétt og fersk við geymsluna sem raun var vitni. Venjulega í hinum hefðbundnu þróm rann síldin vel blönduð sjó og blóðvatni, ljúflega eftir rennum þeim sem síldinni var beint hverju sinni. Sjórinn og blóðvatnið endaði svo að lokum í sjónum á þessum tíma. 

En eftir tveggja mánaða geymslu í Síberíu var síldin með öllu laus við blóðvatnið og varð nánast nær frosin og í þéttum massa og þar af leiðandi þurfti að handmoka síldinni í og úr rennum til þróardragaranna. 

Þetta var þrælavinna sagði Hallur mér, en hann lenti í þessu verki ásamt mörgum öðrum og einhver hafði orð á því að þetta væri eins og í þrælabúðunum í Síberíu Rússlands, sem var til og á flestra vitorði sem það vildu viðurkenna.  

Eins og fyrr er nefnt hér, þá voru það pólitískir allsherjargoðar sem börðust um völdin hjá SR sem voru friðarspillarnir. Þar var framsóknarkólfurinn Þormóður Eyjólfsson fremstur í flokki á meðal „jafningja“ í baráttunni um völdin. 

Völd sem gerðu honum að lokum kleift að reka manninn sem hann greinilega hataði, (ef miðað sé við skrif hans) Gísla Halldórsson úr starfi með aðstoð sjálfstæðismanna seinnipart ársins 1938. Og það broslega við þennan brottrekstur var að höfuð ástæðan sögð vera sú að Gísli hefði gert alvarleg mistök við hönnun Síberíu, og bruðlað að óþörfu miklum fjármunum í kaup á 80 tonnum af steypustyrktarstáli sem hann hefði komið fyrir í byggingunni, nokkuð sem engum nema Gísla hefði dottið í hug að gera. 

Gísli sem var jú verkfræðingur sem vissi meira um hönnun og styrkleikaþörf en þessir forkólfar sem báru lítið skin á annað en völd og peninga. 

Það má lesa ýmislegt fleira sem lýsir vel þessum málarekstri frá því að Síldarverksmiðjur ríkisins voru reistar. Saga sem oft og tíðum var bæði brosleg og sorgleg fyrstu áratugina. Smelltu á „Mjöl og LýsisSaga“ hér > http://www.sk2102.com/436757614   Síðan eftir skoðun forsíðu: Færðu bendil á tengilinn: More ≡  Ofarlega til hægri og finndu „Mjöl og LýsisSaga“

Frásögn: Steingrímur: -- Nokkrar myndir hér, tengt Gísla

--ooOoo--     

Hér fyrir neðan eru nokkrar fleiri upplýsingar sem skrifaðar hafa verið í blöð frá árunum 1934 og síðar.

Alþýðublaðið 6. Nóvember 1935  

Gísli Halldórsson vélaverkfræðingur ráðinn framkvæmdarstjóri Síldarverksmiðja ríkisins 

Jóni Gunnarssyni hefir verið sagt upp starfi.

STJÓRN Síldarverksmiðja ríkisins ákvað á fundi í gærkveldi að segja Jóni Gunnarssyni, sem verið hefir framkvæmdastjóri verksmiðjanna á þessu ári, upp starfi 

Á sama fundi ákvað verksmiðjustjórnin að ráða Gísla Halldórsson vélaverkfræðing sem framkvæmdastjóra síldarverksmiðjanna. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins er öll stödd héjr í bænum og heldur fundi hér, en í henni eru Jón Sigurðsson erindreki, Páll Þorbjarnarson alþingismaður, Sveinn Benediktsson, Þormóður Eyjólfsson og Jón Þórðarson. 

Á fundum sínum hér mun stjórnin einnig taka fleiri þýðingarmiklar ákvarðanir. Gísli Halldórsson vélaverkfræðingur er ungur maður og duglegur. Stutt er síðan hann útskrifaðist, en hann hefir þegar vakið mikla athygli á sér fyrir framúrskarandi dugnað og ýmsar verkfræðilegar nýjungar, sem hann hefur komið fram með. Hafa greinar hans hér í blaðinu um hveravirkjun til dæmis vakið geysimikla athygli. 

Gísli Halldórsson hefir, síðan hann kom heim að námi loknu, leyst mjög þýðingarmikil verkfræðistörf af höndum og aflað sér mikils trausts með þeim. 

Má vænta hins bezta af þessum unga, áhugasama og duglega verkfræðingi, sem nú hefir verið falið að veita forstöðu stærsta fyrirtækinu í landinu. -__________________________________________

Neisti, 9. nóvember 1935
Ríkisverksmiðjudeilan.

Framkvæmdastjóra ríkisverksmiðjanna, Jóni Gunnarssyni, hefir verið sagt upp startinu frá 1. mars n. k., og Gísli Halldórsson, vélaverkfræðingur - ráðinn eftirmaður hans frá 1, janúar n. k. að telja.

 Undanfarið hefir mikið verið rætt í bænum um burtför Jóns Gunnarssonar frá ríkisverksmiðjunum og hin ýmsu atriði í sambandi við það.

Það var orðið ákveðið af hálfu verkamannafélagsins "Þróttur", að gera þetta ekki að opinberu máli, og mun síðar bent á hvers vegna.

En framkoma Þormóðs Eyjólfssonar nú síðustu daga, ásamt samtali hans við Nýja dagblaðið, gerir það að verkum, að um einstök atriði þessa máls verður nú ekki þagað lengur, heldur munu nú rædd hér þau atriði þessu viðvíkjandi, er máli skipta, frá hagsmunasjónarhól verkalýðssamtakanna og heildarinnar séð. 

Aðdragandi málsins.

Þegar vinna hófst í vor og síldardriftin byrjaði í sumar, varð ýmisleg framkoma Jóns G. til að auka á óánægju verkamannanna.

Einstök tilfelli, sem að þessu sinni er ekki ástæða til að tilgreina sér staklega, sköpuðu megna andúð velflestra verkamanna við ríkisverksmiðjurnar, gegn honum .

Daglega heyrðust óánægjuorð, bituryrði og jafnvel illyrði útaf framkomu mannsins,

En síldardriftinni lauk án stórslysa. - Svo kom karfavinnslan. -

þá er það sem Jón G. 7. september, án þess að hafa fyrst borið það undir verksmiðjustjórnina, skrifar verkamannafélaginu "Þróttur" eftirfarandi bréf:

 Siglufirði 7. september 1935

Stjórn verkamannafélagsins "Þróttur", Siglufirði.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefir ákveðið að láta byrja vinnslu á karfa í S.R.N. verksmiðjunni. Þar sem hér er um tilraun að ræða, sem getur orðið, ef vel heppnast, til geysilega mikilla atvinnuaukningar fyrir Siglufjörð, og það einmilt á þeim tíma, þegar lítið er um atvinnu, vill stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fara þess á leit við stjórn verkamannafélagsins "Þróttur" að slakað verði til á hinum almennu kaupkröfum við vinnslu karfans, meðan á þessari tilraun stendur.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins mælist því til, að kaup karlmanna verði kr. 1,10 á tímenn, kaup kvenfólks kr. 1,00 á tímann og öll eftirvinna falli burtu.

Sérstaklega er það þýðingarmikið, að eftirvinnan sé engin á hvaða tíma sem unnið er, því það borgar sig ef til vill ekki að taka lifrina úr karfa með kr. 2,00 tímakaupi, en það er nauðsynlegt að taka lifrina eins fljótt og unnt er úr karfanum, því hún skemmist mjög fljótt, ef hún liggur i fiskinum og fellur þá í verði.

Svar við þessu óskast í dag.

Virðingarfyllst pr. pr. Síldarverksmiðjur ríkisins

J. Gunnarsson.

 Þessu bréfi svaraði verkamannafélagið "þróttur" á þá leið, að það:

"Í fyrstalagi réði ekki kaupi kvenna, og í öðru lagi, að það gæti ekki gengið að framkomnum kaupgjaldstillögum karla."

----------------------------------

 10. september er svo stjórn og kauptaxtanefnd "Þróttar" boðuð á fund ríkisverksmiðjustjórnarinnar og Jóns Gunnarssonar.

Á þeim fundi lögðu Þormóður og Jón G., með tilstyrk Jóns Þórðar, hvor öðrum fastar, að "Þróttar" mönnum um það, að þeir berðust fyrir því innan félagsins ("Þróttar"), að samþykkt yrði að vinna gegnumsneitt fyrir gildandi dagvinnutaxta, á hvorum einstökum tíma, á meðan á karfavinnslunni stæði.

En ef slík samþykkt fengist ekki, þá yrði lifrin ekki tekin úr karfanum, en það væri einmilt sá liðurinn, sem skapaði mesta vinnu við karfavinnsluna.

Þá bentu fulltrúar verkalýðsins, á að lifrina yrðu verksmiðjunnar alltaf að taka úr karfanum. því að annars þverbrytu þeir grundvallaratriði þess, að karfavinnslan var reynd hér.

En af öllum er hlut áttu að máli, um að karfavinnslan var reynd hér, var því haldið fram, að fyrst og fremst væri þetta gjört til þess, að auka atvinnu og bæta afkomu alls almennings vegna atvinnubrestsins i sumar.

Þá bentu þeir á það, að yrði lifrin ekki tekin, þá missti landið. sem heild, gjaldeyri, sem því myndi fyllilega ekki af veita, í því árferði sem nú væri.

Að lokum sýndu þeir fram á það, að ef lifrin yrði ekki tekin úr karfanum, þá misstu Ríkisverksmiðjurnar af þeim tveim þúsund krónum, er Hafnarsjóður Siglufjarðar væri búinn að lofa að styrkja karfavinnsluna með, gegn því ákveðna skilyrði, að farið yrði a, m. k. innan í allan stærri karfann.

Þessu svöruðu þeir J. G. og P. E. litlu, nema þegar síðasta athugasemdin kom fram, þá sagði J. G.: "Haldið þið að þessar tvö þúsund krónur verði nokkur svipa á okkur?"

Að þessum ummælum mun síðar vikið.

Endalok þessa fundar urðu svo þau, að þegar útséð var um, að verksmiðjustjórnin ætlaði enga tillögu að koma með til samkomulags, þá varpaði einu fulltrúi Þróttar því fram:

Hvort verksmiðjustjórnin vildi ganga að því, að fengnu samþykki verkamannafélagsins "Þróttur", að unnið yrði gegnumsneitt fyrir kr, 1,50 alla virka daga vikunnar.

Eftir mikið þref sendi íhaldsmeirihluti verksmiðjustjórnarinnar, V.M.F.P. tilboð um að greiða 1,45.

Þegar nú þetta kom svo fyrir fund í V.M.P.Þ., þá var tillagan um kr, 1,45 felld, en samþykkt að ganga að kr. 1,50. -

Þetta var bréflega tilkynnt verksmiðjustjórninni 11, september. En J.G. svaraði svo viku síðar, 18. september, að verksmiðjurnar sæju sér ekki fært að ganga að samþykkt verkamannafélagsins "Þróttar" um kr. 1.50, en aftur stæði tilboðið frá verksmiðjustjórninni um kr. 1.45 ennþá.

Hér er rétt að benda á það, að afturhaldið í verksmiðjustjórn, ásamt Jóni Gunnarssyni, sá sér ekki fært að hækka kaupið um 5 aura á tímann, en vildi heldur eiga á hættu, að missa 2 þúsund krónurnar frá Hafnarsjóði, þó var það vitanlegt, að kauphækkunin gat aldrei numið slíku.

21. september kom svo áskorun frá 5 bæjarfulltrúum, ásamt Erlendi Þorsteinssyni, settum bæjarfógeta, til verkamannafélagsins "Þróttur" um að reyna ennþá að ná samkomulagi í karfadeilunni.

Og það sama kvöld samþykkti stjórn og kauptaxtanefnd verkamannafélagsins "Þróttur" að láta það afskiptalaust þó að unnið yrði fyrir kr. 1.50 gegnumsneitt, ef menn óskuðu að vinna þannig.

Nú varð reyndin sú, að mikill meirihluti allra verkamanna í bænum óskuðu þess að vinna fyrir kr. 1.50 gegnumsneitt, og það réði úrslitum þess, að 26. september gengu þeir Kristján Sigurðsson og Guðberg Kristinsson, fyrir hönd verkamannafélagsins "Þróttur" að svohljóðandi tilboði frá ríkisverksmiðjunum:

Siglufirði, 26. september 1935.

"Verkamannafélagið "Þróttur Siglufirði"

Bjóðumst til að greiða öllum karlmönnum, sem vinna við að fara innan í karfann, kr.1,50 á klukkustund jafnt að nóttu sem degi,  helgidagar meðtaldir.

Mönnum, sem vinna við bræðslu karfans, sé greitt kr. 1,50 á klst. sex virka daga og nætur, en á helgidögum sé ekki unnið.

Þetta gildir einungis meðan á vinnslu karfans stendur á þessu ári. - Þetta gildir um alla algenga verkamenn, en hlutfallslega verður kyndurum og þróarmönnum greitt hærra, eins og venja hefir verið

Virðingarfyllst pr.pr. Síldarverksmiðjur ríkisins

J.Gunnarsson   (sign.)

 Svikin.

Þegar nú þetta samkomulag náðist, þá gengu allir forvígismenn verkalýðs samtakanna og verkalýðurinn að því sem gefnu, að nú væri tryggt:

Í fyrsta lagi, að lifrin yrði tekin úr öllum þeim karfa, sem hún væri óskemmd í, og í öðru lagi, að greitt yrði með kr. 1,50 fyrir alla þá vinnu, er karfavinnslunni væri áhrærandi.

Enda var um þetta talað, og svo sjálfsagt þótti það, að engir skriflegir samningar voru um það gerðir.

En nú kemur önnur hlið þessa máls. Því að svo tregt, sem afturhaldið í ríkisverksmiðjunum var til samkomulags, þá varð það ennþá tregara, að halda það samkomulag, sem náðist. Og skal nú bent á það.

2. október um kl. 7 síðdegis var byrjað að skipa upp karfa úr togaranum "Gulltoppi", sem lá við Hafnarbryggjuna og var karfinn fluttur á bílum.

Þennan dug var versta veður, stormur og úrkoma. Þrátt fyrir það óskaði fjöldi fólks þess að fá að vinna að lifrartöku úr karfanum. Mun knýjandi þörf fólksins fyrir daglegum lífsnauðsynjum hér hafa ráðið.

Allir vita um ástandið sem var og er, Þetta tilkynnti Vinnumiðlunar skrifstofan Jóni G. áður en byrjað var að skipa upp og óskaði þess, að unnið yrði, en hann sagði vera búið að ákveða það, að ekki yrði unnið við lifrartöku úr þeim karfa, sem tekin yrði úr "Gulltopp" af bílum frá Hafnarbryggjunni.

Þá sneri skrifstofan sér til Jóns Sigurðssonar, sem strax fór að vinna að því, að unnið yrði, að lifrartökunni. Ennfremur sagði Jón Þórðar að skilyrðislaust ætti að vinna, ef fólkið fengist til þess.

En Þormóður sagði: Ég vil láta Jón G. ráða þessu".

Kl. 8 var komið sæmilega gott veður, þá hringdi form. verkamannafélagsins "Þróttar", Kristján Sigurðsson, til J. G. og vildi fá hann til að láta vinna að lifrartökunni, en hjá J. G. varð engu um þokað.

Hans vilji réði hér gegn hagsmunum verkalýðsins og ofaní vilja meirihluta Ríkisverksmiðjustjórnarinnar.

Kl. milli 8 og 9 um kvöldið kom J. G, niður á ríkisverksmiðjubryggju og þá var komið ágætt veður.

Þá spyr Guðmundur Sigurðsson, J. G. hvort ekki eigi að vinna að lifrartöku um nóttina, kveður J. G. nei við, nema því aðeins að hægt sé að laka togarana upp að Ríkisbryggjunum.

Þessa nótt var skipað upp ca. 100 tonnum af karfa og allur látinn beint í þró,

Á þessu tapaði verkafólk bæjarins um 500 króna vinnulaunum.

Verkamannafélagið Þróttur samþykkti því 2. október, að krefjast 500 króna skaðabóta fyrir samningssvik. Að þessu hló J. G. mikið og gerði óspurt grín að. En nú er hann hættur slíku, því að 7. nóvember  s.l, samþykkti verksmiðjustjórnin með 4 atkvæðum gegn 1, að greiða téðar skaðabætur.

Svo sjálfsagt þótti þetta, að báðir Sjálfstæðismennirnir i verksmiðjustjórninni greiða því atkvæði - Þormóður rær einn gegn hagsmunum verkalýðsins sem oftar.

Næsti átengi, sem máli skiptir, er það, að stuttu eftir að karfabræðslan var hætt, þá fyrirskipar Jón G., að öll vinna skuli færð með kr. 1,25 pr, tíma og skuli þeim vinnulistum, sem færðir séu, breytt samkvæmt því.

Annar verkstjórinn, J.F.G. neitaði að breyta sinum vinnulistum en Jón Kjartansson gerði, sem honum var sagt, og Jón Gunnarsson lét sjálfur breyta vinnulistum J.F.G.

Og það var ekki nóg með það, að J.G. léti færa vinnuna niður í kr. 1,25 úr kr. 1,50 heldur lét hann líka færa þróarhreinsun, sem ávalt hefir verið greidd með kr. 1.40 niður í kr. 1,25.

Afleiðing þessa alls var svohljóðandi bréf:

 Til stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði.

Siglufirði, 22. október 1935.

Þar sem oss er ljóst, að þér hafið greitt kr. 1,25 pr, tíma við hreinsun á S.R.N. verksmiðjunni nú eftir karfabræðsluna, og ennfremur að þér hafið ekki greitt þeim mönnum er á "vaktir" gengu, (6 eða 8 tíma), í S. R. N. við karfabræðsluna, nema fyrir þá 6 (eða 8) tíma er þeir unnu, viljum vér hér með tilkynna yður:

 1. Vér lítum svo á, að yður beri að greiða kr. 1,50 pr. tíma við hreinsun S.R.N. samkvæmt samkomulagi því, er þér gerðuð við oss, um kaupgjald viðvíkjandi karfavinnslunni, sama gildir og um alla aðra vinnu, sem karfavinnslunni er áhrærandi.

2. Yður ber að greiða þeim mönnum, er á "vaktir" ganga 6 og  ½ tíma vinni þeir 6, sbr. síldarvinnsluna, þá eru greiddir 13 tímar fyrir 12 unna (á vöktum) og það á skilyrðislaust að haldast þegar menn vinna á "vöktum".

Ennfremur viljum vér skýra yður frá, að ritari félags vors átti símtal við hr. Jón Gunnarsson framkvæmdastjóra út af þessum kaupgjaldsmálum og lofaði hann (framkvæmdastjórinn) að láta leiðrétta þá vinnu, sem unnin hafði verið við "átöppun" á lýsi og "stúun" á karfaméli og færð með kr. 1,25 pr. tíma.

En þrátt fyrir þetta er oss nú tjáð, að eigi hafi verið leiðrétt nema "átöppun" lýsisins.

Nú óskum vér þess því hér með, að þér leiðréttið allar framanskráðar kaupgreiðslur og tilkynnið þeim, sem vinnulaun sín hafa tekið. -

Ennfremur skal það tekið fram, að ef þér leiðréttið þetta ekki nú þegar, þá mun félag vort taka til sinna ráða.

 Virðingarfyllst

F. h. stjórnar verkamannafélagsins "Þróttur"

Kristján Sigurðsson (form.)  (sign.)

Guðberg Kristinsson (ritari)  (sign.)

 Þegar Guðberg talaði við J. G. um leiðrétting kaupgjaldsmálanna, þá vísaði J. G, því öllu til stjórnarinnar nema því tvennu, er í bréfinu segir að hann lofaði að leiðrétta.

Efndir þess loforðs urðu þó aldrei nema hálfar. Ennþá hefir þessu bréfi til stjórnarinnar ekki verið svarað og mun það sameiginleg trassamennska og viljaleysi Þormóðs Eyjólfssonar og Jóns Gunnarssonar, sem veldur því.

 Ákvörðun tekin.

Öll framkoma Jóns Gunnarssonar í þessum málum, er að framan getur, er mjög furðuleg og geta ekki nema tvær ástæður legið til grundvallar.

Í 1. lagi, að maðurinn sé frámunalega heimskur og hafi ekkert inngrip í hvað verkalýðssamtök eru.

Í 2. lagi, að takmarkalaus hroki og einstrengingsskapur, samfara blygðunarlausu ábyrgðarleysi í garð verkalýðsins, ráði framkomu hans.

Eða ef til vill er um alla kostina sameiginlega að ræða. En hvað sem réði framkomu mannsins, þá var nú ákveðið innan stjórnar "Þróttar" að láta þetta ekki lengur svo til ganga.

 Formaður og ritari "Þróttar" voru ákveðnir í því, að flytja á næsta fundi svohljóðandi tillögu:

 "Verkamannafélagið "Þróttur", Siglufirði krefst þess, að framkvæmdastjóra ríkisverksmiðjanna, hr. Jóni Gunnarssyni, verði sagt upp nú þegar.

Ástæður eru meðal annars þessar:

1. Hann hefur  komið    fram sem versti kaupkúgari, svikið gefin loforð og gerða samninga milli félagsins og verksmiðjanna t.d. við karfavinnsluna, og jafnvel látið vekja verkamennina að nóttu til, til þess að reyna að fá þá, til  að samþykkja kauplækkun á bak við félagið.

2. Verkamönnum hefir hann sýnt bæði hroka og ósvífni, og meðal annars haft þau orð um þá,  að hann teldi þá ekki með hvítum mönnum.

3. Nauðsynleg samvinna milli framkvæmdastjórans og sumra startsmanna verksmiðjanna, sem verið hafa þar frá byrjun (1930), hefir ekki tekist, og telur félagið, að fengnum upplýsingum og fyrri reynslu, að það sé, að mestu leyti hans sök.

4. Hann hefir svikið rafvirkja hér í bæ um greiðslu og auk þess fyrirskipað  á hann verk og viðskiptabann. Maðurinn hafði þó ekki annað til saka unnið, en það, að lána verksmiðjunum raftaugar, þegar þær voru í vandræðum, gegn ákveðnu loforði framkvæmdastjórans um að fá samskonar efni aftur með fyrstu ferð frá Reykjavík. Þegar svo raftaugarnar fengust ekki frá verksmiðjunni á réttum tíma, og maðurinn löngu seinna sendi reikning fyrir efninu, neitaði framkvæmdastjórinn að greiða reikninginn en fyrirskipaði í þess stað verk og  viðskiptabann á manninn.

Telur félagið þessa framkomu svo dónalega og ósvífna, að ekki sé sæmandi heiðarlegum manni. Að lokum lýsir verkamannafélagið "Þróttur" yfir því, að ætli stjórn verksmiðjanna að hafa sama fram framkvæmdastjóra og nú er, þá ber hún ein ábyrgð á afleiðingunum.

Einherji, 22. nóvember 1935

Ríkisverksmiðjumálið.

Jóni  Gunnarssyni, framkvæmdastjóra ríkisverksmiðjanna, sparkað úr stöðunni af krötum með tilstyrk Sveins Benediktssonar. Einn af gæðingum kratanna settur í stöðuna með fullkomnu kaupi í tvo mánuði meðan hann er að læra af Jóni Gunnarssyni. Almenn óánægja meðal verkafólks í verksmiðjunum.

Á fundi, er stjórn ríkisverksmiðjanna hélt í Reykjavík 5. nóvember. s.l. var Jóni Gunnarssyni, framkvæmdastjóra við ríkisverksmiðjurnar, sagt upp stöðu sinni frá 1. mars n.k.

Tillöguna til uppsagnarinnar flutti Jón Sigurðsson og greiddu atkvæði með tillögunni, ásamt honum, þeir Páll Þorbjarnarson og Sveinn Benediktsson. Á móti tillögunni greiddu atkvæði Þormóður Eyjólfsson og Björn Þórðarson.

Í tillögunni um uppsögn Jóns Gunnarssonar var einnig fram tekið að ráða skyldi Gísla Halldórsson sem framkvæmdastjóra með fullu kaupi frá 1. janúar n.k. og var tillagan samþykkt af þeim þremenningum, sem að framan eru taldir.

Engar ástæður voru færðar fram fyrir uppsögninni, enda mun þar hafa ráðið meira fyrir krötunum að koma flokksmanni sínum að stöðunni en þó þeir væru svo mjög óánægðir með Jón Gunnarsson sem framkvæmdastjóra eða hefðu sakir á hann fyrir frammistöðu sína.

Mun það og mál allra óhlutdrægra manna, þeirra er til þekkja, að hann hafi gegnt starfi sínu með miklum áhuga, dugnaði og röggsemi.

Strax og fregnir þessar bárust hingað kom í ljós megn óánægja meðal starfsmanna ríkisverksmiðjanna, útaf framkomu meirihluta verksmiðjustjórnarinnar gegn Jóni Gunnarssyni, er leiddi til þess, að 87 af starfsmönnum verksmiðjanna létu óánægju sína í ljós með yfirlýsingu, er send var formanni verksmiðjustjórnarinnar og hefir verið birt i opinberu blaði.

Útaf þessari framkomu meirihluta verksmiðjustjórnarinnar, gagnvart Jóni Gunnarssyni, hafa risið blaðadeilur. Byrjuðu Morgunblaðið og Alþýðublaðið - og birtu gleiðletraðar fregnir um burtvikningu J. G. og varð það til þess að Nýja Dagblaðið álits Þormóðs Eyjólfssonar formanns verksmiðjustjórnarinnar um málið og hvernig Jón Gunnarsson hefði staðið í stöðu sinni. Er það viðtal birt i Nýja Dagblaðinu 7. nóvember s.l.

Hafði hann áður gefið samskonar lýsingu á Jóni Gunnarssyni í viðurvist Hermanns Jónassonar, forsætisráðherra, Haraldar Guðmundssonar, atvinnumálaráðherra, Jónasar Jónssonar, formanns Framsóknarflokksins og Jóns Baldvinssonar, formanns Alþýðuflokksins, að þeim viðstöddum Jóni Sigurðssyni og Páli Þorbjarnarsyni, sem þá viðurkenndu hana rétta.

Virðist það vera sjálfsagt drengskaparbragð, að halda uppi vörnum, þegar réttlætismorð er framið á alsaklausum manni. - En þeir Sveinn Benediktsson og Co. hafa orðið æfir við og ráðist með ofsaheift á Þormóð Eyjólfsson út af þessu.

Fara hér á eftir greinar, er Þormóður Eyjólfsson, hefir skrifað um málið, og birst hafa í Nýja Dagblaðinu 
-----------------------------------------

Neisti, 26. nóvember 1935. 

Ríkisverksmiðjumálið enn. 

Þormóður Eyjólfsson og hans samherjar breiða það út á meðal almennings hér í bæ, að hinn nýráðni framkvæmdastjóri, Gísli Halldórsson, eigi að læra af Jóni Gunnarssyni í tvo mánuði áður en hann taki við starfi og eigi að fá 2.000 krónur fyrir. 

Vegna þess að mörgum mun þykja, að óathuguðu máli, undarlegt, að nýr framkvæmdastjóri skuli vera tekinn á laun tveimur mánuðum fyrr, en sá fráfarandi fer, þá þykir mér skylt að skýra þá ráðstöfun mína, og þeirra annarra sem að því standa. 

Eins og flestum er kunnugt á ríkið verksmiðjur bæði á Raufarhöfn og Sólbakka, þessar verksmiðjur þurfa talsverðra umbóta fyrir næstkomandi rekstur og áleit ég mjög heppilegt að einmitt sá maður sem á að hafa umsjón með þessum verksmiðjum og framkvæmdir, að hann ferðaðist til þessara staða til þess að líta á hvar er umbótaþörf og eins til þess að kynna sér starfsháttu og viðhorf á þessum stöðum. 

Eftir að sá tími er kominn, sem hann tekur við stöðunni, er komið það nálægt rekstri að hann hefir engan tíma til þess að ferðast, því aðalframkvæmdirnar hljóta að verða hér á aðalstöðvunum. 

Þar að auki er það bráðnauðsynlegt að sá maður sem á að taka við, sé búinn að kynna sér verslunarbréfa- og skeytaviðskipti verksmiðjanna áður en hann tekur við starfi og tekur það talsverðan tíma. 

Þegar Jón Gunnarsson kom í fyrra gerði hann þetta og hafði nægan tíma til þess, en það er að gætandi að þá byrjuðu verksmiðjurnar ekki fyrr en seinnipartinn í júní, en nú er hugmyndin að byrjað verði fyrst í maí að einhverju leyti. 

Að hann eigi að læra af Jóni Gunnarssyni hvað verksmiðjurekstri viðvíkur er fjarstæða ein, og er eingöngu blekking sem Þormóður slær um sig með, en árangurslaust þó til þess að reyna að bjarga sér upp úr því kviksyndi sem hann er að kafna í. 

Þá ber Þormóður einnig út um bæinn, að Alþýðublaðið hafi byrjað á skrifum um þessi mál, en það er ekki rétt, að öðru leyti en því, að kvöldið áður en dagblað Þormóðs og þeirra félaga komið með skammir og svívirðingar í okkar garð, flutti Alþýðublaðið þá fregn að Gísli Halldórsson vélaverkfræðingur, væri ráðinn framkvæmdastjóri verksmiðjanna fyrir næsta ár, og að Jóni Gunnarssyni væri sagt upp starfi. 

Að nokkrar hnútur eða meiðingar í garð Jóns eða Þormóðs séu í fréttinni neita ég alfarið. 

Vegna þeirra sem ef til vill ekki hafa séð umrædda Alþýðublaðsfrétt þykir mér rétt að birta hana hér orðrétt með fyrirsögn.
----------------------------------------------------------

Einherji, 13. desember 1935

Sveinn Benediktsson.

  • Mörður týndi tönnum, til það kom af því,
    hann beit  í bak á mönnum, svo beini festi í.
    Þó er gemlan eftir ein.
    Það er hin hola höggormstönn
    helst er vinnur mein.        

(Gömul þjóðvísa).

Sveinn Benediktsson, spinnur lopann enn í Morgunblaðinu. Hann heldur auðsjáanlega að það muni duga að "endurtaka lygina sex sinnum", þá verði hún að sannleika, eða verði að minnsta kosti "höfð fyrir sannleika". - Hann staglast enn á að ég hafi selt lýsi í heimildarleysi haustið 1931 og látið ganga frá reikningum verksmiðjunnar röngum og brengluðum 1930.

þó ég sé fyrir löngu síðan búinn að sanna að ég hafði fullt umboð til lýsissölunnar og frá reikningunum var gengið í í fjarveru minni (var í útlöndum) með áætluðu verði nokkurs hluta framleiðslunnar, sem svo reyndist lægra en áætlað var, vegna þess, að Sveini tókst að aftra sölu, meðan hægt var að fá sæmilegt verð fyrir afurðirnar. 

Nú síðast leggur hann aðallega áhersluna á hvað ég sé illviljaður sjómönnunum, og vilji ekki greiða hærra verð fyrir hráefnið en svo, að líkur séu til að verksmiðjurnar beri sig. 

Það er alveg satt, að ég vil umfram allt, að verksmiðjurnar séu reknar með þeirri gætni að þær beri sig. Með því tel ég að sjómönnunum sé mestur greiði gerður. 

Verksmiðjurnar eru líftaug síldveiðanna, og hrun þeirra mundi um leið, að allmiklu leyti, verða hrun sjómannastéttarinnar. 

En meðal annarra orða: Er það af umhyggju fyrir því að sjómennirnir beri sem mest úr býtum, að Sveinn eys nú fé verksmiðjanna á báða bóga: 

Til Gísla Halldórssonar ca, kr. 2000,00 i laun áður en hann tekur við framkvæmdastjórastarfinu; til Kristjáns nokkurs Einarssonar úr Hafnarfirði 550 kr. mánaðarkaup yfir september, en Kristján hætti vinnu á Raufarhöfn 1. september og fór þá strax til Hafnarfjarðar, og hefir ekkert unnið í þágu verksmiðjanna síðan, til Verkamannafélagsins "Þróttur" fimm hundruð króna skaðabótum fyrir að verkafólkið var ekki látið vinna nokkra tíma að lifrartöku í ófæru veðri, sem það vafalaust hefði beðið stórkostlegt heilsutjón af að standa úti í o. fl. o. fl. - sem allt rýrir möguleika fyrir hækkuðu verði fyrir hráefni. 

Þá fer Sveinn mörgum orðum um andstöðu mína gegn endurbótum á verksmiðjunum - tilraunum vinar hans Guðmundar Jónssonar - því þær endurbætur, sem Sveinn nefnir að hafi verið gerðar - skilvindur, mjölsafnarar - eru ekki settar eftir tillögum G. J. og þeim hefði ég aldrei verið andvígur, heldur hvert á móti. - 

En hvað snertir tillögur Guðmundar Jónssonar og það mikla gagn, sem þær eigi að gera, vísa ég til álits Trausta Ólafssonar forstjóra efnarannsóknarstofu ríkisins og styðst algerlega við það, þrátt fyrir það að Sv. Benediktsson virðist telja ætterni Guðmundar Jónssonar býsna gott sönnunargagn! - 

Og það má svo sem geta nærri, að það er af umhyggju fyrir sjómönnunum að Sveinn og Co. hefir kastað um 10 þúsund krónunum af fé verksmiðjanna í þessar tilraunir Guðmundar Jónssonar, sem T. Ó telur einskis verði og allir aðrir sem til þekkja skopast að. 

Sveinn segir að ég hafi kært sig fyrir Tryggva Þórhallssyni atvinnumálaráðherra, en hann hafi "séð í gegnum óheilindavef" minn, og látið sig sitja áfram í stjórn verksmiðjanna alla sína stjórnartíð. 

Sveinn hefir í þessu, eins og flestu öðru, endaskipti á sannleikanum. Það var Sveinn sem kærði mig fyrir Tr. P. -eins og áður, hefir komið fram í ritdeilum okkar Sveins haustið 1933 - en ég sendi andsvör og gaf skýrslu um málið, með þeim árangri, að kæra Sveins var ekki tekin til greina, en ég endurskipaður í verksmiðjustjórnina, því um sama leyti féll umboð, mitt niður. 

Umboð Sveins féll aftur á móti ekki niður fyrr en seint á þingtímanum þann sama vetur eða rétt áður en Tr. P. lét af stjórn og kom það því i hluta Magnúsar Guðmundssonar að skipa í verksmiðjustjórnina. Og í hana skipaði M. G. mig tvisvar og í annað skiptið sem formann stjórnarinnar, þrátt fyrir undirróður Sveins og þrátt fyrir áskoranir helstu útgerðarmanna og skipstjóra sunnanlands - að því er Sveinn segir - um að víkja mér úr stjórninni. 

En hvernig var það annars með þessar áskoranir. Þær hafa aldrei komið fram opinherlega, og M.G. gerði aldrei svo mikið sem að skýra mér frá þeim, en ég heyrði einu, sinni Óskar Halldórsson segja frá því í útvarpsræðu, þegar deilt var um það, hvar nýja verksmiðjan ætti að standa, að Sveinn hefði veturinn áður verið á þönum milli útgerðarmanna og skipstjóra með undirskriftarskjöl "annað þess efnis að fá þá til að andmæla því að verksmiðjan yrði reist á Siglufirði. 

En hitt eitthvað persónulegt við Þormóð Eyjólfsson". 

"En svo snerist Sveinn skyndilega í málinu", sagði Óskar, "hann fór nú að gera sér vonir um að komast í verksmiðjustjórnina að nýju og þurfti nú að finna ráð til að kaupa sér grið á Siglufirði og gerðist svo allt í einu talsmaður þess, að verksmiðjan yrði reist þar". 

Þessi ummæli Óskars munu vera rétt, enda þekkti hann manna best sinn Læri-Svein. 

En eðlilegt er að Sveinn hafi ekki kært sig um að flíka undirskriftunum mikið af því tvennu, að hann hefir hvorki langað til að sýna "snúningshraða" sinn né hitt, að undirskriftirnar gengu víst ver en hann vonaðist eftir, þrátt fyrir allt baktal hans og róg, og þrátt fyrir hin miklu ítök er hann þykist eiga í sunnlenskum útgerðarmönnum. 

Þeir eru nú reyndar hættir að trúa Sveini fyrir skipum sínum hér nyrðra á sumrin en vera má að traustið og "ítökin" sé óbreytt. 

Fátt sýnir betur hina heimskulegu og takmarkalausu ósvífni Sveins Benediktssonar en sú fullyrðing hans: Að Magnús Guðmundsson hafi aðeins skipað mig i verksmiðjustjórnina vegna vensla manna í Framsóknarflokknum, en sjálfur hafi hann sagt sér að hann bæri ekkert traust til mín. 

Við Magnús Guðmundsson höfum þekkst lengi og veit ég að hvorugur leggur hinum til á bak, þrátt fyrir ólíkar stjórnmálaskoðanir, og hvorugur trúir Sveini, þegar hann reynir að bera illmæli milli okkar, en það hefir hann gert fyrr en nú, en hvað sem öðru líður, er það bein ósvífni við M. G. og árás á hann, að halda því fram, að hann tvískipi mann í stjórn verksmiðjanna, í annað skiptið sem formann stjórnarinnar, sem hann bæri ekkert traust til. (Hann lét mig meira að segja annast einan öll stjórnarstörf verksmiðjanna frá því síðsumars 1933 til 4. jan. 1934 eða rúma 3 mánuði. Slíkt traust hefir M. G. aldrei sýnt Sveini Benediktssyni.) 

Fyrir nú utan að, það er ekki beinlínis trúlegt að venslamenn mínir í Framsóknarflokknum hafi meiri áhrif á Magnús Guðmundsson, en hans eigin flokksmenn: auðugir og áhrifamiklir ættingjar Sveins og vinir hans "helstu útgerðarmenn sunnanlands", og þar á meðal líklega sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, sem Sveinn segir að hafi skorað á M. G. að láta mig fara úr stjórninni. 

Sveinn Benediktsson hefir þráð það öllu öðru framar að verða einráður yfir ríkisverksmiðjunum. 

Hann gekk að því með ráðnum hug að ryðja hverjum þeim úr vegi sem yrði honum "Þrándur í Götu". 

Það tókst með Guðmund sáluga Skarphéðinsson.  

Sveinn fylltist þá sigurgleði og í ofmetnaði sínum hét hann því að ég skyldi fara sömu leiðina; en það hefir reynst honum torsótt að framkvæma þá hótun. 

Það taldi hann sitt mesta óhapp þegar Jón Gunnarsson varð framkvæmdastjóri verksmiðjanna. 

Hann gat Sveinn ekki með nokkru móti haft að leiksoppi. Því varð hann að leita allrar sinnar kænsku til að koma honum burtu. 

Ýmsum peðum var tefit fram til sóknar. Sjálfur stóð Sveinn að baki og bruggaði fjörráðin. 

Vopnin eru ekki vandfengin þegar aldrei er hirt um hvort farið er með satt mál eða ósatt og tíðar er vegið að baki en brjósti. 

Nú er Sveinn orðinn leiðtogi Alþýðuflokksfulltrúanna í Ríkisverksmiðjustjórninni. Sigurvonirnar eru miklar. Ofmetnaðurinn gægist fram að nýju. 

En því hika þeir nú félagarnir, og verða ekki þegar í stað við áskorun mínum að krefjast rannsóknar á störfum mínum í Ríkisverksmiðjustjórninni? 

Er kannski þægilegra að standa í skuggunum og vega þaðan með dylgjum og ósvífnum ásökunum í von um að ekki komi til þess, að við þau þurfi að standa? 

Þormóður Eyjólfsson
------------------------------------------------------

Neisti, 6. mars 1937

Umbætur á Síldarverksmiðjum ríkisins 

Samkvæmt viðtali Alþýðublaðsins 25. febrúar við Finn Jónsson, formann stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, hefir stjórn verksmiðjanna lagt til við ríkisstjórnina að gerðar verði stórfelldar umbætur á verksmiðjunum fyrir næsta driftartíma. 

Ráðgert er að umbæturnar við hvora verksmiðju fyrir sig á nemi að krónutali sem hér segir: S. R.-30, 69 þúsund krónur, S. R. N. 85 þúsund krónur , S. R. P. 22 þúsund krónur., S. R. S. 25 Þúsund krónur og S.R.R. 89 þúsund krónur. 

Samtals umbætur fyrir ca. 290 Þúsund krónur.            

Þá segir i viðtalinu svo: 

"Framkvæmdarstjóri Síldarverksmiðja ríkisins, Gísli Halldórsson, verkfræðingur, hefir nú gert merkilegar tillögur um að reistar verði síldarþrær á Siglufirði, er rúmi um 35 Þúsund mál síldar. 

Verða þrærnar úr steinsteypu og útbúnar með kælitækjum til að verja síldina skemmdum. Stjórn síldarverksmiðjanna hefir nú lagt til við ríkisstjórnina, að þegar verði hafist handa um byggingu þróa þessara, þannig, að henni verði lokið fyrir síldarvertíðina í sumar. 

Þrær þessar yrðu þannig útbúnar, að þær myndu létta mjög vinnu sjómanna við uppskipun, og er kostnaður við byggingu þeirra, ásamt kælivélum, áætlaður um kr. 300,000. 

Þá segir í viðtalinu, að stjórn síldarverksmiðjanna hefir nú þegar selt 5-6 Þúsund smálestir af væntanlegri síldarlýsisframleiðslu verksmiðjunnar í sumar fyrir 21 pund sterling smálestina. Er það mjög hátt verð og Því búist við að bræðslusíldarverð verði mun hærra en áður hefir verið. (Síðan Þessi sala fór fram, hefir lýsið fallið töluvert í verði). 

Umbæturnar á verksmiðjunni, svo og bygging kæliþrónna, skapa mikla vinnu hér í bæ. Er það vel farið og því þess að vænta, að fé fáist til þessara framkvæmda.
----------------------------------------------------

Neisti, 11. mars 1936

Yfirlýsing.

Að gefnu tilefni vil ég leiðrétta þann misskilning að ég sé því andvígur, að verkamenn á Siglufirði bindist samtökum innan Alþýðusambandsins.

Verksmiðjustjórnin er réttur aðili í því máli sem hér er um að ræða og óska ég því að mér verði haldið utan við þær deilur, er um það kunna að verða.

Gísli Halldórsson.
_________________________

Siglfirðingur, 31. október 1936   Gísli Halldórsson framkvæmdarstjóri, fór utan með "Íslandinu" í erindum Ríkisverksmiðjanna. Mun hann verða í þessu ferðalagi fram undir áramót.
_____________________________

Einherji, 26. júní 1937

Þann 23. júní.

þá, barst Þormóði Eyjólfssyni bréf frá Síldarverksmiðjum ríkisins, sem verður að teljast einstætt í sinni röð, en um leið að nokkru leyti, táknrænt svar við þeirri spurningu Jónasar Jónssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem hann setti fram hér í blaðinu 29. apríl s.l.: 
Hvað er að í Síldarverksmiðjum ríkisins?.

Bréf verksmiðjanna er svohljóðandi:

Siglufirði, 23. júní 1937.

Hr. konsúll Þormóður Eyjólfsson, Siglufirði.

Þar eð vér höfum undanfarið á ýmsan hátt gjört oss far um að bæta útlit verksmiðjuhúsa vorra, og þar eð vér teljum loftnetsstöng þá, er þér eigið á skrifstofuhúsi voru mjög til óprýðis, biðjum vér yður hér með um að sjá um, að hún verði tekin niður innan tveggja daga frá móttöku bréfs þessa.

Virðingarfyllst pr. pr. Síldarverksmiðjur ríkisins 

Gísli Halldórsson (sign.).
___________________________________

Einherji, 26. ágúst 1937

Ranghermi.

Alþýðublaðið birtir 5. þ.m. viðtal við Gísla Halldórsson framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins. -

Full ástæða væri til að taka þetta viðtal, ásamt mörgu öðru af því sem birt hefir verið í útvarpi og blöðum að tilhlutun þessa framkvæmdastjóra, til rækilegrar athugunar og gagnrýningar, þó ekki sé það gert að þessu sinni.

Það verður sennilega gert hér í blaðinu eða annarstaðar síðar. En nokkur ranghermi, sem framkvæmdastjórinn, lætur ettir sér hafa í þessu viðtali, er þó sjálfsagt að leiðrétta strax.

Hann talar um að afkastamagn verksmiðjanna hafi aukist um 2.800-3.000 mál á sólarhring "síðustu tvö sumur". Og svo kemur runan um hvað hver verksmiðja hafi unnið mest áður og hvað hún vinni nú. en einkennileg er sú frásögn, því allar tölurnar (að Sólbakkaverksmiðjunni undanskilinni) um það hvað hámarksvinnsla verksmiðjanna hafi verið áður, eru rangar og allar verksmiðjurnar sagðar hafa unnið minna en þær gerðu.

Einherji hefir átt kost á að kynna sér skýrslu um verksmiðjurnar fyrir starfsárið 1935 og borið hana saman við frásögn Gísla Halldórssonar, og skal nú sýnt fram á nokkrar rangfærslur hans.

Gísli segir S.R. '30 hafa komist mest (fyrir tveim árum) i 2.400 mál á sólarhring. Hún komst suma árið 1935 í 2,800 mál. - Hann segir S.R.P. hafa komist mest í 1.400 mál á sólarhring. - Hún komst í rúm 1.600 mál 1935 og þáverandi framkvæmdastjóri, J.G., benti á leið til að auka framleiðslumagn þeirrar verksmiðju með litlum tilkostnaði.

Gísli segir S.R.N. hafa komist í 2.000 mál. - Hún komst i 2.260 mál 1935, en raunar er alrangt að gera nokkurn samanburð á þeirri verksmiðju þá og nú, því hún var ekki fyllilega tilbúin og í megnasta ólagi það sumar, en hvorki var bygging hennar né undirbúningur í höndum verksmiðjustjórnar né framkvæmdastjóra.

Afkastamagn Raufarhafnarverksmiðjunnar telur Gísli hafa aukist úr 800 málum á sólarhring upp í -1.200-1.300 mál á sólarhring, en hefir komist mest upp í 1.600 mál- segir hann. -

Meðalvinnsla Raufarhafnarverksmiðjunnar var sumarið 1935 um 1,000 mál á sólarhring.

Svona löguð frásögn gerir auðvelt að sýna mikla afkastaukningu verksmiðjanna - á pappírnum.

En meðal annarra orða: Hvernig má það ske að Raufarhafnarverksmiðjan vinni daglega í sumar úr 1.200-1.300 málum og stundum úr 1.600 málum síldar á sólarhring þegar hún er þó ekki búin að vinna frá 18. júní til 24. ágúst úr nema rétt um 68 þúsund málum?

Það getur hver sem vill spreytt sig á að reikna það dæmi sjálfur. _______________________________

Einherji 206 ágúst 1937

Gísli Halldórsson

Gísli Halldórsson segir í viðtali í Alþýðublaðinu að allar »endurbæturnar« á verksmiðjunum hafi »kostað tiltölulega mjög lítið«. — Tveir verksmiðjustjórnarmenn segja litlu síðar í viðtali við N. Dagblaðinu, að nýja þróin og »endurbæturnar« á verksmiðjunum hafi kostað eina miljón króna. Nú er það vitað að áætlað verð nýju þróarinnar var 175 þús. kr. Endurbæturnar ættu þá eftir því að hafa hlaupið upp á 325 þús. kr. eða jafnmikið og SRP kostaði með lóð, bryggjum og öllum húsum. Það verður tæplega talið »mjög lítið«.  

Neisti, 28. ágúst 1937 --- Gísli Halldórsson

Aumingja nöldursjúki maðurinn.

 I - Nöldrið hennar Guðrúnar var á ferðinni rétt einu sinni í fyrradag og setti óhreina fingurna á hinn ekki alltof hreina prentpappír. - þess Einherja rógburðar og slúðurs sem mest óhreinkar þennan góða bæ.

II - Þessi "vinur" Síldaverksmiðjanna fórnar á mig tveim greinum í nefndu tölublaði Einherja og skal þeim nú lítillega svarað fyrir beiðni ritstjóra Neista, því ég legg það annars ekki í vana minn að svara rógburði.

Í grein sem heitir Gísli Halldórsson er vitnað í ummæli eftir mig um það að endurbæturnar hafi "kostað tiltölulega mjög lítið". En síðan er haft eftir stjórninni að þær hafi kostað ½ miljón krónur.

Þetta þykir greinarhöfundi mikið sem von er slíkum fuglsheila. En mér þykir það ekki mikið, fyrir það sem framkvæmt hefir verið og ekki heldur stjórn verksmiðjanna eða öðrum sem til þekkja og vilja af sanngirni mæla.

Stend ég fyllilega við ummæli mín og má benda á að fyrir þetta fé hafa verið byggð, auk hinnar nýju yfirbyggðu og í alla staði vönduðu þróar á Siglufirði, mjölhús á Sólbakka og Raufarhöfn, olíugeymir á Raufarhöfn, bryggjur og plön, stækkuð verksmiðjuhús og umbætt innrétting, breytt vélum, keyptar vélar og byggðar vélar, auk ýmis annars, því að í stjórnartíð Þormóðs var margt í niðurníðslu.

Kæri ég mig ekki um að gefa Einherja sundurliðaða skýrslu um þetta, þar eð hún mun koma fram síðar á réttum stað og tíma.

En síst ættu Siglfirskir verkamenn að kunna þeim mönnum þakkir er berjast gegn því öllum árum að varið sé í þessum bæ jafnvel um 100 þúsundum krónum í vinnulaun á einu vori og það fyrir umbætur og byggingar er fljótlega greiða sig upp og afla þjóðinni í heild sinni tekna sem ella myndi ekki vera um að ræða.

Kemur nú að því hvað fyrir þessar byggingar hefir fengist. Má þar t.d. nefna hin auknu móttökuskilyrði sem t.d. fyrir nýju þróna nema um 300-500.000 krónum á ári í gjaldeyri og svo þá afkastaaukningu verksmiðjanna sem "vinurinn". vill gera sem minnst úr og rengja. Og um þetta fjallaði hin greinin í blaðinu.

III- Í grein þessari ranghermir greinarhöfundur það sem hann hefir eftir Alþýðublaðinu, um mesta afköst SR-30, S.R.N. og S.R.R.

Heldur hann því fram að ég telji vinnslu þessara verksmiðja hafa verið mesta 2.400, 2.000 og 800 mál. En í blaðinu er hvergi minnst á þessi afköst sem toppafköst.

Alþýðublaðið segir t.d. eftir mér orðrétt á þessa leið:

"Raufarhafnarverksmiðjan var keypt fyrir 800 mála vinnslu en nú vinnur hún um 12-1300 mál á sólarhring, en hefir komist mest upp í 1.699 mál".

Alveg á sama hátt segir í Alþýðublaðinu "SR-30 vann 2.400 mál og vinnur nú um 3.000, og S.R.N. vann 2.000 mál en vinnur nú um 3.000"

Þetta er allt laukrétt. Hér er aðeins ekki verið að tala um topp afköst, og þau hvergi nefnd, heldur sambærileg venjuleg afköst á góðri síld.

Og skal ég nú sýna fram á það hér á eftir að aukningin á afkastagetu verksmiðjanna hefir ekki verið sögð of há í viðtali mínu við Alþýðublaðið.

Hinsvegar hafði í Alþýðublaðinu misprentast um afköst Sólbakka-verksmiðjunnar og gerir greinarhöfundur að vísa enga athugasemd við það, vegna ókunnugleika, en mér verður varla kennt um þá prentvillu, þar eð ég hafði aldrei tækifæri til að lesa prófarkir af viðtalinu, sem tekið var lauslega niður.

Hinsvegar er nú best að gjöra skjótan enda á lífi þessa vanskapaða rógsafkvæmis greinarhöfundar um það að ég ljúgi til um afköst verksmiðjanna og skulu hér tekin upp mestu afköst hverrar verksmiðju 1935 og það sem af er þessa ári og gefa þau góða hugmynd um aukningu afkastagetunnar.

Mestu afköst í sekkjum á 24 klukkustundum

Samtals aukning 1.696 sekkir pr. 24 klukkustundir. Sem miðað að við 16 % mjöl gerir þá 3.220 mál á sólarhring.

Í Alþýðublaðinu er haft eftir mér, að afkastamagn verksmiðjanna "hafi aukist tvö síðustu sumur um 2.800-3.000 mál á sólarhring".

Þetta hefði greinarhöfundur átt að leiðrétta og benda á það, að afköstin hefðu aukist 300 til 406 málum meira en ég hélt fram.

Nú, en hverju getur þá þetta munað á framleiðsluverðmæti ársins? Gæti þá einhver spurt.

Því er ekki auðvelt að svara. Í ári eins og þessu reynir mikið á afkastagetu verksmiðjanna.

Síldin verður gömul og pressast illa. Afköstin tiltölulega lægri en þegar minni landburður er.

En þrátt fyrir það fæst, þegar tekin eru meðalafköst ársins 1935, sem er hagkvæmt ár, og meðalafköst þess tíma sem af er þessu ári, að framleiðsluaukningin nemur eitthvað um 675 sekkjum á sólarhring. Svarar þetta til 3.100 mála á sólarhring.

Aukning afkasta nemur því allt að 200.000 málum yfir sumarið í sumar og auk þess bjargar nýja þróin einum 25.000 málum og má því reikna með að fyrir byggingu hennar og aukningu atkastanna sé hægt að notfæra sér verðmæti er, nemur, svo varlega sé reiknað, um 225.000 málum eða um kr. 3.000.000 - þremur miljónum króna - með því verði sem nú er á olíu og mjöli.

Ég hygg að hinn ötuli öfundarmaður okkar, bæði starfsmanna og stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, ætti nú að gleypa þetta í kyrrþey og setjast á rassinn ennþá einu sinni.

En að hann hafi vit á því að þegja til lengdar, það dettur mér ekki i hug.

Gísli Halldórsson.
________________________________________

Einherji, 3. september 1937   ----  Þormóður Eyjólfsson

Skrum eða raunveruleiki.

Gísli Halldórsson er ákaflega reiður út af því að Einherji skyldi vera að leiðrétta ranghermi hans og birta réttar tölur í stað rangra, er hann hafði gefið upp og skrifar í því tilefni illorða skammargrein í síðasta "Neista". Gefur sú ritsmíð ókunnugum furðu glögga hugmynd um höfundinn og sýnir allt í senn: vanstillt skap, litla greind, hóflaust yfirlæti og óvenjulega ríka tilhneigingu til að reyna að hefja sjálfan sig á kostnað fyrirrennaranna.

Eru þetta allt heldur óheppilegir eiginleikar fyrir mann sem er í vandasamri og ábyrgðarmikilli stöðu.

Gísli vill reyna að snúa sig út úr umælum sínum og samanburði á afköstum verksmiðjanna fyrr og nú, með því að hann hafi hvergi talað um "toppafköst".

En hver er munurinn á því að tala um hvað verksmiðja "afkasti mest", eða að tala um "toppafköst" hennar?

Í viðtalinu við Alþýðublaðið, talar Gísli um muninn á "mestu atköstum" verksmiðjanna fyrir tveimur árum og nú, og svo kemur hann núna í "Neista" og segist ekki hafa talað um "toppafköst"!

Hann verður að fara til einhverra annarra en þeirra, sem skilja Íslenskt mál sæmilega, með þessa afsökun sína.

En nú talar hann aftur um mestu afköst, (í sekkjum). Hver eru þá "toppafköstin"?  Þau hljóta að vera allt önnur eftir hans skýringu á málinu að dæma.

Annars er það vitanlega ekkert annað en fáránleg fjarstæða og blekking ein að reikna afköst verksmiðjanna út eftir "toppafköstum" Allt veltur á því hvað þær vinna jafnaðarlega.

Og sé reiknað út eftir því, sem auðvitað er það eina rétta, verður heldur en ekki annað upp á teningnum, en Gísli Halldórsson heldur fram.

SR30 hefir alltaf haft næga síld til vinnslu síðan 10. júlí í sumar og hefir á þeim tíma, þ.e. ca. 50 dögum (eina eða tvo sunnudaga mun ekki hafa verið unnið) unnið úr 102 þúsund málum. Meðalvinnsla verður því 2.000 mál á sólarhring, en árið 1935 var meðalvinnsla þessarar verksmiðju 2.140 mál á sólarhring eða 140 málum hærri en í sumar.

SRP hefir á sama tíma unnið úr 68 þúsund málum eða að meðaltali á sólarhring úr  1.360 málum. Sumarið 1935 var meðalvinnsla þeirrar verksmiðju 1.334 mál eða aðeins 26 málum lægri en nú.

Gerðum við okkur þó - bæði framkvæmdastjórinn J.G. og stjórn - fastlega von um að meðalvinnslu þeirrar verksmiðju mætti auka með litlum tilkostnaði um 200 mál á sólarhring.

Það hefir sýnilega ekki tekist ennþá.

SRN getur ekki komið til samanburðar nú og sumarið 1935, því þá var hún í smíðum og á margan hátt í ólagi og varla um annað að ræða en reynsluvinnslu.

Afköst Raufarhafnarverksmiðjunnar mun vera nokkurn vegin vera þau sömu í sumar og árið 1935, eða um 1.000 mál að meðaltali á sólarhring.

Útkoman er því þessi:

Meðalvinnsla SR30 hefir lækkað um 140 mál á sólarhring miðað við vinnsluna 1935.

Meðalvinnsla SRP hefir hækkað um 26 mál á sólarhring miðuð við sama ár og Raufarhöfn stendur í stað. Sólbakka er sleppt hér af því því ég hefi ekki fullnægjandi gögn um meðalvinnsluna þar í sumar.

En þetta nægir fyllilega til að sýna fram á, að öll blaðaskrifin og útvarpsfréttirnar sem Gísli lætur birta um mikla afkastaaukningu verksmiðjanna - stundum 2.800 mál daglega, stundum allt upp í 3.400 mál á sólarhring - er skrum eitt og blekkingar, því jafnvel þó miðað væri við SRN, sem, eins og ég hefi áður tekið fram, var ekki komin í fulla vinnslu 1935 er meðalvinnslumunurinn á henni þá og nú ekki nema rúm 400 mál á sólarhring.

Það er þá öll aukningin rúm 400 mál! Því þó einhver hækkun kunni að vera á Sólbakka, sem þó ekki er líklegt, nemur hún sjálfsagt ekki meira en lækkuninni í SR30.

En hvaða gagn er svo að því, þó hægt sé að flagga einstöku sinnum miklum afköstum og há met séu sett?

Hefnir það sér ekki með verri framleiðsluvöru, meira vélasliti og fleiri "stoppum"? Sú skýring virðist liggja hærri fyrir því að meðalafköst SR30 hafa lækkað samanborið við 1935, að, "óhappastoppin" hafi verið fleiri nú en þá, því hráefnið var upp og niður það sumar eins og núna.

Þó veiðin væri þá litil, (Gísli segir í Neista að það hafi verið mjög hagstætt ár!) kom hún mest öll í kviðu, svo skipin urðu að bíða allmikið eftir löndun og síldin skemmdist.

Gísli Halldórsson segir að "margt" hafi verið í niðurníðslu í verksmiðjunum í tíð fyrirrennara hans. Er þetta bæði ósönn og ómakleg árás --  og ekki sú fyrsta - á

báða hina reglusömu, starfhæfu og pössunarsömu framkvæmdarstjóra er á undan honum voru, þá Jón Gunnarsson verkfræðing og Oscar Ottesen.

Hitt kom vitanlega að sjálfu sér, að alstaðar þurfti að gæta ýtrustu sparsemi og margt varð að láta ógert sem þörf hefði verið á, meðan verðlag á afurðunum var meira en helmingi lægra en það er nú og stundum aflabrestur líka.

En það er eins og Gísli haldi að honum beri þakklætið fyrir verðhækkun lýsis og mjöls og eindæma mikinn afla.

Það hefir vist enginn búist við að Gísla þætti það mikið fé, sem hann hefir notað til "endurbóta" (sumar "endurbæturnar" eru nú taldar æði vafasamar) á verksmiðjunum og segir að verksmiðjustjórninni þyki það ekki heldur.

Honum þótti ekki mikið á sínum tíma að, setja upp 12 þúsund krónur fyrir verk sem aðrir verkfræðingar töldu hæfilegt að vinna fyrir þrjú þúsund og fimm hundruð krónur.

Honum þykir heldur ekki mikið að taka 110 krónur á dag í ferðakostnað (símakostnaður þar ekki meðtalinn) þegar hann þykist vera að ferðast í þágu verksmiðjanna.

En er það nú alveg víst að verksmiðjustjórninni hafi ekki stundum fundist hann nokkuð fjárfrekur?

Það mætti kannski taka upp umræður um það mál að nýju þegar búið er að leggja fram ársreikningana fyrir 1936. En hvenær verður það gert?

Endurskoðendurnir voru hér í júlí og ágúst (um mánaðartíma) við endurskoðun verksmiðjureikninganna fyrir árið 1936, en urðu frá að hverfa án þess að hafa lokið því verki, vegna þess að reikningarnir voru ekki að fullu tilbúnir af hendi framkvæmdarstjórans, og enga skýrslu um ársstarfið var hann búinn að semja. En fyrir árið 1935, þegar Jón Gunnarsson var framkvæmdastjóri, voru reikningar verksmiðjanna fullgerðir í febrúar, og skýrsla um ársreksturinn afhent stjórninni fyrir áramót og, hafði hann þá ekkert tekið fyrirfram af launum sínum, né verið kostaður til undirbúnings undir framkvæmdastjórastarfið af verksmiðjufé.

Þormóður Eyjólfsson.
___________________________

Einherji, 10. september 1937 

Stórkostlegasta met 

sem sett hefir verið í Síldarverksmiðjum ríkisins, síðan byrjað var að reka þær, var sett í nótt. 

Vann SRN verksmiðjan af fullum krafti frá kl. 6 í gærkvöld til kl. 9 í morgun með síld úr hinni "dásamlegu" nýju þró, sem Gísli Halldórsson hefir gumað svo mikið af í sumar í blöðum og útvarpi - og var framleiðslan 0 - ekki einn einasti poki af mjöli, í þessa 15 klukkutíma og sama sem ekkert af lýsi. 

Virðist síldin á einhvern hátt hafa "forderfast"- svo mjög í þessari miklu þró, að erfitt ætli að vera að vinna úr henni. - 

Sjálfsagt setur Gísli þetta stærsta met sem hann hefir staðið fyrir, í Útvarpið í kvöld, svo mjög sem hann hefir gaman of að láta geta þar um "metin" sín og sjálfan sig. -

Athugasemd SK: Ástæðan fyir þessu er tilgreind í upphafi síðunnar. Einherja láðist að greina síðar frá hinum raunverulegu afköstum er vinnslan hófst. Sagði aðeins frá töfum í upphafi, en ekki hvers vegna.

Neisti, 14. september 1937 --- Gísli Halldórsson

Svar til Þormóðs Eyjólfssonar.

1

Í næstsíðasta tölublaði "Einherja" staðfesti hr. Þormóður Eyjólfsson þá tilgátu mína, að hann myndi ekki kunna að þegja við grein þeirri, er ég skrifaði i 30. tölublað "Neista" þar sem ég hrakti með tölum staðhæfingar hans um Síldarveiksmiðjur ríkisins.

En grein þessa skrifaði ég fyrir áskorun ýmsa manna, sem þótti hér of langt gengið í því að rógbera verksmiðjustarfsemina og eru menn þó satt að segja ekki of góðu vanir frá hendi þess einstaka óhappamanns, sem Þormóður Eyjólfsson sí og æ hefir verið, fyrir starfsemi ríkisverksmiðjanna.

Það er dálítið táknrænt fyrir manninn og ég mun seint gleyma því, er hr. Þormóður Eyjólfsson, þáverandi stjórnarformaður, heimsótti mig í fyrsta sinni, eftir að ég tók við framkvæmdastjórastarfinu.

Hann byrjaði á því að tala um einn starfsmann fyrirtækisins og undirmann sinn á þann hátt, að það gekk fram af mér og viðtalið bar víst litinn árangur, nema ef vera kynni þver öfugan við það, sem til var ætlast.

Mér varð þá ljóst, hverskonar mann Þormóður hafði að geyma. En sífellt síðan og sérstaklega eftir að Þormóður vék úr stjórn verksmiðjanna, hefir andi hans, ef svo mætti segja, hangið eins og eiturský yfir verksmiðjunum.

Þar sem mitt starf, meðal annars, hefir verið fólgið í því, út á við, að afla verksmiðjunum almennra vinsælda og inn á við, að efla samlyndi og starfsgleði meðal verkafólksins, þá hefir hr. Þormóður Eyjólfsson, að því er virðist, gjört sér far um hið gagnstæða.

Ég vonast til þess, að menn misskilji ekki orð mín á þá lund, að ég sé að hefja mig upp á kostnað Þormóðs Eyjólfssonar. Það er langt í frá, - því að ég álít, að það sé skyldustarf hvers framkvæmdarstjóra að vanrækja ekki umræddar hliðar starfrækslunnar, alveg eins og ég álit það hverjum starfsmanni ríkisverksmiðjanna ósæmandi, að niðra því fyrirtæki er hann hefir lífbjörg sína af.

En þeim mun óviðfelldara er það, að hr. Þormóður Eyjólfsson skuli láta sér sæma, sem fyrrverandi verksmiðjustjórnarformanni, að niðra ríkisverksmiðjunum og rekstri þeirra við hvert þóknanlegt tækifæri, og það, að því er virðist, að tilefnislausu.

Hr. Þormóður Eyjólfsson veit vel, að ég hefi skirrst við því í lengstu lög, þrátt fyrir illt umtal, andróður og nafnlausar blaðagreinar, að virða hann svars.

Og honum er óhætt að halda áfram nöldri sínu og lognum staðhæfingum, án þess að eiga það á hættu, að jafnaði, að honum verði svarað einu orði.

Hinsvegar væri gott að menn gætu ennþá einu sinni sannfærst uni það, hvernig staðhæfingar hans og sannleikurinn stangast á.

Ég ætla þess vegna í þetta skipti að bera saman staðhæfingar hr. Þormóðs Eyjólfssonar, konsúls, um meðalframleiðslu ríkisverksmiðjanna 1935 og 1937 við skýrslur hr. Trausta Ólafssonar, forstöðumanns efnarannsóknarstofu ríkisins og rannsóknastofu verksmiðjanna.

Nú er vinnslunni í sumar að vísu ekki ennþá lokið, er því miðað við tímann 16. júní til 22. ágúst, eða fram að þeim tíma sem umræddar greinar eru skrifaðar á.

Vinnslutími 1935 er frá 27. júní til 14. ágúst, eða um hálfum mánuði styttri en tíminn, sem tekinn er í ár.

Hér fer á eftir tafla um meðalafköst verksmiðjanna eins og hr. Þormóður Eyjólfsson konsúll telur þau vera, í næstsíðasta tölublaði. Einherja

Töflu konsúlsins, má sjá HÉR  ásamt töflu til samanburðar, gjörð eftir skýrslum hr. Trausta Ólafssonar, er sýnir meðalvinnsluna bæði þessi ár. 

Það vottast hér með að nefnd skýrsla um meðal afköst eru rétt tekin upp úr vinnuskýrslum mínum fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins árin 1935 og 1937.

Siglufirði, 8. september 1937.  

Trausti Ólafsson. (sign.)  

Vitundarvottar:
Hafliði Helgason. (sign.)
Anna Lindal. (sign.)
---------------

2  

Það er leiðinlega mikill mismunur á þessum töflum, leiðinlega mikill fyrir konsúlinn, sem varla verður tekinn alvarlega hér eftir.

1. Meðalvinnsla SR-30 hefir hækkað um 540 mál á sólarhring, en ekki lækkað um 140 mál. Hér munar 680 málum/sólarhring, sem konsúllinn hefir vanreiknað SR-30.

2. Meðalvinnsla S.R.N. hefir hækkað um 890 mál á sólarhring, en ekki um 400 mál eins og konsúllinn telur. Hér skakkar 490 málum/sólarhring.

3. Meðalvinnsla S.R.P. hefir hækkað um 370 mál/sólarhring, en ekki um 26 mál eins og konsúllinn heldur fram. Hér skakkar 344 málum/sólarhring.

Samtals hefir konsúllinn því "feilreiknað sig" um 680 + 490 + 344 = 1514 mál á sólarhring, ríkisverksmiðjunum á Siglufirði í óhag.

Ég ætla að sleppa hr. Þormóði Eyjólfssyni við samanburð á Raufarhafnar- og Sólbakkaverksmiðjunum að sinni, þar eð mig skortir nákvæmar upplýsingar um meðalafköstin í ár, en aðeins geta þess, að á þeim afköstum sem Þormóður nefnir í sambandi við S.R.R. skakkar hundruðum mála, verksmiðjunni í óhag.

Ofangreindar tölur og samanburð hefi ég leyft mér að gjöra að umtalsefni hér að framan, vegna blaðaskrifa hr. Þormóðs Eyjólfssonar og talnavísinda hans.

En annars er slíkur samanburður á meðalafköstum verksmiðjanna, frá ári til árs, að því leyti varhugaverður, að hann gefur ekki rétta hugmynd um starfhæfni verksmiðjanna hvort árið um sig.

Það má ekki gleyma því, að ásigkomulag síldar, sem búin er að liggja lengi i skipum eða þróm, gerir frekari kröfur til afkastagetu vélanna heldur en sæmilega góð síld, og afköstin minnka þess vegna í miklum síldarárum, þegar síldin verður að vinnast meira og minna legin og skemmd.

Það er þess vegna ekki gott að segja um það, hvað meðalvinnsla verksmiðjanna hefði orðið há 1935 ef þá hefði átt að vinna úr samskonar síld og í ár.

Hinsvegar er það vitað, að á jafngóðri síld hafa afköst Síldarverksmiðja ríkisins 1937 orðið rúmlega 3.200 málum hærri á sólarhring en mestu afköst sömu verksmiðja 1935.

Gefur þetta töluvert góða hugmynd um hina auknu afkastagetu.

Annars er vert að athuga það, þegar verið er að ræða um móttöku og vinnslu síldar í Síldarverksmiðjum ríkisins, að við ríkisverksmiðjumennirnir þurfum ekki að bera kinnroða fyrir samanburðinn við aðrar verksmiðjur.

Síldarverksmiðjur ríkisins hafa í sumar tekið á móti rúmum 852 þúsund hektólítrum af 2,157 þúsund hektólítrum, sem er allur bræðslusíldaraflinn á landinu og nemur því hlutur Síldarverksmiðja ríkisins nærri því 40 %. af allri bræðslusíldinni, og ef teknar eru tvær 4.800 mála einkaverksmiðjur til samanburðar við tvær 2.400 mála verksmiðjur ríkisins, verður samanburðurinn á þessa leið:

Ein 4800 mála einkaverksmiðja, vinnsla í sumar 297 þúsund hektólítrar.

Ein 4800 mála einkaverksmiðja, vinnsla í sumar 285 þúsund hektólítrar.

Tvær 2400 mála verksmiðjur (S.R.N og SR-30), vinnsla í sumar 503 þúsund hektólítrar.

Þarna munar 206 þúsund hektólítrum eða 70 % sem vinnslan er meiri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins heldur en hinum, þótt um jafnstórar verksmiðjur sé að ræða.

Er þetta ekki sagt einkafyrirtækjunum til lasts, heldur hr. Þormóði Eyjólfssyni til fróðleiks og uppbyggingar.

Ég skal að lokum víkja fáeinum orðum að dylgjum hr. Þormóðs Eyjólfssonar um ferðakostnað minn til útlanda sl. ár, sem hr. Þ. E. er að finna að.

Skal þess getið hér að þetta ferðalag var farið á mjög skömmum tíma um Skotland, England, Holland, Belgíu, Þýskaland, Danmörku og Noreg og heimsóttur svo að segja hver einasti viðskiptamaður verksmiðjanna í Evrópu.

Munu þeir, er álíka hraðferðir hafa farið i verslunarerindum, vita hversu útdráttarsamt slíkt ferðalag er, og hefi ég fulla ástæðu til að halda að hr. Þ. E. hefði farið hægar yfir. En hvað árangurinn af ferð minni snertir, þá mun hann hafa orðið betri en af nokkurri ferð Þormóðs Eyjólfssonar, enda hefi ég engar athugasemdir hlotið frá verksmiðjustjórninni eða endurskoðendum um ferðakostnaðinn.

Hinsvegar hefi ég hvergi gefið aukareikninga fyrir veislukostnaði eins og hr. Þormóður Eyjólfsson átti til að gjöra, og það fyrir veislur, sem enginn árangur varð af. -

Nokkurra daga ferðalag mitt til Raufarhafnar hefir aldrei kostað verksmiðjurnar fleiri hundruð krónur eins og ferðalag sumra góðra manna. Annars ætla ég ekki að fara út í slíkar rökræður sem þessar, því að þær hæfa betur siðferðislegum þroska hr. Þormóðs Eyjólfssonar en mínum.

Siglufirði, 8. september 1937.

Gísli Halldórsson.
_______________________

Einherji, 30. október 1937 og 3. nóvember 1937  -

Ein skrumauglýsingin frá Gísla Halldórssyni

Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hefir tekið að gefa út mánaðarblað er heitir "Heima". Er tilgangur þess einkum að kynna starfsemi félagsins út á við og þýðingu samvinnufélagsskaparins.

Auk þess er því ætlað að flytja ýmsan annan fróðleik og skemmtilestur. Ritstjóri blaðsins er Karl Strand. -

Hann hefir komið til Siglufjarðar í sumar og dvalið hér þrjá daga. Í ágústblaðinu, sem Einherja hefir nýlega borist, lýsir hann þessum bæ, "sem í senn ber elli og æskumörk", samansettur af flausturlega reistum húsum er óðum sækja fastar á brekkuna, bær með slæmu lofti og reykjarskýi eins og stórborg.

Þessi bær er umtalsefnið í dag, segir ritstjórinn.

En eðlilega eru það verksmiðjurnar, sem vekja athygli hans og til þess að fá sem besta fræðslu um þær, snýr hann sér að vonum til framkvæmdarstjórans Gísla Halldórssonar. Og það stendur ekki á honum-.

Á nokkrum mínútum skýrir hann frá hinum furðulegustu staðreyndum úr heimi síldarvinnslunnar.

"Hvernig Síldarverksmiðjur ríkisins, sem eru fimm talsins" - "hafa náð því að vinna 2.800 málum meira á sólarhring nú en fyrir tveimur árum, með lítið fleira fólki, en tiltölulega ódýrum endurbótum. Hvernig nýja þróin hefir í sumar bjargað tugum þúsunda með því að spara skipum tafir. Hvernig verkaskiptingin er nákvæmlega skipulögð, dagleg línurit gerð yfir afköst sérhverrar verksmiðju og allar tafir rannsakaðar," "og við ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði vinna um 150 manns. Þær vinna úr 8.000 málum síldar á sólarhring."

Tækifærunum er svo sem ekki sleppt hvar sem hægt er að koma að einhverju skrumi um verksmiðjurnar. En furðuleg er sú frekja og má reyndar teljast ofdirfska af framkvæmdarstjóranum, að endurtaka sí og æ staðhæfingar, sem hver einasti maður sem í verksmiðjunum vinnur og allir kunnugir vita að eru ósannar, og að tilfæra tölur sem hvert barn, sem kann deilingu í einskonar tölum, getur sannfært sig um að eru rangar.

Einherji benti á í sumar, út af viðtali framkvæmdastjórans í blöðum, og frásögnum í útvarpi, að það sem hann segir um afkastaaukninguna síðustu tvö árin, geti ekki staðist og færði sönnur á sitt mál, með því að sýna fram á hver meðalvinnsla verksmiðjanna hefði verið allt summið 1935 og hver hún var í sumar, frá 10. júlí til siðast í ágúst.

Í blaðaskrifum, sem út af þessu spunnust milli Gísla Halldórssonar og Þormóðs Eyjólfssonar, viðurkenndi Gísli sjálfur, að afkastaaukning verksmiðjanna væri aðeins 1.800 mál á sólarhring í stað 2.800 til 3.400 mál er hann hefði áður haldið fram að aukningin væri. Þessari 1.800 mála aukningu gat hann þó aðeins haldið fram með því, að byggja á skýrslu rannsóknarstofu verksmiðjanna, sem dregur öll "óhappastopp" frá vinnslutíma verksmiðjanna og með því að birta falsaða töflu um verksmiðjuafköstin, er hann tileinkaði Þormóði Eyjólfssyni. Og þegar Þ.E. benti á hvaða aðferðir Framkvæmdastjórinn  notaði til að verja sitt mál, gafst hann upp við að svara nokkru.

Nú var samanburður Einherja og Þ.E. á meðalvinnslu verksmiðjanna minna, - allt sumarið 1935, en aðeins nokkuð af tímanum 1937 og það einmitt há annatímann, - vitanlega Gísla mjög hagkvæmur. Til þess að samanburðurinn gæti verið fyllilega réttur og eðlilegur, þurfti að taka meðalvinnsluna allt sumarið 1937 (síðastliðið sumar.) Það hefði verið ofur einfalt, og vafalaust hefði framkvæmdastjórinn gert það nú í vertíðarlokin, ef honum hefði ekki verið fullljóst að þær tölur myndu sanna allt annað en hann hefir haldið fram, þær myndu sanna afkastalækkun, en ekki afkastahækkun,- og það miklu meiri en Einherji bjóst við í sumar,-eins nú skal sýnt fram á: 

S.R.P.

Bræðsla byrjar þar í sumar 15. júní og hættir 25. september, bræðslutíminn 103 dagar, mínus ca. 9 dagar er frá dragast af því að ekki er alltaf unnið á sunnudaga og nokkrir virkir dagar falla úr snemma á veiðitímanum vegna síldarleysis.

Bræðsludagar því 94. Verksmiðjan vinnur í allt úr ca. 112 þúsund málum (broti úr hundraði er sleppt.) Meðalvinnsla á sólarhring hefir því verið 1.192 mál.

Sumarið 1935 var meðalvinnsla í SRP 1.334 mál en nokkuð hærri 1934 og eru því afköst hennar rúmum 142 málum lægri á sólarhring nú en þá og rúmum 200 málum lægri en 1934.

 S.R.'30.

Þar byrjar bræðsla 22. júní og hættir 2. október, þ.e. 103 dagar, mínus12 dagar eða 91 dagur alls. Verksmiðjan vann úr 154.300 málum, meðalvinnsla 1.696 mál á sólarhring.

Sumarið 1935 vann hún að meðaltali úr 2.140 málum. Afköst hennar eru þannig 444  málum lægri á sólarhring nú en þá.

S.R.N.

Er dálitið hærri með bræðsludagafjölda en hinar, eða um 97 dagar. Byrjar 15. júní hættir 5. október, samtals 113 dagar, mínus 16.

Hún hefir brætt ca. 175 þúsund mál. Meðalvinnsla verður rétt um 1.800 mál, eða um 30 málum lægri en 1935.

(Það) sumar var sú verksmiðja þó í smíðum og komst aldrei fullkomlega í lag. Meðalafköst Síldarverksmiðja ríkisins hér á Siglufirði eru því rúmum 600 málum lægri í sumar en þau voru fyrir tveim árum, í staðinn fyrir að Gísli Halldórsson grobbar sí og æ af og staðhæfir gífurlegar afkastaukningar, svo að hann kemst jafnvel upp í 3.400 mál með allar verksmiðjurnar, þegar honum tekst best upp. Og i staðinn fyrir 8 þúsund mál á sólarhring geta þær, að jafnaði, ekki hafa unnið úr meiru í sumar en ca. 4.700 málum eins og sjá má af því, að þær hafa alls unnið úr ca. 441 þúsund málum - vel í lagt - á 94 sólarhringum.

Þessu þarf enginn að trúa í blindni, það er hverjum meðal greindum manni auðvelt að rannsaka sjálfur. 

Nýja þróin eða ný vélasamstæða 

 Að gefnu tilefni hefir það nú verið tekið til allrækilegrar athugunar hér í blaðinu hvort afköst ríkisverksmiðjanna hafa aukist tvö síðustu árin, og sannað að svo er ekki.

Hitt munu allir sammála um að afkastaaukningar hefði verið mikil þörf og að tækifærið var einmitt nú fyrir hendi þegar gífurleg verðhækkun varð á afurðunum og stórgróði hefði þar af leiðandi að öllu sjálfráðu, - áttu að geta orðið á verksmiðjurekstrinum. - Þetta mun verksmiðjustjórninni einnig hafa verið ljóst og viljað eitthvað í því gera.

Og ekki stóð á hugmyndunum. Framkvæmdarstjórinn sá allt i einni svipan hvað gera skyldi - og fékk það ráð:

Hálfri miljón króna skyldi varið til endurbóta á verksmiðjunum og til þess að byrja á þróarbyggingu með nýju sniði-. Sú byrjunarbygging átti að kosta 175 þúsund krónur, en framkvæmdastjórinn skýrir sjálfur frá því snemma í ágústmánuði í blaðaviðtali að hún hafi kostað 210 þúsund krónur og fullvist er að ekki voru þá öll kurl komin til grafan.

En þróin átti líka að vera alveg eindæma kostagripur, svo að annað eins hefði ekki þekkst hér á landi áður og jafnvel ekki i öllum heiminum.

Framkvæmdastjórinn reiknaði út í snatri að strax á þessu fyrsta sumri mundi hún bjarga verðmætum fyrir 400 þúsund krónur  eða meira.

Það er nú orðin svo alkunn raunasaga hvernig um það hefir farið, að ekki er þörf  á að fara um það mörgum orðum. Megnið af síldinni sem i þessa þró hefir verið látið, hefir stór skemmst og mörg þúsund mál liggja eflir í henni, - af flestum talin að vera alónýt.

Óhemju fé hefir verið til þess kostað að reyna að koma þessari skemmdu síld gegnum vélarnar, t.d. sóttur karfi sem komin var, í þró á Sólbakka, til þess að bræða með síldinni og skip leigt til þeirrar farar fyrir 6 þúsund krónur, keypt talsvert at dýrri reknetasíld í sama skyni, - auk þess sem farið hefir til spillis í öllu því basli, í kolum, salti, vinnu og vélasliti.

Hér skal að þessu sinni ekki reynt að sundurliða hve mikil verðmæti hafa farið þarna forgörðum, en það er fullvíst, að maður, sem hefir langa reynslu og manna mesta sérþekkingu á síldarverksmiðjurekstri hér á landi, telur tap verksmiðjunnar á nýju þrónni í sumar vera á þriðja hundrað þúsund krónur, auk þess sem byggingarkostnaðurinn sé að miklu leyti verksmiðjunum glatað fé.

Það hefir verið varið rúmlega 300 þúsund krónum til endurbóta, á ríkisverksmiðjunum, að því er verksmiðjustjórnin segir, sem enginn eða lítill árangur sést af, og það hefir verið varið á þriðja hundrað þúsund krónur til að byggja misheppnaða þró, sem stórtap hefir orðið á.

 Það er ekki ófróðlegt að athuga til samanburðar hver útkoman hefði orðið, ef sú leið hefði verið tekin til "afkastaaukningar" og "verðmætisbjörgunar", að bæta einni vélasamstæðu hér við verksmiðjurnar fyrir 2.400 mála vinnslu.

Áætlun liggur fyrir, sem grundvöllur fyrir tilboði hingað til Siglufjarðar, frá vel þekktu útlendu firma um fullkomna vélasamstæðu, frítt um borð, fyrir 220 þúsund krónur.

Lausleg áætlun hefir verið gerð um að kostnaður við flutning vélanna og uppsetningu í járnhúsi (svipað og hjá S.R.P.) mundi kosta allt að 130 þúsund krónur, eða hvortveggja samtals 350 þúsund krónur.

Hefði nú að þessu ráði verið horfið, í stað þess að verja rúmlega hálfri miljón króna til þróarbyggingarinnar og hinna svokölluðu "endurbóta", hefði samt orðið afgangs allálitleg fjárupphæð til ýmsa þarfalegra endurbóta, sem að, gat verið að ræða.

Verksmiðjurnar þurftu aldrei að stöðvast einn einasta dag frá 10. júlí í sumar til loka herpinótaveiðitímans, um 8. september og áttu þá gríðarmikla síld óunna, en aðeins skal reiknað með þessum tæpum tveim mánuðum, eða til að fara varlega, aðeins með 55 dögum.

Á þessum 55 dögum hefði verksmiðja með 2.400 mála daglegum afköstum, unnið úr, 132 þúsund málum, eða nærri 6-földu því síldarmagni sem nýja þróin tók, síldin öll orðið betri, vegna styttri geymslutíma, sjálfsagt engin síld orðið ónýt og framleiðslan fyrsta flokks vara.

Útgerðin hefði fengið 875 þúsund krónum meira fyrir hráefni, en hún fékk, og verksmiðjurnar hátt á 3. miljón krónur meira fyrir farmleiðsluna, án þess að rekstrarkostnaður hafi þurft að hækka, samanborið við það sem hann hefir orðið í sumar, því þá hefði ekki þurft að sækja karfa vestur á Sólbakka, ekki að kaupa dýra reknetasíld, ekki að eyða kolum né vinnu í að basla við að koma ónýtri síld gegnum vélarnar o.s.frv., o.s.frv.

Þjóðarbúskapurinn þolir ekki slíka ráðsmennsku, og því er það ekki að ófyrirsynju að í hinum væntanlegu verksmiðjulögum er gert ráð fyrir að stjórnendur Ríkisverksmiðjanna séu opinberir sýslunarmenn og falli undir refsiákvæði sem slíkir.

Verksmiðjurnar hafa verið notaðar svo ógætilega sem tilraunastöð af reynslulitlum manni með ótakmörkuðu sjálfstrausti, - að vel getur orðið þeim örlagaríkt um ófyrirsjáanlegan tíma. -

Enginn mun hafa verið spurður ráða, sem reynslu eða sérþekkingu hafði á síldarverksmiðjurekstri.

Mundu upplýsingar og leiðbeiningar i þeim efnum þó hafa verið auðfengnar. Fyrir allmörgum árum var líkt fyrirkomulag, og haft er á nýju þrónni, reynt í verksmiðju S.Goos: síldarþróin yfirbyggð og síldin söltuð gegnum op á loftinu.

En þetta reyndist svo illa að við það var hætt aftur. Þar kom fram sami gallinn og á nýju þrónni: síldin hrekkur undan saltbununum og verður svo saltlaus út við veggina, úldnar þar og skemmir út frá sér.

Verksmiðjustjórinn við Goos verksmiðjurnar - Snorri Stefánsson sem hefir langa reynslu og af öllum er viðurkenndur fyrir ágæta þekkingu og framúrskarandi alúð og lægni í starfi sínu, er ekki spurður ráða, hvernig þetta fyrirkomulag hafi reynst, né hversvegna hafi verið við það hætt, og hefði það þó verið ofur auðvelt.

Rangsóknarlaust og fyrirhyggjulaust hefir hundruðum þúsunda af fé verksmiðjanna - eða öllu heldur því fé, sem þær, hafa átt að ávaxta fyrir þjóðarheildina og þó sérstaklega fyrir sjómannastéttina, - verið fleygt í gagnslausar tilraunir, en yfir fánýti þeirra hefir verið reynt að breiða, með þrotlausum skrumauglýsingum.
_______________________

Einherji, 26. nóvember 1937 --- "Tveir smá greinarstubbar"

J.F.G. hróðugur.

Jóhann F. Guðmundsson, starfsmaður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, lætur bæði Alþýðublaðið og vasaútgáfu Alþýðublaðsins á Siglufirði, flytja þá fregn að Þormóður Eyjólfsson hafði verið "dæmdur" fyrir að bera sér á brýn vanrækslu í störfum fyrir ríkisveiksmiðjurnar.

Kallaði Jóhann þann áburð "atvinnuróg af verstu tegund" og krafðist að stefndur væri dæmdur fyrir hann til "þyngstu refsingar".

En fyrst Jóhann er svona glaður yfir hinum ágæta árangri(!), sem hann hefir náð í þessum málaferlum, hefði hann átt að skýra ögn nákvæmar frá, hve mikið hann hefir upp úr þeim haft, því hann hefir þar náð fleiru en því að fá Þormóð Eyjólfsson sektaðan um 40 krónur í undirrétti fyrir munmælin.

Honum hefir líka tekist að fá það staðfest fyrir réttinum, af þeim Guðmundi Hlíðdal, landssímastjóra og Oscar Ottesen, að verksmiðjustjórnin hafi á sínum tíma samþykkt að heimila Ottesen að segja Jóhanni upp verkstjórastarfinu eftir ósk Ottesens, og vegna kvartana um vanrækslu Jóhanns, en sú heimild hafi ekki verið notuð "vegna þess að Jóhann hafi farið að rækja starf sitt betur eftir samþykklina",  segir Ottesen.

Jón Gunnarsson, framkvæmdarstjóri, segir meðal annars: "Að hann (Jóhann) hafi stundum ekki verið viðstaddur til vinnu þegar honum bar" og "að hann hafi notað aðra menn til að vinna verk, sem hann hafi átt að vinna sjálfur".

Jón Sigurðsson, erindreki, viðurkennir að Jóhann hafi eitt sinn lagt niður vinnu þegar verst stóð á - mest var að gera - vegna þess, að hann hafi reiðst.

Einn verkamannanna segir:

"Að Jóhann F Guðmundsson hafi oft haldið sér og fleirum upp pólitísku snakki og bæjarslúðri í vinnutímunum á daginn".

Þá er það staðfest með eiði að annar verkamaður hafi viljað afturkalla eða ónýta vottorð, sem hann var búinn að gefa i málinu, af ótta við að Jóhann mundi "verða sér reiður og hann missa atvinnu í verksmiðjunni".

Þetta er aðeins lítið sýnishorn af hinum eiðfestu ummælum, sem Jóhanni hefir tekist að framkalla með málaferlunum.

Þau eru miklu fleiri og verða ef til vill birt síðar ef tækifæri gefst.

Vindhögg.

Í reiði sinni við Þormóð Eyjólfsson ráðast aðstandendur "Neista" allharkalega að Sjóvátryggingarfélagi Íslands, og telja Gísla Halldórssyni það til gildis, að hafa flutt vátryggingar Ríkisverksmiðjanna frá því til útlends vátryggingarfélags. - 

Annars mun Sjóvátryggingafélagið svara "Neista" sjálft á viðeigandi hátt, - ef því þykir þá taka því, - því auðvelt er félaginu að afsanna dæmi þau er til eru tekin í blaðinu, sem eru bara fjarstæða ein. Annars hefir svo margt verið um samning Gísla Halldórssonar við útlenda vátryggingarfélag talað, og orsakirnar til þess að hann hefir gengið fram hjá Íslenska félaginu, að vel mundi það þegið ef "Neisti" vildi birta þann samning í heild.
_______________________________

Einherji, 11. desember 1937  

Á alltaf að féfletta sjómenn ?

Af því að N.Dbl. á alltof fáa lesendur hér á Siglufirði, þykir rétt að birta þessa ágætu, rökföstu grein eftir formann Framsóknarflokksins, í Einherja. 

Er hún rituð fyrir N.Dbl. 5. þ.m., sem beint svar við þeim úlfaþyt sem reynt hefur verið , að þyrla upp meðal sjómanna gegn því að Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu síldina áætluðu verði en ekki föstu. 

En Framsóknarmenn leggja áherslu á að verðið sé áætlað og full greiðsla fari ekki fram fyrr en séð er, hve mikið verð fæst fyrir afurðirnar. Vilja þeir að þar sé fylgt samskonar reglu og höfð er í samvinnufélögunum, um greiðslu á afurðum bændanna og telja með því tvennt fengið: Verksmiðjurnar sé forðað frá mestu fjárhagslegu áhættunni, og komið í veg fyrir það, að af sjómönnunum sé haft það sem þeim ber, samkvæmt hinum upprunalega anda og tilgangi verksmiðjulaganna. 

Ýmsir af svokölluðum leiðtogum sjómanna, t.d. Jón erindreki og Páll Þorbjarnarson í Vestmannaeyjum, hafa undanfarna daga staðið að því að fá samþykktar á æsingafundum í sjóþorpum og kauptúnum gífuryrt mótmæli gegn því að sjómönnum og útgerðarmönnum verði tryggt sannvirði síldarinnar, fyrst í verksmiðjum ríkisins og síðan í verksmiðjum, sem einstakir menn eiga. 

Málið er að mörgu leyti skemmtilegt. Broddum þessara ályktana er alveg sérstaklega snúið að mér. En ég er einmitt fyrsti maður utan sjómanna og verkamannastéttar, sem hefi lagt á mig nokkra fyrirhöfn og talsverðar óvinsældir við að móta þá einu stefnu, sem tryggir sjómönnum að verða aldrei féflettir fyrir vinnu sína við síldveiðarnar. 

Að öðru leyti eru sjómenn ginntir til að samþykkja yfirlýsingar, sem eru beinlínis bæn frá þeirra hálfu um að þeim, megi auðnast sú mikla hamingja að verða féflettir framvegis eins og hingað til. 

Þriðja merkis-einkennið er það, að þeir leiðtogar, sem hér hafa forustuna um að fá sjómenn til að biðja stétt sinni ólán í framtíðinni, eru menn mest sekir um eigingjarna framkomu: Páll Þorbjarnarson og Jón Sigurðsson höfðu frá Alþingi trúnað um að stýra verksmiðjum ríkisins á þann hátt að það efldi hag sjómanna. 

Þeim var meir en vel launað fyrir þá vinnu, sem þeir leystu af hendi. Samt veittu þeir sér sjálfum lán af fé sjómanna í verksmiðjunum. 

Sama gerðu helstu yfirmenn sem þeir völdu til samtarfsins, þar á meðal Gísli Halldórsson. 

Auk þess lofuðu þeir Gísla Halldórssyni, eftir því sem hann segir sjálfur, a.m.k. 4.000 krónum aukabita fyrir að leggja fram verkfræðirit við verksmiðjuna, auk þess sem hann hafði 12.000 krónur í kaup og 110 krónur á dag, er hann ferðaðist fyrir sjómenn til að koma vöru þeirra í verð erlendis. 

Forkólfar sjómanna, sem nú standa fyrir stórorðum ásökunum á Framsóknarflokkinn, hafa þessa forsögu, og er þó ekki allt talið, sem bregður birtu yfir verðleika þeirra. 

Sök Framsóknarmanna er sú, að þeir hafa lálið reisa verksumiðju á Siglufirði til að taka til vinnslu síld frá sjómönnum og útgerðarmönnum, og gera hana nú markaðsvöru, og tryggja eigendum vörunnar sannvirði hennar á heimsmarkaðnum. 

En Páll Þorbjörnsson og sálufélagar hans vilja ekki þetta, heldur að síldin sé keypt af þeim, og gróðamöguleikunum veitt yfir á ríkið og einstaka menn, P.Þ. vill halda við hinu aldagamla skipulagi, að þeir sem ráða yfir fjármagninu og atvinnutækjunum fái tækifæri til að fá sérgróða af striti sjómannanna. 

En mín aðstaða til síldveiða og sjómannanna er með allt öðrum hætti en hinna skuldugu þjóna sjómannanna. 

Árið 1916 risu sjómenn hér í Reykjavík upp og kröfðust Þess að þeir mættu sjálfir versla með sinn, hlut af aflanum á torgunum. Það var talið, að lifrin væri aflahlutur sjómanna. En þeir fengu ekki að selja lifrina sjálfir. Útgerðarmenn kölluðu lifrina hlut sjómannsins, en tóku hana sjálfir fyrir lítinn hlut af sannvirði hennar. 

Sjómennirnir voru féflettir fyrir allra augum. En þeir áttu fáa vini í landi utan stéttar sinnar. Og það var heldur ekki hægt að hafa aukastarf fyrir mörg þúsund krónur á ári þá, fyrir að taka málstað sjómanna, enn síður að fá hjá þeim lán til eigin þarfa. 

Þá var ekkert hægt að hafa upp úr því að taka málstað sjómanna, nema að gera rétt, og fá óþökk allra þeirra, sem völd og áhrif höfðu í landinu. 

Ég studdi sjómennina í þessu verkfalli, í ræðu og riti benti ég á samvinnugrundvöllinn, sem ætti að byggja á. 

Allar afurðir hækkuðu stórlega. Útvegsmenn græddu meir en nokkru sinni fyrr. Sjómenn voru félagar þeirra í starfinu og höfðu sinn bróðurpart af áhættunni. 

Úr því að lifrin var þeirra kauphluti, þá áttu þeir að fá að versla með hann, og fá af honum hinn réttmæta tekjuauka, sem leiddi af verðhækkuninni. En útgerðarmenn vildu þetta ekki. Þeir vildu að sjómenn væru féflettir eins og áður og eins og Páll í Eyjum vill enn vera láta. 

Árið 1916 sýndi ég fram á hinn réttlátu beiðni sjómanna, að fá sannvirði fyrir sinn hlut. Sjómenn stóðu þá með mér og trúðu á sannvirðið. 

Útvegsmenn stóðu þá móti, því að þeirra var gróðavonin, eins og þá stóð á, að svipta sjómenn sannvirði fyrir hlut þeirra á togurunum. 

En nú er skipt um hlutverk. Nú bjóða útvegsmenn hlutaráðningu og frelsi til að sjómenn ráðstafi sínum hlut, þeir hafa sömu ástæðu til að bjóða þessi boð nú, eins og að neita 1916. 

En nú neita sjómenn. Nú vilja þeir ekki fá sannvirði vöru sinnar. Þeir eru komnir í spor útgerðarmanna frá 1916. 

En samvinnumenn standa í sömu sporum eins og við hin fyrstu stóru átök um réttláta skiptingu andvirðisins fyrir sjávarafurðir fyrir 21 ári. Þá neituðu útgerðarmenn réttlátu verði. Nú neita sjómenn fyrir munn skammsýnna leiðtoga. 

Framsóknarmenn hafa aðeins eitt ráð að gefa andstæðingunum á sjávarbakkanum: Vinnið saman og skipið í friði og réttlæti því sem sjórinn gefur í sigurlaun fyrir mikið strit og áhættu. 

Fram að þessu hafa báðir aðilarnir talið sig hafa betra af að berjast um fenginn í fjörunni, með gagnkvæmri tálvon um að geta leikið á mótpartinn. 

En árangurinn hefur orðið gagnkvæm hörmung og getuleysi. Og fyrir sjómennina er það ef tilvill mesta þrekraunin, að hafa fyrir leiðtoga menn, sem biðja um að sjómenn megi alltaf verða féflettir. 

J.J.
_____________________

Einherji, 8. janúar 1938

Þegar Neisti þykist ætla að fara að segja satt.

 Neisti neitar því harðlega að formaður Framsóknarflokksins hafi átt nokkurn þátt í að fram kom tillaga um stækkun eða fjölgun ríkisverksmiðjanna hér í Siglufirði sem síðan náði samþykkti þingsins, og færir það til, að sú tillaga hafi verið flutt af sjávarútvegsnefnd Efri deildar.

Rétt er það, að hún er flutt af sjávarútvegsnefnd, en það var gjört fyrir atbeina Framsóknarflokksins og tillögu og sérstaka forgöngu framsóknarflokksins.

Hinir flokkarnir gengu síðan inn á tillöguna, en "með samviskunnar mótmælum" sagði eins helsti þingmaður jafnaðarmanna.

Það kann vel að vera að sá hinn sami hafi gjört það vegna áskorunar Finns Jónssonar og atvinnumálaráðherra, sem hafi þá farið að rumskast, af því, að þeir hafi ekki viljað láta Framsóknarmenn eina hljóta þakkir fyrir þá tillögu.

Og ekki er heldur ólíklegt, að Gísli Halldórsson hafi ásamt "fráfarandi stjórn verksmiðjanna, með formann sinn, Finn Jónsson alþingismann í fararbroddi", viljað reyna að bjarga því sem mögulegt var áður.
________________________


Umfjöllun í Fjárlögum 1940: Jónas Jónsson:
http://www.althingi.is/altext/raeda/?rnr=1052&lthing=54  

 Umfjöllun í Fjárlögum 1940:  Finnur Jónsson
http://www.althingi.is/altext/raeda/?rnr=1058&lthing=54 ____________________________________

Alþýðublaðið 23. september 1962 

Síldarsjóðari Gísla Halldórssonar reyndist vel í SR46

SÍLDARSJÓÐARI, sem Gísli Halldórsson verkfræðingur fann upp, var fluttur til Siglufjarðar í sumar og prófaður í SR 46 nú undir lok sumarvertíðarinnar. —

Sjóðarinn reyndist mjög vel og hefur Gísli hug á að slíkum sjóðurum verði komið í sem flestar síldarverksmiðjur sem fyrst. 

Upphaflega átti að reyna sjóðarann á Akranesi. Það reyndist ekki unnt vegna rúmleysis, því teikningar- af húsinu, þar sem koma átti honum fyrir, reyndust ekki í samræmi við veruleikann. 

Fyrir sérstaka velvild stjórnar og framkvæmdastjóra SR reyndist Unnt að prófa sjóðarann í SR 46 á" Siglufirði.

Sjóðaranum, eða „mallaranum" er ætlað að taka við síldinni heitri úr forhitara eða sjóðara, og halda henni í sér í hæfilega Iangan tíma, svo efnið verði gegnum soðið. 

Í SR 46 eru fjórir sjóðarar, sem sjóða með óbeinni gufu, hver í gegnum sína forsíu og pressu. — Mestu afköst nýrra slíkra sjóðara eru talin 3500 mál á sólarhring. Pressurnar í SR 46 afköstuðu frá 1500 til 2000 málum á sólarhring. Með því að skjóta mallaranum inn í milli suðukers nr. I. á annan bóginn og pressu I og pressu I og pressu II  á hinn bóginn. 

Reyndist auðvelt að nota aðeins eitt suðuker fyrir báðar pressurnar og með þessu móti urðu afköst suðukers og mallara 3.800 mál. — 

Hitastig í pressukökunum hélzt þó í 82 til 83 gráðum. Reynt var að auka afköstin upp í 4500 mál, en það reyndist kerinu ofviða. Gísli telur þó ekki ólíklegt, að ná mætti 4.200 mála afköstum. 

Gísli Halldórsson segir, að einu verulegu erfiðleikarnir í notkun mallarans eða sjóðarans hafi legið í því að erfitt reyndist að stilla úthlaupslokuna, þannig, að rennsli héldist jafnt og yfirborð héldist rétt. Þetta er hins vegar auðvelt; að lagfæra og er nú verið að smíða snúningsmatara til að bæta úr þessu. 

Í þessari tilraun á Siglufirði, tók mallarinn að sér hlutverk óbeins suðukers, sem kostar 600-800 þúsund, en mallarinn kostar hins vegar ekki nema um 100 þúsund krónur. 

Afköst suðukersins, sem tengt var mallaranum hiklaust úr 1800 málum í 3800 mál. Vélsmiðjan Hamar smíðaði þennan mallara og er búizt við, að þar verði fleiri slíkir smíðaðir innan skamms eftir fyrirsögn Gísla. 

Gísli hefur sótt um einkaleyfi á mallaranum í mörgum löndum. Eiga slík tæki áreiðanlega eftir að koma í flestar síldarverksmiðjur hér á landi og ef til vill víða erlendis, því hér er um að ræða merka nýjung.

Athugasemd SK.>  Ekki varð neitt úr því að SR keypti eða setti upp þennan búnað Gísla, þar sem starfsmenn SR voru ekki í öllu sammála honum um árangurinn.
---------------------

Hluti viðtals, frásagnar Hjartar Pálssonar um Gísla Halldórsson í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins:

.... Þegar hann var tíu eða ellefu árasmíðaði hann heilt leikhús að forsögn Familie Journal, þýddi leikritið „Önskeringen" úr dönsku og færði það upp með aðstoð Boggu barnagæzlu og Gaua í smiðjunni, sem galaði fyrir hanann -- og hlaut að launum 10 krónur og hefilbekk frá Eldeyjar-Hjalta . . .
Nú er hann frægasti verkfræðingur Íslendinga heima og erlendis, fróðastur þeirra allra um geimferðir og eldflaugar og drukkinn af bjartsýni og sköpunargleði. Næstu daga mun það ráðast, hvort hann fer 'til' Chile til að taka að sér byggingu síldarverksmiðju fyrir bandarískt auðfélag......

Því er stundum haldið fram, að véladynur og hraði nútímans sé að drepa ímyndunaraflið nútímamenningin sé innantóm, sérhæfingin að leiða okkur á villigötur — og þær kynslóðir íslendinga, sem nú ráða ríkjum, eigi ekki neinar hugsjónir. Ef þetta er nú allt saman satt og rétt, getum við huggað okkur við, að frá þessari reglu er að minnsta kosti ein undantekning: 

Gísli Halldórsson, verkfræðingur — „hvis fantasi er helt magelös", eins og Danskurinn mundi segja. Þessi síkviki, starfsgleði, Vesturbæingur sem fyrstu æviárin brallaði ótrúlegustu hluti, sem strákar einir geta fundið upp á, með þeim æruverðu borgurum, sem voru að vaxa úr grasi við Vesturgötuna milli 1911 og 1920, varð seinna frægur verkfræðingur og uppfinningameistari með Dönum og Könum. Hinum fullorðna verkfræðingi hafði þá tekizt að beygja óstýrilátt ímyndunarafl grallarans undir vilja sinn og einbeita því að lausn ýmissa nýstárlegra tæknivandamála. 

Nú býr hann úti á Seltjarnarnesi með konu sinni, Kolbrúnu Jónsdóttur, fyrstu fegurðardrottningu íslands, og börnum þeirra. 

Gísli var ekki seinn til svars, þegar ég fór fram á viðtalið, sem hér fer á eftir og okkur kom saman um að taka daginn snemma.

Og einn fagran septembermorgun, þegar kollur Esjunnar var hvítur eftir nóttina í mjólkurgulri morgunsólinni, gekk ég niður á Hótel Borg, þar sem við Gísli höfðum mælt okkur mót. Innan skamms var kaffið komið á borðið og Gísli farinn að segja frá, og af glampanum í augum hans mátti ráða, að hann væri sjálfur eina af þeim, sem séð hefur vonir sínar bregðast, en aldrei verið ákveðnari en þá í að berjast til þrautar. 

Hann er sjálfur einn af þeim sem hann valdi þessi orð í útvarpserindi um mallarann fyrir fáeinum vikum: þeir eru „drukknir af sköpunargleði og bjartsýni". 

Viltu ekki segja mér eitthvað úr Vesturbænum, Gísli? Og af ætt þinni og uppruna. 

Ég er 56 ára gamall. Fæddur í Vesturbænum á Doktorsstíg eða Vesturgötu 25B. Það hús átti Jakob frá Auðsholti, og stendur það nú við Ránargötu. Þarna átti ég heima til 17 ára aldurs, og þaðan á ég mínar dýrmætustu æskuminningar. Eitt af því sem mig langar mest til að gera er að skrifa um þær. 

Faðir minn var Halldór Guðmundsson, rafmagnsfræðingur. Hann var brautryðjandi í rafmagnsvirkjunum hér á landi og setti upp allar fyrstu rafstöðvarnar. Hann barðist fyrir virkjun rafmagns úr Elliðaánum sem hann gerði tilboð í að virkja. En mönnum þótti gasið álitlegra. Þekktur borgari hélt því fram, að rafmagnsstöð gæti ekki borið sig vegna þess, hve sumrin væru hér björt og þá ómögulegt að selja, rafmagn til ljósa!. Gas væri hinsvegar miklu hentugra til iðnaðar og upphitunar!

Þegar Elliðaárnar voru loks virkjaðar vildi Jakob gamli með engu móti tengja húsið við rafmagnsveituna. Til þess að geta notað rafljós varð faðir minn því að setja upp rafhlöður í kjallaranum o g leiða frá þeim í nokkra lampa. Þegar ljósið fór að dofna, varð að fara með þær i hleðslu. — Hvaðan var faðir þinn? — 

Faðir minn var ættaður úr Mýrdalnum , þar sem  afi minn var alkunnur sægarpur og formaður. Segir nokkuð fr  honum í bókinni „Pabbi og mamma " eftir föðurbróður minn, Eyjól f Guðmundsson frá Hvoli. 

Guðmundur fann m.a. útræði fram af Jökulsárósum, sem mikið var notað þótt ófært væri af söndunum annarsstaðar. Var þetta nefnt Maríuhlið. 

Bátur Guðmundar, sem frægur er orðinn, nefndist Pétursey, og er hann nú í byggðasafninu að Skógum . Móðir mín var Guðfinna Gísladóttir, dóttir Gísla Engilbertssonar, verzlunarstjóra, eða faktors, hjá Bryde í Vestmannaeyjum. Hann var mesti heiðursmaður og skáldmæltur þar að auki . Hjá honum og konu hans ólst upp Hjalti Jónsson, síðar nefndur Eldeyjar-Hjalti. Hélst ávallt mikil l vinskapur milli hans og foreldra minna . Rausn Hjalta var frábær . Þannig man ég, að hann gaf mér minnst tvær krónur fyrir flengingu á bolludaginn . En það var ekki lítill peningur fyrir hálfri öld. 

Og eitt sinn,  er ég var tíu eða ellefu ára og hafði smíðað heilt leikhús að forsögn „Familie Journal " með fjórum snúanlegum hliðartjöldum, baktjaldi, sem hægt var að hífa upp , og fallhlemmi og auðvitað fortjaldi og þýtt úr dönsku leikritið „Önskeringen", gaf  hann mér 10 krónur að sýningu lokinni. Leikbrúðurnar voru á færanlegum tréklossum, sem vírar lágu í út til hliðanna. Sviði

ð var upplýst á margvíslegan hátt með rafmagni. Hringing kvað við, áður en tjaldið lyftist. Þarna voru mjög fallegar senur, skógarlundur með álagahól, sem opnaðist og galdranorn kom út úr, hellir þar sem ræningjar héldu til, hallarsalur konungs o.fl. Ég talaði sjálfur fyrir munn karlpersónanna en Bogga barnagæzla fyrir munn kvennanna. Bróðir hennar, Gaui í smiðjunni, galaði fyrir hanann. Það gerði hann frábærlega vel. Nokkrum dögum eftir sýninguna komu menn frá Hjalta með hefilbekk að gjöf til mín. 

Hjalti gerði það ekki endasleppt við mig, sem sjá má af því, að hann gerði mér aldarfjórðungi síðan mikla greiða að skrifa upp á víxil fyrir mig, sem nú mundi jafn gilda a.m.k. milljón krónum. Ég var þá i kröggum með vélsmiðjuna Jötun hf.

Ef við segjum nú skilið við leiklist æskuáranna, hverjar finnst þér þá, að hafi verið merkustu nýjungarnar í verkfræði um það bil, sem þú laukst verkfræðiprófi Gísli? — 

Ég minnist ekki neinna sér stakra „nýjunga" í verkfræði fyrir 30 árum. En tæknimenningin stóð þá á langtum frumstæðari stoðum en nú. Eðlisfræðin t. d. hefur tekið ótrúlegum breytingum og sömuleiðis efnafræðin. Nú í dag er hægt að framkvæma ýmislegt, sem ekki þýddi að hugsa um fyrir 30 árum. Þannig þekktust þá ekki efni, sem þola hitann, sem myndast víð bruna í gassnældum eða gastúrbínum og því þýðingarlaust að smíða þær, þó að útreikningar væru fyrir hendi.

Ég eyddi heilu ári við nám í Kaupmannahöfn til að læra gerð og smíði eimsnælda og bjóst við, að gagn kynni að verða af þeirri þekkingu, er boranir hæfust eftir gufu á íslandi. Ekki grunaði mig þá, að það ætti eftir að taka meira en 30 ár, að jarðgufa yrði virkjuð hér til rafmagnsframleiðslu. Og lengi vel vildu menn helzt ekki trúa því, að gufu mætti fá hér úr jörð. Þegar vatn flaut yfir hver nokkurn í Hengli, þannig að hann virtist hafa horfið, var mér gert það til háðungar í þekktu dagblaði að nefna hann Gíslahver, og var hvarf hans talið sönnun þess, hve gufan væri hverful og heimskulegt að ætla sér að virkja hana! — 

Það er ekki langt síðan þú fluttir útvarpserindi um mallarann, sem sýndi glöggt, hve sumar tæknilegar og verkfræðilegar nýjungar mæta miklum misskilningi og eiga erfitt uppdráttar á Íslandi 1963 og þú hefur oftar en einu sinni bent á, hve mikill munur er á viðhorfi annarra þjóða, eins og t. d. Bandaríkjamanna, til slíkra hluta, en þú ert orðinn þessu vanur og kannski hættur að kippa þér upp við það. —

Já, - jafnvel í verkfræðingafélaginu, þar sem ég hélt erindi um jarðgufuvirkjanir árið 1934 eða svo, var ég beðinn að bera ekki upp tillögu um, að „félagið skoraði á ríkisstjórnina að líta fara fram athugum á því, hvort ekki kynni að vera hagkvæmt að bora eftir og virkja jarðgufu".

Taldi þáverandi formaður, að betur þyrfti að athuga, hvort ástæða væri til að bera fram slíka áskorun, og gerði ég það að ósk hans að draga tillögu mína til baka - félagsins vegna. Er þetta gott sýnishorn af ráðandi hugsunarhætti, sem varð einnig til þess, að ekki fékkst keyptur sá jarðbor, sem með þurfti til þess að bora eftir gufu fyrr en seint og síðar meir, en það er snúningsbor með leðjudælum. Slíkan bor bauð ég árið 1936 og síðar tvisvar eða þrisvar sinnum, unz slíkur bor var keyptur fyrir fáum árum. 

Geta má nærri, að gufa sú, sem fengizt hefði með því að bora með honum, hefði nægt til hitaveitu fyrir allan bæinn og einnig til rafmagnsframleiðslu. Þá hefði verið unnt að spara hundruð milljóna, sem eytt hefur verið fyrir kol og olíu. Þetta er aðeins eitt dæmi um tæknilega vankunnáttu eða blindu.  sem svo oft einkennir Íslendinga og ber vott um vanþroska verkmenningu. —

Hvað telst þér til, að þú hafir verið lengi í. Ameríku? —

Ég hef verið þar einu sinni og tvisvar á ári allt frá árinu 1943 að undanskildum tveim eða þrem síðustu árum. — Hvers vegna fórstu vestur? —

Fyrst fór ég þangað árið 1944 eða svo. Þá ferðaðist ég víða og skrifaði ferðapistla, sem birtust í „Lesbók Morgunblaðsins", en voru síðar gefnir ít, og nefndist bókin „Á ferð og flugi". Árið 1948 hugðist ég flytja mig til Bandaríkjanna. Ég var orðinn uppgefinn og fjárþrota. Vélsmiðjan „Jötunn" hf. sem ég rak í sex ár, hafði sligað mig. Hún var byggð á stríðsárunum á mjög dýrum tímum, — en ekki tekið tillit til þess af verðlagsstjóra.

Annars vegar þjarmaði tilkostnaðurinn að mér, en hámarksákvæði um útselda vélavinnu á hinn veginn. Þetta reið baggamuninn. Ég varð að selja „Jötunn" með verulegu tapi, og hann reyndist víst Sambandinu ærið erfiður biti, enda voru ýmsar deildir hans lagðar niður einkum þær, sem fyrst og fremst voru sniðnar fyrir viðgerðir á dieselvélum og þjónustu við útgerðina og fiskiðnaðinn, en sett upp bílaverkstæði í staðinn. —

Starfaðirðu sjálfstætt í Bandaríkjunum? —

Ég starfaði sjálfstætt að því leyti, að ég taldist ekki starfsmaður" þess fyrirtækis, sem ég vann þó eingöngu fyrir, heldur ráðgjafi. Þó var ég stundum nefndur yfirverkfræðingur og rannsóknarstjóri, — „director of researc)i". 

Ég átti ekki nema fyrir hótelherbergi eina nótt, þegar ég náði í vinnu í Baltimore. Hefði ég tekið hverju sem bauðst, og fyrsta árið mitt hafði ég ekki nema 5.600 dollara í tekjur. Þegar ég kom heim á síðkvöldum og þrammaði eftir götunum, sem voru umgirtar háum og fögrum trjám, komu stundum æðandi að mér hundar, sem hafa sennilega haldið, að ég væri annaðhvort innbrotsþjófur eða illmenni. Ég átti sem sé engan bíl, en í þessu ágæta hverfi sást varla fótgangandi maður. 

Nokkrum árum síðar átti ég nýjan Cadillac, og tekjurnar voru komnar upp í 23 þús. dollara á ári. Þá var ég búinn að gera nokkrar uppfinningar. Annars leiðist mér alltaf þetta orð. Væri ekki hugsmíð betra? Helztar þeirra voru þurrkarar og kælar, sem nú eru notaðir víða um heim. Þurrka þeir og kæla bæði áburðarefni, sprengiefni, fiskimjöl o.f.l. Einir átta eða tíu slíkir þurrkarar eru í notkun hér á landi og hafa þótt gefast vel. Ég bjó einnig til nafn á þessi tæki og nefndi þau „dehydr-o-mat", sem leggja mætti út: „sjálfvirkur afvatnari". 

Eftir fimm ára dvöl í Bandaríkjunum var ég orðinn þreyttur á að kúldrast þar aleinn í íbúð minni og búinn að sanna sjálfum mér og öðrum, að ég var gjaldgengur verkfræðingur. En satt að segja var ég áður hér heima farinn að efast um það, að ég með allt mitt hugmyndaflug, sem svo litlu fékk áorkað á Íslandi, væri með réttu ráði. Af þessum ástæðum get ég aldrei nógsamlega þakkað, að ég skyldi fara til Bandaríkjanna, því að þar fann ég sjálfan mig aftur. Þegar ég snéri heim, ætlaði ég ekki að setjast að á Íslandi, — miklu fremur einhvers staðar í Bretlandi eða á meginlandinu. 

En ég tafðist heima og eignaðist aftur konu, börn og heimili. Nú kemur til greina að ég fari til Chile til þess að taka þar að mér þýðingarmikið verk. Þetta verður þó ekki afráðið, fyrr en um næstu mánaðamót. þegar ég verð búinn að skreppa til New York. —

Hvaða verk er það? —

Fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá John N. Renneburg, forstjóra fyrirtækisins, sem ég vann fyrir í Bandaríkjunum árum saman. Hann sagði mér þar frá því, að bandarískt auðfélag, sem ætti 56 verksmiðjur, hefði nýlega veitt hátt á þriðju milljón dollara eða á annað hundrað milljónir íslenzkra króna til byggingar stórrar síldarverksmiðju í Chile, þar sem jafnframt verður reist rannsóknarstöð. Þar eru nú í undirbúningi 26 verksmiðjur. Renneburg sagðist hafa tekið sér það bessaleyfi að benda stjórn fyrirtækisins á mig, þar eð hann áliti mig hæfan mann til að standa fyrir byggingunni og taka að mér framkvæmdastjórastöðuna, ef ég vildi.

Bærinn, þar sem þessi verksmiðja á að rísa, er á stærð við Reykjavík og þar er ekki of heitt á daginn, en svalt á nóttunni og ríkir þar sífelld vor og sumarveðrátta. Ég var að gera því skóna í útvarpinu um daginn, að ef mallarinn fengizt ekki fullreyndur hér heima, þá yrði ég að setja hann upp í Chile.

Ég veit ekki enn, hvort nokkuð verður af því að ég flytji, en það er vissulega gaman að fá svona tilboð. Minn gamli forstjóri bað mig að skrifa sér um hæl og segja sér, hvort ég hefði áhuga á þessu, en byrjunartekjurnar yrðu um milljón á ári, og eins og ég sagði þá, er ég nú á förum til New York um mánaðamótin. Þetta er dálítið freistandi. Það gæti orðið skemmtilegt lífsævintýri að fara til Chile — og vera þar jafnvel í nokkur ár. –

Hafðir þú eitthvað með síldarverksmiðjur að gera þegar þú varst fyrir vestan?

 Ég teiknaði margar verksmiðjur og vélar í þær. Eru sumar í Suður-Afríku, t.d. Wolonbay, en aðrar í New Foundlandi, svo sem hjá Crosby í St. Johns. 

Og allt þar á milli. Það má líka e.t.v. geta þess, áð ég teiknaði og sá um byggingu stærsta lykteyðingarkerfis, sem enn mun til í síldarverksmiðju. 

Er það í Wildwood í New Jersey. Þar sem unnin eru 60 tonn á klukkustund. Þeir voru lengi búnir að vera í vandræðum með lyktina, sem alla fældi burtu, en það var mjög skaðlegt, ekki sízt vegna þess, að verksmiðjan stendur nálægt einum stærsta baðstað Bandaríkjanna. 

Kerfið hefur nú verið notað í átta eða níu ár og með prýðilegum árangri.

Fékk ég þessu til staðfestingar bréf frá borgarstjóranum, þar sem hann sagði mér, að kerfið hefði gefið svo góða raun, að hann væri viss um, að fæstir, sem flutt hefðu til Wildwood eftir að það var sett þar upp, hefðu hugmynd um, að þar væri síldarverksmiðja! Kostnaðurinn af eyðingunni nemur ekki nema 1 % af mjölverðinu, svo að þú sérð líka að þetta borgar sig. Frá kerfinu segir í tímariti verkfræðingafélagsins. —

Mér dettur í hug, þegar þú minnist á baðstað, að þú hefur lengi haft áhuga á, að hér í borg yrði útbúinn baðstaður við Skerjafjörðinn eða fyrir sunnan Tjörnina þar sem Reykvíkingar gætu notið beztu hugsanlegrar aðstöðu samkvæmt þeim kröfum, sem nú eru gerðar til slíkra staða. —

Já, ég hef gert teikningar og útreikninga að slíkum baðstað, þar sem 6000 manns gætu baðað sig samtímis, þannig, að ýtrustu hreinlætiskröfum væri fullnægt. Þessi baðstaður yrði með hvítum sandi á ströndinni ! Blandað yrði saman hitaveituvatni og sjó, sem dælt yrði úr Skerjafirði. 

En á ströndinni yrðu rafhitaofnar eins og sólhlífar í laginu. Þá gætu baðgestirnir notið útivistar og sólbaða á ströndinni án þess, að loftkuldinn yrði nokkurt vandamál. Þessar hugmyndir voru á sínum tíma lagðar fyrir borgarstjóra. 

En um það leiti sem þær komu fram munu íþróttamenn hafa átt fullt í fangi með að koma upp Laugardalsvellinu sem er að vísu ekki lokið enn, og tóku ekki hugmyndina að sér. Mér þætti þó ekki ólíklegt, að nú væri kominn tími til að taka málið upp aftur. Baðstaður eins og sá sem ég hefi hugsað mér, að hér gæti risið, yrði ekki aðeins mikil heilsulind, heldur mundi hann einnig tvímælalaust laða að sér ferðamenn. —

Þú hefur oftar en einu sinni minnzt á menntun með hliðsjón af tækni og vélvæðingu nútímans Hvernig eigum við að kippa þessu í lag? Á að ,,kenna unglingunum áhuga á tækninni á skólabekk", ef svo mætti segja eða freista þess að vekja lifandi áhuga þeirra með öðrum hætti? —

Það var sérstaklega breytt fyrirkomulag á iðnmenntun hérlendis, sem ég hafði í huga þegar ég var að drepa á þetta vandamál fyrir um það bil 30 árum. Ég vildi, að, komið yrði á fót verkskólum, þar sem nemendunum yrði kennt að fara með þær vélar og tæki, sem nú er óhjákvæmilegt að nota. 

Sá háttur, sem verið hefur á tæknimenntun hér fram að þessu, hefði getað verið mun betri. En nú er þetta að breytast — og einmitt í það form, sem ég taldi réttast, Við erum að átta okkur, og með fullkomnari tækniskólum, ætti betri árangur að nást og tæknimenning að aukast. 

Það er sjálfsagt ekki hallað á neinn, þó að sagt sé, að Gísli Halldórsson hafi orðið fyrstur íslendinga til að láta sig dreyma um geimferðir í alvöru, enda langt síðan hann fór að glíma við verkefnið að sínu leyti. Á þeim vettvangi hefur hann fylgzt með þróuninni árum saman, og júníbók Almenna bókafélagsins 1957 var skrifuð af honum og fjallaði um geimferðir og eldflaugasmíði. Það var bókin „Til framandi hnatta“. Þess vegna lá beint við að spyrja, hvenær áhugi hans á geimferðum hefði vaknað. — 

Áhugi minn á geimferðum og eldflaugum og öllu, sem það snertir, hefur fylgt mér nokkuð lengi. Mig minnir, að það væri 1928 aða 1929 sem ég sendi brezku flugmálastjórninni tillögur um og teikningar af sjálfstýrðri og fjarstýrðri eldflaug. en e.t.v. segir það bezt til um áhuga minn á þessum vettvangi að ég er einn af eldri meðlimum ameríska eldflaugafélagsins, félagsnúmer 1411. 

En það má líka gjarnan koma fram, að enda þótt Bandaríkjamenn séu miklu áhugasamari um nýmæli og framfarir í tækni en Íslendingar, þá var bæði almenningur og stjórnmálamenn þarlendis mjög lengi að átta sig á þýðingu geimferða. Og fé til slíkra tilrauna var lengi af skornum skammti. 

Ég minnist þess, að þegar ég var á ferð í Bretlandi 1951 kom ég þar inn í bókabúð og rakst þá á mjög skemmtilega og merkilega bók um geimferðir eftir Arthur Clarke, Ekki minnkaði áhuginn við þetta, og sama ár hélt ég erindi um þessi efni í útvarpið hér heima. Þá héldu ýmsir, að ég væri alveg genginn af göflunum. Og bók sem ég skrifaði um geimferðir fékkst ekki gefin út hér á landi, fyrr en um það bil sex árum seinna, eftir að Rússar skutu sínum fyrsta spútnik á loft. —

Hvaða þýðingu heldur þú að geimferðirnar geti haft fyrir mannkynið í heild? — Ýmsir telja, að geimferðirnar geti ekki komið mannkyninu að neinu verulegu gagni, en reynslan er ekki löng og fjarri því að öll kuml séu komin til grafar. Ég held .... „....ólesanlegt í blaðinu....“  .....eins og vísindamaður einn gerði í mínum sporum, en hann sagði stutt og laggott: „Hvaða gagn er að ungbarni?"  —

Hvað getur þú sagt mér af verkfræðistörfum þínum hérna um þessar mundir? Ertu ekki með eitthvað nýtt á prjónunum? —

Jú, en það er kannski ekki tímabært að segja frá því. Þó er þess að geta, að nú er verið að setja mallarann upp i Sandgerði hjá þeim ágæta manni Guðmundi á Rafnkelsstöðum. Og ætti þá að mega fullreyna -hann, áður, en langt um líður. Og svo hefi ég mikinn áhuga á því að gera tilraunir með nýja aðferð við skreiðar þurrkun, sem ég tel að gæti orðið að mjög miklu gagni við skreiðarframleiðslu okkar. 

Annað man ég nú ekki í bili. –

Ég man, að í „Minningum úr menntaskóla" drapst bú á að það hefði ekki verið alveg vandalaust að velja milli verkfræði og ritstarfa, þegar þú laukst stúdentsprófi. Sérðu eftir því nú að lafa valið verkfræðina? —

Nei, það held ég ekki. En hitt er satt að ég hef alltaf haft gaman af að skrifa, og á talsvert í handriti. Og þegar ég fór frá Bandaríkjunum, var ég að hugsa um það í alvöru að fara til Evrópu og gerast rithöfundur. En það varð ekkert af því þá, hvað sem verða kann seinna.

— Svo kom út ljóðabók eftir þig í fyrra — „Um víða vegu". —

Já, maður verður að losa sig við það, sem maður gengur með. Annars liggur það á manni. Ég var hvattur til að senda þetta kver frá mér, og ég lét slag standa. Mér finnst gaman að dunda við ljóðagerð, en ég vil taka það fram, að þessi kvæði eru fyrst og fremst til orðin, af því að ég þurfti að stytta mér stundir við eitthvað á flækingi. — Segðu mér svo að lokum: hvert er brýnasta framtíðarverkefni íslendinga? —

Að fylgjast vel með öllu og reyna að skilja það, sem er að gerast í heiminum umhverfis okkur.
--------------

Borgin var vöknuð til lífsins og kaffið farið að minnka í könnunni. Vindillinn var brunninn upp. Og það var nóg að gera hjá Gísla Halldórssyni í Hafnarstræti.
----------------

Gísli Halldórsson verkfr. látinn

Gísli Halldórsson, verkfræðingur, lézt s.l. miðvikudag er hann var á ferðalagi á Spáni, ásamt konuinni, Kolbrúnu Jónsdóttur. Var Gísli fæddur í Reykjavík 14. 1 febrúar 1907, sonur Halldórs Guðmundssonar rafmagnsverkfræðings og konu hans Guðfinnu Gísladóttur. 

Gísli varð stúdent frá M.R. I 1925 lauk prófi í vélaverkfræði í Danmörku árið 1933. Var verkfræðingur í Reykjavik 1933—35. Forstjóri Síldarverksmiðja ríkisins 1935—37. Framkvæmdastjóri Esbjerg Hermetikfabrik A.S. í Esbjerg 1937—39. Rak verkfræðiskrifstofu í Reykjavík 1939—1951. Stofnaði og rak jafnframt verzlunarfyrirtækið Gísli Halldórsson h.f. 1941—52. Stofnaði Vélsmiðjuna Jötun h.f. 1942, aðaleigandi og framkvæmastjóri hennar til ársins 1947. Yfirverkfræðingur og rannsóknarstjóri hjá vélsmíðafyrirtækinu Edw. Renneburg & Sons Co., Baltimore, Bandaríkjunum 1952—1956. Sjálfstæður verkfræðingur í Reykjavík frá 1956 og rak jafnframt innflutningsverzlun. 

Beitti Gísli sér fyrir ýmsum framkvæmdum hér á landi, sem töldust til nýjunga, þegar þær voru gerðar. Beitti hann sér m.a. fyrstur manna hér fyrir að borað yrði eftir jarðgufu og hún virkjuð til raforku og upphitunar, innleiddi hann hér á landi ýmis tæki til atvinnubóta og fann önnur upp. Var Gísli fjórkvæntur og var síðasta kona hans Kolbrún Jónsdóttir listmálara Þorleifssonar.