Árið 1948 - Síldarverðið - Verður síldarmálið keypt á 75-80 kr. í sumar?

Mjölnir 2. júní 1948

Meðal útvegsmanna og sjómanna er nú vaknaður almennur áhugi fyrir því, að nú þegar verði ákveðið fast verð á sumarsíldinni. Gera margir sér vonir um, að það verði allmiklu hærra í sumar en það var í fyrra. 20. maí s.l. samþykktu útvegsmenn í Keflavík ályktun þá, er hér fer á eftir:

“Fundur haldinn í Útvegsbændafélagi Keflavíkur, fimmtudaginn 20. maí 1948, telur ekki möguleika á því, að búa skip til síldveiða, nema að nú þegar verði ákveðið fast verð á sumarsíld í bræðslu og salt.

Ennfremur telur fundurinn alveg óviðunnandi, eftir þrjár mislukkaðar síldarvertíðir og lélega vetrarvertíð að tap síldarverkmiðjanna af vinnslu vetrar síldarinnar verði látið hafa áhrif á sumarverðið.”

Verðið á síldinni, sem veiddist í vetur, var kr. 52,00. Kostnaður við hana, sem síldarverksmiðjurnar urðu að greiða, umfram kostnað við sumarsíld, var um 6 krónur pr. síldarmál.

Ennfremur var vetrarsíldin svo mögur, að lýsismagn á hverju máli var 7-8 kg. minna en úr máli af sumarsíld. Ekkert bendir til þess, að markaðir fyrir síldarafurðir hafi versnað síðan í vetur, þegar vetrarsíldarverðið var ákveðið, nema síður sé.

Það virðist því engin fjarstæða að gera sér vonir um, að verðið á sumarsíldinni verði 75 -80 krónur pr. mál.
----------------------------------------------------------------------------

Mjölnir 16. júlí 1948

SÍLDARVERÐIÐ ÁKVEÐIÐ AÐEINS 42 KRÓNUR FYRIR MÁLIÐ

Réttlætt með því, að ríkisstjórnin hefur selt síldarafurðirnar fyrir lægra verð en hægt var að fá fyrir þær. Verðið miðað við 920 þúsund mála vinnslu.

Einkaverksmiðjunum veitt tækifæri til stórgróða á kostnað sjómanna og útgerðarmanna. Fulltrúi Sósíalistaflokksins lagði til, að verðið yrði ákveðið kr. 52,00 pr. mál

Í fyrradag staðfesti ríkisstjórnin tillögu meirihluta stjórnar SR, um að bræðslusíldarverðið í sumur skuli verða kr. 42,00 pr. mál.

Fulltrúi sósíalista, Þóroddur Guðmundsson, lagði til, að verðið yrði 10 krónum hærra, eða hið sama og greitt var fyrir vetrarsíldina. Lagði hann fram eftirfarandi tillögu um málið:

“Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins samþykkir að fara fram á við ráðherra sjávarútvegsmála, að hann heimili SR að kaupa bræðslusíld föstu verði á komandi síldarvertíð fyrir kr. 52,00 málið, eða sama verði og SR keypti síld fyrir s.l. vetur, en kostnaður SR við þá síld mun vera ca. 5,00 kr. meiri á mál. Þá má gera ráð fyrir, að 7-8 kílóum meira af lýsi fáist úr hverju máli síldar sumar, en fékkst úr vetrarsíldinni. Telur stjórn SR ekki fært að leggja til að lægra verð verði greitt fyrir sumarsíldina en vetrarsíld. Teljist ekki varlegt að greiða þetta verð fyrir sumarsíldina, stafar það aðallega af því lága lýsis- og mjölverði, sem ríkisstjórnin hefur þegar selt fyrir nokkurn hluta hinna væntanlegu sumarafurða, án þess að leita umsagnar stjórnar SR.

Stjórn SR lítur svo á, að það hafi verið mjög misráðið af ríkisstjórninni að selja síldarlýsi og mjöl með afslætti til að kaupa upp verð á frosnum og ísuðum fiski, sérstaklega þegar tekið er tillit til, að undanfarin þrjú sumur, hefur verið síldarleysi og flestir útgerðarmenn gengið frá með tapi og sjómenn með lítinn hlut, væri því sanngjarnt að ríkisstjórnin tæki á sig þá áhættu, sem af því kynni að leiða, að áætla síldarverðið í sumar kr. 52,00 málið.

Annars er um fremur litla áhættu að ræða, ef það afurðamagn, sem óráðstafað er ennþá, verður selt á bestu mörkuðum.

Ennfremur samþykkir stjórnin að fara fram á við ráðherra, að hann heimili SR að taka við bræðslusíld til vinnslu í sumar af þeim, sem óska og greiða þeim 85% af áætlunarverðinu kr. 52,00 og endanlegt verð síðar þegar reikningar SR yfir vinnsluna hafa verið gerðir upp. Við útreikning vinnsluverðsins skal ekki tekið tillit til vinnslu vetrar eða haustsíldar hjá SR".

Rökstuddi Þóroddur tillögu sína með því, að vinnslumagnið væri of lágt áætlað, að þótt nokkur hluti afurðanna væri þegar seldur af ríkisstjórninni fyrir lágt verð, væri sennilegt, að hægt væri að selja afganginn fyrir miklu hærra verð, allt að því 130 £ tonnið, að protein innihald mjölsins væri óeðlilega lágt áætlað, að sumir gjaldaliðanna væru áætlaðir óþarflega háir.

Þótt meirihlutinn rökstyðji ekki beinlínis áætlun sína með því, að vinna þurfi upp tap, sem kann að hafa orðið á vinnslu vetrarsíldarinnar, liggur í augum uppi, að hún er gerð með það fyrir augum. – Enda hljóta verksmiðjurnar að stórgræða, ef síld veiðist að nokkru ráði í sumar.

Undanfarin þrjú sumur hefur síldveiðin brugðist að miklu leyti, svo að bæði sjómenn og útgerðarmenn hafa borið skarðan hlut frá borði. Bátarnir, sem gerðir voru út á vetrarsíld í vetur, töpuðu flestir á þeirri útgerð, sumir mjög miklu.

Þorskvertíðin í vetur var fyrir neðan meðallag. Sjómönnum og útgerðarmönnum hefur því ef til vill aldrei riðið eins mikið á því og nú, að fá sæmilegt verð fyrir síldina.

En það eru líka aðrir en ríkisverksmiðjurnar, sem græða á þessu lága síldarverði. Það eru einkaverksmiðjurnar. Og engu hafa þær tapað á vinnslu vetrarsíldarinnar. Eigendur þeirra varðar ekkert um þjóðarhag.

Einkaverksmiðjurnar vinna ekki nema þegar þær geta fært eigendunum gróða. Ekki hafa Kveldúlfur, Alliance og slíkir lagt fé í að koma upp nýjum verksmiðjum til þess að hægt yrði að anna vinnslu síldaraflans. Þær þurfa ekki að greiða vexti og afborganir og annan slíkan kostnað í sambandi við slíkar framkvæmdir.

Með því að ákveða síldarverðið svona lágt, er verið að hafa stórfé af sjómönnum og útgerðarmönnum, og veita auðmönnum og auðfélögum, stórgróða á kostnað þeirra. Og fyrir auðmennina er ríkisstjórnin og hjálparkokkar hennar fyrst og fremst að vinna með því að ákveða síldarverðið svona lágt.