Félagslífið um borð í Hvalvík

Ekki man ég nafn konunnar fremst til vinstri, en við hlið hennar er kona mín Guðný Ósk, - í aftari röð er Guðrún Árnadóttir kona Höskuldar vélstjóra og Oddfríður Jónsdóttir kona Sigfúsar 1. Vélstjóra. - Myndin er eftirtaka frá Polaroid ljósmynd. Mann ekki hver tók hana.

Ekki gat ég hrópað húrra yfir félagsandanum um borð, ef borið er saman við það sem ég hafði kynnst og upplifað um borð í Haferninum. Oft var þó slegið á mjög létta strengi þegar færi gafst. Bæði á langri siglingu á milli landa og skemmri á siglinga á milli hafna. Eftir hefðbundinn vinnutíma og á frívakt var oft setið yfir kaffibolla eða bjór. Sagðar sögur af hinum og þessum atburðum sem viðkomandi höfðu heyrt af, eða verið þátttakendur í.

Sjómannasögur og stjórnmál, komu þar oft fyrir. Ekki var gott á átta sig á hvar sumir þeirra voru settir í hið pólitíska litróf. En aðrir voru áberandi, hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyrðu. Þar var mest áberandi einn úr vélarrúminu, Höskuldur Dungal, Stórkratann nefndu félagar hans hann stundum, og kunni hann vel við þá nafngift. Þeir reyndu mikið skipsfélagar mínir að spá í, hvaða flokki ég tilheyrði.  Flestir voru á þeirri skoðun að ég væri annað hvort sjálfstæðis eða framsóknarmaður.

Þá ályktun drógu þeir af því að upplýst hafði verið að í vegabréfi mínu stóð að ég væri forstjóri. Þannig hafði þáverandi starfsmaður sýslumanns á Siglufirði, Bragi Magnússon skráð mig, (eins og frá er sagt á forsíðunni Hvalvík) er ég þurfti á vegabréfi að halda vegna ferðar minnar til Bandaríkjanna um tveim árum áður eins og fyrr segir. Gamla vegabréfið mitt frá tíma og veru minnar um borð í Haferninum var fallið úr gildi. 

Ég sagði þeim aðspurður, að ég hefði verið í trúnaðarstöðum verkalýðsfélaganna bæði Þróttar og síðar Vöku á Siglufirði. Þá fóru þeir að gruna mig um að vera annaðhvort krati eða kommi. Við því vildi ég ekki viðgangast og játaði fyrir þeim að ég væri sjálfstæðismaður, að minnsta kosti hefði ég setið í bæjarstjórn sem varamaður eitt kjörtímabil á vegum flokksins á Siglufirði. Einnig á fjögurra ára tímabili, ritstýrt málgagni flokksins á Siglufirði, blaðinu Siglfirðingur.

Eftir þá "uppljóstrun" voru þeir sannfærðari en nokkru sinni áður, að ég væri "uppgjafa" forstjóri sem vinur minn Guðmundur væri að redda um vinnu. Og að fyrirtækið sem ég hefði átt og eða stjórnað hefð farið á hausinn, eða þaðan af verra. Ég viðurkenndi (aðspurður) að ég hefði stjórnað fyrritæki og að það hefði verið selt og við það hefði ég hætt þar störfum.

Viljandi lét ég kyrrt liggja, hvað fyrirtækið hefði haft fyrir stafni, eða nefndi ástæður fyrir brottför minni þaðan. Og  enn síður að segja þeim frá því að ég hefði átt og rekið vörubifreið um skeið, eða þar til Guðmundur hefði beðið mig um að koma um borð.

Ég hafði fyrir löngu áttað mig á því, að þeir væru sannfærðir um að ég væri bara venjulegur landkrabbi, sem ekkert kynni til verka á sjó. Ég hafði gaman af þeim sterka grun og var ekkert að reyna að breyta þeim skoðunum þeirra.

Ekki bætti úr skák hvað félaga mína snerti, að ég hafði er verið var að ræða nokkru áður um skattamál. Þar hafði hinn svokallaði sjómannaafsláttur verið í umræðunni. Ég hafði lýst því yfir að mín skoðun væri sú, að skattaafsláttur til sjómanna væri mjög ranglátur. Sjómenn ættu ekki skilið þessi fríðindi umfram aðra. Nær væri að lækka skattprósentuna fyrir alla landsmenn, en ekki setja sjómenn í einhvern sérréttindahóp, hvað skattamál snerti.

Þessi skoðun mín olli miklum hávaða og margskonar rökfærslum um að sjómenn ættu vissulega sanngjarna kröfu til þessara réttinda, þar sem þeir væru, ekki aðeins við ein hættulegustu störfin, heldur langtíma fjarri fjölskyldum sínum. Ég sagði þessa skoðun mína ekki nýja á nálinni. Ég hefði haft þessa skoðun allt frá upphafi.

Það er augljóst að þú ert hreinræktaður landkrabbi og hefur ekki verið á sjó eða kynnst sjómennskunni. Ekki vildi ég á þeim tímapunti leiðrétta þann misskilning. En ég spurði þá á móti, án þess að mótmæla þeirri skoðun hans um að ég væri ekki sjómaður: "Hver er ástæðan fyrir því að þú og þið hinir eruð á sjó?" Spurði ég einn vélstjórann. Engin rökföst svör fengust við þeirri spurningu strax, svo ég svaraði henni sjálfur.

"Ástæðan fyrir því að ég er á sjó hér um borð í Hvalvíkinni er sú að mig langar til að vera á sjó, þrátt fyrir að vera oftast sjóveikur." Og ég er nokkuð viss um að ástæður ykkar, séu þær sömu. Ekki hafa þeir sem lagt hafa í langt nám í vél og skipstjórnar, gert það vegna skattaafsláttar og eða til að nota þann lærdóm á einhveri skrifstofu í landi." Ég skýrði mál mitt ekki frekar og fékk mér sopa úr bjórflösku minni. 

Það var löng þögn á eftir. Sem var svo rofin af Höskuldi vélstjóra sem hafði verið háværastur (stórkrati, að egin sögn), sem spurði upp úr þurru, samhliða því að hann tók spilastokk af borðinu.  "Hver vill koma að spila?"

Skipverjar á Hvalvík fengu til skiptis að hafa konur sínar með í ferðum á milli hafna og landa. Þar með fékk ég að hafa mína konu, Guðný um borð á siglingu alla leið frá Íslandi til Evrópuhafna og síðar yfir hafið til hafna við Mexíkóflóa. Sama regla hafði verið um borð í Haferninum.

Þessar kvenna heimsóknir, þar sem oft voru 3-4 í um borð í senn, stundum einnig börn sumra, settu góðan og mikið líf í félagsandann. Þó sumir hefðu gert góðlátlegt grín af því nú þyrftu eiginmennirnir ekki að skreppa í land til að ná sér í mellu. Þeir hefðu allt sem þyrfti í kojunni sinni þegar vinnudeginum lyki.

Annars í því sambandi, þá er ég nokkuð viss um að á þeim tíma sem ég var um borð í Hvalvíkinni, að þeir giftu um borð héldu heit sín, þar sem hvorki var haft orð á slíku, né hvíslað um að einhver hinna giftu hefðu brugðið sér í land til að heimsækja gleðikonu. Slíkt hefði vart farið framhjá neinum.

  • _Haldið upp á amæli Magúsar Gunnarssonar 1. stýrimanns/skipstjóra

  • _Haldið upp á amæli Magúsar Gunnarssonar 1. stýrimanns/skipstjóra, sem þarna blæs á kertin.
    Odda og Guðný í bak, en Guðmundur Arason skipstjóri við hlið hans

  • Oddfríður Jónsdóttir og maður henna Sigfús Tómasson 1. vélstjóri og Guðný Ósk Frirðiriksdóttir kella mín