Guðrún Magnúsdóttir
Guðrún Magnúsdóttir - Fædd 11. júlí 1937 - Dáin 21. september 1990
Hinn 21. september sl. lést Guðrún Magnúsdóttir, Hvanneyrarbraut 44, Siglufirði, í sjúkrahúsi Siglufjarðar, eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein. Guðrún var fædd 11. júlí 1937 og varð því aðeins rúmlega 53 ára.
Foreldrar hennar voru Magnús Vagnsson síldarmatsstjóri, vestfirskur að uppruna, og kona hans, Valgerður Ólafsdóttir úr Reykjavík. Þau fluttust til Siglufjarðar 1934. Þar var Guðrún fædd og átti þar heima alla ævi að undanteknum nokkrum mánuðum sem hún dvaldist í Reykjavík og Grindavík á unglingsárum.
Magnús Vagnsson lést 1951, sama ár og Guðrún fermdist, en hafði þá fyrir fáum árum byggt húsið á Hvanneyrarbraut 44. Þar bjó Valgerður áfram ásamt börnum og venslafólki.
Árið 1958 kom í húsið nýr tengdasonur, er Guðrún giftist Ernst Kobbelt vélvirkja.
Búsforráð á heimilinu færðust síðan smám saman í hendur þeirra, en Valgerður dvaldist þar áfram uns hún lést 1978.
Guðrún og Ernst eignuðust þrjú börn, sem öll eru uppkomin.
1) Ester Hulda Kobbelt, fædd 1958, starfsmaður á sjúkrahúsi Siglufjarðar, maki Vernharður Hafliðason netagerðarmeistari.
Eiga þau tvo syni,
Víðir Vernharðsson
Fannar Vernharðsson.
2) Alma Kobbelt, fædd 1960;
er að ljúka háskólaprófi í Uppsala í Svíþjóð. Maður hennar er Ásgeir Björnsson líffræðingur sem er að ljúka framhaldsnámi í erfðafræði
í Uppsala.
Þau eiga tvö börn,
Guðrúnu Örnu og
Frey.
3) Ágúst Edvard Kobbelt, (Eddi Kobbelt) fæddur 1966, verkamaður og sjómaður á Siglufirði. Maki hans er Kristín Þóra Kristvinsdóttir; börn hennar eru
Garðar og
Helga.
Barnabörnin voru mikið eftirlæti Guðrúnar og hafði hún sérstakt yndi af að hafa þau hjá sér.
Guðrún byrjaði þegar á barnsaldri að vinna í síld eins og aðrar siglfirskar telpur og síðan einnig aðra algenga vinnu, afgreiðslustörf, fiskvinnu og fleira. Síðan tóku við húsmóðurstörf, en þegar börnin komust nokkuð á legg fór hún aftur að vinna utan heimilis, fyrst hlutastörf, síðan fulla vinnu.
Hún vann allmörg ár í Siglósíld en síðustu árin í eldhúsi sjúkrahússins.
Guðrún hafði ekki teljandi afskipti af félagsmálum. Þó tók hún nokkurn þátt í störfum verkalýðsfélagsins Vöku og var um skeið trúnaðarmaður þess í Sigló. Þá var hún meðlimur í Sinawik-klúbbnum.