Friðgeir Gíslason

Hann fæddist á Siglufirði 1. maí 1923.     (Grein 21.2/1991 )

Hann ólst upp í Reykjavík frá tveggja ára aldri og bjó þar alla ævi. Hann var af flestum kallaður Maggi langt fram eftir aldri.

Hann giftist konu sinni, Sigurbjörg Óskarsdóttir, 1947 og eignaðist sitt fyrsta barn, Gísla, sama ár.
Svo komu hin börnin hvert af öðru næstu fjögur ár, Guðrún 1949, Hrönn 1950 og Rúnar 1951. Þetta var hamingjusöm fjölskylda og samheldin. Friðgeir var mjög góður faðir og eiginmaður og síðan en ekki síst vinnuþjarkur mikill og hafði gaman af sinni vinnu enda mjög glaðvær, alltaf ánægður og brosandi. Árið 1969 bætist svo nýr meðlimur í fjölskylduna, ég. 

Og þegar ég var enn smábarn byrjuðu veikindi pabba og eru spítalavistir hans og heimsóknir okkar þangað hluti af æskuminningum mínum. En góðu stundirnar voru margar og þeirra minnist maður best. Ég man þegar ég sat á stólbakinu hjá pabba og við horfðum á sjónvarpið eða út um gluggann.

Hann var nú ekki alltaf jafn hrifinn af því að hafa mig þarna en aldrei rak hann mig burtu. Hann sagði líka alltaf að ég hefði átt að vera strákur og þegar ég varð eldri fannst honum ég vaxa of fljótt og vildi að ég yrði fimm ára aftur. En eitt er það sem var stór þáttur í lífi okkar og það er sunnudagstúr inn. Þá keyrðum við pabbi og mamma niður að höfn og keyptum ís á eftir. Pabbi elskaði hvorttveggja, höfnina og ísinn. Og auðvitað að keyra, það var hans áhugamál, keyrsla og ferðalög. 

Ég man þegar hann kom örþreyttur heim á föstudagskvöldum og lagt var af stað í útilegu og pabbi keyrði. Aldrei slappaði hann eins vel af og undir stýri og á áfangastað var öll hans þreyta horfin. Í sumarfríum vildi hann helst vera í bílnum, það voru hans bestu stundir.

En einhvern tímann þurfum við öll að kveðja og megum við þakka fyrir að því skyldi ekki koma fyrr en þann 14. febrúar 1991. Þó við kveðjum þá gleymum við ekki og hann pabbi minn mun alltaf vera besti pabbi í heimi.

Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlaustu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimman dauðans nótt.   (V. Briem)

Stella

21.2/1991