Guðmundur Magnússon verkamaður
Guðmundur Magnússon, Siglufirði Fæddur 8. október 1915 Dáinn 26. febrúar 1991 -
Guðmundur fæddist á Bakka í Ólafsfirði, sonur hjónanna Magnús Sigurðsson og Ása Sæmundsdóttir.
Guðmundur vann öll algeng sveitastörf í æsku. Einn eða tvo vetur var hann vetrarmaður á Neðra-Ási í Hjaltadal, síðan var hann á vetrarvertíð í Keflavík. Til Siglufjarðar kom hann 1947 og á hér heima alla stund síðan.
Hér á Siglufirði kynntist hann konu sinni, Dórothea Anna Jónsdóttir, og gengu þau í hjónaband 28. maí 1948.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en engu að síður voru oftar en ekki börn í kringum þau og ekki alltaf há í loftinu. Þessu kynntist ég persónulega, er þau hjónin tóku að sér að passa litlu dótturdóttur mína, Guðrún Sif, sem þá var á öðru ári.
Eftir skamman tíma var svo komið, að Guðrún litla sótti stíft að koma til þeirra. Það segir meira en mörg orð, því börnin eru það fölskvalaus að þau finna hvar hjartahlýjan er mest og best og leita í það skjól sem þeim finnst öruggt. Sú vinátta hélst til síðustu stundar.
Þau hjónin eignuðust sitt eigið hús 1950, á Hávegi 10b, sem stendur hátt í brekkunni og sá þaðan vítt um þennan fagra fjallahring, ekki stóran, en fegurð á hann sem ekki verður með orðum lýst, en margir þekkja.
Guðmundur vann hér í Siglufirði alla almenna verkamannavinnu, í síldinni hjá Sunnu hf., Siglufjarðarbæ og víðar. Öll haust sem Sameignarfélag fjáreigenda starfaði, vann Guðmundur hjá félaginu í sláturtíðinni. Vil ég að leiðarlokum færa honum þakkir fyrir lipurð og góða framgöngu í öllum hans störfum, sem félagið varðaði.
Guðmundur var vel á sig kominn, beinn í baki og léttur á fæti. Ekki var sjúkrahúslega Guðmundar löng, aðeins ein vika.
Mesta áfall Guðmundar á lífsleiðinni var 8. október 1986, á 71. af mælisdegi hans, en þann dag dó eiginkona hans. Hún var öllum harmdauði sem til þekktu og var Guðmundur aldrei samur maður eftir.
Þetta áttu aðeins að vera örfá kveðju- og þakkarorð til fallins vinar, með þökk fyrir samfylgdina þau ár sem leiðir okkar lágu saman. Það er vissa mín að það bíða vinir í varpa, nú þegar vistaskipti hafa orðið hjá Guðmundi og hann er nú kominn á fund vina, sem hann þráði að hitta og vera samvistum við.
Ég sendi systkinum, tengdafólki og frændfólki öllu, samúðarkveðjur.
Hvíl í friðarfaðmi. Siglufirði í mars 1991,
Ólafur Jóhannsson.