Gunnfríður Friðriksdóttir
mbl.is - 9. nóvember 1996 | Minningargreinar
Gunnfríður
Friðriksdóttir fæddist í Nesi í Flókadal í Skagafirði 24. ágúst 1920. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 4. nóvember 1996.
Foreldrar hennar voru hjónin Friðrik Ingvar Stefánsson, f. 13. sept. 1897 á Steinavöllum í Flókadal, d. 16. nóv. 1976 á Siglufirði, og k.h. Guðný Kristjánsdóttir, f. 24. ágúst (17. ágúst skv. kirkjubók.) 1895 í Hraungerði í Aðaldal í S.-Þing., d. 10. sept. 1928 á Siglufirði.
Friðrik, faðir Gunnfríðar, kvæntist aftur Margrét Marsibil Eggertsdóttir, f. 23. apríl 1903 í Miðneshreppi, d. 9. júlí 1985 á Siglufirði. Alsystkin Gunnfríðar eru
- 1) Jóna Friðriksdóttir
f. 4. okt. 1922, búsett í Grindavík, maki Alfreð Hjartarson, f. 18. nóv. 1918, d. 19. jan. 1981.
- 2) Stefán Friðriksson, f. 18. nóv. 1923, búsettur í Reykjavík,
maki Hallfríður Pétursdóttir, f. 26. mars 1929.
- 3) Guðni Kristján Hans Friðriksson, f. 29. ágúst 1928, d. 22. mars 1963.
Hálfsystur Gunnfríðar eru:
- 1) Guðný Ósk Friðriksdóttir, f. 6. júní 1932, búsett á Siglufirði, maki Steingrímur Kristinsson, f. 21. des 1934, og
- 2) Guðbjörg Oddný Friðriksdóttir, f. 10. apríl 1936, búsett á Siglufirði, maki Ásgrímur Björnsson, f. 22. febr. 1927.
Gunnfríður giftist 29. jan. 1940 Oddur Vagn Hjálmarsson frá Akureyri, f. 11. júlí 1913, d. 10. júní 1979.
Börn þeirra eru:
- 1) Erna Oddsdóttir, f. 20. maí 1937, búsett í Svíþjóð, maki Haukur Jónasson, f. 24. apríl 1936.
- 2) Hannes Oddsson, f. 26. des. 1939, búsettur í Kópavogi, maki Erna Einarsdóttir, f. 8. maí 1945.
- 3) Ingibjörg Oddsdóttir (Bíbí), f. 23. okt. 1943,
búsett á Sauðárkróki, maki Stefán B. Stefánsson, f. 16. júní 1944.
- 4) Hafsteinn Oddsson, f. 7. ágúst 1947, búsettur á Sauðárkróki, maki Sigrún Ásgeirsdóttir, f. 5. maí 1951.
Barnabörn Gunnfríðar eru 13 og barnabarnabörn 14.
----------------------------
Morgunblaðið - 09. nóvember 1996
- Friðsælt er við fjörðinn bláa
- fögru björtu júníkvöldin
- þegar sólin himinháa
- hnígur bak við Ránartjöldin.
- Birtu slær á vík og voga
- vakir land í sólareldi,
- geislafögur leiftur loga,
- leika dans á bárufeldi.
(J.S.S.)
Þannig er Siglufjörður í mínum huga alltaf það blíðasta og besta og þegar ég sat við eldhúsgluggann Gunnu mágkonu minnar, sem við kveðjum í dag, blasti þessi sýn við. Gunnfríður Friðriksdóttir hét hún fullu nafni, hún var aðeins átta ára þegar hún missti móður sína. Það hefur verið mikil lífsreynsla fyrir unga sál, en lífið heldur áfram eins og við öll þekkjum. Það fór oft þannig áður fyrr að systkinahópar sundruðust þegar annað foreldrið lést. Gunnu var komið til ungra hjóna og þar dvaldi hún í nokkur ár.
Það er sagt að tíminn lækni öll sár - en örin verða eftir.
Gunnfríður giftist ung Oddi Vagni Hjálmarssyni frá Akureyri. Ein af minningum mínum úr eldhúsinu hennar Gunnu er skýr í huga mér. Vaggi, eins og maðurinn hennar var kallaður, var að fara á sjóinn. Ég sá þau kveðjast og fannst það nánast eins og helgistund. Þetta kom mér mjög á óvart, því það gat gustað í kringum mágkonu mína. Heimili Gunnfríðar mágkonu minnar var einstakt, fágað og fallegt, þar var borin virðing fyrir hlutunum.
Blómin hennar voru fallegust allra og gluggarnir hennar báru af öllum hinum í götunni. Lífið var ekki dans á rósum, enda eru fáar rósir án þyrna. Hún var sjómannskona sem oft þurfti að takast á við erfiðleika. Fjögur börn eignaðist hún, Ernu, Hannes, Ingibjörgu og Hafstein. Allt er þetta myndarfólk og afkomendur þeirra hver öðrum myndarlegri og efnilegri.
Eftir að ég og fjölskylda mín fluttust að norðan til Reykjavíkur, kom Gunna í heimsókn til okkar og dvaldi nokkra daga. Við áttum saman góðar stundir og töluðum fram á rauða nótt í vináttu og trúnaði. Þegar hún kvaddi og fór heim aftur, sagði hún oft við mig: „Ég hefði ekki trúað að það væri svona gott að vera hjá þér, Hallfríður mín." Þetta hlýjaði mér inn að hjartarótum og við bundumst vináttuböndum sem voru mér mikils virði.
Eitt barnabarna mitt, Ingólfur Arnarson, nefndi Gunnfríði „stórfrænku"
sína frá þeim tíma sem hann dvaldi að sumarlagi á Siglufirði með móður sinni og systur. Gunna „stórfrænka" var höfðingi heim að sækja og frábær matreiðslukona.
Það var mikill kærleikur á milli þeirra.
Ég vil fyrir hönd fjölskyldu minnar þakka systrunum Guðnýju og Guðbjörgu fyrir þá miklu umhyggju sem þær sýndu
systur sinni í langvarandi og erfiðum veikindum. Einhvers staðar las ég að að lífi loknu væri upphaf að einhverju nýju. Þessu vil ég trúa og hlakka til endurfunda.
Ég og Stefán eiginmaður minn, bróðir hennar, og börnin okkar þökkum Gunnfríði liðnar samverustundir.
Á kveðjustund biðjum við algóðan Guð að blessa hana og varðveita um alla eilífð. Við sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur.
Hallfríður E. Pétursdóttir.
----------------------------------------------
Gunnfríður Friðriksdóttir
Elsku besta amma, mig langömmubarnið þitt langar að minnast þín í örfáum orðum. Hvað þú fórst snemma frá mér, mánudaginn 4. nóvember 1996 á Siglufjarðarspítala með krabbamein í lifrinni. Hvað ég átti góðar stundir með þér. Þú hefur alltaf verið mér svo góð og eflaust besta amma innra og ytra. Þú hefur alltaf verið mér svo hlý og góð. Alltaf þegar ég kom í heimsókn, þegar ég var minni en ég er nú, gafst þú mér að borða og svo leyfðir þú mér að perla og svo straujaðir þú það líka.
Eflaust mun Steffý sakna þín líka því þú varst okkur Steffý og Connie jafngóð. Þú manst eflaust eftir því þegar ég og Steffý vorum nýbúnar að perla og þú varst að strauja og Steffý var að halda við bökunarpappírinn og þú rakst straujárnið í puttann á Steffý og hún fékk litla brunablöðru á puttann. Svo áttum við að sjálfsögðu góðar stundir þegar ég var orðin aðeins eldri, svo sem átta og níu ára.
Þegar þú dast úti og mjaðmagrindarbrotnaðir, þá fannst mér svo gaman að heimsækja þig á spítalann. Og þegar ég heimsótti Huldu ömmu og Stebba afa suðaði ég alltaf í mömmu um að fara til þín og eitt sinn leitaði ég á allri deildinni og fann þig hvergi og þá sagði ein hjúkkan að þú værir á ellideildinni. Ég fór þangað og fann þig þar að drekka kaffí og borða brauð með systur þinni og hún bauð mér líka brauð og hjúkkan gaf mér djús.
Alltaf fannst mér jafngaman að heimsækja þig, elsku besta amma.
Brynja Skjaldardóttir.
---------------------------------------------------------
Okkur systkinin langar með örfáum orðum að minnast elskulegrar ömmu okkar sem hvarf svo snögglega frá okkur. Gunna amma eins og við kölluðum hana var okkur afar kær. Þegar við vorum lítil og bjuggum á Siglufirði var hún miðpunkturinn í lífi okkar. Við heimsóttum hana á hverjum degi og oftar en ekki þegar við áttum um sárt að binda var hlaupið til ömmu og hún bjó yfir þeim undrakrafti að geta lagað allt saman. Oft var kátt á hjalla hjá ömmu þegar börnin hennar voru þar samankomin með börnin sín. Sýndi amma okkur þá ómælda þolinmæði í öllum látunum og í rólegheitum bjó hún til heimsins besta súkkulaði og með því bauð hún kramarhús með rjóma og kokteilberi ofan á.
Sökum þess hve amma var yndisleg við okkur barnabörnin sín hittumst við frændsystkinin oft hjá ömmu og eyddum þar heilu dögunum saman í leik inni í borðstofu því stofan var að jafnaði lokuð fyrir grislingum eins og okkur. Amma á mikið þakklæti skilið fyrir hvað hún tengdi okkur frændsystkinin saman og þau bönd haldast enn í dag, þökk sé ömmu. Síðar þegar mamma og pabbi ákváðu að flytjast suður áttum við systkinin ávallt vísan samastað hjá ömmu og afa. Þau voru ófá yndisleg sumrin sem við eyddum hjá ömmu og afa á friðsælu heimili þeirra.
Því miður var afi burt kallaður af þessari jörðu langt fyrir aldur fram en eftir sat yndislegasta amma í heimi og gætti þess að okkur liði alltaf jafnvel hjá sér eftir sem áður. Þegar árin liðu og amma þurfti meira á okkur að halda fækkaði því miður ferðunum til Siglufjarðar og þegar við horfum til baka óskum við þess að við hefðum getað eytt fleiri stundum með elskulegri ömmu okkar en raun varð á. Við verðum því að varðveita og halda fast í þær dýrmætu minningar sem við eigum um Gunnu ömmu okkar. Elsku amma, við þökkum þér fyrir yndislegar stundir og vonum að þér líði vel þar sem þú ert nú og að þú fáir nú notið samvista við afa aftur.
Guð blessi þína fallegu sálu.
Þín barnabörn, Gunnfríður, Hulda, Linda og Hanns
------------------------------------------------
Elsku amma, við viljum minnast þín með fáeinum orðum. Það er mjög erfitt að sætta sig við það að trúa því að sért farin frá okkur og er það skrýtin tilhugsun að eiga ekki eftir að koma á Siglufjörð aftur og heimsækja þig. Á svona stundu er erfitt að rifja upp og setja á blað einhverja einstaka atburði, því svo ótalmargt kemur upp huga okkar. Það voru ekki fáar stundirnar sem við dvöldumst hjá þér og nutum þinnar frábæru gestrisni, því alltaf áttir þú eitthvað gott handa öllum.
Hjálpsemi þín var ótakmörkuð og ekki síst þegar langömmubörnin áttu í hlut. Við munum ávallt geyma allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Við kveðjum þig nú með söknuði og þökkum þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og alla þá umhyggju sem þú barst fyrir okkur. Elsku amma, þú munt lifa í minningu okkar alla tíð.
- Far þú í friði,
- friður Guðs þig blessi,
- hafðu þökk fyrir allt og allt.
- Gekkst þú með Guði,
- Guð þér nú fylgi, hans
- dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Fanney, Íris, Oddur og Nína