Kjartan Bjarnason sparisjóðsstjóri

Kjartan Bjarnason

Kjartan Bjarnason Fæddur 13. október 1911 - Dáinn 25. október 1982

Þau sorgartíðindi bárust hingað til Siglufjarðar seinni hluta dags þann 25. október að Kjartan Bjarnason fyrrverandi sparisjóðsstjóri hér væri látinn. Kjartan var alla tíð mjög heilsuhraustur og kenndi sér einskis meins að neinn vissi, þess vegna kom þessi andlátsfrétt öllum svo mjög á óvart. 

Kjartan fæddist í Vík í Mýrdal 13. október 1911.

Foreldrar hans voru hjónin  Svanhildur Einarsdóttir og Bjarni Kjartansson og var hann næstyngstur fjögurra systkina. 

Kjartan var alla tíð maður farsæll, bæði í einkalífi sem og starfi, þó má telja víst að einhver mesti happadagur í lífi hans hafi verið 21. október 1933, en þann dag kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Helga Gísladóttir, Kristinssonar bónda á Tjörnum í Sléttuhlíð og konu hans, Ástu Jóhannesdóttur.

Er Helga næstyngst níu systkina.

Helga og Kjartan stofnuðu sitt fyrsta heimili að Túngötu 5 í Siglufirði, en árið 1944 keyptu þau hús ásamt stórri lóð að Hlíðarvegi 1c í Siglufirði og bjuggu þar fram til ársins 1979 er Kjartan lét af störfum sem sparisjóðsstjóri. 

Þá höfðu þau eignast íbúð að Stóragerði 20 í Reykjavík og hugðust eyða þar fullorðinsárunum í faðmi fjölskyldu sinnar, sem öll býr á því svæði að undanskildum Sigurjóni sem búsettur er í Þýskalandi. 

Aldrei fluttu þau þó lögheimili sitt frá Siglufirði og eiga hér enn húsið sitt og dvöldu í því á sumrin eftir að þau fóru til Reykjavíkur. Lóðin í kringum hús þeirra ber greinilegan vott um áhuga fyrir trjárækt og gróðri.

Við minnumst þess sérstaklega þegar einhvern tíma var verið að tala um lóðina að Kjartan sagði: „Já, hún skuldar mér margan svitadropann þessi." 

Þau Helga og Kjartan eignuðust sex börn, en eitt dó á unga aldri, börn þeirra eru:

Bjarni Kjartansson, maki Brynja Guðmundsdóttir,

Svanhildur Kjartansdóttir, maki Bragi Einarsson,

Ásthildur Kjartansdóttir, maki Örnólfi Hall,

Gísli Kjartansson, maki Edda Jónsdóttir,

Sigurjón Kjartansson, maki Antje Tideman. 

Kjartan var mikill félagsmálamaður og sýna það störf hans að félagsmenningarmálum hér í bæ, en þau verða ekki tíunduð hér sérstaklega. Sem dæmi má nefna að hann var einn af stofnendum Rotary-klúbbs Siglufjarðar, Knattspyrnufélags Siglufjarðar 1932 og Golfklúbbs Siglufjarðar. Hann skipaði sér undir merki Sjálfstæðisflokksins og sat hann á vegum flokksins 43 fundi í bæjarstjórn, auk þess átti hann sæti í fjölda nefnda og ráða á vegum bæjarfélagsins, þar af lengst í Rafveitunefnd.

Það sem hæst bar í lífi Kjartans og var honum kærast, fyrir utan fjölskylduna, voru störf hans hjá Sparisjóði Siglufjarðar. Hann brautskráðist frá Samvinnuskólanum fyrrihluta árs 1929 og hóf störf hjá sparisjóðnum í maí það ár og starfaði óslitið til 30. september 1979, eða í rúm 50 ár. Alla tíð var hann einlægur sparisjóðsmaður og tók m.a. þátt í stofnun Sambands íslenskra sparisjóða. Hann hefði fyrir löngu getað verið orðinn útibússtjóri einhvers ríkisbankans, því ekki vantaði áhuga þeirra á að yfirtaka Sparisjóð Siglufjarðar, eins og raun hefur orðið á um marga sparisjóði.

Þar stóð hann fastur fyrir eins og alltaf, þegar hann hafði tekið ákvörðun. Sem dæmi um þetta er svar hans við blaðamann í tilefni af 100 ára afmæli sparisjóðsins.

Blaðamaðurinn spyr: Er ekki tímabært að breyta Sparisjóði Siglufjarðar í bankaútibú, t.d. Landsbankans, eins og gert hefur verið víða á landinu.

Svarið var m.a., að sjálfsögðu færðist þá yfirstjórnin til Reykjavíkur og heimamenn hefðu þá lítil áhrif á þróun peningamála hér í bæ, enda hljóti það að vera metnaðarmál þessa byggðarlags að eiga áfram elztu peningastofnun á Íslandi og láta hana blómgast og dafna. 

Eins og að framan er sagt hóf Kjartan störf hjá Sparisjóði Siglufjarðar 1929, fyrst sem bókari, síðan sem gjaldkeri, en sparisjóðsstjóri frá 1. júní 1962. Undir hans stjórn var vöxtur og viðgangur sparisjóðsins mikill. Er hann nú einn af stærstu sparisjóðum landsins. Hann var virtur af samborgurum sínum vegna glæsileika í fasi og framkomu en ekki sízt fyrir það, hvað gott var til hans að leita, og vildi hann allra vanda leysa og götu greiða. Ábyrgðar maður sparisjóðsins var hann frá 13. desember 1939, í stjórn hans frá 31. janúar 1943 til 20. apríl 1978, er hann baðst undan endurkosningu, þar af stjórnarformaður frá 1966. 

Með þessum línum viljum við þakka Kjartani samfylgdina og samstarfið sem yfirmanni og góð- um vini. Þér, kæra Helga, sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur, og vitum, að Guð mun styrkja þig í þínum mikla missi og sorg. Fjölskyldu Kjartans allri vottum við okkar dýpstu samúð. Fari hann í friði, og hafi þökk fyrir allt og allt.

Haraldur og Björn
--------------------------------------------   

Mig setti hljóðan er fréttin um lát vinar míns, Kjartans Bjarnasonar, barst mér til eyrna, að þessi stóri vörpulegi maður, sem virtist svo vel á sig kominn, bæði andlega og líkamlega, þrátt fyrir 71 ár að baki, væri allur. En einmitt þannig birtist dauðinn þeim ótalmörgu er orðið hafa að horfa á bak ástvinum sínum, óvæginn, snöggur, tillitslaus. Að sjálfsögðu má búast við að lífshlaup manns á þessum aldri kunni að taka enda hvenær sem er, og nú var stundin upp runnin og ekkert til varnar.

En þó fór dauðinn mjúkum höndum um hann, eins og lífið hafði gert. Hann andaðist snögglega á heimili sínu. Lífið slokknaði eins og blásið væri á kerti, hljóðlaust og átakalaust, að því er virtist, og þessi stóri sterki maður var allur. Ákjósanlegur dauðdagi en sár ástvinum. Ég mun ekki rekja æviatriði Kjartans. Það munu aðrir gera. En ég tel að hann hafi verið lánsmaður í lífinu. Hann átti góða og vel gerða konu, er stóð við hlið hans traust og óhagganleg á hverju sem gekk.

Hin fimm mannvænlegu börn þeirra hafa sýnt, að þau fengu gott veganesti úr foreldrahúsum og mátu foreldra sína að verðleikum, en traust fjölskyldubönd eru mikils virði, ekki sízt á dögum okkar. Það var mikill fengur að eignast vináttu Kjartans Bjarnasonar. Hann var trúr vinum sínum og ráðhollur. Málskrafsmaður var hann enginn, en stór í lund, hreinlyndur og enginn veifiskati. Hann var virtur af samborgurum sínum, enda elskulegur í allri umgengni og hjálpsamur.

Hann átti mörg áhugamál, sem honum vóru kær, en þó hygg ég að bækurnar hans hafi veitt honum hvað mesta gleði. Þeirri gleði deildi hann með konu sinni, sem er bókelsk mjög. Þessar línur eru fáar og fátæklegar og ná tæpast að tjá það sem mér býr í brjósti, en það er fyrst og fremst þakklæti fyrir að hafa kynnst slíkum ágætismanni. Það er einhver tómleikatilfinning innra með mér þegar ég hugsa til þess að aldrei framar munum við Siglfirðingar sjá þennan glæsilega mann ganga um götur þessa bæjar, sem hann unni svo mjög. Við hjónin sendum Helgu og börnunum okkar dýpstu samúðarkveðjur og vonum að endurminningin um góðan dreng megi slæva sorg þeirra er stundir líða fram og biðjum Guð að styðja þau og styrkja.

Óli J. Blöndal 
---------------------------------------------------- 

Kjartan Bjarnason, fv. sparisjóðsstjóri í Siglufirði, lézt í Reykjavík mánudaginn 25. október, 72 ára að aldri.

Hann fæddist 13. október árið 1911 í Vík í Mýrdal.

Foreldrar hans vóru Bjarni Kjartansson, kaupfélagsstjóri þar, síðar forstjóri ÁVR í Siglufirði, og kona hans, Svanhildur Einarsdóttir. Kjartan brautskráðist frá Samvinnuskólanum árið 1929 og hóf þá þegar störf hjá Sparisjóði Siglufjarðar, fyrst sem bókari, síðar sem gjaldkeri og sem sparisjóðsstjóri frá 1962 unz hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Kjartan var jafnframt einn af ábyrgðarmönnum sjóðsins og sat í stjórn hans lengi.

Þann 21. október 1933 kvæntist Kjartan Helgu Gísladóttur, bónda á Tjörnum í Skagafirði, síðar í Siglufirði, Kristinssonar og lifir hún mann sinn. Mat Kjartan konu sína mikils, að verðleikum, og var hjónaband þeirra eins og bezt verður á kosið.

Börn þeirra eru:

1) Bjarni Kjartansson, maki Brynja Guðmundsdóttir, búsett í Reykjavík. Þau eiga 5 börn.

Svanhildur Kjartansdóttir, (Stella Kjartans) maki Braga Einarssyni, búsett í Reykjavík. Þau eiga 5 börn.

Ásta Kjartansdóttir, fædd 1937, dáin 1939. Ásthildur, maki Örnólfur Hall, búsett í Reykjavík, eiga 2 börn.

Gísli Kjartansson, maki Edda Jónsdóttir, búsett í Borgarnesi, eiga 2 börn 

Sigurjón Kjartansson, maki Antje Diedeman, búsett í Þýzkalandi, eiga 2 börn. 

Sparisjóður Siglufjarðar er elzta peningastofnun í landinu sem enn starfar, stofnaður 1. janúar 1873, og verður því 110 ára í upphafi komandi árs. Þessari stofnun helgaði Kjartan allt sitt  ævistarf. Allir, sem til þekkja, ljúka upp einum rómi um, að störf og stjórnun Kjartans á sparisjóðnum hafi borið ríkulegan ávöxt, enda óx hann og efldist mjög í hans forsjá og er nú sjöundi stærsti sparisjóður landsins. I forsjá Kjartans reyndist Sparisjóður Siglufjarðar heimabyggð sinni haukur í horni. 

Gildir það jafnt um það samfélag, sem ber heitið Siglufjarðarkaupstaður, og einstaklingana, er það mynda. Á erfiðleikaárum, þegar atvinnu og efnahagsleg undirstaða byggðarlagsins brast, er síldin, sem var eitt og allt í tilveru staðarins, hvarf, var sparisjóðurinn bakhjarlinn í viðreisninni. Margur bæjarbúinn, sem skorti herslumun til að ná áfanga í sjálfsbjargarviðleitni sinni, fékk nauðsynlegan byr í segl sín í sparisjóðnum. 

Kjartan Bjarnason hélt fast um hagsmuni sparisjóðsins sem stofnunar, sem sjá má af vexti hans og velgengni, en hann gerði sér flestum betur grein fyrir þeirri stað- reynd, að fjármagn er vinnutæki, sem nýta má og á til uppbyggingar og ræktunarstarfs í víðtækustu merkingu þess orðs. Þetta viðhorf stjórnandans skapaði trúnað milli stofnunar og bæjarbúa, sem sagði til sín í því, að þar vildu þeir vita sparifé sitt á vöxtum. Kjartan Bjarnason var glæsimenni á velli, háttvís og ljúflyndur.

Hann setti svip á Siglufjörð um áratugaskeið. Tveir þættir í tómstundastörfum hans varpa, að mínum dómi, öðru betur ljósi á manngerð hans. Það fyrra var áhugi hans á skógrækt, forysta í Skógræktarfélagi Siglufjarðar, og sá árangur sem hann náði í trjárækt, með elju sinni og umhyggju, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hið síðara var, að hann kom sér upp stóru og góðu bókasafni.

Í raun runnu bæði þessi áhugamál í sama farvegi, farvegi ræktunar. Moldin og mannshugurinn eiga það sameiginlegt, að bæði skila uppskeru og ávöxtum, ef um er sinnt. 

Kjartan Bjarnason var heiðursfélagi í Stangveiðifélagi Siglufjarðar. Hann kastar ekki framar flugu í Fljótaá. En meðal félaga hans nyrðra mun áfram lifa áhuginn á því að rækta upp vatnasvæði Fljótaár og Miklavatns.

Ég minnist Kjartans ekki sízt í starfi Sjálfstæðisflokksins í Siglufirði, en þar var hann ráðhollur og góður starfskraftur. Oft var lagt hart að Kjartani að gefa kost á sér til setu í bæjarstjórn. Hann gaf þó aldrei kost á sér til setu á framboðslista ofar en það, að hann var nokkurn veginn viss um að hljóta ekki kjör.

Hann vildi styrkja framboðslistann með nafni sínu, en taldi pólitísk trúnaðarstörf, af þessu tagi, ekki ævinlega samrýmast forsjá lánastofnunar. Engu að síður sat hann allmarga bæjarstjórnarfundi sem varabæjarfulltrúi og reyndist þar ráðhollur og framsýnn, enda fylgdist hann alla tíð vel með bæjar- og þjóðmálum. Kjartan tók virkan þátt í ýmsu félagsstarfi: skógræktarfélagi, stangveiðifélagi, Rótarýklúbbi, frímúrarastúku o.fl. 

Alls staðar var hann sami góði drengurinn í þess orðs elztu og beztu merkingu. Þegar hann hverfur nú til austursins eilífa er mér efst í huga þakklæti fyrir löng og góð kynni. Ég og fjölskylda mín sendum frú Helgu og börnum þeirra hjóna innilegustu samúðarkveðjur. Megi Kjartan Bjarnason, sem allt sitt líf var ræktunarmaður, mæta uppskeru og ávöxtum þar sem réttlætið ríkir eitt.

Stefán Friðbjarnarson
-----------------------------------------

„Á snöggu augabragði
afskorið verður fljótt"  (HP)

Með skyndilegu fráfalli Kjartans Bjarnasonar er maður minntur á það sem Predikarinn segir: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma."

Oft er erfitt að trúa því og átta sig á, er hraustir menn, sem ekki sjást nein veikleikamerki á, eru svo snögglega á burtu kallaðir. En ekkert er til varnar, þegar stundaglasið er útrunnið og hin afmarkaða stund er komin. Þegar vel metnir og vinsælir samferðamenn falla frá, eru stór skörð höggvin í vinahóp margra og menn setur hljóða. Kjartan var hugþekkur maður og glæsileiki hans var óumdeildur. Ljúfur í viðmóti og hress í anda. Hann var friðsamur og traustur og deildi ekki á aðra, en hafði þó sínar fastmótuðu skoðanir á málum 

samtíðarinnar, sem hann fylgdi eftir af sanngirni og drengskap. Ungur kom hann til Siglufjarðar árið 1929, og hóf þá störf hjá Sparisjóði Siglufjarðar, sem er elsti sparisjóður landsins.

Þar starfaði hann í 50 ár, fyrst sem bókari og gjaldkeri og síðan sparisjóðsstjóri frá 1. júní 1962. Hann ávann sér stöðugt vaxandi traust viðskiptavina sparisjóðsins, sem efldist mjög eftir að hann tók við forstjórastarfinu. Er hann lét af störfum og flutti til Reykjavíkur, hugðist hann njóta góðra daga á efri árum, eftir mikið og farsælt ævistarf. Tryggð hans við Siglufjörð var samt svo mikil, að hann dvaldi þar í húsi sínu og meðal gamalla vina og kunningja, yfir sumartímann, og átti þar lögheimili til æviloka. 

Kjartan tók mikinn þátt í ýmsum félagsmálum og bæjarmálum. En ekki vildi hann taka þátt í hinum oft svo illvígu deilum, sem bæjarpólitíkin framkallaði. Hann komst þó ekki hjá því að verða oftar en einu sinni varabæjarfulltrúi. Hann hafði mikinn áhuga á velferðarmálum byggðarlagsins, sem hann batt svo mikla tryggð við. Allir fengu gjarnan þá bestu fyrirgreiðslu, sem hægt var að veita af bankastofnun þeirri, sem hann stjórnaði. Bæjarfélagið sjálft þurfti oft á miklum fjármunum að halda, sem lánsfé frá sparisjóðnum, og var þar jafnan leyst úr þörfum þess

Ýmsar stofnanir og félög á Siglufirði standa í þakkarskuld við Kjartan. Allsstaðar vann hann að þeim málum, sem hann taldi til heilla horfa. Hann var góður félagi, sem alltaf kom fram af drenglyndi og bjartsýni og hafði örvandi og góð áhrif á samborgarana, með glaðlyndi og hressilegri framkomu. Hans er sárt saknað úr vinahópnum. Kjartan var gæfumaður í einkalífi sinu. Hann eignaðist ágæta og gáfaða konu, sem var hans tryggi förunautur í 49 ár.

Hann eignaðist glæsilegan barnahóp, sem hann mátti vera stoltur af. Hann ávann sér álit og vinsældir sinna mörgu samferðamanna á langri leið. Með fráfalli hans erum við minnt á það, að þegar sandurinn í stundaglasinu rennur út, þá „kaupir sér enginn frí". Tímans veltihjól veldur breytingum með svo til hverju spori manns. Þetta er lögmál lífsins, sem allir verða undir að gangast. Allt hefur sitt upphaf og endalok. Við vinir og samferðamenn Kjartans sendum ekkjunni, frú Helgu Gísladóttur, börnum þeirra hjóna og öðrum ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Þ. Ragnar Jónasson