Kristín Ágústa Gunnlaugsdóttir

Kristín Gunnlaugsdóttir Ljósmynd: Kristfinnur

Kristín Gunnlaugsdóttir frá Siglufirði  -  Hún Stína frænka er dáin. Þessi frétt barst okkur norður yfir heiðar fimmtudaginn 19. Ágúst 1993.

Fréttin kom nokkuð snöggt, en þó ekki óvænt. Hún hafði verið talsvert veik undanfarið og sýnt að hverju stefndi þótt ekki byggist maður við að þetta gerðist svo fljótt sem raun varð á. Sjálf var hún sátt við að kveðja, reyndar held ég að hún hafi þráð hvíldina eins og á stóð. Síðustu árin hafði hún að meira eða minna leyti haft vetrardvöl hjá Margréti dóttur sinni, sem þá var búsett í Svíþjóð, en kom svo alfarið heim sumarið '92.

Aldur og veikindi voru þá farin að segja til sín. Í fyrstu fór hún norður á æskuslóðir og dvaldist um tíma á ellideild sjúkrahúss Siglufjarðar, þar sem hún undi sér allvel meðal vina og kunningja. Þrátt fyrir það hafði hún alltaf hug á að komast heim í íbúðina sína á Framnesveginum. Ekki auðnaðist henni þó að dvelja þar nema stutt því að veikindi sóttu enn að.

Eftir stutta dvöl á sjúkrahúsinu fékk hún vist á Elliheimilinu Grund, þar sem hún hafði þörf fyrir meiri umönnun. Síðar var hún flutt á sjúkradeild Grundar þar sem heilsunni hafði hrakað. Ég veit að það var frænku minni talsvert áfall að geta ekki verið lengur heima eins og hún hafði viljað. Hún andaðist á 82. aldursári á sjúkradeild Grundar, fimmtudaginn 19. ágúst sl.

Hún hét fullu nafni  Kristín Ágústa Gunnlaugsdóttur, foreldrar hennar voru hjónin Margrét Ó Meyvantsdóttir og Gunnlaugur Sigurðsson skipasmiður. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Siglufirði ásamt þremur bræðrum: 

  • Sigurður Gunnlaugsson, 
  • Jóhann Gunnlaugsson,  Jóhann dó einnig um aldur fram, 37 ára gamall, en Sigurður, sem var elstur, dó árið 1991 þá nýlega 85 ára gamall.
  • Anton Gunnlaugsson. Anton fór ungur á sjóinn og drukknaði af skipi sínu rétt innan við tvítugsaldur. 

Á bernskuárum þeirra systkina er síldartíminn og uppgangsár Siglufjarðar að hefjast með síldveiði og síldarvinnu Norðmanna. Þeir hófu sína fyrstu síldarsöltun á Siglufirði 1903 og bærinn stækkar mjög hratt á næstu árum. Atvinna var mikil, líf og fjör í bænum, ævintýri sem freistuðu margra. Í þessu andrúmslofti ólst frænka mín upp og tók þátt í því atvinnulífi sem einkenndi allt á þessum árum.

Hún kynntist manni sínum, Eyjólfur Þorgilsson, á stríðsárunum en hann var sjómaður og stundaði m.a. síldveiðar fyrir norðan.
Eyjólfur, ættaður frá Sandgerði, og Kristín gengu í hjónaband í desember 1942. 

Fyrstu hjúskaparár sín búa þau hjá afa og ömmu á Grundargötunni og þar elst upp einkadóttir þeirra, 

  • Margrét Ólöf Eyjólfsdóttir.

Frá Siglufirði flytjast þau árið 1965 til Reykjavíkur, búa fyrst á Hringbrautinni en síðan á Framnesvegi 57.  Eyjólfur var hættur sjómennsku löngu áður en þau fluttust frá Siglufirði og starfaði við netagerð. Því starfi hélt hann áfram fyrir sunnan og starfaði um langt árabil hjá Hampiðjunni. 

Eyjólfur Þorgilsson dó 21. janúar 1989.

Þó að frænka mín flyttist suður voru henni æskustöðvarnar einkar kærar og norður kom hún árvisst á hverju sumri meðan hún var heil heilsu. Þá gisti hún oftast á okkar heimili og var mikill aufúsugestur. Þetta var reyndar gagnkvæmt, því að hér í borginni gisti ég sjaldan annars staðar ef frænka mín var heima. Okkar frændsemi og vinátta var alla tíð mjög einlæg og sterk svo að þar bar aldrei skugga á.

Frænka mín var þannig skapi farin að fólki leið vel í návist hennar enda átti hún mikinn fjölda vina og kunningja. Það sem einkenndi hana var léttleikinn, góða skapið og glaðværðin og ekki spillti sönggleði og músíkáhuginn fyrir sem reyndar einkenndi þau systkinin öll. Á Siglufjarðarárunum söng hún um áratugaskeið með kirkjukórnum og hélt áfram með kór Neskirkju og víðar um skeið eftir að suður kom.

Söng- og músíkáhuga hafa þau systkin eflaust haft frá Gunnlaugi afa sem alla tíð var mikill áhugamaður um söng, en hann söng með karlakórnum Vísi frá stofnun hans og nánast til æviloka auk þess að syngja með kirkjukórnum í hálfa öld.

Nú er frænka mín öll, hláturinn, söngurinn og glaðværðin hljóðnuð, en minningin lifir. Ég þakka frænku minni langa og góða samfylgd og flyt sömu kveðjur og þakkir frá móður minni. Þá veit ég að hennar var saknað þegar hún yfirgaf ellideild sjúkrahúss Siglufjarðar og þaðan fylgja henni hlýjar kveðjur veit ég.

Að síðustu innilegar samúðarkveðjur til Margrétar, Bjartar og fjölskyldu. Guð blessi minningu frænku minnar.

Anton V Jóhannsson.