Tómas G Hallgrímsson

Tómas Hallgrímsson

Tómas Hallgrímsson frá Siglufirði - Fæddur 25. júlí 1911 Dáinn 19. janúar 1987 

Fullorðnum, brottfluttum Siglfirðingi þarf ekki að bregða, þó heyrist í frétt að borinn og barnfæddur íbúi þar sé látinn.

Ég lagði við hlust er ég heyrði þá fregn, að vinur minn og æskufélagi Tómas G. Hallgrímsson hefði látist í Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík 19. janúar sl.

Ég hafði að vísu haft spurn af því, að hann hefði um skeið ekki gengið heill til skógar. Þó kom mér það á óvart, hve skammt var að skapadægri en það var nú það.

Ég var einum æskuvini fátækari - einum af mörgum frá Siglufirði þeirra ára, þegar síld og tunnuvinna sameinuðu unglinga, fjölskyldur og síldarkaupmenn.

Hinn mikli athafnamaður, Norðmaðurinn Ole O Tynes, hafði byggt sér og konu sinni, frú Indíana Tynes, stórt heimili við Aðalgötuna á Siglufirði skömmu eftir aldamótin og uppi á kvisti í þessu húsi fæddist fyrsta barn þeirra hjóna, nýskipaðs héraðslæknir Guðmundur T Hallgrímsson og frú Camilla Terese Hallgrímsson, dóttir: Thor Jensen, 25. júlí 1911,
Tómas G Hallgrímsson, sem þessar línur eru helgaðar að ævilokum hans.

Á meðan nýi héraðslæknirinn og trúlega ljósmóðirin í Siglufirði, Jakobína Stær, voru að aðstoða frú Camillu við að koma frumburði sínum í sigfirskt umhverfi var byggingameistarinn í bænum, Kjartan Jónsson, að reisa stórhýsi fyrir þau hjón við Gránugötu, sem síðar varð framtíðarheimili læknis hjónanna og barna þeirra upp frá því.

Auk Tómasar eignuðust  læknishjónin 5 börn, en þau eru: 

Margrét Þorbjörg Hallgrímsson, maki Pétur Johnson, hagfræðingur. Þau eru búsett í Bandaríkjunum.

Thor Hallgrímsson, maki Ólafía G Jónsdóttir, búsett í Reykjavík.

Ásta Júlía Hallgrímsson, maki Jón Stefánsson, framkvæmdastjóri, búsett í Reykjavík.

Eugenía Hallgrímsson,  maki Samuel Bergin, fyrrverandi major í Bandaríkjaher, þau eru búsett í Bandaríkjunum, og

Ólafur Kjartan Ríkharð Haukur Hallgrímsson, maki Þórunn Guðmundsdóttir, en hann andaðist 21. maí 1968. Sérstakur efnismaður og vinur vina. Við vorum um tíma vinnufélagar.

Í þessum systkinahópi og með foreldrum sínum, Guðmundi T Hallgrímssyni lækni og frú Camilla Hallgrímsson, ólst Tómas upp í hinu reisulega húsi við Gránugötu beint norður af svonefndum Kveldúlfs bryggjum.

Héraðslæknisfjölskyldan er mér enn í dag hugstæð. Hún lagði hornstein að mörgu menningar- og framfaramáli á æskudögum Siglufjarðarkaupstaðar. En í dag er hugurinn staldrar við, er Tómas G Hallgrímsson mér efstur í huga og er það ekki mót von. Hann var sá eini þeirra systkina, sem ekki yfirgaf Siglufjörð. Hann fæddist þar, ólst þar upp og starfaði þar til hinsta dags.

Tómas G Hallgrímsson var ekki langskólagenginn. Auk venjulegrar fræðslu á Siglufirði var hann viðnám hjá séra Sveinbjörn Högnason í Laufási við Eyjafjörð og á Breiðabólstað í Rangárvallasýslu. En hann notaði gáfur sínar vel. Hann stundaði verslunar- og skrifstofustörf í Reykjavík um skeið og einnig á Siglufirði. 

Lengst af var hann hjá Síldarútvegsnefnd eða í 22 ár, þar til skrifstofa nefndarinnar var lögð niður og flutt til Reykjavíkur. Eftir það starfaði Tómas, sem fulltrúi verðlagsstjóra á Siglufirði, þar til hann lét af störfum aldurs vegna.

Það var ekki nema 5 ára aldursmunur á okkur Tómasi og áttum við því samleið á uppvaxtarárum okkar. Hann var drengur góður, fjölhæfur og félagslyndur. Hann vann íþróttahreyfingunni í Siglufirði mikið gagn. 

Hann var einn af hvatamönnum að stofnun Knattspyrnufélags Siglufjarðar KS, og formaður þess lengi, og það mun vera honum einna mest að þakka að KS varð meistaralið í knattspyrnu árið 1964. 

Tómas var mikill áhrifamaður í félagi verslunar- og skrifstofufólks á Siglufirði og formaður þess í 15 ár. Hann átti drjúgan þátt í stofnun Landssambands ísl. verslunarmanna, sem stofnað var í júní 1957, og var þar fulltrúi í mörg ár.

Eins og Tómas G Hallgrímsson átti kyn til var hann ötull sjálfstæðismaður og starfaði mikið fyrir þann flokk, en öll þau störf á því sviði vann hann með þeirri drenglund er honum var meðfædd.

Sjaldan voru svo dansleikir haldnir að Tómas léki ekki fyrir dansinum. Hann var að mestu sjálfmenntaður tónlistarmaður og lék á píanó, stundum einn, en oft með félögum sínum með önnur hljóðfæri er höfðu hinn rétta tón í blóðinu eins og hann.

Slíkur "músikant" sem Tómas var starfaði að sjálfsögðu með hinum þekkta karlakór Vísi og setti svip sinn á störf kórsins ásamt fleirum, þó það væri ekki lengi.

"Hver er konan sem stóð á bakvið þennan mann?" er gömul spurning. Því er fljótsvarað. 

Á gamlársdag 1955 gengu þau í hjónaband Björk Jónsdóttir og Tómas G Hallgrímsson. 

Þau stofnuðu heimili sitt á Siglufirði. Foreldrar Bjarkar voru heiðurshjónin, 

Jón Jóhannsson, skipstjóri, og kona hans, María Hjálmarsdóttir.

Með þessu hjónabandi stigu þau bæði mikið gæfuspor, því þau lifðu saman í ást og einlægni til hinstu stundar Tómasar.

Um hjónabandið segir Jesús: Það, sem Guð hefir tengt saman." Já, Guð tengdi þau vissulega saman og það var gaman að fylgjast með hamingju þeirra, ástúð lýsti af þeim báðum.

Þegar Tómas fann að ævikvöld sitt nálgaðist og sól lífs síns varað hníga til viðar sneri hann starfskröftum sínum að því að rita niðjatal forfeðra sinna, Thor Jensen og hinnar íslensku konu hans, Margrét Þorbjargar, en hinn 3. desember 1983 hefði hinn merki maður orðið 120 ára. Tómas var elsta barnabarn þeirra hjóna.

Tómas þurfti að ganga í gegnum mikinn reynsluskóla síðustu æviárin, þegar heilsan bilaði og sjúk dómsstríðið tók við: Í helgri bók stendur skrifað: "Gull prófast í eldi." Tómas tók mótlæti sínu með mikilli reisn, fól hag sinn Drottni, þakkaði hvern dag, sem honum var gefinn, bjó sig undir dauða sinn, svo vel sem hann gat. Og þarna stóð kona hans, Björk Jónsdóttir, við hlið hans og hjálpaði. Veitti honum þá blessun, sem elskandi kona fær veitt.

Séra Ragnar Fjalar Lárusson flutti minningarorð um Tómas G. Hallgrímsson 28. janúar 1987 í Fossvogskapellu og lauk máli sínu með þessum orðum:

Fallinn er einn
úr flokki vorum
góður - gætinn
og göfuglyndur.

Þótt skyggi sorg
á sætið auða,
ljós er þar yfir,
sem látinn hvílir."

Ég bið hinum látna Tómasi G. Hallgrímssyni Guðs blessunar. Sendi eiginkonu hans, systkinum og ættingjum samúðarkveðju.

Vinir mínir deyja ekki, þeir hverfa bara í bili."

Björn Dúason
---------------------------------------------

Tómas Hallgrímsson frá Siglufirði Fæddur 25. júlí 1911 Dáinn 19. janúar 1987 Hetjulegri baráttu gegn þeim örlagavaldi, sem oftast fer með sigur af hólmi, er nú lokið. Minn góði vinur Tómas er nú allur, eftir mikið hugrekki og baráttuvilja í löngu sjúkdómsstríði. Við vinir hans vorum að vona að enn um sinn tækist honum að halda velli - vinna enn einn sigur - þó lokaorrustan væri fyrirfram töpuð, en sú von brást.

Í þessum þrengingum hafði hann við hlið sé sína elskulegu konu, Björk, sem reyndi eftir mætti að létta undir með honum í hvívetna með sinni nærfærni og hlýju. Margar voru ferðirnar, sem hún fylgdi honum til Reykjavíkur til læknismeðferðar. Það hlýtur að þurfa mikið sálarþrek að horfa upp á ástvin sinn berjast gegn þessum ógnvaldi, sem þessi sjúkdómur er. En það er eins og sá sem öllu ræður gefi fólki styrk til að bera svo þungar byrðar, sem veikindi og dauði er alla jafna.

Tómas var fæddur 25. júlí 1911, elstur sex systkina, sem eru: Margrét Þorbjörg, Thor Jensen, Ásta Júlía, Eugenía Jakobína og yngstur var Ólafur, er lézt 21. maí 1968 langt um aldur fram. Foreldrar þeirra voru Guðmundur T. Hallgrímsson læknir, sonur Tómasar Hallgrímssonar læknis og Ástu Júlíu G. Thorgrímsen, og Camilla Theresa, dóttir hins velkunna at hafnamanns Thors Jensen og konu hans, Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur.

Heimili Tómasar og systkina hans var hið mesta myndarheimili. Faðirinn fjölfróður gáfumaður og móðirin elskulegur persónuleiki, sem stjórnaði heimilinu af röggsemi og hlýju. Á þetta heimili var gott að koma og þar áttum við, vinir Tómasar, margar ánægjulegar stundir við söng og hljóðfæraleik.

Tómas kvæntist eftirlifandi konu sinni, Björk Jónsdóttur, skipstjóra og útgerðarmanns Jóhannssonar og konu hans, Maríu Hjálmarsdóttur, þann 31. desember 1955. Óhætt er að fullyrða að þar hafi Tómas stigið sitt mesta gæfuspor. Þau áttu fallegt heimili að Lindargötu 26 hér í bæ, sem var æskuheimili Bjarkar. Þau virtu hvort annað og dáðu og voru alltaf sem nýtrúlofuð.

Tómas - eða Tommi Hallgríms - eins og vinir hans kölluðu hann jafnan, hlaut í vöggugjöf góðar gáfur, sem opnuðu margar leiðir en sem geta oft á tíðum gert slíkum mönnum erfitt fyrir í framtíðaráætlunum sínum, varðandi val á lífsstarfi, og ég hygg að Tómas hafi átt erfitt með slíkt val.

Hann var músíkalskur vel, spilaði á píanó og stofnaði hér fyrr á árum hljómsveitir, sem léku fyrir dansleikjum og á kaffihúsum hér og úti á landi. Spilaði á Hótel Hvanneyri og stofnaði klúbb sem naut mikilla vinsælda á þeim tíma. Þá stofnaði hann oft söng kvartetta sem sungu á skemmtunum hér. Ég held, þegar ég lít tilbaka, að músíkin hafi verið honum hvað hjartfólgnust.

Það gerðist margt skemmtilegt í þessum "bransa", sem ekki verður tíundað hér, en oft lá leið okkar vinanna til Tomma til að hlusta á hann leika á píanóið eða taka lagið. Allan þennan hávaða þoldu foreldrar hans með bros á vör og ótrúlegu jafnaðargeði.

Erlend tungumál var hann fljótur að tileinka sér. Hann var vel ritfær og málsnjall. Hann lét ógjarnan hlut sinn fyrir neinum ef hann taldi sig hafa á réttu að standa, gat þá verið tannhvass og beinskeyttur. En hann átti líka gamansemi í ríkum mæli og gat komið mönnum skemmtilega á óvart með uppátækjum sínum, sem þó öll voru græskulaus. Ég get stundum hlegið með sjálfum mér er ég minnist ýmissa kátlegra atvika frá þessum tíma.

Hann lét sig félagsmál allmiklu skipta og var þar yfirleitt tillögugóður. Hann var góður íþróttamaður og var knattspyrnan hans uppáhaldsíþrótt. Hann var félagi í KS og tók þátt í mörgum kappleikjum fyrir félag sitt. Á fullorðinsárum gerðist hann formaður KS, sem þá var í miklum erfiðleikum. 

Tómasi tókst með dugnaði og bjartsýni að lyfta félaginu upp úr öldudalnum. Hann var einn stofnanda skátafélagsins Smára og seinna skátafélagsins Fylkis. Hann var og formaður Verslunarmannafélags Siglufjarðar um langt árabil.

Hann var eindreginn sjálfstæðismaður og starfaði mikið fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér. Þegar kosningar voru framundan stjórnaði hann oft kosningaskrifstofu flokksins og gerði það með mikilli prýði og vil ég þakka þessi störf fyrir hönd sjálfstæðismanna hér og flokksins í heild.

Hann vann á unglingsárum sínum flest þau störf er siglfirskir unglingar unnu jafnan, eða við síldariðnaðinn. Hann var vel á sig kominn líkamlega, snöggur í hreyfingum og bar sig vel. Allsstaðar sem hann kom fylgdi honum kraftur og ferskleiki. Þegar unglingsárin voru að baki, vann hann við verslunarstörf alllengi en gerðist svo starfsmaður hjá Síldarútvegsnefnd um langt árabil, þar til nefndin flutti skrifstofuhald sitt til Reykjavíkur. Eftir það gerðist Tómas verðgæslu maður fyrir Verðlagseftirlitið í nokkur ár.

Nú síðustu árin tók hann að sér að safna og rita niðjatal Thorsættarinnar. Var það viðbætir við þá niðjaskrá er Ólafur bróðir hans hafði skráð á 100 ára afmæli Thors Jensen. Var þetta all viðamikið starf, því ættmennin eru dreifð um allar jarðir og miklar bréfaskriftir því óhjákvæmilegar. Þetta niðjatal kom svo út árið 1983 og virðist hið vandaðasta.

Tómas andaðist 19. janúar sl. og jarðarför hans var gerð þann 28. janúar sl. frá Fossvogskirkju. Það er margra ljúfra stunda að minnast frá unglingsárunum og Tómas vinur minn var hluti af þeim minningum og sameiginlegir vinir okkar taka ábyggilega undir þau ummæli og þakka honum samfylgdina og alla vináttu fyrr og síðar.

Kæra Björk, við biðjum Guð að styðja þig og styrkja og sendum einlægar samúðarkveðjur til þín og systkina þinna.

Blessuð sé minning Tómasar Hallgrímssonar.

Óli J. Blöndal