Unnur Helga Möller
mbl.is 20. apríl 2010
Unnur Möller - (Nunna) fæddist á Siglufirði 10. desember 1919, hún lést á Heilbrigðisstofnun
Siglufjarðar 8. apríl 2010.Foreldrar:
Christian Ludvig Möller, f. 5.4. 1887 á Blönduósi, d. 11.8. 1946 á Siglufirði og kona hans Jóna Sigurbjörg Rögnvaldsdóttir Möller, f. 18.3. 1885 á Þrastarstöðum í Hofshreppi, Skagaf., d. 6.2. 1972 á Siglufirði.
Systkin:
- Alfreð Möller, f. 1909, d. 1994,
- William Thomas Möller, f. 1914, d. 1965, Rögnvaldur, f. 1915, d. 1999,
- Jóhann Georg Möller, f. 1918, d. 1997,
- Alvilda María Friðrikka Möller, tvíburi við Unni, d. 2001,
- Kristinn Tómas Möller, f. 1921,
- Jón Gunnar Möller, f. 1922, d. 1996.
Unnur giftist Jóni Ólafi Sigurðssyni (Jón Sigurðsson), síldarsaltanda, (Hrímnir) f. 14.8. 1918, d. 4.11. 1997, þau slitu samvistir.
Foreldrar Jóns voru: Sigurður Árnason, f. 5.8. 1881, d. 17.1. 1959 og kona hans Salbjörg Engilráð Jónsdóttir, f. 28.4. 1878, d. 2.3. 1954.
Börn þeirra Unnar og og Jóns:
- 1) Björgvin Sigurður Jónsson, (Björgvin Jónsson rafvirki) f. 1942, maki Halldóra
Ragna Pétursdóttir, f. 1942, börn þeirra eru:
- Halldóra Salbjörg Björgvinsdóttir, f. 1960,
- Jón Ólafur Björgvinsson, f. 1962,
- Sigurður Tómas Björgvinsson, f.1963,
- 2) Steinunn Kristjana Jónsdóttir, f. 1943, maki Freyr Baldvin Sigurðsson rafvirki, f. 1943; Þeirra börn
eru:
- Helga Freysdóttir, f. 1963,
- Sigurður Freysson, f. 1965,
- Katrín Freysdóttir, f. 1977,
- 3) Brynja
Jónsdóttir, f. 1944, maki Hallgrímur Jónsson, f. 1941, börn þeirra eru:
- Andrés Helgi, f. 1967,
- Unnur, f. 1970,
- Sigrún
Margrét, f. 1977,
- 4) Salbjörg Engilráð Jónsdóttir, f. 1947, maki Sigurður Jón Vilmundsson, f.1945, börn þeirra eru:
- Vilmundur, f. 1968,
- Jón Ólafur, f. 1975,
- Gígja Rós, f. 1976,
- Harpa Ósk, f. 1976.
Langömmubörn Unnar eru 29.
Unnur fæddist og ólst upp á Siglufirði og tók virkan þátt í blómlegu atvinnulífi þar.
Hún bjó lengst af ævinnar að Hverfisgötu 27 eða þar til hún flutti í Dvalarheimilið Skálarhlíð.
Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugarlandi í Eyjafirði 1939 til 1940.
Auk þess að vera húsmóðir með fjögur börn tók hún mikinn þátt í umsvifum eiginmanns síns, meðal annars með því að taka fólk inn á heimilið bæði í fæði og húsnæði og gestagangur var mikill.
Hún vann í síldinni bæði við frystingu og söltun og síðar vann hún í Niðurlagningaverksmiðjunni
Sigló Síld vel á annan áratug eða þar til hún hætti vegna aldurs.
-----------------------------------------------------
mbl.is 20. apríl 2010 | Minningargreinar
Unnur Helga Möller fæddist á Siglufirði 10. desember 1919. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 8. apríl 2010.
Útför Unnar fór fram frá Siglufjarðarkirkju 17. apríl 2010.
Þegar ég kom fyrst til Siglufjarðar fyrir réttum 50 árum var mér tekið þar með kostum og kynjum af frændfólki mínu. Þar fór fremst í flokki frænka mín Unnur Möller sem bar gælunafnið Nunna. Það var ekkert hangsað við hlutina, útvegað húsnæði fyrir piltinn og svo beint til starfa í Hrímni við söltun og frystingu silfurs hafsins, síldarinnar.
Mér varð Nunna frænka strax mjög kær og dáði ég mjög kraftinn í henni, ósérhlífnina og þó fyrst og fremst hve opin, heiðarleg og glaðvær hún var. Oft hef ég sagt mínum nánustu að dvöl mín á Siglufirði sumrin 1960 og 1961 hafi verið með mikilvægustu reynslu til undirbúnings fyrir framhaldsnám og lífsstarf mitt. Nunna og fjölskylda hennar áttu mjög ríkan þátt í þessu þroskaskeiði mínu.
Það var alltaf gaman að heimsækja Nunnu frænku og fylgjast með henni og fjölskyldunni. Hún var einlæg og áhugasöm og lét sig allt mannlegt varða. Í heimsóknum mínum til hennar hin síðari ár á Heilbrigðisstofnunina á Siglufirði fór hún alltaf nákvæmlega yfir málefni nærfjölskyldu sinnar og fjallaði um allt, bæði gleði og sorg. Svo bað hún um ítarlega skýrslu frá mér og mínum og spurði frétta að sunnan.
Einnig ræddum við um heima og geima, pólitík, þjóðmál og ekki síst um íþróttir. Þar sló Nunna mér algerlega við enda fylgdist hún með nánast öllu í íþróttaheiminum. Yndi hennar var skíðaíþróttin enda skíðadrottning á yngri árum. Á efri árum var formúlukappakstur og hnefaleikar hennar yndi og hafði ég ekki roð við henni í umfjöllun um þær greinar.
Síðast þegar ég hitti Nunnu var hún full tilhlökkunar um að ná 90 ára aldri í desember 2009. Alvilda, tvíburasystir hennar, lést árið 2001 og af sex öðrum systkinum er Kristinn, sem ber gælunafnið Bassi nú einn eftirlifandi. Ég votta honum einlæga samúð.
Ég bið Guð að styrkja elskuleg frændsystkin mín, Björgvin, Steinunni, Brynju og Salbjörgu, og fjölskyldur þeirra í sorg þeirra.
Góðar minningar um Unni Helgu Möller lifa.
Almar Grímsson.
--------------------------------------------
- Ferð þín er hafin.
- Fjarlægjast heimatún.
- Nú fylgir þú vötnum
- sem falla til nýrra staða.
- Og sjónhringar nýir
- sindra þér fyrir augum.
(Hannes
Pétursson)
Í dag er föðursystir okkar, Unnur Helga Möller, borin til grafar. Hún andaðist hinn 8. apríl síðastliðinn, tilbúin til ferðar og sátt eftir langa og farsæla ævi. Eftir situr minning um vammlausa konu sem vildi öllum vel og vandaði verk sín og líf sitt allt.
Unnur Helga, eða Nunna eins og hún var oftast kölluð, ólst upp í stórum systkinahópi á Siglufirði á þeim tíma þegar síldin var að breyta lífi bæjarbúa og ásýnd bæjarins. Systkinin voru átta, sex bræður og tvær systur. Heimilislífið í Möllershúsinu var fjörlegt eins og nærri má geta og barnahópurinn afar atorkumikill og glaðvær.
Foreldrarnir, Jóna Sigurbjörg og Christian Ludvig, voru áberandi í bæjarlífinu, hann laganna vörður, söngvari góður og hrókur alls fagnaðar, hún mikil félagsvera og vinur lítilmagnans. Ung byrjuðu systkinin að vinna eins og tíðkaðist í sjávarplássum og Nunna var ekki há í loftinu þegar hún var orðin vel liðtæk við síldarsöltun. Hún iðkaði fimleika sem ung stúlka og einnig sinnti hún skíðaíþróttinni. Hlaut hún 1. verðlaun í loftstökki á skíðamóti í Siglufirði árið 1931. Mun það hafa verið Íslandsmet kvenna. Geri aðrar betur!
Eitt af öðru uxu systkinin í Möllershúsinu úr grasi og hleyptu heimdraganum. Nunna fór ekki langt, hún giftist Jóni Sigurðssyni, æskuástinni sinni, og stofnuðu þau heimili sitt á Siglufirði. Þau voru góð heim að sækja, hún glettin, spurul og orðheppin, hann íhugull og ræðinn. Bæði voru gestrisin og glaðsinna. Börnin fjögur voru augasteinar og stolt foreldra sinna. Nunna sinnti móðurhlutverkinu af kostgæfni og var vakin og sofin yfir velferð barna sinna.
Vinir þeirra urðu vinir hennar og í minningunni var það engu líkt að koma kaldur og hrakinn eftir „ræningjaleiki“ upp um fjöll og firnindi heim í hlýjuna og notalegheitin hjá Nunnu frænku. Eftir að við systkinin yfirgáfum heimahagana sáum við Nunnu sjaldnar. Hún hélt tryggð við fjörðinn sinn alla ævi og þar gátum við gengið að henni vísri. Alltaf var gaman að hitta hana, ræða um daginn og veginn og fá fréttir af sístækkandi hópi afkomenda hennar sem hún fylgdist grannt með og var mjög stolt af.
Hún gaf atburðum líðandi stundar góðan gaum og íþróttir voru henni einkar hugleiknar. Horfði hún á flesta íþróttaviðburði sem sjónvarpið sýndi og átti sér sína uppáhaldsleikmenn. Eftir að hún settist í helgan stein stytti hún sér stundir við hannyrðir sem léku í höndum hennar. Jafnvel eftir að sjónin fór að gefa sig sinnti hún þeirri iðju og þá kom sér vel þrautseigja sú sem einkenndi hana eins og svo marga af hennar kynslóð.
Og nú er hún öll, þessi væna kona. Að leiðarlokum viljum við og móðir okkar, Helena Sigtryggsdóttir, þakka Nunnu frænku ræktarsemi og hlýhug í okkar garð. Afkomendum hennar vottum við einlæga samúð.
Alma, Kristján, Jóna, Alda og Ingibjörg Möller.
-----------------------------------------------------------------
Margar mínar bestu minningar tengjast ömmu Nunnu, það var alltaf gaman að koma til Sigló að heimsækja hana. Ég tel mig alltaf vera Siglfirðing enda fæddur þar en alinn upp á
Akranesi og hún var stolt af því að nafni hennar væri Siglfirðingur, ég hét alltaf Helgi hjá henni. Amma Nunna átti snúrustaura sem var alveg bannað að leika sér í en
fyrir vikið voru þeir mjög spennandi. Ég held að hún hafi verið hrædd um að við krakkarnir hálsbrotnuðum við að leika okkur í þeim. Af þessum sökum voru þeir
mikið notaðir á meðan amma var í vinnunni í Sigló Síld, en eftir að hún kom heim var ekki snert á þeim.
Í árlegum ferðum til Siglufjarðar var mjög mikilvægt að komast fljótt niður á bryggju til að veiða. Hún passaði vel upp á þríkrækjuna mína sem ég notaði til að húkka ufsa úr torfunum á Ríkisbryggjunni. Þríkrækjan átti sinn stað í geymslunni. Árlega fékk ég símtal þar sem hún söng afmælissönginn og síðan fylgdi einhver falleg vísa. Vonandi tekur einhver sem ég þekki upp þennan góða sið, þetta voru alltaf skemmtileg símtöl.
Eftir að ég óx úr grasi og við Snædís eignuðumst börn var alltaf tekið vel á móti okkur þegar við heimsóttum hana. Hún hafði alltaf gaman af börnunum og faðmaði þau innilega að sér. Þau fengu svo að sitja í göngugrindinni á göngum elliheimilisins. Hún var yndisleg, ljúf og skemmtileg kona og hafði mjög góða og hlýja nærveru. Það var gaman að vera með henni því að hún var mikill húmoristi. Íþróttir skipuðu stóran sess í hennar lífi, hún var mikill áhugamaður um allar íþróttir og í seinni tíð horfði hún á allar beinar útsendingar sem hún komst yfir. Oftar en ekki var hringt og við í Sólheimunum minnt á ef það var bein útsending með Skagamönnum eða góður leikur í enska boltanum. Eftir að Hallgrímur Snær fór að æfa fimleika fengum við ófáar sögur af því að hún æfði fimleika á sínum yngri árum. Hún var óþreytandi í að segja skíðasöguna þegar hún stökk fimm metra í skíðastökki, ég held að hún hljóti að vera ókrýnd drottning í skíðastökki kvenna þar sem ekki er oft keppt í þeirri grein. Ef þið gúglið Unnur Helga Möller er þessi saga það fyrsta sem kemur upp.
Þegar við heimsóttum hana síðasta sumar stríddi hún mér á slæmri stöðu Skagamanna í fótboltanum, ég reyndi ekki að ybba gogg við hana, þetta var rétt hjá henni.
En nú er hún amma farin á vit feðranna og fullt af fólki sem tekur vel á móti henni. Eftir stöndum við með ljúfar minningar. Að lokum vil ég segja það sem hún sagði alltaf við okkur þegar við fórum frá Sigló: Farið varlega, það er betra að koma fimm mínútum of seint en að koma aldrei aftur heim.
Andrés Helgi og Snædís.
Elsku amma okkar er látin. Þessi sterka,
kjarkmikla kona sem hefur verið svo stór þáttur í lífi okkar er farin. Aldrei sá maður hana öðruvísi en glaða, hún söng og trallaði, talaði mikið, við sjálfa
sig ef engin annar var til að hlusta og gaf góð ráð við öll tækifæri.
Þegar við vorum að alast upp var amma alltaf nálæg, enda bjó hún í næsta húsi, sat oftast úti í glugga í stofunni en þaðan var gott útsýni yfir bæinn svo hún gat fylgst vel með öllu. Þegar við vorum yngri var því erfitt að gera einhver prakkarastrik án þess að amma vissi af því. Og þegar við urðum eldri var ekki auðvelt að halda partí eða koma heim með kærasta eða kærustu án þess að hún vissi en á móti kom að hún var alltaf til staðar fyrir okkur, skammaði okkur fyrir óknyttina þegar við áttum það skilið, var mætt til að hugga okkur þegar eitthvað bjátaði á. Það var mesta furða hvað hún amma þagði yfir mörgum leyndarmálum. Amma var góður vinur.
Amma var líka áreiðanlegasti vorboði okkar systkinanna, um leið og sólin náði yfir fjallatoppana var hún mætt í skotið á bílastæðinu í sólbað og orðin kaffibrún um leið á handleggjum og í andliti.
Amma hafði mikinn áhuga á íþróttum. Hún fylgdist með öllum fótboltaleikjum á vellinum og í sjónvarpinu, hringdi iðulega til að athuga hvort við vissum ekki af leikjum ef okkar lið voru að spila. Það eru ábyggilega ekki margar konur komnar vel yfir áttrætt sem vaka langt fram á nótt til að horfa á box.
Amma var mikið jólabarn og sennilega hafa sum okkar erft það frá henni. Þegar jólin nálguðust voru allir veggir (og loft) hjá ömmu þaktir jólaskrauti og gamla jólatréð á sínum stað. Seinna fengum við systkinin að taka þátt í þessum skreytingum og þegar við fórum að búa sá amma til þess að við fengjum nú örugglega jólaskraut. Eftir að amma fór á Skálarhlíð hafði hún mikið gaman af því að skreyta herbergið sitt og fá svo fólk í heimsókn til að sýna því skrautið. Þá féll það í hlut okkar ættingjanna að hengja upp skrautið sem fór efst á veggina, en annað sá hún um sjálf og gerði það í rólegheitum, enginn segir flýttu þér, eins og hún sagði alltaf.
Amma var með alla afmælisdaga hjá börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum á hreinu og enginn afmælisdagur leið án þess að amma hringdi í afmælisbarnið og syngi afmælissönginn í símann og færi með ljóð sem hún sagði vera frá maka.
Hún amma hafði einstakt lag á því að láta öllum í kringum sig líða vel og sjá björtu hliðarnar á lífinu. Í hvert sinn sem hún kvaddi okkur systkinin sagði hún; Mundu að vera léttlynd/ur og lífsglöð/glaður. Við þessi orð hennar kom ósjálfrátt bros fram á varirnar og maður fór glaður í hjarta og léttur í lund.
Við kveðjum ömmu með söknuði en vitum að nú líður henni vel og að vel var tekið á móti henni hinumegin.
Við kveðjum hana með fyrsta og síðasta versinu úr uppáhaldssálminum hennar.
- Þú, guð, sem stýrir stjarna her
- og stjórnar veröldinni
- í straumi lífsins stýr þú mér
- með sterkri hendi þinni.
- Stýr mínu fari heilu heim
- í höfn í friðarlandi
- þar mig í þinni gæzlu geym
- ó, guð minn allsvaldandi.
(Valdimar Briem.)
Helga, Sigurður og Katrín.
Nú hefur þú kvatt þennan heim elsku amma okkar og komist á vit nýrra ævintýra.
Alltaf þegar við hugsum um þig, þá færist bros yfir andlit okkar og okkur líður vel. Alltaf gafstu þér tíma til að tala við okkur og hlusta og alltaf hafðir þú skoðun á hlutum og málefnum. Þegar þú talaðir við okkur í síma þá virtist röddin og fasið svo tímalaust, eins og þú færir áratugi aftur í tímann og þú hljómaðir svo miklu yngri. Með þessa háu, fallegu og leikandi rödd, það var varla hægt að trúa því að þú værir orðin þetta gömul. Þú sýndir að aldurinn er bara hugtak, að maður er ekki eldri en maður hugsar sjálfur. Það var alltaf jafn yndislegt þegar þú hringdir í okkur á afmælisdaginn okkar, söngst afmælissönginn og fórst með vísu, þegar símtalinu lauk þá leið okkur vel, afmælisdagurinn byrjaði loksins.
Þú fylgdist með flestum íþróttum á lokakafla ævinnar og vissir mest um fótbolta, körfubolta og box. Þar kom maður ekki að tómum kofunum.
Ferð á Siglufjörð gat ekki hugsast nema til að hitta þig. Við hrifumst með í þínu glaðlega og hispurslausa fasi og komum endurnærð frá þér til að takast á við lífið á jákvæðan hátt. Þegar við sáumst í síðasta sinn þá gátum við spjallað um alla hluti og þegar við kvöddumst þá var eins og við fyndum öll á okkur að þetta væri kveðjustund.
Það var mjög erfitt að kveðja þig þá og sú hugsun kom hvort þetta væri hinsta kveðjustundin, og það var það.
Þessa fallegu minningu um þig munum við alltaf geyma í hjarta okkar, og þú verður alltaf fyrirmynd lífsgleðinnar í okkar huga.
- Amma ljúfa draumadísin mín,
- draumavængir beri mig til þín,
- heim í dalinn þar sem þögnin býr,
- þögnin þögul seiðandi ævintýr.
Vilmundur, Jón Ólafur, Harpa Ósk, Gígja Rós og fjölskyldur.
------------------------------------------------------------------------------
Eitt það besta sem getur hent börn í æsku er að eiga góða ömmu. Þegar ég var að vaxa úr grasi á Siglufirði var það Unnur Möller, oftast kölluð amma Nunna, sem var í hlutverki ömmunar sem alltaf var til staðar og alltaf að veita hjálparhönd. Fyrstu æviárin bjuggum við í sama húsi þannig að það var stutt að fara. Oft var skotist upp á loft til ömmu og afa þar sem móttökurnar voru alltaf hlýjar og innilegar.
Fyrstu sporin á menntaveginum voru ekki auðveld og hvort sem það var skólakerfið eða ég, þá náðum við ekki saman. Á þessum árum vandi ég komur mínar til ömmu á Hverfisgötunni og smám saman tókst henni að kenna mér að lesa og ýmislegt annað.
Hennar lífsspeki var afar einföld og fólst fyrst og fremst í því að maður átti að vera duglegur og vinnusamur í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur. Vinna og vinna því þú eignast aldrei neitt og kemst ekkert áfram nema vinna fyrir því, sagði hún gjarnan. Nokkuð sem við Íslendingar þurfum að hafa í huga þessi misserin.
Siglufjörður var einn stór leikvöllur á uppvaxtarárunum, frá bryggjum og upp í fjöll. Amma mat það svo að víða leyndust hættur fyrir ung börn og þess vegna gerðist hún sjálfskipaður eftirlitsmaður með okkur krökkunum. Seinna þróaðist þetta í eftirlit með því hvenær maður kom heim af skemmtanalífinu. Þetta þótti manni ekkert sérstakt í þá daga en þykir vænt um umhyggjuna nú þegar komið er að kveðjustund.
Amma hafði mikinn áhuga á íþróttum, þótt einu afrek hennar á því sviði hafi verið að vinna til verðlauna í skíðastökki kvenna. Ég geri ekki ráð fyrir að margar konur hafi stundað þá íþrótt hér á landi og þótt víðar væri leitað. Eitt sinn er ég heimsótti ömmu á Skálarhlíð sagði hún mér að tvær stúlkur hefðu verið að gera könnun um sjónvarpsnotkun eldri borgara. Hún sagði mér að þær hefðu farið flissandi út og þegar ég spurði af hverju þá var svarið skýrt og einfalt: „Ég sagði þeim að ég horfi mest á fótbolta, formúlu og hnefaleika,“ sagði sú gamla.
Amma var mikið afmælisbarn í sér. Þessi afmælisáhugi lýsti sér þannig að hún hringdi í börn og barnabörn á hverjum afmælisdegi í áratugi og söng afmælissönginn fyrir viðkomandi. Á seinni árum bætti hún svo við eigin ljóðum, þannig að þetta var orðin ansi góð dagskrá í gegnum síma. Minnisstæðasta atvikið var þegar ég varð tvítugur, en þá var ég staddur úti á sjó á afmælisdaginn. Amma fékk samband við skipið, en var sagt að ég væri að vinna. Hún gaf sig greinilega ekki því um kvöldið fékk ég handskrifað afmælisskeyti sem skipstjórinn hafði hripað niður eftir ömmu. Þetta þótti mér óendanlega vænt um.
Það var svo á 90 ára afmælinu hennar ömmu, í desember á síðasta ári, sem við hittumst síðast. Þá hafði löng lífsganga tekið sinn toll af heilsunni. Hún var þó hress miðað við aðstæður. Þrátt fyrir að heyrn og sjón væru verulega farin að daprast var röddin í lagi. Hún söng því fyrir okkur ættingjana og vini sem þarna voru komin til að samfagna. Þannig vil ég minnast ömmu Nunnu sem nú hefur kvatt þennan heim.
Sigurður Tómas Björgvinsson.