Þórhalla Hjálmarsdóttir

Þórhalla Hjálmarsdóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Þórhalla Hjálmarsdóttir, Siglufirði Fædd 4. september 1909 Dáin 8. desember 1988

Þann 8. desember  andaðist á sjúkrahúsinu á Siglufirði frú Þórhalla Hjálmarsdóttir húsfreyja á Dalabæ, eftir skamma sjúkdómslegu. Mikill sjónarsviptir er að þessari merku konu er nú kveður og hana syrgir nú auk niðja og tengdabarna stór hópur annarra ættmenna og vina.

Þórhalla fæddist að Húsabakka í Aðaldal þann 4. september 1909, dóttir hjónanna Kristrún Snorradóttir, f. 18. júlí 1877 að Geilafelli í Reykjavík, d. 23. júní 1958, og Hjálmar Kristjánsson, f. 26. júní 1877 að Hömrum í Reykjadal, Suður-Þingeyjasýslu, d. 14. feb. 1959.

Kristrún og Hjálmar gengu í hjónaband 21. júní 1902 og hófu búskap að Birningsstöðum í Laxárdal, en fluttu að Húsabakka árið 1903 og bjuggu þar í 22 ár. Þau eignuðust 13 börn, en af þeim komust níu til fullorðinsára.

Af börnunum er eitt á lífi, Jóhannes, sem er búsettur á Siglufirði.

Árið 1925 flyst fjölskyldan í Engidal austast í hinni fornu byggð Úlfsdala, vestan Siglufjarðar milli Strákafjalls og Mánárfjalls, en dvaldi þar aðeins í tvö ár, og flutti þá til Siglufjarðar til þess staðar sem þá var í hvað mestum uppgangi á landinu. Þessir þróttmiklu þingeysku unglingar, sem komnir voru vestur til Siglufjarðar í vonum betri tíð, hófust nú handa við uppbygginguna á nýjum heimkynnum.

Á Siglufirði ílengdust flestir þeirra, fundu sér maka, stofnuðu heimili og eignuðust börn. 

Hér fann Þórhalla sinn lífsförunaut, Sigurð Jakobsson, f. 24. júní 1901 á Dalabæ, d. 1. okt. 1980, sonur þeirra Jakob Þorkelsson og Ólöf Einarsdóttir. 

Sigurður og Þórhalla giftust 19. febrúar 1931, og hófu búskap á Dalabæ, hinu forna höfuðbóli í Úlfsdölum, og búa þar í rúm 20 ár eða þar til þau bregða búi til Siglufjarðar árið 1950. Í blóma lífsins bjuggu þau á Dalabæ, erfiðri jörð við yzta haf, erfiðri vegna legu milli hárra fjalla, þar sem snjóþungt var á veturna og skriðuhætta á sumrin.
Heimræði var og hættulegt vegna brimasamrar landtöku við bratta strönd. Erfiðleikar voru margvíslegir.

Tvisvar á búskaparárunum fóru fram fjárskipti á svæðinu, og var það mikil raun hverjum fjárbónda. En mótlætið efldi og sameinaði Þórhöllu og Sigurð til kraftaverka. Ótrúlegar hetjusögur fóru af þeim á þessum árum. Þórhalla og Sigurður eignuðust fimm mannvænleg börn sem eru: 

Jakobína Ólöf húsmóðir í Vestmannaeyjum, maki Björgvin Jónsson, látinn.

Halla Kristmunda Sigurðardóttir húsmóðir á Akureyri, maki hennar er Gústaf A. Njálsson.

Steingrímur Dalmann Sigurðsson skipstjóri í Vestmannaeyjum, maki Guðlaug Ólafsdóttir.

Þórður Rafn Sigurðsson skipstjóri í Vestmannaeyjum, maki Ingiríður Eymundsdóttir.

Sigurður Helgi Sigurðsson skipstjóri, Siglufirði, maki Sigríður Jónsdóttir.

Barnabörn og barnabarnabörn eru orðin alls 28. Löngum var gestkvæmt á Dalabæ því húsráðendur voru með eindæmum gestrisnir og hressir. Fyrir utan það að ala upp sinn barnahóp voru ætíð börn og ungmenni í sveit á Dalabæ hjá Höllu eins og hún var oftast nefnd. Öllum sem dvöldu hjá þeim sæmdarhjónum ber saman um að sumar á Dalabæ hafi verið meira þroskandi en margir vetur á skólabekk.

Árið 1950 flytja þau Þórhalla og Sigurður til Siglufjarðar eins og fyrr segir, og reisa sér hús nyrzt í bænum, og nefna það einnig Dalabæ. Þórhalla hefur þegar þátttöku í ýmsum félagasamtökum af sínum alþekkta dugnaði, svo sem í Slysavarnafélaginu Vörn, Kvenfélaginu Von og fleiri félögum, og liggur aldrei á liði sínu, enda hress í bragði og ófeimin að segja álit sitt á hlutunum.

Hún tók virkan þátt í stjórnmálabaráttunni sem liðsmaður Sjálfstæðisflokksins, og sat yfir 30 bæjarstjórnarfundi á Siglufirði fyrir þann flokk. Fyrir nokkrum vikum tók forystumaður í stjórnmálum á Alþingi sér í munn þau orð aldraðrar baráttukonu á Siglufirði, að stjórnmálamenn hefðu aldrei ýtt atvinnutækjunum af stað, það hefði fólkið í landinu gert sjálft. Þarna er Höllu bezt lýst, einörð, ákveðin, dugmikill kvenskörungur, sem þorði að segja það sem henni bjó í brjósti.

Halla var og skáld gott eins og öll Hjálmarssystkinin. Þau voru afkomendur þingeyskra skálda. Kristján Jónsson Fjallaskáld og Kristján Hjálmarsson, afi Þórhöllu, voru bræðrasynir. Vatnsenda-Rósa var langa-langömmu systir hennar í móðurætt. Þórhalla orti mikið, þó svo að tíminn til andlegra viðfangsefna væri oft naumur vegna brauðstritsins. Ljóðin bera vott um einlæga gleði, virðingu fyrir lífinu og tilverunni, og að eitthvað sem sálinni unað færi muni alls staðar vera til.

Í mörg ár gisti Þórhalla hjá okkur á Seltjarnarnesi er hún var á leið til eða frá börnum sínum í Eyjum. Þá var hlustað á Höllu, húnsagði sögur, fór með kvæði, hélt uppi samræðum, sagði frá fortíð, hún var tengiliður nítjándu og tuttugustu aldar, ræddi útgerð, landbúnað, menningu og var með á öllum nótum.

Efst í huga hennar var þá alltaf umhyggjan fyrir börnum sínum og barnabörnum og öðru skylduliði. Um sitt fólk hugsaði hún öllum stundum, hún var hin trausta ættmóðir sem vakti yfir velferð afkomendanna.

Mjúk og hlý er móður-hendi,
mjúkt hún strýkur yfir kinn,
þerrar tár af þreyttum hvarmi,
það er bezti vinurinn,
sem við getum átt og elskað,
ætíð treyst í hverri þraut.
Hvíld ei neina fegri fáum
en falla hljótt í móðurskaut.

Þetta ljóð orti systir Þórhöllu í Mæðrablaðið á Siglufirði 3. júní 1939, og verður það hér kveðjuorð til allra afkomenda, ættingja og vina þessarar mætu konu, um leið og við sendum öllum er syrgja Þórhöllu Hjálmarsdóttur samúðarkveðjur.

Hvíli hún í friði. Fjölskyldan Unnarbraut 1.