Erlendur Hilmar Björnsson

Erlendur Björnsson - ókunnur ljósmyndari

Erlendur Hilmar Björnsson fæddist á Siglufirði 1. apríl 1931. Hann lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 24. febrúar 2002

Foreldrar hans voru Björn Ólsen Björnsson verkamaður á Siglufirði, f. 11.9. 1903, d. 27.5.1976 og eiginkona hans Konkordía Ingimarsdóttir húsmóðir, f. 14.6.1905, d. 6.8. 1987.

Systkini Erlendar eru

  • Ólína Sigríður Björnsdóttir, f. 17.11.1927, d. 21.10.1996, eiginmaður hennar Hólmsteinn Þórarinsson;
  • Þóra María Björnsdóttir, f. 6.12.1929, eiginmaður hennar Jóhann Stefánsson;
  • Margrét Eybjörg Björnsdóttir f. 16.4.1933, eiginmaður hennar Hjörtur Karlsson;
  • Ágúst Björnsson f. 16.2.1938, eiginkona hans Þrúður Márusdóttir; og
  • Björn Ólsen, f. 8.4.1946, sambýliskona hans Bergþóra Jóhannsdóttir.

Hinn 12. október 1957 kvæntist Erlendur eftirlifandi eiginkonu sinni Helgu Ívarsdóttur, f. 4.1.1934.
Foreldrar hennar voru Ívar Helgason bóndi á Vestur-Meðalholtum, Gaulverjabæjarhreppi, f. 9.2.1889, d. 28.12.1962 og eiginkona hans Guðríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 18.8.1896, d. 14.5.1974.

Börn Erlendar og Helgu eru:

  • Björn, f. 2.11. 1956, kvæntur Þórunni Brandsdóttur, barn þeirra er Ellen Ágústa og fósturbörn Björns;
  • Kolbrún Petrea, Brandur og Loftur; Ívar f. 28.11.1958, sambýliskona hans er Þóra Ingvarsdóttir, þeirra dætur eru Tinna og Alexandra Helga; Magnús f. 24.6. 1963; og Sigríður, f. 20.12.1965, gift Jóni Víkingi Hálfdánarsyni, þeirra börn eru: Þórhalla Eva og Þórir Björn.

Erlendur ólst upp á Siglufirði og lauk prófi í húsateikningum frá Iðnskólanum á Siglufirði og hélt síðan til Akureyrar þar sem hann lærði húsgagnasmíði á Húsgagnaverkstæðinu Eini. Hann fékk meistararéttindi í fagi sínu og rak eigin húsgagnavinnustofu mestan part starfsævi sinnar.

Erlendur tók virkan þátt í félagsstörfum um langt árabil; söng í Kantötukór Akureyrar, var félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík og í stjórn Skíðafélags Reykjavíkur. Á seinni árum sat hann í stjórn Réttarholts, byggingarfélags eldri borgara í Bústaðasókn.

Útför hans fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það er erfitt að kveðja þig, pabbi, þó liðin séu ellefu ár frá því að ég frétti fyrst af veikindum þínum og þér hafi ekki verið ætlaðir margir lífdagar þá. Það er erfitt að gera sér grein fyrir ýmsum hlutum sem vísindin hafa ekki getað sett mælistiku sína á, og þar á meðal er ástin, viljastyrkurinn, bjartsýnin og lífskrafturinn.

Birting þessara hugtaka hjá þér var stundum sveipuð hulu þannig að ekki sást fyrr en upp var staðið hvað þú varst að fara. Þú sóttir styrk þinn og mátt í orkulind sem stundum virtist ótæmandi. Það var ótrúlegt þegar þú fékkst að fara af sjúkrahúsinu og fluttir með mömmu í nýju íbúðina í Hæðargarðinum. Á tímabili varstu jafnvel farinn að vinna klukkutíma á dag til að klára verkefni sem var ólokið.

Alveg frá því ég var lítill snáði hefur þú verið að ferðast. Á hverju sumri fórum við í útilegur og eins oft og unnt var til æskuslóðanna á Siglufirði. Þó veikindin herjuðu á þig keyptirðu samt hjólhýsi og jeppa til að halda áfram að ferðast og njóta samveru við móður náttúru. Ég held að bjartsýni þín hafi best komið fram í því að ef þú ætlaðir að gera eitthvað, sama hversu ómögulegt öðrum þótti það, byrjaðir þú bara á því og hættir ekki fyrr en því var lokið.

Ég hef stundum fengið á tilfinninguna að þú hafir, eins og fleiri Siglfirðingar, fæðst á skíðum og þá á gönguskíðum. Vetur eftir vetur fórstu með okkur bræðurna hverja einustu helgi á skíði. Þú varst ekki búinn að vera lengi í Flugbjörgunarsveitinni þegar þér fannst þeir ekki nota skíði nóg og til að sanna þitt mál smíðaðirðu skíði handa flokknum þínum, og fyrr en varði voru þeir komnir á skíði.

Ein aðalorkulindin þín var Breiðholtssundlaugin. Þangað þurftirðu helst að komast á hverjum degi og taka sundsprett. Þegar þú varst spurður um veikindi þín voru svörin yfirleitt á þá lund að þú værir nú ekki eins veikur og læknarnir segðu þig og nefndir því til sönnunar að þú værir ekki farinn enn. Þannig leistu alltaf á lífið, af bjartsýni og krafti án þess að kvarta yfir hlutskipti þínu.

Þakka þér fyrir allt, elsku pabbi. Hvíldu í friði. Megi almáttugur guð veita ykkur öllum ástvinum hans styrk í sorg ykkar.

Þinn sonur,  Björn.
------------------------------------------------------

Nú ertu farinn, elsku afi, og kominn til englanna sem vaka yfir okkur alla daga. Við eigum eftir að sakna þín þegar við komum í Hæðargarðinn, en við vitum að þú verður alltaf með okkur.

Við viljum þakka þér fyrir allar samverustundirnar sem við fengum að njóta með þér og þá sérstaklega þegar við fórum með ykkur ömmu upp í sveit til Helga og Jónsa og í sund. Þegar við vorum að læra skólaljóðin kunnir þú þau öll. Þú hafðir líka svo gaman af að kenna okkur að tefla og spila.

Elsku afi, megir þú hvíla í friði.

Þórkatla Eva, Þórir Björn og Ellen Ágústa.
-------------------------------------------------------------

Elsku afi okkar er dáinn. Þú varst svo duglegur og jákvæður í veikindum þínum. Það var þér og ömmu Helgu dýrmætt að geta farið í sund þegar heilsan leyfði. Það var alltaf svo notalegt að koma í heimsókn til ykkar ömmu Helgu, hún er svo einstaklega myndarleg húsmóðir. Það var alltaf tekið á móti okkur með hlaðborði. Þú varst mikill og yndislegur afi. Þú varst svolítið stríðinn sem við systurnar höfðum gaman af. Þegar við systurnar ákváðum að safna frímerkjum gafst þú okkur stóran hluta af safni þínu og safnaðir áfram fyrir okkur. Varð frímerkjasafnið mjög flott.

Við eigum svo margar góðar minningar um þig, elsku afi, sem við geymum í hjarta okkar. Góði Guð, viltu gefa ömmu Helgu og okkur öllum styrk í sorginni. Hvíldu í friði, elsku afi.

Þínar, Tinna og Alexandra Helga Ívarsdætur.
-------------------------------------------------------------

Þegar Erlendur á sínum tíma flutti frá Siglufirði til Reykjavíkur, óskaði hann eftir að gerast félagi í Skíðafélagi Reykjavíkur. Hann reyndist góður félagi og keppti fyrir félagið í mörg ár við góðan orðstír. Eftir að Erlendur hætti keppni, hélt hann áfram störfum fyrir félagið. Ennfremur var hann eftirsóttur mótsstjóri sökum reynslu sinnar og kunnáttu.

Stjórn Skíðafélags Reykjavíkur vill með þessari kveðju sýna þakklæti sitt fyrir vináttu og vel unnin störf í þágu félagsins og sendir aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.

Skíðafélag Reykjavíkur.