Friðrik Eiríksson rafvirki

Friðrik Eiríksson -- ókunnur ljósmyndari

Friðrik Eiríksson fæddist 5. október 1934 í Tungu í Stíflu, Skagafirði. Hann lést á heimili sínu 15. nóvember 2017.

Hann var sonur Herdís Ólöf Jónsdóttir, f. 11. ágúst 1912, d. 1. september 1996, og Eiríkur Guðmundsson, f. 28. júní 1908, d. 9. maí 1980.
Systkini hans eru:

  • Sigurlína, f. 1932, d. 2016;
  • Jón, f. 1937, d. 2005; Leifur, f. 1939;
  • Gylfi, f. 1945; Jóhanna Sigríður, f. 1946;
  • Bergur, f. 1949, d. 2004; Guðný, f. 1951;
  • Ása, f. 1954; Kristín, f. 1955;
    auk þeirra létust þrjú í frumbernsku.

Eiginkona Friðriks var Halla Kristrún Jakobsdóttir, f. 9. janúar 1931, d. 8. september 2008. Dóttir Höllu, sem Friðrik fóstraði, er Sigurborg Sigurbjarnadóttir, f. 1. mars 1952, gift Pétri P. Johnson, f. 14. febrúar 1946. Þau eiga Margréti Höllu, f. 14. ágúst 1995.

Dóttir Friðriks og Höllu er

  • Herdís Ólöf, f. 8. nóvember 1961, gift Guðmundi Þór Guðbrandssyni, f. 5. maí 1957. Sonur Herdísar er Friðrik Andrésson, f. 11. maí 1983, maki Anna Kolbrún Jensen, f. 1. janúar 1986, þau eiga þrjú börn, Mikael Frey, f. 2003, Diljá Þóru, f. 2008, og Þröst Mími, f. 2017. Dætur Guðmundar eru Elsa Ýr, f. 1975, Inga María, f. 1980, Katrín Ósk, f. 1983, og Linda Dögg, f. 1989.

Sonur Friðriks og Höllu er Jakob Sigurður Friðriksson, f. 25. desember 1966, kvæntur Álfheiði Árdal, f. 19. júní 1966. Jakob var áður kvæntur Helgu Einarsdóttur, f. 7. ágúst 1965, d. 31. júlí 2008, börn þeirra eru Rósa Kristrún, f. 24. september 1989, gift Pétri Má Sigurjónssyni, f. 9. ágúst 1989, börn þeirra eru Helgi Freyr, f. 2013, og Hulda Rán, f. 2016; Páll, f. 31. október 1991, og Karl, f. 30. júlí 1999. Álfheiður var áður gift Birni Ragnarssyni, f. 3. apríl 1966, d. 23. febrúar 2003, börn þeirra eru Úlfar Þór, f. 1993, Freyja Björt, f. 1993, og Arndís Úlla, f. 1999.

Friðrik ólst upp í Tungu í Stíflu og á Siglufirði. Hann lærði rafvirkjun á Siglufirði og hóf starfsferil sinn þar. Hann vann um árabil við fag sitt á farskipum Sambandsins. Að því loknu vann hann á raftækjaverkstæðum uns hann hóf störf hjá Ísal árið 1969. Þar vann hann þangað til hann lét af störfum vegna aldurs.

Útför Friðriks fer fram frá Neskirkju í dag, 29. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.
---------------------------------------------

Elsku pabbi minn.

Efst í huga mér á þessari stundu er þakklæti fyrir allt það veganesti sem ég bý að eftir þig. Ávallt stóðst þú eins og klettur við hlið mér, gegnum súrt og sætt, meira að segja þó að gelgjuárin mín hafi verulega reynt á þolrifin.

Minning lifir um föður sem hafði ótal leiðir til að koma ást sinni og væntumþykju á framfæri, aldrei í ræðu en þeim mun meira í verki. Óðara varstu mættur ef eitthvað bjátaði á, hvort sem það tengdist sál eða líkama, nú eða húsi og heimilistækjum þar sem þú gekkst í að koma öllu í samt lag.

Þú varst forvitinn og fróðleiksfús, sóttir þér þekkingu ef hana skorti og leystir úr ótrúlegustu flækjum á lífsleiðinni. Þú varst lítillátur og hógvær og hafðir þig lítið í frammi nema réttlætiskenndinni væri ofboðið. Að alast upp í því umhverfi voru forréttindi og að því býr maður um alla tíð.

Í æsku minnist ég þess að hafa farið með þér í ótal heimsóknir til vina og vandamanna þar sem óskað hafði verið eftir liðsinni þínu við hvers kyns viðgerðir. Í minningunni var ég handlangarinn þinn, en væntanlega þvældist ég meira fyrir en hitt. Þegar kom síðan að því að maður þurfti sjálfur á aðstoð að halda leystir þú flest það sem að höndum bar og ég í hlutverki handlangara.

Þegar ég bjó í útlöndum leiðbeindir þú mér í gegnum síma við þau viðvik sem nauðsynleg voru á heimili mínu, hvort sem um var að ræða kolaskipti á þvottavélarmótor eða bílaviðgerðir. Þá ber að nefna að það eru ekki nema þrjú ár síðan þú stóðst í ströngu með okkur Álfheiði að standsetja nýtt heimili okkar, þú í hlutverki fagmannsins og ég aftur sem handlangari.

Líklega þarf miðilsfundi ef koma á einhverju í verk á heimilinu í framtíðinni.

Öll sumur voru nýtt til ferðalaga innanlands alla mína æsku. Á ferðalögunum lærði ég að veiða, ganga á fjöll, greina steina og flóru landsins. Þarna nutuð þið mamma ykkar til hins ýtrasta og ástríða ykkar fyrir náttúrunni og útivist var smitandi. Veiðiferðir okkar í Tungu í æsku með Jonna og Axel voru ógleymanlegar og lögðu grunninn að veiðiferðum okkar síðustu fimmtán árin í Efranesi á Skagaheiði þar sem við höfum dvalið með ástvinum okkar í tvær til þrjár vikur á hverju ári, við veiðar, slökun, gott viðurværi og bóklestur.

Mér fannst undir það síðasta að lífsviljinn væri að gufa upp, enda komið á þann tímapunkt að lífsgæðin skertust með viku hverri. Það er ekki langt síðan þú sagðir mér að þetta væri orðið gott, þú nenntir þessu ekki lengur. Síðan kom kallið, snöggt, á einum af þínum uppáhaldsstöðum, eins og þú hefðir væntanlega kosið hefðir þú fengið að ráða sjálfur.

Söknuðurinn er sár, maður er einhvern veginn aldrei undirbúinn fyrir svona. Það er ótalmargt sem þýtur í gegnum kollinn á manni, tilfinningar og minningar. Það er huggun harmi gegn að þú varst búinn að áorka því sem þú vildir, búinn að lifa lífinu og eina áskorunin sem þú áttir eftir ósigraða var að öðlast hvíldina.

Hvíl þú í friði. Jakob.
----------------------------------------

Ég minnist fóstra míns með kærleika og hlýju. Hann var ýmsu vanur þegar ég kynntist honum, en kannski ekki átta ára stelpu, sem barðist hatrammlega fyrir því að eiga móður sína ein. Mér fannst ég vera að tapa svo miklu. Það var kominn maður í sætið mitt við eldhúsborðið. Það var stundum lokað inn í stofuna þar sem mamma svaf og margt fleira sem misbauð stöðu minni sem næstráðanda á heimilinu. En svo kom í ljós að þessi maður var ekki svo slæmur. Hann átti uppstoppaðan krókódíl, sem var afar vinsæll og svo kom hann með gjafir af sjónum; frímerki, sem enginn annar átti, sælgæti og ávexti í dós og eflaust eitthvað fleira, sem löngu er uppurið.

Stærsta gjöfin var samt að eignast systkini. Fyrst Dísu og svo Jakob, sem hafði í Dísu huga verið alllengi uppi í skáp. En mikil var gleðin þegar þau birtust. Og smám saman breyttist allt, heimurinn varð stærri, hlýrri, betri og líka flóknari. Ég man líka eftir ferðalögum í litlum bláum Bedford, eins konar sendiferðabíl, sem fóstri minn notaði við vinnuna sína. Það voru ekki sæti aftur í né gluggi, en við sátum á teppum. Fyrir aftan okkur var svo tjaldið, svefnpokar og teppi, auk nestisins auðvitað.

Fóstri minn var mikill fjölskyldumaður enda úr stórum systkinahópi. Í dag á hann fimm barnabörn og fimm barnabarnabörn og fylgdist hann með þeim öllum af bestu getu. Friðrik, elsta barnabarnið, var mikið með mömmu og fóstra mínum í sumarbústaðnum og það var Margrét Halla dóttir mín líka. Þaðan á hún yndislegar minningar, sérstaklega frá því þegar hún og afi smíðuðu saman kofa og amma hjálpaði til við að gera fínt í kofanum.

Náttúrubarnið, mamma mín, naut útiverunnar með fóstra mínum svo lengi sem hún gat. En hún greindist með alzheimer fljótlega upp úr þessu og sumarbústaðurinn var seldur. Við tóku erfiðir tímar þar sem fóstri minn gerði sitt besta til að vera henni innan handar. En einn sjúkdómur kallar stundum á annan og þá er oft erfitt að greina á milli. Við leituðum aðstoðar í félagslega kerfinu og þurftum að bíða lengi eftir aðstoð, en aðstoðin kom að lokum. Eftir það ferðaðist Karl Jakobsson mikið með afa sínum og rifjaði fóstri minn oft upp þau ferðalög.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann, sumt sem verður aldrei sett á prent og geymist bara í hjartanu. Efst er mér í huga þakklæti fyrir að hafa átt fóstra minn að í blíðu og stríðu, alltaf reiðubúinn að rétta hjálparhönd. Við spjölluðum mikið saman síðustu árin, rifjuðum upp eitt og annað og hlógum saman. Við fórum líka stundum í bíltúra, bryggjurúnta, skoðuðum skipin og fylgdumst með löndun smábátanna ef við vorum heppin. Fengum okkur snarl í Múlakaffi eða í Kaffivagninum – nú eða heitt súkkulaði í Vesturbænum.

Þakklæti mitt og minna fylgi þér, elsku fóstri minn.

Sigurborg.
------------------------------------------------

Mig langar að minnast í örfáum orðum tengdaföður míns, Friðriks Eiríkssonar. Hann var hógvær og hæglátur maður, en jafnframt mikill vinnuþjarkur og dugnaðarforkur. Þó hann hafi verið orðinn vel fullorðinn þegar ég kom inn í fjölskylduna eru þau ófá viðvikin sem hann hefur gert fyrir mig. Er þar skemmst að minnast þegar við Jakob fluttum saman, þá var hann boðinn og búinn að aðstoða okkur á allan hátt og þó hann nálgaðist áttrætt kom hann til okkar dag eftir dag til að aðstoða við raflagnir og annað það sem hann gat aðstoðað við. Hann hafði greinilega afskaplega gaman af því að atast þetta með okkur og fá verkefni og hafa hlutverk. Geta gert gagn þó svo að aldurinn færðist yfir.

Friðrik var mikill náttúruunnandi og veiðimaður. Það sá ég best þegar við vorum norður á Skaga 2-3 vikur á hverju sumri. Þar blómstraði hann. Naut þess að sitja með stöngina við ána en þar sem hann var orðinn fótafúinn ferðaðist hann milli veiðistaða á fjórhjólinu. Það var nú reyndar líka orðið eilítið erfitt fyrir hann að komast upp á það undir lokin. Hann var ekki alveg búinn að átta sig á að ellikerlingin væri farin að banka upp á og fór lengra og meira á viljanum og þrjóskunni heldur en líkamleg geta hans var.

Einhverju sinni talaði hann um að hann ætti orðið erfitt með að koma sér á lappirnar aftur eftir að vera búinn að sitja við veiðar og að hann væri svolítið áhyggjufullur yfir því hversu valtur hann væri orðinn á fótunum. Við brýndum fyrir honum að hafa stafinn sinn alltaf með í för og nota hann til að komast á fætur og styðja sig og hann fullyrti að hann hefði stafinn alltaf með. Næst þegar við löbbuðum við hjá honum þar sem hann sat á sínum stað við Afahyl tókum við eftir því að vissulega var stafurinn með – bara vel festur á fjórhjólið svo hann dytti ekki af.

Eitt sinn langaði hann mikið að ákveðnum veiðistað nálægt vatnsbakkanum, en komst ekki á tveimur jafnfljótum. Þá keyrði hann bara fjórhjólið á áfangastað og sat síðan á því og kastaði út í. Í veiðikofanum var sambýlið náið, en aldrei nein vandamál tengd því, enda var hann sérlega hæglátur og ljúfur í umgengni. Ég rumskaði gjarnan á morgnana þegar Friðrik laumaðist hljóðlátt framúr og byrjaði að hita vatn í te handa okkur. Nokkra tebollana hefur hann fært mér í rúmið í þessum ferðum.

Ég er ævinlega þakklát hversu vel hann tók mér þegar ég kom í fjölskylduna og það var alla tíð greinilegt hvað hann samgladdist okkur hjónum og var ánægður með okkar líf saman.

Ég kveð mætan mann með þökk fyrir allt.

Álfheiður Árdal.