Benedik Þórarinn Dúason skipstjóri

Þórarinn Dúason hafnarvörður

Þórarinn Dúason skipstjóri -Minning- mb..is 1976

í dag verður til moldar borinn i Reykjavík Þórarinn Dúason, fyrrum skipstjóri og siðar hafnarstjóri á Siglufirði, en hann lést í sjúkrahúsinu á Siglufirði 19. ágúst 1976, kominn þá niður á annað hnéð eftir langa starfsævi.

Þórarinn Dúason, eða Benedikt Þórarinn Dúason, eins og hann hét fullu nafni, fæddist á Akureyri 19. maí árið 1895, í fyrsta húsinu sem byggt hafði verið á Torfunefi, og fyrstu nóttina, sem foreldrar hans bjuggu þar, en þau voru hjónin
Aldís Jónsdóttir og
Dúi Benediktsson, útvegsmaður og lögregluþjónn, en þau voru þekktir borgarar á Akureyri.

Ekki veit ég með vissu hvar fyrsta húsið sem byggt var á Torfunefi stóð, en gamall maður sem ég þekkti einhvern tímann fyrir norðan, sagði mér að Þórarinn Dúason, skipstjóri, hefði, þegar hann var drengur, átt heima i húsi, er stóð þar sem nú er aðalverzlun Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri.

Um æsku Þórarins Dúasonar veit ég fátt, nema það sem ég get sagt mér sjálfur, fór til sjós, en þangað lá leiðin, ef hún ekki lá inn fyrir búðarborðið eða út í sveitirnar, því valgreinar ungmenna voru ekki svo margar fyrir norðan.

Þórarinn gekk i barna- og gagnfræðaskóla, en árið 1917 lauk hann prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, í skólastjóratíð Páls Halldórssonar. Var Þórarinn upp frá því stýrimaður og skipstjóri á ýmsum skipum sem stunduðu síldveiðar fyrir Norðurlandi. Var Þórarinn frábær aflamaður og í hópi þekktustu síldarmanna um þetta leyti. Þá var Þórarinn líka talsvert á togurum sem stýrimaður og þá hjá þjóðkunnum aflamönnum eins og Pétri Maack og Guðmundi Markússyni, en þeir gátu valið úr mönnum.

Um tíma fékkst hann við útgerð og átti þá línuveiðarann Nonna með einhverjum mönnum. Þórarinn Dúason fluttist aftur norður árið 1939 og þá til Siglufjarðar. Fyrstu árin starfaði hann hjá Friðrik Guðjónssyni, sem var í eina tíð þekktur athafnamaður hér á landi, en réðst síðan til Siglufjarðarbæjar, fyrst sem aðstoðarhafnarstjóri, en hafnarstjóri varð hann árið 1950 og gegndi því starfi til ársins 1965, er hann lét af starfi vegna aldurs, eða öllu heldur ákvæða um aldur opinberra starfsmanna. Sem hafnarstjóri og hafnsögumaður á Siglufirði var Þórarinn harðduglegur og athafnasamur.

Hann gat svarað fyrir sig, það man ég, en fyrst og fremst var hann samviskusamur og víðsýnn stjórnandi, en í hans tíð lágu oft hundruð síldarskipa í Siglufjarðarhöfn. Þau voru að landa, að salta, að fá vistir, vatn og viðgerðir og önnur lágu fyrir akkerum útá legunni og biðu afgreiðslu, eða veðurs. Þá var ekki auðvelt að stjórna Siglufjarðarhöfn, en það var nú samt gert, og að mestu án geðshræringa. Þá var unnið dag og nótt á Siglufirði og gilti það jafnt um alla menn. Síldarstúlkur og díxilmenn unnu sofandi með opin augun, því þá voru tímar á Siglufirði og næg síld.

Þórarinn Dúason lét félagsmál nokkuð til sín taka, bæði meðan hann starfaði enn á sjónum og eins eftir að hann hafði borið sig í land. Hann var einn af stofnendum Skipstjóra- og stýrimannafélags Reykjavíkur og síðar starfaði hann i Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Ægi og í Skipstjórafélagi Norðlendinga, og hann var meðal stofnenda Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og var ætíð virtur vel innan þeirra samtaka er mér kunnugt. Þá var Þórarinn um tíma formaður sjómannadagsráðs á Siglufirði og formaður slysavarnadeildarinnar þar, en formannsstarfinu gegndi hann um árabil og varð síðar heiðursfélagi deildarinnar.

Af þessu sést að störf Þórarins Dúasonar voru alla tíð tengd sjósókn og sjávarafla. Árið 1920 kvæntist Þórarinn Dúason eftirlifandi konu sinni,
Theodóra Oddsdóttir frá Brautarholti í Reykjavík, en hún var dóttir Odds Jónssonar, formanns þar, og Guðrúnar Arnadóttur, setm ættuð var frá Guðnabæ í Selvogi.

Þau Þórarinn og Theodóra bjuggu fyrst í Reykjavík, þar sem börn þeirra fæddust, nema ein dóttir, sem fædd var á Akureyri, en sem áður sagði fluttu þau til Siglufjarðar árið 1939.
Ég kom oft á heimili þeirra í Reykjavík, en þau bjuggu að mig minnir á Skólavörðustíg 36. Þar var gott fyrir stráka að koma og er mér það minnisstætt að við bræður treguðum mikið þegar Dóra frænka og Þórarinn fluttu norður með börnin.

Þá var sársaukafullur skilnaður, því þá var langt norður á Siglufjörð, eins og verið hefur lengst af. Þetta varð þó ekki til þess að aðskilja fjölskylduna til fulls. Komið var suður til að ferma og komið suður í þetta og hitt. Oft dvalið nokkuð lengi, eftir að börnin voru sum flutt suður. Oft lágu leiðirnar líka á Siglufjörð, eftir að maður var kominn til sjós, og þá var oft gott að koma á Hliðarveg 25 upp úr grútsoðnum síldarbátum og sæbörðum varðbátum, þar sem menn héldu sér með báðum höndum allan túrinn, þegar veður voru vond og illt í sjó.

Seinast kom ég og heimsótti þau fyrir tveim árum, einn dýrðlegan sumardag. Þá var fallegt á Siglufirði, sól og blíða.

Þeim Theodóru Oddsdóttur og Þórarni Dúasyni varð fjögurra barna auðið. Þau eru:

  • Aldís Dúa Þórarinsdóttir, sem gift er Baldri Eiríkssyni, fulltrúi hjá Sementverksmiðju  ríkisins,
  • Ásgeir Þórarinsson, afgreiðslumaður, kvæntur Katrínu Valtýsdóttur,
  • Brynja Þórarinsdóttir, gift Gunnari Bergsteinssyni, forstjóra Sjómælinga Íslands, og yngst er svo
  • Ása Hafdís Þórarinsdóttir, maki Óli Geir Þorgeirsson, kaupmanni á Siglufirði. (Ása Þórarinsdóttir)

Afkomendur þeirra eru orðnir margir, það er ungt og fallegt fólk. Sumt býr fyrir norðan, annað er hér I Reykjavik, ýmist við störf eða nám. Seinustu árin voru Þórarni erfið. Sjónin þvarr og það varð örðugra um vik, enda meira en áttatíu ár liðin. Tíminn hefur liðið fljótt. Með undarlegum hætti streymir hann fram uns fyrir stafni er opið haf.

Við óskum gömlum skipstjóra góðrar ferðar í hinstu för og sjáum skip hans hverf a við ysta haf. Þórarinn Dúason verður jarðsettur frá Fossvogskirkju i dag kl. 13.30. Ég sendi konu hans og öðrum ástvinum kveðjur.

Jónas Guðmundsson.