Árni Jóhann Friðjónsson

Árni Friðjónsson -- Ljósmynd: Kristfinnur

Mbl.is 14. desember 2015 | Minningargreinar | 

Árni Friðjónsson fæddist í Langhúsum, Fljótum, Skagafirði, 25. ágúst 1927. Hann lést á heimili sínu á Hjúkrunarheimilinu Eir 3. desember 2015.

Foreldrar hans voru Friðjón Vigfússon, bóndi og verkamaður, f. 1892, d. 1981, og Margrét Ólína Jónsdóttir, húsmóðir og verkakona, f. 1891, d. 1967.

Árið 1948 kvæntist Árni Helgu Hjálmarsdóttur, f. 1927, d. 2004.
Börn Árna og Helgu eru:

  1. Vigfús Árnason framkvæmdastjóri, f. 1949, d. 18. ágúst 2015. Fyrrverandi kona hans er Ólöf Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 1950. Börn þeirra eru: a) Þorbjörg Helga, f. 1972, maki Hallbjörn Karlsson. Börn þeirra eru Karl Ólafur, Atli Freyr, Ólöf Stefanía og Embla Margrét. b) Árni Björn, f. 1978, maki Jóhanna Birgisdóttir. Börn þeirra Benedikt Orri og Arnaldur Darri. c) Heiðbjört, f. 1984, maki Andri Gunnarsson. Börn þeirra Sóley og Katla.
  2. Hjálmar Árnason, f. 1953, maki Berglind Einarsdóttir Blandon, f. 1958. Börn þeirra eru: a) Birkir, f. 1980, maki Kristbjörg Hreinsdóttir. b) Fura Sóley, f. 1987, maki Friðjón Gunnlaugsson. Barn þeirra Dagbjört Emma. c) Viðja Rós, f. 1990, maki Aron Andri Sigurðsson. d) Fífa Eik, f. 1995. 

Árni ólst upp í Langhúsum fram að þriggja ára aldri en fluttist þá með foreldrum sínum og systkinum til Siglufjarðar.

Á Siglufirði kynntist hann eiginkonu sinni, Helgu Ágústu Hjálmarsdóttur frá Vestmannaeyjum. Þau stofnuðu heimili í Reykjavík 1948 en fluttu til Siglufjarðar 1951 og síðan aftur til Reykjavíkur 1964. Árni lærði til flugmanns í Kanada stuttu eftir heimsstyrjöldina síðari og stundaði flugkennslu í Reykjavík fram til ársins 1951, er hann flutti með fjölskyldu sína til Siglufjarðar.

Á Siglufirði rak hann síldarútgerð ásamt bróður sínum og stundaði ýmsan annan rekstur þar. Hann var mikill söngmaður og meðan hann bjó á Siglufirði söng hann í Karlakórnum Vísi og í kirkjukórnum.
Eftir að Árni og Helga fluttust til Reykjavíkur vann hann m.a. hjá Olíufélaginu Skeljungi og við bókhaldsstörf.

Útför Árna verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 14. desember 2015, kl. 13.
-----------------------------------------

Elsku afi, það er svo ótrúlega góð tilhugsun að vita að maður komi frá svo hlýju, duglegu og uppátækjasömu fólki. Þakklæti er það fyrsta sem kemur mér í huga, að eiga fullt af góðum minningum til að hugsa til með ömmu og afa, að muna og heyra sögur sem veita mér innsýn og betri skilning á uppruna mínum.

Það var alltaf svo æðisleg upplifun að fá að vera með ykkur ömmu. Að fá að fara rétt út fyrir bæinn í landið ykkar var ótrúlega einstakt og gaf borgarbarninu mikið. Gefa krumma að éta með þér og músunum ost með ömmu. Ég þarf ekki annað en að loka augunum og ég er komin þangað og sé ykkur svo skýrt fyrir mér, amma í gróðurhúsinu að vökva og leyfir mér að hjálpa til og smakka, finn um leið lyktina af gulrótunum og radísunum nýuppteknum úr moldinni og þú alltaf svo duglegur, með skóflu í hönd að gróðursetja og rækta landið.

Fara svo saman inn, muna að þvo moldugu hendurnar í ísísköldu vatninu og hita svo ketilinn á kamínunni í litla húsinu ykkar. Finna svo ylinn myndast meðan amma mundaði spilin og hlusta á ketilinn blístra með veðurfréttirnar á gufunni stilltar svo hátt í útvarpinu að lítil eyru titruðu yfir óm endurtekninga á áttum vindanna í kringum landið.
------------------------------------

18. desember 2015 |

Árni Jóhann Friðjónsson fæddist 25. ágúst 1927. Hann lést 3. desember 2015.

Útför Árna fór fram 14. desember 2015.

Afi Árni, eða afi skegg eins og hann er kallaður í Bjarmalandi, var mikill vinnuþjarkur. Hann var yngstur í stórum systkinahópi sem ólst upp við fátækt í Fljótunum í Skagafirði.

Afi og bróðir hans Vigfús ásamt systrum náðu með mikilli vinnu og áræðni að byggja sig og sína upp með síldarsöltun á gullárum þess tíma á Siglufirði. Þegar síldin hvarf fóru Helga og Árni suður og byggðu upp nýtt líf við skrifstofustörf.

Ég þekkti lítið sögurnar af uppgangsárunum á Siglufirði. Afi var bara afi. Hann var glaður, söngelskur, skapstór og snyrtilegur.

Ég á fjölda minninga með honum í bæ og í borg, í Fljótunum, í bláa Saab-bílnum, í litla kofanum við Heytjörn, ótal gistinætur í Fellsmúlanum, og þegar ég þreif eða skrifaði reikninga í Ármúla 21 í Gátun.

Borðið hans afa var alltaf eins og ekkert væri að gera, allt á sínum stað. Í einni timburöskju voru svo sælgætismolarnir handa mér og öðrum barnabörnum.

Það var samt oftar amma sem var eigandi sælgætisins – afi borðaði bara grænmeti og fisk sem var frekar sérstakt fyrir mann á hans aldri. Við fórum stundum í helgarbíltúr til Hveragerðis að fá alvöru grænmetisfæði í hádegismat hjá Náttúrulækningafélaginu. Seinna, þegar hann vann hjá Lyfjastofnun gekk hann oft niður í bæ, og stundum á skrifstofu Ríkisspítala þar sem amma réð ríkjum, tók við greiðslu sem féhirðir. Stundum hitti ég hann á gangi og þá var hann iðulega að borða epli. Hann borðaði bara eitt epli í hádeginu. Alltaf!

Í mörg ár voru Helga amma og afi með sælureit rétt fyrir utan borgina. Þau dvöldu þar næstum allt sumarið og ég fékk að gista margoft.

Afi gróðursetti það land allt og í dag er þar mikill skógur. Hann sló aldrei af og hamaðist vikum saman við vegagerð, gróðursetningu, að kasta skít á allan gróður eða við að girða. Í gróðurhúsinu var grænmeti og blóm og fleira góðgæti sem ég fékk reglulega að njóta, bæði sem barn og svo þegar við Hallbjörn vorum byrjuð að búa.

Á síðari árum fengum við að heyra fleiri sögur frá því í gamla daga frá afa. Okkur þykir vænt um að eiga þær sögur, söguna þegar afi gekk á eftir ömmu til að krækja í sætustu konuna í plássinu, af söng hans og þegar hann flaug til fjarlægra landa sem flugmaður.

Síðustu ár var minnið farið að gefa sig, kjöt varð aftur ljúffengt, vínarbrauðin enn betri og ýmislegt gleymdist – en áfram söng afi.

Hann hefur nú sungið sinn síðasta söng hjá okkur.

Hvíl í friði, elsku afi. Hallbjörn, Karl, Atli, Ólöf og Embla og ég biðjum að heilsa.

þín, Þorbjörg Helga.
--------------------------------

15. desember 2015 |

Árni Jóhann Friðjónsson fæddist 25. ágúst 1927. Hann lést 3. desember 2015.

Útför Árna fór fram 14. desember 2015.

Árni föðurbróðir minn er allur. Það vekur minningar um síldarævintýrið á Siglufirði. Hann kom heim frá flugnámi í Ameríku og gaf mér fyrsta skíðasleðann, það var dýrðarljómi í kringum Árna í huga mínum upp frá því. Síldarárin mín á Siglufirði var hús Árna og Helgu mitt annað heimili, þar var ég í hávegum hafður og hampað á alla lund.

Árni og Vigfús faðir minn ráku umfangsmikla síldarsöltun á Siglufirði. Öll framkvæmd fyrirtækisins, Íslenskur fiskur hf., var í höndum Árna sem hafði mikla skipulagshæfileika; nákvæmur og talnaglöggur og stóð fast á sínu þegar grunnprinsipp áttu í hlut. Ég var vart orðinn 12 ára þegar Árni skipaði mig síldarræsara, sem er mesta virðingarstaða sem mér hefur hlotnast um ævina. Ég fékk líka að hafa auga með Vigfúsi og Hjálmari, sonum Helgu og Árna, þegar þeir tóku sín fyrstu skref á bryggjunni.

Árni mætti eldsnemma á planið og lagði línurnar um röðina á ræsun. Gjarnan var ræsarinn látinn byrja úti í Bakka. Þegar söltun hófst fengu ræsarar oft forgang á að keyra frá í stað þess að gefa salt á línuna og fá bros frá stúlkunum þegar farið var upp undir pilsið og síldarmerki sett í stígvélið eða þröngan brjóstvasa.

Árni stóð fyrir mörgum nýjungum, hann lét reisa þak yfir söltunarplanið til að hlífa stúlkunum og vann að því að vinnufólk fengi fasta matar- og kaffitíma. Í síldarleysi dreif hann í því að sólþurrka saltfisk og setja síldarpasta í túbur. Allar skýrslur sem Árni vann voru gerðar af vandvirkni sem átti sér vart fordæmi. Árni var listhneigður, málaði afbragðs myndir og falleg söngrödd hans naut sín vel í Karlakórnum Vísi og í vikulokin þegar broddborgarar komu saman á skrifstofu stöðvarinnar.

Á þessum árum snerist síldarbransinn ekki síst um skipulagsreglur sem fjölluðu um hvenær mætti byrja að salta og kröfur kaupenda. Síldin gekk oft snemma inn á Grímseyjarsund. Þá skipti máli að salta hana sem ferskasta á Siglufirði áður en hún fór austur. Um þetta voru látlausar deilur og ólík túlkun á lögum og reglum. Ég man að sænskir síldarkaupendur lögðust einatt á sveif með Árna ef túlka þurfti vafaatriði.

Eitt sinn gekk það svo langt að Árni var settur í gæsluvarðhald á grundvelli einokunarlaga fyrir að hafa farið yfir strikið og neitað að greiða sekt. Kallsað var um að málið væri hliðstætt máli Hólmfasts á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd sem 1698 seldi fisk í Keflavík, en átti að selja í Hafnarfirði en verslunin þar vildi raunar ekki taka.

Eftir nokkurra stunda varðhald benti lögmaður Árna, Sveinn Snorrason, ráðherra á að nokkuð langt væri seilst um hurð til lokunnar að setja mann í steininn fyrir það eitt að framleiða mat sem svo kom í ljós að ekki fékkst afgreiddur annars staðar það árið. Var Árna þá sleppt.

Það var sárt fyrr á þessu ári að kveðja Vigfús Árnason sem hafði erft talna- og skipulagshæfileika föður síns og var lengi ráðgjafi fjölskyldu minnar og einstakur vinur. Okkur finnst afar mikils misst og draumurinn um að síldin komi aftur enn óljósari. Afkomendum og fjölskyldum bræðranna sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Orri Vigfússon.
--------------------------------------------------

  • Kallið er komið,
  • komin er nú stundin,
  • vinaskilnaðar viðkvæm stund.
  • Vinirnir kveðja
  • vininn sinn látna,
  • er sefur hér hinn síðsta blund.
  • Margs er að minnast,
  • margt er hér að þakka.
  • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
  • Margs er að minnast,
  • margs er að sakna.
  • Guð þerri tregatárin stríð.
  • Far þú í friði,
  • friður Guðs þig blessi,
  • hafðu þökk fyrir allt og allt.
  • Gekkst þú með Guði,
  • Guð þér nú fylgi,
  • hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
  • Grátnir til grafar
  • göngum vér nú héðan,
  • fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
  • Guð oss það gefi,
  • glaðir vér megum
  • þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Vald. Briem)

Ólöf G. Björnsdóttir.