Jón Jóhannesson skipstjóri

Siglfirðingur - 23. mars 1948 - Minningarorð: Jón Jóhannesson skipstjóri.

Að kvöldi þess 16. 1948 lézt hér að heimili sínu, Eyrargötu 24, einn af elztu og kunnustu borgurum þessa bæjar, Jón Jóhannesson skipstjóri.

Jón var fæddur í Efri-Höfn 26. ágúst 1865, og voru foreldrar hans Jóhannes Jóhannesson bóndi þar og kona hans Guðrún Sveinsdóttir ættuð úr Höfðahverfi.
Ólst Jón upp í Höfn með foreldrum sínum. Móðir hans lézt er hann var á níunda ári, og síðan með föður sínum.

Faðir hans dó 29/8 1892, og höfðu þeir víst aldrei skilið, enda Jón alið allan aldur sinn hér í Siglufirði. —

Jón giftist 15. okt. 1892 Jakobínu Svanfríði Jensdóttur í Stær, sem þá var nýlega komin hingað sem yfirsetukona.
Byrjuðu þau búskap í Saurbæ og bjuggu þar með rausn til 1911, að þau fluttu í kauptúnið og bjuggu þar til þess er Jakobína lézt vorið 1931. Þau Jón og Jakobína eignuðust nokkur börn. Létust sum þeirra skömmu eftir fæðingu, en tvo syni misstu þau uppkomna,

Jóhannes, sem var langt kominn með læknanám, og Jens, sem einnig lézt uppkominn, báðir af völdum hins hvíta dauða, og báðir hinir efnilegustu menn og líklegir til mikilla dáða.
Var harmur mikill kveðinn að foreldrunum við fráfall þeirra einkabarna sinna.

Þau Jón og Jakobínu ólu upp þrjár fósturdætur;

  • Anna konu Jóns Kristvinssonar í Garðakoti,
  • Fjóla systurdóttur Jóns, gifta Friðrik Júlíussyni afgreiðslumann á Sauðárkrók og
  • Ágústu Guðmundsdóttur, gifta Þorgeiri Bjarnasyni ættuðum. af Austfjörðum. 


Hjá þeim hefir Jón dvalið síðan hann missti konu sína. Jón var vart af barnsaldri, þegar hann tók áð stunda sjómennsku. Var það á gömlu hákarlaskipunum, sem héðan gengu þá. Gat hann sér strax góðan orðstír fyrir dugnað og sjómennsku hæfileika. Rúmt tvítugur gerðist hann skipstjóri. Var hann lengst af skipstjóri á Siglnesingi.

Fékk hann strax orðiá sig fyrir afburða sjómennsku og var alltaf með aflahæstu skipstjórnarmönnum. Öllum þótti gott með honum að vera. — Kom þar margt til: örugg stjórn, ágæt aflavon og ljúfmennska Jóns og reglusemi. Var hann af öllum talinn í fremstu röð hinna gömlu hákarlaformanna. Hann var og drengskaparmaður hinn mesti og svo spaklyndur, að vart kom það fyrir að hann skipti skapi. —

Jakobína kona Jóns var örlynd, en ekki kom það að sök í sambúð þeirra sem var hin ástúðlegasta og þau um flest mjög samhent. Jakobína var ljósmóðir hér frá 1890 og til 1925 og rækti það starf með frábærum dugnaði og alúð og farnaðist það með ágætum.

Hygg ég mig engan meiða þótt ég fullyrði, að líki hennar ,í því starfi verði vandfundinn þegar tekið er tillit til hinna afar erfiðu skilyrða, sem hér voru í þjónustutíð hennar. Ekki safnaðist þeim Jóni og Jakobínu auðu. Til þess voru þau bæði of ör á fé og bæði af góðhjörtuð og óeigingjörn. Það var t.d. ekki ótítt, að Jakobína léti sér ekki nægja að taka ekkert fyrir það að sitja yfir hinum fátækari konum, heldur gaf hún þeim einnig miklar gjafir og oft um efni fram. Og ekki mun Jón hafa latt hana þess. —

Ég tel mér óhætt að fullyrða það, að fáir hafi hér í Siglufirði notið jafn almennra vinsælda og þau hjónin. Og þær vinsældir voru fyllilega verðskuldaðar. — Jón skipstjóri var maður hár vexti, myndarlegur í sjón og karlmenni að burðum. Yfirlætislaus, kurteis og ljúfur við hvern mann og vildi hvers manns vanda leysa ef honum var það auðið.

Hann var vinfastur og vinavandur, traustur og djarfhuga fulltrúi hinnar eldri kynslóðar og hinnar gömlu sjómannastéttar Siglufjarðar, sem nú er að hverfa, — hákarlamannanna gömlu. — Ný kynslóð er tekin við, einnig djörf og framsækin, en mikill er aðstöðumunurinn nú samanborið við það, sem var í tíð þessara gömlu,, sjóhetja. Þrek þeirra, þol og fyrirhyggja varð marga harða raun að þola, — sækja langt á haf út á smáum skipum og lélegum útbúnum. —

En þeir stóðust þrekraunina með sæmd. Með fráfalli þeirra tveggja elztu hákarlaskipstjóranna Barða Barðasonar og Jóns, er sem næst lokið merkum þætti í sögu Siglufjarðar, þætti, sem þeir báðir og ýmsir fleiri voru hetjur í og börðust þar í fylkingar brjósti og gátu sér hinn bezta orðstír. Fordæmi þeirra á að vera í mörgu sem fyrirmynd hinni yngri kynslóð og lýsa henni fram á leið til starfs og dáða.

Jón Jóhannesson.