Baldur Steingrímsson eftirlitsmaður- rafvirkjameisteri

Baldur Steingrímsson

Morgunblaðið - 28. mars 1972

Baldur Steingrímsson eftirlitsmaður Þann 16. febrúar andaðist á sjúkrahúsi Akraness Baldur Steingrímsson eftirlitsmaður, eftir mjög stutta legu. Mér finnst bæði skylt og ljúft af mér, að minnast Baldurs með nokkrum orðum, eftir svo löng kynni, og náin samskipti, sem ég hafði af honum um 41 árs skeið.

Baldur var fæddur að Þverá í Öxnadal, 8. apríl 1911 sonur hjónanna Steingrímur Stefánsson og Guðný Jóhannsdóttir, sem þá bjuggu á Þverá.
Steingrímur var bróðir Bernharðs Stefánssonar fyrrum alþingismanns.

Eftir stutta sambúð missti Guðný mann sinn, frá tveim börnum, Baldri 4 ára og dóttur Þegar dánarbúið hafði verið uppgert, kom í ljós að eignir hrukku aðeins fyrir skuldum. Stóð þá Guðný uppi algjörlega eignalaus með bæði börnin. Fór þá Baldur fljótlega til föðurafa síns og ömmu, sem þá bjuggu á Hrauni í Öxnadal, og var hjá þeim til 8 ára aldurs.

Móðirin var áfram um nokkurt skeið á Þverá með dóttir sína Valborg Steingrímsdóttir. Þaðan fluttist hún til Sauðárkróks, og tók þá nokkru síðar, Baldur son sinn, til sín, þá 8 ára gamlan. Hjá henni er hann, á hennar heimili til 23 ára aldurs. Hann fór að vinna þegar aldur og kraftur leyfðu, allt sem til féll, því atvinna á Sauðárkróki á þeim tíma var þá oft lítil og stopul. Helzt var það um skipakomur.

Einnig skrapp hann oft á sjó. Um 17 ára aldur réðst Baldur á togara, og stundaði þá vinnu i 3 vetur, frá áramótum til vors. Á sumrin var hann heima, og stundaði sjó á trillum. Um skeið gerðist hann meðeigandi í trillubát með tveim öðrum góðum félögum, sem þeir gerðu út á tímabili. Það gekk allt vel, því þetta voru duglegir og kappsfullir ungir menn að árum.

Síðar hættu tveir félagarnir, Baldur og Sigurður P. Jónsson, sem nú býr á Sauðárkróki. Skömmu síðar hætti svo Baldur alveg við sjóinn. Ég gat þess í upphafi, að ég hefði haft löng og náin kynni af Baldri í 41 ár, sem fyrr segir. En ástæðan til svo náinna kynna, þótt stundum væri bil milli búða, var sú, að vorið 1931 giftist ég móður hans, og tók þá við heimili hennar.

Baldur var áfram heima hjá móður sinni og hjá okkur til 1934. Hann flyzt þá alfarinn til Siglufjarðar. Þar réðst hann sem lærlingur í rafvirkjaiðn, hjá Jóhanni Jóhannessyni rafvirkjameistara þar. Sveinsprófi lauk hann 18.12. 1938, og þá áður lokið iðn skólaprófi.

Stuttu eftir námið gerðist hann meðeigandi meistara síns, Jóhann Jóhannesson, að fyrirtæki hans, sem var rafmagnsverkstæði, ásamt alhliða þjónustu í sambandi við raflagnir í hús og fleira. Stóð það sameignartímabil um 4 ár.

Árið 1942 16.5. kvæntist Baldur Oddrún Reykdal dóttur Ólafs Reykdals trésmiðameistara á Siglufirði, er ættaður var úr Skagafirði. Kona hans var Sæunn Oddsdóttir skipstjóra frá Siglunesi. Sté Baldur þá sitt gæfuspor, því góður maki er gæfa hvers og eins. Kona hans reyndist honum ávallt hans styrka stoð því hún er fyrirmyndar húsmóðir og góð móðir barna þeirra.

Síðla sumars 1942 flytjast hjónin til Ólafsfjarðar, og varð Baldur rafstöðvarstjóri þar, og á þessu ári 1942 fékk hann meistararéttindi i raflögnum. Á Ólafsfirði ætluðu þau sér að ílengjast, og byggðu sér þar íbúðarhús, en samt fór það svo að atvikin höguðu því svo til að eftir 4 á r flytjast þau aftur til Siglufjarðar.

Baldur tók þá við starfi hjá síldarverksmiðju ríkisins, sem verkstjóri, eða yfirumsjónarmaður með öllu því sem tilheyrði rafmagni verksmiðjanna. Þar starfaði hann í 20 ár, frá 1946—1966. Á þessu tímabili öllu útskrifuðust margir nemar í iðninni frá honum, þar ámeðal sonur hans, Sævar, sem útskrifaðist sem rafvélavirki. Við Iðnskóla Siglufjarðar kenndi Baldur í 20 ár rafmagns fræði og teikningu.

Hann las mikið og einkum um allt, sem að rafmagni laut. Meistararéttindi í rafvélavirkjun fékk Baldur 25.5. 1964. Að félagsmálum starfaði hann um skeið, að málefnum Iðnaðarmannafélags Siglufjarðar, og var formaður þess um skeið. Í júní 1966 fluttust hjónin frá Siglufirði til Akraness, en Baldur tók þar við starfi, sem rafmagnseftirlitsmaður hjá Akraneskaupstað. Á Akranesi kunnu þau hjónin vel við sig, og áttu þar frið sælt heimili, er þau hlúðu að í sameiningu.

Baldur kunni vel við alla þá, sem hann kynntist þar, og samhæfðist einnig öllum þeim vel, sem hann starfaði með, og bar þeim gott orð. Síðast en ekki sízt, lét hann vel yfir að starfa með félögum úr Rotaryklúbbi Akraness, og þar var vissulega félagsskapur fyrir hann. Ég hef nú dregið saman í stórum dráttum nokkurs konar æviágrip um Baldur. Hef sagt frá uppvaxtarárum hans, og einnig getið þeirra starfa sem voru um starf hans, öll störf vildi hann leysa vel af hendi.

Hann var ákaflega vandvirkur að eðlisfari og svo fjölhæfur að fátítt er. Margt er á heimili hans sem ber vitni um hagleik hans og listhneigð. Hann var vandaður maður, tilfinninganæmur, drengur góður og hjálpfús. Þau hjónin eignuðust 3 börn, og höfðu barnalán. Börnin eru öll vel gefin og góð og myndarfólk.
Þau eru

  • Sævar Baldursson, rafvélatæknifræðingur, vinnur hjá Rafveitu Ríkisins.
  • Steinar Baldursson, gjaldkeri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, og rekur þar einnig iðnfyrirtæki í félagi með öðrum.
  • Guðný Baldursdóttir gift Bemhard Vilmundarsyni verkstjóra. Hún er fulltrúi á endurskoðunarskrifstofu hjá Póst og síma.

Og nú að síðustu kveður móðirin son sinn kæra, með hjartans þökkum fyrir allt sem hann var henni á árunum fyrr, þegar hún þurfti þess mest með. Að lokum kveð ég þig, Baldur minn, og þakka þér kynnin góðu, og bið þér blessunar guðs á sólgeislanna strönd.

Kristinn Gunnlaugsson