FRAM 1916-1917

FRAM 1916-1917   22. nóvember 1916 1. tölublað

Til lesenda.
—o—
 

Um leið og hið fyrsta blað af »Fram« kemur fyrir almenningssjónr, viljum vér gera nokkra grein fyrir tilveru þess og tilgangi. Siglufjörður hefir nú um nokkurra ára bil, verið aðalstöð hins mesta peningastraums er að landinu hefir borist. Hefir sá straumur verið til mikils gagns fyrir sveitina sjálfa, fólk víðsvegar frá, og ekki síst fyrir landsjóð. Eigi að síður hefir Siglufjörður verið settur á lægri bekk, bæði í áliti manna úti um land, og að nokkru leiti í fjárveitingum til opinberra fyrirtækja.

Eitt af erindum þeim er þetta blað þykist eiga er það að gefa mönnum kost á að kynnast Siglufirði nánara, með réttari og sannari frásögnum en áður hafa gengið manna á milli. Opinber landsmál mun blaðið ræða án þess þó að taka saman við nokkurn sérstakan stjórnmálaflokk. Innanhéraðsmál munu tekin til rækilegrar íhugunar. Fréttir, innlendar og útlendar mun blaðið gera sér far um að flytja sem mestar og réttastar, og höfum vér til þess fengið góð sambönd. Að svo mæltu felum vér blaðið velviljuðum lesendum.
------------------------------------------------

Klukkudufl á Helluboðanum fram af Siglunesi.

Sveinbjörn Egilsson ritstjóri »Ægis«, skrifar svo í »Lögréttu:«

 «Næsta óskiljanlegt er það, að enn skuli eigi komið klukkudufl við Helluboðana fram af Siglunesi við Siglufjörð. Það er ýmislegt, sem mælir með, að því væri lagt þar hið bráðasta. Siglingar inn og út fjörðinn munu hinar mestu hér við land; þokur eru tíðar og þá er lóðið, sem dýpið er stikað með, oft hið eina, sem farið verður eftir, og dýpi fyrir framan Siglufjarðarmynni er svipað og sumstaðar á Skagafirði, og frá Haganesi að Dalatá er ekki að reiða sig á kompásinn, svo sjómennirnir, sem um þetta svæði fara í þoku, verða villtir.

Vanalega er stefnan sett rétt frá fiskimiðum á fjörðinn, skelli þoka á áður en inn er komið, þá getur  verið hættulegt að halda áfram, en það getur orðið dýrt að liggja lengi í þoku með góðan afla innanborðs, auk þess sem kolum er eytt. Að staðurinn sé hættulegur sýna skipströnd þau, er þar hafa orðið. Klukkudufl á þessum áðurnefnda stað mundi koma að hinum mestu notum. Ef til vildi mætti taka það upp á haustin og leggja því á vorin, og dýpið, sem það lægi á, væri um 11-12 metrar, hálfa sjómílu í VNV. af Siglunesi. Hljómur klukkunnar mundi heyrast greinilega yfir um fjörðinn að Lambanesi.  Á stað eins og Siglufirði ætti slíkt leiðarmerki síst að vanta. Væri því lagt á áðurnefndum stað, benti það um leið á hvar grynnst má fara fyrir Helluboðana, þegar stormur er og sjór úfinn.«

Það liggur nærri, að minkun sé, fyrir Siglfirðinga að maður af öðrum enda landsins skuli verða fyrstur til að hreyfa öðru eins nauðsynjamáli og hér er um að ræða. Hefði það staðið þeim nær, er við hættuna búa, að hefja máls til varnar gegn henni. Er vonandi að greinarstúfur þessi verði til þess, að fljótlega varði eitthvað gert til þess að tryggja innsiglingu á Siglufirði, er oft getur verið hættuleg í þokum og myrkri.

Annars er greinin svo skýrt skrifuð að við hana þarf ekki að bæta, en í sambandi við hana mætti beina þeirri fyrirspurn til hafnarnefndar Siglufjarðar, hvort henni sýndist ekki ástæða til að sett yrði dufl á Hvanneyrarrifið.. Að vísu er hættan þar ekki eins mikil og á Helluboðunum, en hæglega geta þó skip skemmst á því að festa sig þar, og óvíst er þegar ókunnug skip koma til afgreiðslu við bryggjur útmeð ströndinni, að þau vilji fara að þeim án hafnsögumanns. Getur það orsakað tafir en hver stundin er dyr sem gufuskip þurfa að tefjast að óþörfu.
H. J .  
--------------------------------------   

Orðsending:
Sá sem getur gefið mér upplýsingar um, hver hefir stolið borðum úr Bakkevigsbryggjunni hér á Siglufirði síðastliðna viku, fær 50 kr. í peningum strax.
Siglufirði 22. nóv. 1916. pr. Th. Bakkevig. Ole O. Tynæs.
--------------------------------------------

Dagskrá Hreppsnefndarfundarins 6. nóv. 1916.

1. Kosning oddvita og varaoddvita.
2. Kosning í fastar nefndir.
3. Bréf Hafnarnefndarinnar.
4. Undirbúningur undir niðurjöfnun
5. Um uppfyllingar á Eyrinni.
6. Um hundahreinsanir.
7. Um þarfanaut.
8. Um brunamál aftur.
9. Um farkennslu.
10. Dýrtíðaruppbót til kennara.
Ágrip af fundargerðinni varð að bíða næsta blaðs, vegna rúmleysis.
-------------------------------------------

Þetta blað verður sent heim til allra í bænum og grenndinni, sem álitið er að muni verða kaupendur þess. — Ef einhver sem fær blaðið, ekki vill kaupa það, er hann beðinn að láta annanhvorn ritstjóra vita það.

Fram kemur út einusinni í viku ef hægt er. Verð blaðsins er 1 kr. hver 15 númer — 10 aura í lausasölu. Afgreiðslan fyrst um sinn hjá Friðbirni Níelssyni.
--------------------------------------------------
Fram - 30. nóvember 1916

Framför.

Fáir staðir á landi voru munu hafa tekið jafn hröðum framförum, og Siglufjörður, síðan um aldamótin. Bryggjur og »platningar« hafa verið bygðar kring um alla eyrina, svo nú geta skipin tugum saman fermt og affermt sig við þær. Eyrin er þrátt fyrir það of lítil fyrir allan þann fjölda sem hingað sækir til síldveiða. Var því á síðastliðnu vori byrjað á 3 bryggjum út með Hvanneyrarströnd.

Er þar Ásgeir Pétursson instur með bryggju og stóra uppfyllingu fram að fjöruborði. Næstur honum er stórkaupmaður Sören Goos með bryggju, uppfyllingu og safnþró fyrir bræðslusíld. Þar fyrir utan er h.f. Bræðingur með bryggju og uppfyllingu. Allar þessar uppfyllingar eru með steyptum vegg að framan, og fylt upp bakvið með grjóti og möl.

Verk þetta kostar svo tugum þúsunda skiptir, því traust þarf að byggja svo Ægir karl ekki vinni á því, þegar hann ýglir sig. Sökum ótíðar síðastliðið vor, og vegna þess að ervitt var með aðflutninga á efni; var seint byrjað á þessum stórvirkjum; voru þau því ekki nærri því fullgerð þegar stóra brymið kom í haust, sem tók allar þessar þrjár bryggjur og skemdi uppfyllingarnar. Mestar urðu skemdirnar hjá Sören Goos, því hann var kominn lengst á veg.

Sprengdi sjórinn safnþróna, sem eðlilegt var, þar steypan hefir ekki verið hálfhörnuð. Hefir hann því beðið mest tjón á mannvirkjum, við brym þetta; fyrir utan að hann mun hafa tapað um 900 tunnum af síld. Þá hefir stórkaupmaður O. Tynæs byrjað á stóru mannvirki inn á leirunni. Hefir hann bygt þar »platningu» á staurum sem á að ná alla leið til lands, og útfrá þeirri »platningu» verða bygðar 12-15 bryggjur, og er ein þeirra þegar komin. Verður að þessari byggingu stór príði fyrir höfnina; fyrir utan krónurnar og aurana sem þessar bryggjur munu færa bæði landsjóði, eigendum og vinnuþiggendum.

Þá hefir O. Tynæs íneð höndum framkvæmd á því að byrjað verði á komandi vori að dýpka inn-höfnina. Er það eitt af mestu nauðsynjaverkum fyrir Siglufjörð, að höfnin sé bætt og dýpkuð.
------------------------------------ 

Ágrip af fundargjörð hreppsnefndarinnar 6. nóv.

1. Kosinn oddviti. B. Þorsteinsson með 4 atkv. og varaoddviti Jón Guðmundsson með 4 atkv.
2. Kosið í nefndir:

Í Rafleiðslunefnd var kosinn Helgi Hafliðason, í stað G. Blomkvist. —
Í Vatnsleiðslunefnd var Gunnl. Þorfinnsson endurkosinn. —
Í Hafnarnefnd var kosinn Ole Tynæs, í stað Jóns Jóhannessonar. —
Í Veganefnd voru kosnir Friðb. Nfelsson og Jón Jóhannesson, í stað Einars Hermannssonar og Þórðar Þórðarsonar. —
Í Skólanefnd voru þessir kosnir til næstu 6 ára: Guðm. T. Hallgrímsson með 6 atkv. B. Porsteinsson með 4 atkv., Friðb. Níelsson með 4 atkv., Jón Guðmundsson með 4 atkv. og Helgi Hafliðason méð 3atkv. —
Endurskoðendur hreppsreikninganna voru endurkosnir þeir Friðb. Níelsson og Helgi Guðmundsson.

3. Bréf Hafnarnefndarinnar: Samþykt að veita Hafnarnefndinni leyfi til að verja fé úr Hafnarsjóði, til að fara í mál út af ágreiningi sem kominn er upp á milli hennar og ejgenda jarðarinnar Höfn um réttindi tilsjávar.

4. Undirbúningur undir niðurjöfnun : Engin samþykt. 

5. Um uppfyllingar á Eyrinni: Samþykt að skora á alla er lóðir eiga, og sem uppfylling þurfa að hafa fylt þær upp eigi síðar en 15. Júlí n. k.

6. Um hundaherinsanir: Frestað.

7. Um þarfanaut: Frestað. 

8. Um brunamál : Samþykt áskorun til allra húseigenda um að hafa brunastiga við hús sín samkv. lögum brunabótafélags íslands.

9. Um farkennslu:  Frestað.

10. Dýrtíðaruppbót til kennara. :  Frestað
---------------------------------------------

Góð ráðstöfun er það, sem hreppsnefndin hefir nú fyrir nokkru gert, að skylda alla til þess að fylla upp á grunnum þeim er þeir hafa, og uppfyllingar þurfa við. Er þá vonandi að úti sé saga tjarnanna nafnfrægu, er lengst hafa eitrað loftið hér á Siglufirði. Þetta er brýn nauðsyn og margra ára gömul, er vonandi að hart verði gengið eftir að þessari fyrirskipun verði hlýtt
-------------------------------------------------

Auglýsing

Hreppsnefndin í Siglufirði er fús á að veita styrk allt að 600 krónum á ári í þrjú ár, þeim sem vill skuldbinda sig til að halda uppi GISTIHÚSI fyrir allt að 20 manns, og að öðru Ieyti eptir nánara samkomulagi við hreppsnefndina. Umsóknir sendist hreppsnefnd sem fyrst.
-------------------------------------------------------

Fram - 08. desember 1916

Hafnarnefndin samþykti á fundi sínum síðastliðinn mánudag að leggja dufl á Hvanneyrarrifið (sbr. grein í 1 blaði Frams,) svo og að leggja nokkrum duflum, er merki innsiglingu á höfnina og legutakmörk. Einnig var samþykt að sækja um styrk til að setja Klukkudufl á Helluboðana.
--------------------------------

Fram - 16. desember 1916

Yfirlýsing.
Þar sem eg hefi komist að raun um, að allmargir álíta að eg hafi undanfarið haft skemdar tvíbökur á boðstólum, sem eg hafi átt að kaupa af ónefndum kaupmanni, sem nú er farinn héðan; þá lýsi eg hérmeð yfir því, að þetta eru tilhæfulaus ósannindi með öllu. —

Eg hefi fengið alt mitt brauð beint frá útlöndum, en alls ekki keypt skemdar vörur til þess að selja almenningi. Siglufirði, 14. des. 1916. Stefán Kristjánsson.
------------------------------------------ 

Fram - 18. desember 1916

Mannfjöldi í kaupstöðum og kauptúnum með yfir 300 íbúum 1914—1915.

Í árslok. 1914 1915

 1. Reykjavík 13771 14145
 2. Akureyri 2000 2090
 3. Ísafirði 1724 1778
 4. Hafnarfirði 1707 1766
 5. Vestmannaeyjum 1556
 6. 1661 Seyðisfjörður 904 902
 7. Akranes 861 867
 8. Eyrarbakki 800 799
 9. Siglufjörður 652 753
 10. Nes í Norðfirði 642 742
 11. Bolungarvík 723 707
 12. Stokkseyri 696 694
 13. Stykkishólmur 610 606
 14. Húsavík 567 567
 15. Eskifjörður 506 529
 16. Búðir í Fáskrúðsf. 469 481
 17. Keflavík 473 468
 18. Sauðárkrókur 468 457
 19. Patreksfjörður 448 455
 20. Ólafsvík 434 447
 21. Hellusandur 436 439
  ---------------------------------------------

Þakkarávarp.
Í fyrra haust, áður en herra stórkaupmaður S. Goos fór héðan heimleiðis til Kaupmannahafnar, afhenti hann mér peningagjöf að upphæð 300 kr. og aftur í haust 500 kr. til útbýtingar meðal fátæklinga og örvasa gamalmenna í Siglufirði.

Fyrir þessa stórrausnarlegu gjafir og einstöku hugulsemi við fátæka, færi eg honum fyrir hönd sveitarinnar og þeirra, er hjálparinnar nutu, mitt innilegasta þakklæti, og árna honum allra heilla og blessunar. Höfn í Siglufirði 30. nóv. 1916. H. Guðmundsson. læknir.
----------------------------------------------

Fram - 23. desember 1916

Bókasafnið. Það er mjög óþægilegt fyrir þá, er bækur fá að láni hér viðbókasafnið, að engin bókaskrá er til, og sýnist það þó ekki ofvaxið 5 manna nefnd að semja hana, þar sem alt safnið mun vera um 130 bindi.
Þegar skrána vatnar, þyrpast allir að bókaskápnum, rífa út bækurnar skoða þær í krók og kring fletta þeim og skíta þær út. Við þessu er óhægt að gjöra fyrir bókavörðinn, því ekki er hægt að búast við að hann kunni utanað útlánin, og fólk getur því ekki á annan hátt fengið að sjá hvað er heima af bókum. Er ekki hægt að lagfæra þetta fljótlega?
------------------------------------------

Yfirlýsing.
Við sem ritum nöfn okkar hér undir, lýsum, það hér með ósannindi sem talað hefir verið í Siglufirði um Ólaf J. Reykdal, að hann loki konu sína inni í stofu þeirri sem þau leigja, þegar hann fari út til vinnu sinnar.

Við höfum komið oftar en einusinni inn til konu hans, Sæunnar O. Reykdals, þegar hann hefir ekki verið heima, hefir þá verið ólokuð stofan. Við teljum það miður sæmandi, að búa til þessi ósannindi, ásamt fleiru sem hefir verið talað um þau hjón, sérstaklega Ólaf J. Reykdal hér í Siglufirði.

Bessi Þorleifsson, Björg Bessadóttir, Ágústa Bessadóttir, Andrea Bessadóttir, Valgerður Bæringsdóttir, Sigríður Baldvinsdóttir.
----------------------------------------------

Fram - 30. desember 1916

Rafljósin eru nú tekin upp á sömu keipunum og í fyrra, að vera ýmist að deyja eða að ganga aftur á víxl. Það er annarsljóta óþægðin sem þetta rafurmagn, eða öllu heldur Hvanneyraráin, hefir sýnt okkur, það n.l., að vera oflítil, þegar »beztu menn sveitarinnar« treystu henni til að vera nógu stórri.

Hér fer á eftir hvernig ljósin lifðu fimtudagskvöldið 28. þ.m.: Kveikt kl. 4, dó aftur kl. 6.30 komu svo kl. 8.30, dóu kl. 9.40, komu enn kl. 10,50 og dóu kl. 11.40. Samtals var þá ljós í fjóra og hálfan tíma. Á þessum tíma árs, mun ekki veita af að kveikt sé kl. 3 og ljós sé til 12 að minsta kosti. Það er því nákvæmlega jafnlangur tími sem maður má sitja í myrkrinu, eins og maður hefir ljós. — Og fyrir þetta má maður borga fult gjald.
--------------------------------------------- 

4,75- 7,50
Getur »Fram« gefið- mér nokkrar upplýsingar um það, í hverju sá stóri munur liggur, að á Akureyri kostar aðeins 4,75 að sóla karlmannsskó bæði aftan og framan, en hér kostar það 7,00 og jafnvel 7,50  - Í hverju getur þessi mikli mismunur legið? Nói.

Vér álítum að undir öllum vanalegum kringumstæðum sé engin ástæða að selja aðgerðir dýrara hér, en á Akureyri. Vér leyfum oss því að beina þeirri fyrirspurn til skósmiðanna hér hvort það sé rétt sem Nói fer með, og ef svo er, hver sé ástæðan. Ritstj.
------------------------------------------------- 

Fram - 13. janúar 1917

Til Nóa.
Eins og vér gátum um í næst síðasta blaði, brast oss kunnugleika til þess að geta svarað fyrirspurn yðar, og vísuðum þess vegna fyrirspurninni til skósmíðanna hér, til umsagnar. Nú hefir oss borist svar frá öðrum þeirra — Sumarliða Guðmundssyni —

Sem vér, því miður, sjáum oss eigi fært að byrta í heild sinni og orðrétt; álítum þannig löguð skrif hvorki yður né öðrum lesendum blaðsins til uppbyggingar. —

Vér viljum því aðeins leyfa oss að geta þess, að hann neitar því harðIega að hann hafi nokkurn tíma selt sólningar á 7.00 hvað þá 7,50.
Hann getur þess þó ekki hvað hann selji sólningarnar, en segir að sér vitanlega sé ekki meiri munur á því, hér og á Akureyri, en ýmsu öðru.
Oss er því jafn lítið kunnugt um sannleikann í þessu máli, eftir sem áður, og biðjum yður að afsaka, að vér ekki getum gefið yður frekari upplýsingar.
--------------------------------------------- 

Fram - 27. janúar 1917

Á morgun sér sólina aftur hér á Siglufjarðareyri; hefir þá verið sólarlaust hér í meir en 2 mánuði. Fyrstu sólaruppkomu á árinu ber að fagna af öllum. Sú siðvenja hefir verið hér, að gefa skólabörnunum nokkurt frí, þegar ekki hefir verið sunnudagur þann dag.
Kvæði það, sem hér er á öðrum stað í blaðinu, er sérstaklega ætlað börnunum, því vonandi er að engin hörð húð sé komin á tilfinningar þeirra enn, og að þau gleðjist innilega yfir afturkomu Ijósgjafans.
------------------------------------

Fram - 03. febrúar 1917

Um bryggjurnar í Hvanneyrarkrók.

 • Síldarpalla smíða snjallir bragnar
 • bryggjur falla fram í sjá
 • fræga kalla eg drengi þá.
 • Undra fljótir örvabrjótar þessir
 • mylja grjót og moka leir
 • mjög um róta jörðu þeir.
 • Þegnar djarfir þegar starfið klára,
 • álmanjótum öllum hjá
 • orðstyr hljóta góðan þá.
 • Þegar bryggjurnar brotnuðu.
 • Válega dynur vinda kór
 • versna tekur ránargeð.
 • Á augnabliki einu, sjór
 • öllum bryggjum sundra réð.
 • Misjafnt duga mannsins verk
 • mentunar þó njóti hann.
 • Hins er máttug hönd og sterk
 • er höfuðskepnum stjórna kann.

B. J.

Vísur þessar hafa «Fram» verið sendar. Höfundurinn er roskinn kvenmaður, sem aldrei hefir hlotið neina mentun, og átt fremur erfitt í lífinu, haft annað að gera en gefa sig við bókmentun. Vísur þessar bera vott um meðfædda hagyrðingsgáfu, enda er höfundinum, létt um að kasta fram vísu, en sem við má búast eru þær ekki ætíð svo að gildi þeirra sé mikið. En hver veit hve mikið þessi gáfa hefði mátt þroskast, ef hún hefði átt við góð skilyrði að búa. Það fæðist margt hjá okkur Íslendingum sem kulnar og deyr, fyrir illa aðbúð.
------------------------------------------------------

Fram - 10. febrúar 1917

Innbrot. Aðfaranótt þriðjudagsins brutust 2 unglingspiltar inn í verzlunarhús Sn. Jónssonar, inn um glugga á bakhlið hússins og stálu einhverju smádóti, en þó mjög litlu. — Þegar þeir voru að fara út aftur sáust þeir og þektust. Var svo réttarhald á þriðjudaginn og meðgengu þeir strax. Sögðust þeir hafa ætlað að fá sér cigarettur, en engar fundið, og tekið þá það er hendi var næst og þar á meðal nokkrar dokkur af silki.
------------------------------------------ 

Þakkarávarp. Hin góðkunnu heiðurshjón séra Bjarni Þorsteinsson og frú Sigríður Lárusdóttir á Hvanneyri hafa í mörg árgefið mér daglega mjólk. Þessa rausn þeirra þakka eg þeim af öllu hjarta, og bið góðan guð að launa þeim velgjörðir þeirra við mig.
Björg Bjarnadóttir.
----------------------------------------

Fram - 21. febrúar 1917

Klukkunni flýtt Stjórnarráðið hefir fyrirskipað að flýta skuli klukkunni um 1 tíma frá og með 20. þ. m.
----------------------------------- 

Lúðvík Sigurjónsson. frá Akureyri hefir verið hér undanfarna daga. Ætlar hann að byggja síldarsöltunarbryggju út frá Kambi, vestan við Hvanneyrarrifið, og er hér að gera ýmsar ráðstafanir því viðvíkjandi.

Ath. SK - 2012:> Hvanneyrarrifið mun vera langar grjót grynningar  sem voru þar sem grjótgarður er í dag, en var þar áður nánast samhliða Öldubrjótnum (bryggjunni), og síðar einnig fram undan Bifreiðaþvottaplani olíufélaganna, og  var nánast „þurrt“ á fjöru.

Þar vorum við krakkarnir (árin 1940-1950) oft við leik og grúsk í sjáfardýralífinu, sem þar var. Við krakkarnir í Norðurbænum (Villimannahverfinu) kölluðum þó svæðið Fjörutangann.
---------------------------------------------------

Fram - 03. mars 1917

Matvælasparnaður. Sykurkort lögleidd. Stjórnarráðið hefir gefið út reglugjörð um notkun mjölvöru og sykurs. Er þar fyrirskipað að rúgbrauð skuli að einum fjórða blönduð maís, og hveiti megi bakarar að eins nota til franskbrauðs, súrbrauðs, tvíböku og bollugjörðar.

Þá er og bannað að nota rúg, rúgmjöl, hveiti og haframjöl til skepnufóðurs. Sykurkort eru lögleidd og má sykurinn að eins selja við því verði er landsstjórn ákveður. Þessi reglugjörð öðlast gildi þegar í stað fyrir Reykjavíkurkaupstað og Hafnarfjörð. Getur stjórnarráðið með auglýsingu látið reglugjörðina ná til annara kaupstaða og sveitarfélaga ef henni þurfa þykir.
----------------------------------------- 

Fram - 10. mars 1917

Sykur er nú orðinn af skornum skamti hjá almenningi hér, munu margar fjölskyldur nú þegar vera alveg sykurlausar og enn fleiri sem klára sinn síðasta sykur næstu daga. Myndi ekki vera tiltök að fá sykur þann er Norðmenn eiga hér á staðnum til útbýtingar meðal fólks, auðvitað gegn fullri borgun? Vill ekki hreppsnefndin athuga það.
------------------------------------------- 

Uppfyllingu er H. Söbstað að láta gera á hinni stóru lóð sinni, þessa daga, og ættu fleiri er slíks þurfa, að nota bæði gott veður og gott akfæri, og fylla nú upp hjá sér. Ekki er betra að geyma það sumrinu.
-------------------------------------

Fram - 17. mars 1917

Skemtun hefir skemtinefnd Sjúkrasamlagsins gengist fyrir að haldin verði í kvöld kl. 9. Þar syngur Chr. Möller og Flóvent Jóhannsson heldur fyrirlestur. — Óskandi að menn fjölmenni á skemtun þessa, og styðji þannig eitt þarflegasta félag bæjarins. — Auglýsing um skemtunina er á öðrum stað hér í blaðinu.
---------------------------------------------

SKEMTUN til ágóða fyrir Sjúkrasamlagið verður haldin í Bío í kvöld. Chr. MÖIler, syngur með aðstoð Þorm. Eyjólfssonar, nokkur lög. Flóvetlt Jóhannsson, heldur fyrirlestur um Yfirmenn og undirgefna. Húsið opnað kl. 8,30- Byrjað kl. 9. Aðgöngumiðar verða seldir í verzlun Friðb. Níelssonar eftir kl. 3 og kosta 1 kr.
-----------------------------------------------

Fram - 24. mars 1917

Mál dæmdi 5 þ. m. féll dómur í landsyfirréttinum í málinu J. V. Havsteen gegn H. Söbstad. Havsteen byrjaði mál þetta með því að stefna Söbstad fyrir skuld kr. 601,43 en Söbstad stefndi Havsteen aftur strax og krafðist enn hærri upphæðar.

Kröfur þeirra beggja voru að nokkru teknar til greina við undirréttinn. Havsteen áfryjaði svo málinu til yfirréttar og Iyktaði því þannig þar að krafa Havsteens var tekin til greina með kr. 475,01 og krafa Söbstads með kr. 369,92. —

Söstad var því dæmdur að greiða mismuninn kr. 105,09 með 6 prc. ársvöxtum, en málskostnaður féll niður fyrir báðum réttum.
----------------------------------------------

Vöruverð. Hagstofan í Rvík birtir í hagtíðindunum 4 sinnum áári verðhækkun þá sem orðið hefir á nauðsynjavörum. — Samkvæmt síðustu skýrslu þessari hafa allar nauðsynjavörur hækkað að meðaltali um 80 prc. síðan stríðið byrjaði. Nokkrar vörutegundir hafa hækkað sem hér segir: Brauð ... . 65 prc.
Kornv. (að meðalt.) 99 — '
Kartöflur og rófur 72 —
Sykur alsk. . . 116 —
Kaffi ... . 16 —
Smjör og feiti . 73 —
Mjólk ostur og egg 106 —
Kjöt .... . 88 —
Fiskur ... . 90 —
Salt 62 —
Steinolía .. . 67 —
Steinkol . . , 172 —
--------------------------------------------------------

Hafliði Guðmundsson hreppstjóri, liggur allþungt haldinn af hjartabilun. Er búinn að vera rúmfastur nær mánaðartíma.
---------------------------------------------

Ill meðferð.
Vegna þess að eg þykist hafa orðið fyrir illri og óverðskuldaðri meðferð af séra Bjarna Þorsteinssyni á Hvanneyri, vildi eg leyfa mér að biðja blaðið fyrir nokkrar línur, sumpart til þess að hefna mín, mér að kostnaðarlausu, og sumpart öðrum til aðvörunar er líkt stendur á fyrir.

Eg bað séra Bjarna Þorsteinsson, umráðamann Eyrarinnar hér, í fyrrahaust um lóð undir hús, og fékk strax loforð fyrir henni. Litlu síðar útmældi svo presturinn lóðina, að Guðmundi Björnssyni mótorista, viðstöddum, sem tók við lóðinni fyrir mína hönd. — Lóð þessi er næst sunnan við norska sjúkrahúsið, nær fram í flæðarmál og fast að steinhúskofanum, sem hafður er til þess, að stinga inní óráaseggjum að sumrinu.

Nú leið tíminn svo, að eg tók ekki skriflegan samning fyrir lóðinni, sem eg hefði þó átt að gjöra, en eg áleit útmælinguna og loforð prestsins ábyggilega. En í sumar tók eg mig til og ætla að sækja samninginn, og borga fyrsta ársgjaldið, og tjáir prestur mér þá að hann sé búinn að láta annan hafa þessa lóð mína, og það með skriflegum samningi, og væri því til einskis að ræða það mál; enda hefði hann séð að eg fátæk og umkomulaus hefði ekkert með lóð þessa að gjöra, því dýrt væri að gjöra þar uppfyllingu.

Líka sagðist hann hafa fengið 10 kr. hærri leigu eftir Ióðina heldur en eg átti að borga, (eg átti að borga 10 kr. á ári eins og vanalegt er undir íbúðarhús hér,) og hefði hann því gjört það í bestu meiningu að losa mig við lóðina.

Við þessa afsökun sat svo. Mér gramdist þetta tiltæki prestsins, því eg gat ekki séð aðra ástæðu til þessa brigðmælgis en fégyrnd. Presturinn hefir n. 1. séð það, sem hann athugaði ekki í fyrrahaust, að hægt var að fá meira fyrir lóðina en þessar vanalegu 10 kr., og svo notað sér að ekki var búið að gjöra skriflegan samning.

En mér er spurn. Mundi ekki fleirum en mér hafa orðið á að trúa því, að guðsmaðurinn myndi ekki lofa undir vitni því, sem hann svíkur fyrirvaralaust, og það fyrir einar 10 krónur? Eg lét taka upp grjót uppí fjalli með leyfi prestsins. En nú er ekki sjáanlegt að eg þurfi á því að halda, enda býst eg við að það litla af því, sem komið var niður á lóðina, fylgi henni.

Eg hugsaði mér um tíma að leita réttar míns á presti á lagalegan hátt; en eg sá við nánari athugun, að fáir mundu verða til að taka málið að sér fyrir mig, því það hefir sýnt sig í mörgum tilfellum á landi hér, að þeim meginn er rétturinn, sem auður og mannvirðing er fyrir. Enda eg svo línur þessar með þeirri ósk, að sem fæstir hafi ástæðu til að bera sóknarprestinum sínum slíkan vitnisburð.
Guðný S. Stefánsdóttir.
------------------------------------------------------

Fram - 31. mars 1917

Tvíbura eignaðist Guðrún Blöndal, kona Jósefs Blöndals stöðvarstjóra, á fimtudaginn, voru það 2 drengir annar 17 en hinn 18 merkur að þyngd. Þau hjónin eiga 6 börn fyrir og er hið elsta þó aðeins 8 ára.
---------------------------------------------------------

Athugasemd við greinina »Ill meðferð.«

Þar eð eg er eitt af sóknarbörnum séra Bjarna Þorsteinssonar, þá get eg ekki látið vera að rita nokkrar línur eftir að eg las grein í »Fram« með fyrirsögninni »Ill meðferð« því eg átti als ekki von á að nokkur mundi hafa ástæðu til að brígsla séra Bjarna Þorsteinssyni á Hvanneyri um svik.

Eg hefi þekt prestinn frá því eg var ban að aldri, og hefi eg sjálfur oftsinnis fengið ýms loforð hjá honum munnlega, og alt staðið eins og stafur á bók, enda hefi eg ekki heyrt nokkurn mann áfella hann fyrir að hann ekki fullkomlega hafi staðið við það sem hann hefir lofað, því gramdist mér þegar eg las þessa grein, og undraði störum að nokkur mannssál sem gengið er út frá að sé með heilbrygðri skynsemi, skuli láta slíkan óþverra hugsunarhátt koma fyrir almenningssjónir, og það um velgjörðamann sinn.

Þegar Guðný S. Stefánsdóttir kom hér í kaupstaðinn fyrir rúmu einu og hálfu ári, hafði hún hvergi höfði sínu að halla, en fyrir framúrskarandi dugnað séra Bjarna fékk hún húsaskjól í barnaskólanum hér, endurgjaldslaust fyrir sig og börnin. Ennfremur mætti fyrnefnd kona muna eftir allri þeirri hjálp og umhugsun, sem séra Bjarni og kona hans veittu henni og börnum hennar fyrst eftir að hún kom hér.

Guðný S. Stefánsdóttir hefði þó átt að muna eftir þeim velgjörðum sem hún hefir orðið aðnjótandi af séra Bjarna og konu hans, jafnframt þeim svikum sem hún ber honum á brýn. Nei, hún gleymir öllu því góða en gjörir alt sitt til að blekkja heiðvirðan prest í augum almennings. Eftir framkomu konunnar að dæma þá lætur hún hinar illu eða vondu hugsanir sínar hafa alveg yfirhöndina, eða finst þessari konu það vera beinasta og réttasta leiðin að láta koma fyrir almenningssjónir allar þær vammir og skammir sem henni kann að detta í hug, um þann mann sem henni finst að hafi gjört sér eitthvað órétt.

Þótt séra Bjarni hafi gefið G. S. S. eitthvert loforð fyrir þessum fyrnefnda grunni, þá get eg ekki annað hugsað en að konan á einhvem hátt hafi fyrirgjört rétti sínum, og einna helst á þann hátt að hún hafi látið dragast að greiða (lóðargjaldið) grunnleiguna, og séra Bjarni því haldið að hún ætlaði ekki frekar að hugsa um grunninn, og því leigt hann öðrum.

Annars get eg ekki séð, þar sem eg er mjög kunnugur staðhætti grunnarins, að það hafi á nokkurn hátt verið skaðlegt fyrir konuna að hún ekki fékk þennan grunn, þar sem margir aðrir grunnar eru hér fáanlegir og sem ekki kosta neina sérstaka uppfyllingu, eða peninga útgjöld, til þess að byggja á, aftur á móti er þessi grunnur svo, að það þarf mikinn kostnað við uppfyllingu áður en hægt er að byggja á honum.

Vil eg að endingu benda G. S. S. á það, ef hún lætur hugsanir sínar koma fyrir almenningssjónir, að hún reyni að hafa dálítið meira taumhald á þeim, en hún hefir haft þegar hún ritaði greinina »Ill meðferð.«

Helgi Hafliðason .
----------------------------------

Fram - 07. apríl 1917

„Ver farið en heima setið."

Grein mína »Ill meðferð« í 20. tbl. »Frams,« hefir Helgi Hafliðason tekið til athugunar í síðasta blaði, án þess hún snerti hann á neinn sjáanlegan hátt, og að sjálfsögðu með þá hugmynd í höfðinu að hann væri að gjöra séra Bjarna Þorsteinssyni mikið gagn.
En H. H. hefir gleymt að afla sér sannra upplýsinga um það sem þessi svokallaða »athugasemd« fjallar um.

Eg leyfi mér að lýsa það bein ósannindi að eg ásamt börnum mínum, hafi fengið nokkra hjálp né umönnun fyr né síðar af Hvanneyrarhjónunum. Það eina sem eg hefi við þau skift, er að eg keypti mjólk af þeim árlangt og borgaði hana fullu verði eins og eg veit að frú Sigríður mun kannast við. Í öðru lagi kannast eg ekki við að í þessari umræddu grein minni séu upptaldar allar hugsanlegar vammir og skammir um séra Bjarna eins og athugasemdin gefur í skyn.

En eg get fullvissað H.H. ,um það að þó séra Bjarni hafi svikið mig um lóðina, þá hefir mér aldrei komið til hugar að hann ætti nokkuð skylt við allan þann óþverra sem innifelst í þessum tveim orðum »vammir og skammir,« og er eg að hugsa að H.H. hafi ekki athugað hvað mikið innifelst í þessum orðum, annars ekki látið þetta frá sér, því það eru hans orð en ekki mín.

Það er aftur á móti rétt hermt af H.H. að séra Bjarni vildi enga þóknun taka fyrir veru mína í skólahúskjallaranum yfir rúman hálfan mánuð. En hvort eg á að þakka það prestinum, hreppnum eða skólanefndinni veit eg ekki, eg lét mér nægja að bjóða borgun. allar aðrar ágiskanir viðvíkjandi grein minni eru ekki svara verðar

Að endingu vil eg svo leyfa mér að gefa H.H. heilræði fyrir hans föðurlegu bendingu, það, að hann skifti sér ekki framar af því, sem honum kemur ekkert við.

Siglufirði 3. apríl 1917. Guðný S. Stefánsdóttir
-------------------------------------------------------------------

Tunnuverksmiðju sína ætlar H. Söbstað nú að láta taka til starfa í þessum mánuði. Á hann þökk skilið fyrir að verða fyrstur til að byrja á slíku nytsemdarverki hér.
-------------------------------------------------------------------

Fram - 14. apríl 1917 - Auglýsing

50 krónur vil eg borga þeim sem gefur mér sannar upplýsingar um hver það var sem braust inní verksmiðju mína nýlega. H. Söbstad.
------------------------------------

Blaðið: FRAM, á Siglufirði 19. Maí 1917

Höfrungahlaup allstórt kom hér inn á fjörðinn í morgun, var farið bæði á vélbátum og árabátum til veiða, og lukkaðist bátunum loks í félagi að reka heilan hóp af skepnum þessum inn í fjarðarbotn og þar á grunn.

Tók þá til skothríð allsvæsinn, er mun hafa líkst stórskotaliðsáhlaupi og linti ekki fyr en öll dýrin voru dauð. Hve mörg þau eru vitum vér ekki, því þetta gjörðist rétt áður en blaðið fór í pressuna.
------------------------------------------------

FRAM 26. Maí 1917

Háhyrningarnir. Þess var getið í síðasta blaði að höfrungahlaup hefði komið hér inn á fjörðinn, og að tekist hefði að reka heilan hóp af þeim á land og drepa þá þar. — Var þetta að því leiti rangt, að þetta voru ekki höfrungar heldur háhyrningar. —

Skal hér nokkru nánar skýrt frá viðburði þessum.
Um kl. 8 á laugardagsmorguninn tóku menn eftir því, að eitthvert hvalfiskavað var hér út á firðinum og álitu menn það höfrunga eða marsvín. Hugðu þá sumir hverjir gott til fanga, og tóku að útbúa sig til veiða.

Lögðu þeir bræður Helgi og Guðmundur Hafliðasynir á stað á vélbát O. Tynæsar, ásamt fleiri mönnum, með byssur og mikið af smágrjóti, en á meðan á þeim útbúnaði stóð, lögðu nokkrir árabátar á stað, einnig með byssur og grjót og urðu tveir af þeim fyrstir til að komast út fyrir hvalina.

Nokkru síðar fór annar vélbátur á stað, en byssulaus þó. Svo þegar allir þessir bátar voru komnir útfyrir torfuna, tóku þeir að gera tilraun, með grjótkasti og hljóðum, að reka þá inn fjörðinn, og tókst það betur en búast hefði mátt við. Héldu þeir alveg hópinn og flýðu undan grjótkasti og óhljóðum þeirra sem á bátunum voru.

Stöku sinnum gerðu þeir þó tilraun til að snúa við, en þá var jafnharðan ráðist framan að þeim af einhverjum bátanna, og snéru þeir þá altaf við aftur; virtust hræðast hljóðin meira en grjótkastið. Þegar svo innundir fjarðarbotninn kom, bættust afar margir árabátar við til hjálpar við að reka þá á land, enda varð þar allharður aðgangur, því þeir sóttu fast á að snúa við eftir að þeir kendu grinlsanna og skothríðin var byrjuð.

Það enti þó með því að stórhveli þessi munu öll hafa verið yfirunnin, þau er inn voru rekin, rúm 70 að tölu en sagt er að annar stór hópur hafi verið kominn inn á fjörðinn, en farið út nærri strax aftur.

Nú þegar öll dýrin voru lögð að velli, kom til það atriðið, sem fáir munu hafa treyst sér til að leysa úr, n. 1.:
Hverjum bar að sjá um hvali þessa, og hver á þá? Var því boðað til almenns fundar það sama kvöld kl. 7 til 8, til þess að taka ákvörðun um skiftinguna. — Var sá fundur all fjölmennur en ekki að sama skapi fjölvirkur.

Fundarstj. var kosinn, séra B. Þorsteinsson. Eftir nokkrar umræður, kom fram tillaga um að kjósa 9 manna nefnd var sú tillaga borinn upp og samþykt. Þá kom fram tillaga um að nefndin yrði kosin þannig, að fyrst yrði nefndur 1 maður, svo nefndi hann sér annan o. s. frv. Og virtist mörgum þessi hugmynd góð, en er þess var óskað að þessi aðferð við nefndarkosninguna væri borin upp til atkvæða, vildi fundarstj. það ekki, hvað þess ekki þörf.

Það virðist þó hafa verið útlátalaust, sérstaklega er um jafn óvanalega kosningaraðferð var að ræða. Var þá byrjað að kjósa nefndina og byrjaði Helgi Hafliðason með að tilnefna Hjalta Jónsson, hann nefndi svo Jón Guðmundsson, hann svo Flóvent Jóhannsson, en hann Guðm. Hafliðason, og hann Helga Hafliðason, og hann Þorst. Pétursson, og hann Jón Jóhannesson, og hann Sófus A. Blöndal, og hann séra Bjarna Þorsteinsson, og var þá nefndin fullkosin.

Verkefni nefndar þessara er fyrst og fremst það, að standa fyrir sölu á hvölum þessum og ákveða verð á þeim, svo og hitt, að ákveða — eða að minsta kosti gjöra tillögur um — hverjum beri sá hreini hagnaður af hvölunum, eða hvernig honum skuli varið. Verðið mun flestum vera kunnugt orðið: spik 0.60, megra 0,30, beinlaus bæxli 0,16, og bæxli með beinum 0,08 kílóið, og var alt uppselt á þriðjudagskvöldið.

Hve mikla peningaupphæð þessir hvalir gera, er ekki unt að segja ennþá, því t. d. fór nokkuð mikið til Reykjavíkur með Varanger, og ófrétt hve mikið það hefir gert; en kunnugir hafa fullyrt að upp undir 20 þús. kr. myndu verða afgangs kostnaði.

En þó það ekki verði svona mikið, þá er þetta þó mikil upphæð, sem þannig hefir borist upp í hendur manna hér, og vafalaust á nefndin vandasamt verk fyrir höndum; það að ráðstafa þessum peningum á sem heppilegastann og réttlátlegastann hátt að unt er.

Manna á milli hafa gengið ýmsar getgátur um afdrif peninganna, hafa jafnvel sumir talið sjálfsagt að þeir sem fóru út á fjörðinn fengju þriðjung, já og jafnvel helming af öllu saman. En hvernig svo sem endirinn verður, er óhætt að fullyrða það, að ef það verður ofaná, að nota þetta lán, þessa sendingu forsjónarinnar, til þess að auðga einstöku menn, þá mun það fá harðan dóm alls almennings.

Annars munu menn bera fult traust til hinnar heiðruðu nefndar, að hún sýni fulla mannúð og réttsýni í gjörðum sínum, og hún sé upp yfir það hafin að láta hagsmuni einstakra manna hafa áhrif á sig. Á það bendir líka meðal annars það, að eitt af fyrstu gjörðum hennar var, að útbýta gefins til hvers einasta hreppsbúa, 10 pd. af rnegru og 5 pd. af spiki.

F
----------------------------------------------------
Fram - 16. júní 1917

Tunnuverksmiðja H. Söbstaðs er nú tekin til starfa. Gengur hún fyrir gufu til að byrja með en á að ganga fyrir rafurmagni framvegis. Er nú verið að setja niður rafmótorinn og leggja aukaleiðslur frá rafljósastöðinni.
------------------------------------------------
Fram - 23. júní 1917

Hafnarmálið. 

Mánudaginn 18. þ. m. var haldinn sáttafundur í barnaskólahúsinu milli hafnarnefndar öðru megin og Hafnarbænda hinsvegar, útaf ágreiningi um lóð, er Hafnarbændur höfðu leigt herra útgjörðarmanni O. Tynæs til síldarsöltunar, og með því að málið var eigi útkljáð þann dag var það tekið fyrir aftur daginn eftir, og komst þá á svohljóðandi sætt: Málshöfðun fellur niður og skaðabótakrafan kr. 20.000 einnig tekin aftur.

Ennfremur seldu Hafnarbændur, hafnarnefnd fyrir hönd Hafnarsjóðs lóðarréttindi á hinu um þráttaða svæði fyrir kr. 15.000, er borgast eftir mánuð frá sáttadegi og fer þá afsal fram á lóðinni. Lóðin nær að norðanverðu og vestan frá stórum steini í fjörunni fyrir norðan og austan hús H. læknis Guðmundssonar í stefnu á Staðárhólsbæ, að sunnan verður frá svo kölluðu Hafnarnefi austur í stefnu á Skútuárbrú, en að austan verðu ræður takmarkalína milli Hafnar og Skútulands og gengur sú lína frá Fjarðaránni í stefnu á Helluhryggsnef.
-----------------------------------------------------------

Götunöfn og tölusetning húsa, er sagt að eigi að komast hér á innan langs tíma. Situr nú veganefndin á rökstólum og semur tillögur um nöfnin, sem svo hreppsnefnd staðfestir eða breytir eftir geðþótta. Menn eru forvitnir; að fá að vita hve falleg nöfnin verða, hefir sá leiði kvittur komið upp, að göturnar eigi að bera nöfn útlendra manna, er það óviðeigandi, því nógeru alíslensk nöfn til.

Vonum vér þess, að af þeim 9 mönnum, er um mál þetta fjalla, sé meirihlutinn svo hollur íslenskri tungu, að þeir sjái um að eigi fæðist neinir málfræðislegir vanskapnaðir í götu nöfnunum.
------------------------------------------------
Ritsíminn tekur nú til starfa bráðlega, komu tveir unglingar frá Akureyri með Sjöstjörnunni í gær, sem eiga að gæta hans í sumar.
---------------------------------------------------

Timburskipin eiga ekki vinum að fagna, er þau hitta Þjóðverja. Hefir sú fregn komið hingað, að timburskip, sem tilheyrir Ásgeir kaupmaður Péturssyni, hafi verið tekið og flutt til þýskrar hafnar. Skip þetta var stórt, voru í því á þriðja hundrað standards af timbri.

Sama fregn segir að Þjóðverjar hafi brent 2 timburskip til C. Höepfnersverslunar á Akureyri, 1 til trésmíðafélagsins »Dvergur« í Hafnarfirði og 1 til kaupmans Sigfúsar Bergssonar sama staðar. Þau tvö síðastnefndu hafa hlotið að vera komin hér nærri landi, höfðu verið búin að vera mánuð á leiðinni frá Svíþjóð.
----------------------------------------------------

Fram - 30. júní 1917

»Vísir« flutti nýlega eftirtektarverða frétt, eftir danska blaðinu »Nationaltidende« um að norska stjórnin hafi lagt fyrir þingið frumvarp til laga um að nema úr gildi leyfi skipa að flitja brennivín úr landi til eigin þarfa þegar ákvörðunarstaðir séu lönd þar sem aðflutningur á brennivíni er bannaður.

Það er látið fylgja sögunni að tilgangurinn með þessari ráðstöfun sé sá að koma í veg fyrir að brennivín væri flutt frá Noregi til Íslands. Það væri sorglegt ef norsku skipin hættu alveg að færa okkur í staupinu!
--------------------------------------------------

Bryggjur auk þeirra sem getið var um í síðasta ,blaði, eru þeir Árni Böðvarson og Lúðvík Sigurjónsson að láta byggja nýjar bryggjur norður af ytri tanga eyrarinnar austast.
--------------------------------------------------

Fram - 14. júlí 1917

Viðtal við O. Tynæs.

Litlu eftir heimkomu O. Tynæs, fór sá er þetta skrifar til hans til þess að fá hjá honum ýmsar fréttir frá Noregi. Tók hann vel í það og fer hér á eftir ágrip af því viðtali: — Hvað er að frétta af norsku síldveiðaskipunum? Er útlit fyrir að þau komi hingað í sumar? — Um það atriði hefi eg bæði ilt og lítið að segja. Skilyrði þau, sem Englengingar settu Norðmönnum hér að lútandi, voru þannig, að alveg ómögulegt var að ganga að þeim.

þeir settu t. d. upp að hvert einasta skip, fiskiskip jafnt sem flutningaskip, kæmi við í enskri höfn á leið hingað til ísland, hvort sem þau hefðu nokkurn flutning eða ekki, svo og að Norðmenn yrðu að selja þeim síldina og flytja hana sjálfir til Englands; ennfremur að öll fiskiskipin kæmu við í enskri höfn á heimleið, að endaðri vertíð. Þessi skilyrði töldu Norðmenn alveg óaðgengileg, þar sem jafnmikil hætta er að fara til Englands með síld, eins og nú er og þar sem stríðsvátryggingarfélögin eru farin að taka svo hátt gjald af skipum þeim, sem fara inn á ófriðarsvæðið. Það er því alveg áreiðanlegt að ekkert einasta norskt fiskiskip kemur hingað í sumar.  —

En eftir stríðið?

Ætli jafnmargir Norðmenn komi þá ekki hingað eins og áður? — Eftir stríðið koma Norðmenn áreiðanlega til íslands til síldveiða eins og áður hvort þeir koma aðallega til Siglufjarðar eins og verið hefir, er ekki víst. Þeir eru farnir að hugsa um aðra staði hér á landi sem jafngóðir virðast Siglufirði, — eða alt að því, — og má þar nefna Ingólfsfjörð.

Mér er kunnugt um að þangað ætla sér margir Norðmenn að stríðinu loknu, og núna liggja í Kristjaníu fullgerðar vélar í bræðsluverksmiðju jafnstóra Evangers-verksmiðjunni, sem á að setja upp á Ingólfsfirði, og vélar í aðra verksmiðju eru pantaðar nú þegar og eiga þær að vera fullgerðar í árslok 1918. Þeir sem ætla að setja upp verksmiðjur þessar, ætla einnig að hafa þar selveiðistöð, því tiltölulega stutt er þaðan fram í Grænlandshaf, og þar eru selirnir mikið veiddir.

Það er því áreiðaniega röng hugmynd sem sumir virðast hafa hér, sem sé sú, að það sé óhætt að vera kröfuharður við Norðmennina, því þeir séu neyddir til að koma hingað hvort sem er. Vöxtur og velmegun Siglufjarðar og Siglfirðinga, er of mikið Norðmönnum að þakka til þess, að rétt sé að þeir séu fældir burtu héðan. Það munu Siglfirðingar finna betur þegar meiri hluti norsku síldarskipanna er farinn að halda til annarstaðar. — Hvað gjöra nú skip þau sem hingað hafa komið?

Þau gjöra ekki neitt, liggja flest inni á höfnum. í Aalesund liggja nú t. d. 122 gufuskip og um 600 mótorskip og bátar, og hefir mönnunum verið sagt upp af þeim öllum. Mörg af þessum skipum hafa verið hér á sumrin. Annars hefir gengið illa að gera út skip í Noregi, vantað bæði kol og salt. í vor kom t. d. síldarhlaup við Noreg, var það stór síld, nærri því eins stór og íslenska síldin, feit og digur en þó alveg átulaus. Tiltölulega fá skip gátu sint henni, en þau fáu veiddu vel. T. d. »Baldur«, sem hér hefir verið, veiddi í júnímánuði fyrir 100 þús. kr. af þessari síld. Pessi síldartegund hefir ekki veiðst við Noreg síðan fyrir 40 árum. _

Hvernig er útlitið yfirleitt í Noregi? — Útlitið er yfirleitt mjög slæmt mikið verra en hér. Uppskeruhorfur voru þó góðar, nema hvað alt var seinna en vanalega, vegna kuldanna í vor. Dýrtíð er þar mikil og margar vörur nær ófáanlegar. Frakt á kolum milli Englands og Noregs er nú 250 til 300 kr. á smálest, en verðið á þeim í smásölu er 30 kr. fyrir 100 litra eða 375 kr. smálestin, en víðast hvar eru þau þó ófáanleg. Á rafljósastöðinni í Aalesund er brent koltjöru i stað kola og reynist það heldur vel.

Yfir 1 miljón tunnur af síld eiga Englendingar liggjandi í Noregi sem þeir hafa ekki enn fengið flutta á milli vegna skipaleysis. — En þó munu ástæðurnar vera enn verri í Svíþjóð. T.d. hafa 42 þús. verkamenn frá Svíþjóð komið til Noregs til að leita sér atvinnu. Er orsök þess aðallega talin sú, að þar hefir iðnaður stöðvast allmikið, vegna hráefnaskorts, og svo munu þeir vera enn ver staddir hvað matarforða snertir, heldur en Norðmenn. — En er nokkurt útlit, fyrir að Norðmenn lendi sjálfir í ófriðnum?

— Já. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa aldrei staðið jafn nærri því, að fara í ófriðinn eins og núna, og ber margt til þess. Síðan stríðið hófst hafa Norðmenn mist 596 skip, þar af yfir 500 gufuskip, og 1100 norskir menn hafa þar látið lífið. Skip þessi hafa öll verið hlaðin ýmiskonar varningi ýmist til Noregs eða þaðan. Nýlega sendi eg skip á stað til Siglufjarðar með 700 smálestir af salti 400 smál. af, kolum og um 4000 tómar tunnur. Það var skotið í kaf nálægt Orkneyjum, en mennirnir björguðust þó af því.

Daglega koma fregnir um niðurskotin skip, og suma daga um mörg. Þetta geta Norðmenn varla þolað lengur. Og svo þegar þar við bætist að Þjóðverjar taka skip sem eru á siglingu meðfram ströndum landsins, innan landhelgi, og fara með þau til Þýskalands, og slá eign sinni á þau, þá er eðlilegt að þolinmæðin minki. Sem dæmi uppá þetta má nefna að nýlega var gufuskipið »Thurun,« alveg nýbygt skip sem kostaði 3 miljónir króna, á leið frá Kristjaníu norður til Finnmarken með hey og fóðurmjöl, og fór það í landhelgi.

Þá kom að því þýskt herskip og skipaði þeim að fylgja sér eftir, en skipsmenn, sem vissu að þeir voru í landhelgi neituðu að hlýða þessu. Tóku þeir þýsku þá við stjórn skipsns með valdi og fluttu það til Þýskalands. Mönnunum af »Thurun« var síðan stefnt fyrir herrétt, fyrir það að hafa neitað að hlýða skipunum Þjóðverja, en síðar var þeim þó slept, nema skipstjóra og stýrimönnum, þeim var haldið eftir. Skipið sjálft var einnig tekið. Eftir því sem mér virtist voru Norðmenn, þegar eg fór þaðan, mjög nærri því að sitja ekki lengur hlutlausir, og horfa á skip sín eyðilögð og menn sína drepna; og eftir að skotfæra birgðir Pjóðverja fundust í Kristjaníu eru enn meiri líkurtil friðslita.

Eg get því búist við að á hverri stundu komifrétt um það að Norðmenn séu farnir i stríðið.

Þegar hér var komið viðtalinu, snérist talið að Siglufirði aftur, og ýmsu hér heima. Spurði hann meðal annars hvernig fyrirtæki þetta, prentsmiðjan og blaðið bæri sig, og hvernig gengi með hlutafé. Og er hann hafði fengið það svar, að rekstur blaðsins og prentsmiðjunnar myndi koma til að bera sig, að því leiti sem séð yrði, en að nokkurt hlutafé vantaði enn til þess, að fengið væri fyrir öllum áhöldum, sagðist hann skyldi leggja 100 kr. í fyrirtækið. Þessa er hér getið því fremur, sem hann var áður einn af hæstu hluthöfunum.
F.
----------------------------------------------------------

Veitingasal hefir Hallgrímur Jónsson látið gjöra úr sölubúð sinni, og var hann opnaður síðastliðinn sunnudag. Mun Hallgrímur vera sá eini hér, sem treystir sér að hafa veitingasölu á þessum vandræðatímum sem nú eru.
---------------------------------------------------------

Augiýsing.
1 nýlegt dregg keðjulaust, og 1 gamalt anker með ca. 15 faðma keðju hefir fundist hér á fjarðarbotninum, bæði merkislaus. Sá sem getur sannað eignarrétt sinn á hlutum þessum, gefi sig fram við undirritaðann innan mánaðar, og greiði fundarlaun og áfallinn kostnað. Siglufirði 11. júlí 1917. K Sæther.
------------------------------------------------ 

Fram - 17. júlí 1917

Standmynd af Hafliða sál. ætla Norðmenn að reisa einhverstaðar hér á eyrinni að stríðinu loknu. Eru þeir byrjaðir að safna frjálsum samskotum til þess meðal þeirra er hér hafa verið. Óráðið er enn úr hverju myndin verður og hve stór, á það að fara eftir því hve mikið safnast. Talað hefir verið um að setja myndina framan við hús hans eða þá þar sem kirkjan stendur nú, ef hin tilvonandi nýja kirkja verður sett annarstaðar.
-------------------------------------------------

Fram - 24. júlí 1917

Þorsteinn Pétursson kviðslitnaði í gærdagvið að færa til tóma ölkassa.
---------------------------------------------------

Fram - 31. júlí 1917

Hreppsnefndin hélt fund í gærkvöld. Var aðal umræðuefnið bæjarréttindin.  Var öll hreppsnefndin einhuga um að málið mætti ekki stranda á samþ. sýslunefndar, heldur yrði að krefjast aukafundar, og það sem allra fyrst. —

Umsókn H. Söbstaðs um að fá áfram afl frá rafstöðinni til verksmiðju sinnar var frestað. — Samþ. að skrifa þeim Júlíus Havsteen og Jakob Björnssyni áminnigarbréf um að vera hér sinn lögákveðna tíma allan, en ekki aðeins með annan fótinn eins og þeir virðast hafa gjört, eða að minsta kosti Jakob. — Þá var rætt um kol og saltleysi og ýms fleiri dýrtyðarvandræði.
---------------------------------------------------

Fram - 07. ágúst 1917

Bannmálið
Stjórn Stórstúku íslands, stjórn Bannvinafélag Rvíkur og stjórn Umdæmisstúkunnar nr. 1 í Rvík, samtals 20 menn, hafa sent háyfirdómara Kr. Jónssyni, yfirdómara Halld. Daníelssyni og Eggert Briem opið bréf í Lögréttu út af því að þeir skrifuðu undir áskorun andbanningafél. til alþýðu um afnám bannlaganna, og það sem æðstu dómendur landsins.

Í bréfi þessu eru nokkrar spurningar Iagðar fyrir dómarana, svo sem; hvaða sannanir þeir hafi fyrir því að drykkjuskapur hafi ekki minkað í kaupstöðum og sjávarþorpum; hvaða sannanir fyrir því að efnahagur manna hafi ekki batnað þar sem drykkjuskapurinn áður hjó stærstu skörðin;

 1. hvaða sannanir fyrir því að bannlögin fari í bága við réttarmeðvitund als þorra landsmanna;
 2. hvaða sannanir fyrir því að bannlögin hafi veikt virðingu manná fyrir lögum landsins yfirleit;
 3. hvaða sannanir fyrir því að bannlögin hafi gert þúsundir manna að lögbrjótum, jafnvel heiðarlegustu menn, sem aldrei hafa látið sér til hugar koma að brjóta önnur lög;
 4. hvaða sannanir fyrir því að drykkjuskapur komi ekki í bága við réttmæta hagsmuni annara og alment velsæmi?

Fróðlegt verður að heyra hvernig æðstu dómendur Iandsins svara þessum spurningum.

-----------------------------------------------

5 selveiðaskip farast 72 menn drukna. Pað er nú talið áreiðanlegt, að í norðangarðinum á laugardaginn fyrir páska, muni 5 af stærstu selveiðaskipunum frá Álasundi í Noregi hafi farist með allri áhöfn, 72 mönnum. Skip þessi eru gufuskipin Artich, Heim, Lunheim, Admíralen og Aslak, öll vel þekt hér á Siglufirði, og meiri hlutinn af mönnunum hafa verið hér á hverju sumri við síldveiðar.

Mun þetta vera eitthvert hið mesta tjón bæði manna og skipa, sem Álasund hefir orðið fyrir í einu, því eftir núverandi verði skipanna mun óhætt að reikna tap þeirra á 1 milj. og 300 þús. kr., og er það fyrir utan veiði þá sem þau kunna að hafa verið búin að fá. Selveiðaskipið Skúmur frá Reykjavík, var síðasta skipið sem sá til þessara skipá*, og það sama kvöldið sem óveðrið skall á.

Hann var líka mjög hætt kominn, en komst loks eftir illan Ieik til Reykjavíkur, mikið skemdur. Norðmenn telja því fullsannað, að þar sem ekkert hafi frést til skipanna síðan, muni þau hafa farist og og allir mennirnir látið lífið. — Þetta er sorgleg frétt, og það því fremur sem þarna mun hafa verið saman komið úrval norskra sjómanna, sannkallaðar sjóhetjur, því vanalega munu duglegustu mennirnir valdir til þeirra svaðilfara, selveiðanna.
---------------------------------------------------

Kolin.
Nú hefir stjórnarráðið svarað ákveðið viðvíkjandi Tjörneskolunum. Kveðst það ekki geta selt hingað nein kol, nema sendir verði héðan verkamenn í námurnar, en þá getum við fengið kol og eftir því meiri sem fleiri verða sendir.

Nú er því áríðandi að einhverjir gefi sig fram til vinnunnar, og það sem alla fyrst svo hægt sé að fá kolin flutt hingað áður en tíðin spillist í haust. Úrlausn kolaleysisins er nú eingöngu undir því komin að nógu margir verkamenn gefi sig fram, Oddviti hreppsnefndarinnar gefur allar frekari upplýsingar, svo sem um kaup og fleira.

Athugið (sk 2012) - Kolanáman: Stálfjallsnáma er gömul surtarbrandsnáma í Stálfjalli á Barðaströnd og var stundaður þar námugröftur á árunum 1916-1918 en aðstæður voru mjög erfiðar og kolin misjöfn og var vinnslunni því hætt.
Meira má lesa um þessa námu á Wikipedia:>

https://is.wikipedia.org/wiki/St%C3%A1lfjallsn%C3%A1ma
------------------------------------------------ 

Fram - 14. ágúst 1917

Fréttir. »Vísir« segir svo frá fyrstu umræðu í n. d. 2. ág. um frumvarp til Iaga um bæjarréttindi Siglufjarðar »Um frumvarp þeirra Eyfirðinga um að veita Siglufirði kaupstaðarréttindi með .sérstökum bæjarfógeta skiftust þeir Stefán í Fagraskógi og forsætisráðherra á nokkrum orðum. Taldi forsætisráðherra viðurhlutamikið að stofna heilt bæjarfógetaembætti á einu þingi, en Stefán þóttist hafa séð hann svartari og var málinu vísað til 2. umr. og alsherjarnefndar.«
------------------------------------------------

Fram - 04. september 1917

Uppþot allmikið gerði maður nokkur hér í bænum, nóttina sem Sterling lá hér. Er sagt að hann hafi brotist inn í eitt veglegasta kvennabúr kaupstaðarins og rekið þar út eitthvað af sauðum en sest að sjálfur, en þá brá svo við að allar meyjarnar flýðu húsið. Fór náungi þessi þá út og gerðist all mikilvirkur, t. d. rak hníf í kinnina á einum, flumblaði hendina á öðrum með flöskubroti, beit í fingur á þeim þriðja og ýmislegt þessu líkt.

Var hann loks handsamaður af hreppstjóranum og nokkrum vöskum drengjum — lögreglustjórinn var ekki heima — og fluttur í steininn. En er þangað kom tók ekki betra við því allir klefarnir voru fullir, varð því að gefa upp sakir bæði kjöttunnum og smjördunkum svo hægt væri að hola þessum manni niður. — Daginn eftir kom lögreglustjórinn heim, og mun hann þá hafa tekið manninn til bæna, að minsta kosti er búið að sleppa honum nú, en sagt er að aumingja maðurinn hafi þar orðið að þola harðan dóm fyrir framferði sitt, því fyrir utan allar áminningar hafi hann orðið að borga 25 kr. sekt.
-------------------------------------------------

BANN . Hérmeð er öllum bannað að kasta hverskyns affalli frá húsum sínum, svo sem skólpi, rusli, blikkdósum o.s. frv. á fjöruna framundan húsi mínu, nema um háfjöru og verður þá að fJytja alt sJíkt fram á marbakka. Verði þessu ekki hlýtt verður tafarlaust kært til sekta fyrir lögreglustjóra. Guðm. T. Haligrímsson.
-----------------------------------------

Fram - 18. september 1917

Auglýsing
HLUTÁBRÉF Prentsmiðjufélags Siglufjarðar eru nú fullgerð og verða afhent hluthöfum á afgreiðslu blaðsins næstu daga. Þeir sem hafa lofað hlutafé, en ekki greitt það enn, eru vinsamlegast beðnir að gera það nú þegar. Stjórnin.
------------------------------------------------
Páll Einarsson sýslumaður er staddur hér í bænum þessa daga. Kom hann hingað til að halda sjóréttarpróf útaf því að »Akureyrin« fór upp á Helluna fyrir nokkrum dögum.
----------------------------------------------- 

Fram - 22. september 1917

Sjálfblekingur tapaðist hér á götunum 31. f. m. Finnandi er vinsamlega beðin að skila honum gegn fundarlaunum til Óskars Halldórssonar
------------------------------------------------

Fram - 25. september 1917

Fyrirspurnir.
Eftirfylgjandi fyrirspurnum Ieyfi eg mér að beina til lækna vorra.
1. Er það ósaknæmt, svo eigi verði átalið frá heilbrigðislegu sjónarmiði ef »boxin« (talklefarnir) á talsímastöðvum landsins eru eigi gerð hrein yfir Iengri tíma svo loftið í þeim verður þrungið líkt og þá verst er í hásetarúmum skipa, — auk þess sem það er alt annað en fýsilegt að núa sér við óhreina veggi?

2. Stafar eigi sýkingarhætta, og hún töluvert alvarleg frá talfærinu, sé það ekki iðulega hreinsað upp úr sóttvarnarefnum, eða að minsta kosti þurkað upp. Er ekkert við það að athuga þótt talpípan sélöðrandi í ryki, tóbaki og öðrum óhreinindum, og lögur sem myndast hefir af andgufu manna og hóstayringi renni til í skálinni.?
Gestur.
--------------------------------------------------- 

Fram - 02. október 1917

Kolin eystra.

Gísli Guðmundsson gerlafrægingur hefir nú undanfarið verið að rannsaka kolalög þau, sem fundist hafa á Austurlandi. Bezt segir hann kolin í Skálanesbjarginu, þau gefi lítið eftir skoskum kolum, en aðstaðan sé þar ekki góð og að líkindum fremur lítið um kolin; auðvitað sé ekki hægt að segja neitt með vissu um það fyr en komi lengra inn í Bjargið.

Aftur á móti kvað aðstaðan vera ágæt á Reyðarfirði og kolin þar miklu meiri. Það eru brúnkol af bestu tegund, stórum betri en Tjörneskolin. Gísli segir að úr Reyðarfjarðarnámunni einni meigi jafnvel vinna kol handa öllu Austurlandi, með góðum verkfærum og nægilegum vinnukrafti. — Jón C.E. Arnesen konsúll á Eskifirði hefir leigt námu þessa af eigendunum, til 75 ára, með því skilyrði þó að hann láti vinna hana,
(Austri 8. sept.)
---------------------------------------------

Fram - 06. október 1917

Stórhríðarhvell

gerði fyrrihluta vikunnar með sjógang miklum og frosti. Hlutust þar af ýmsar skemdir bæði hér og annarsstaðar, því menn munu yfirleytt hafa verið illa viðbúnir vetrinum svo snemma, og þessvegna meiri skemdir og slys orðið en ella. Bryggja Lúðvíks Sigurjónssonar hér norðan á eyrinni tók upp alt að miðju en efnið náðist að miklu leyti. Mun eigandinn þar hafa orðið fyrir talsverðu tapi, þótt minna yrði en áhorfðist.—

Afturámóti stóðu bryggjur þeirra h.f. Bræðings og S. Goos í Hvanneyrarkróknum, enda eru þær rammlega gerðar og mun svo til ætlað af eigendanna hálfu, að þær standist öll fjörbrot Ægisdætra hversu mikil sem þau verða. Uppfylling hjá h. f. Bræðingur, skemdist nokkuð, brotnaði syðra hornið af múrvegg þeim er bygður var í vor. 

8 kindur flæddi út hér út með Hvanneyrarströndinni og ráku dauðar á land utan á eyrinni. »Brödrene« strandaði yfir í Skútutufjöru og er kominn þar nærri því á þurt land. Litlar líkur til að hann náist út aftur. »Kristíana« hákarlaskip sam. ísl. verslana, rak inn á Ieiru en hefir náðst út aftur lítið skemd.

»Grótta« vélskip sem Ásg. Péturðsson á, lá við Tjörnesnámuna, en losnaði þaðan og strandaði á svonefndri Lónkotsmöl skamt norðan við Hofsós. Sagt er að bæði vél og segl skipsins hafi verið í miklu ólagi, og mennirnir því orðið að láta það hrekjast fyrir sjó og vindi. í Ólafsfirði er sagt að 4 mótorbátar hafi farist, annaðhvort sokkið út á höfninni eða rekið á land og brotnað. Hvort þeir hafa alveg eyðilagst eða ekki er oss ókunnugt um.
----------------------------------------------  

Fram - 20. október 1917

Hvalnefndin. I.

Nefnd sú, sem kosin var 19. maí s.l., til þess að koma í peninga og ráðstafa á annan hátt háhyrningum þeim, sem reknir voru hér á land þann sama dag, og sem alment er nefnd Hvalnefndin, er aðal umtalsefni bæjarbúa þessa dagana. Var þess getið í síðasta blaði að Hafnarbændur hefðu stefnt nefndinni fyrir það, að hún vildi ekki greiða þeim landshlut, einn þriðja verðs af 66 háhyrningum, sem þeir telja að unnir hafi verið á sinni lóð, og fluttir þaðan burtu að þeim óspurðum.

Sáttakærufundur var haldinn 16 þ. m., en alveg árangurslaust, komst þar engin sætt á, svo málið fer til dóms. Vér höfum fengið fjölda af fyrirspurnum um gjörðir nefndarinnar, og áskoranir um að birta í blaðinu einhverjar upplýsingar í málinu, en vér höfum því ver ekki getað neitt af þessu, því oss hefir verið jafnlítið kunnugt um nefndina og gjörðir hennar, sem almenningi.

Ítrekaðar tilraunir vorar til að fá upplýsingar hjá nefndarmönnunum, hafa litinn eða engan árangur borið, hafa þeir ýmist varist allra frétta, eða þá sagt sitt hver. það eina sem séðst hefir opinberlega frá nefndinni, er auglýsing sem fest var upp á götum bæjarins hér í sumar, þar sem allir er þátt tóku í innrekstri og landflutningi háhyrninganna, voru beðnir að gefa sig fram við einn nefndarmanninn.

Fyrir nokkru fór svo sú fregn — hvalfregn sögðu sumir — að berast út milli manna, að þeir sem eitthvað hefðu verið við hvalina riðnir, þyrftu ekki annað en fynna Jón Guðmundsson verzlunarstjóra, þá fengju þeir þetta frá 10 krónum og uppí 200 krónur eftir dugnaði og þátttöku. Ekki tilkynti nefndin þó þessa ákvörðun sína, hvorki með formlegum tilkynningum til hvers einstaks né heldur með auglýsingu, heldur lét sér nægja að hvísla því að kunningjum sínum, treystandi því líklega að þeir svo létu það »ganga um bæinn, frá manni til manns.

Vér höfum átt tal við þó nokkra, sem »sótt hafa gull í greypar Jóns,« og segjast þeir fá töluvert misjafna upphæð, þótt sama verkið hafi þeir unnið margir hverjir. En eftir því sem vér komumst næst af sögnum þeirra, þá er útborgunarreglan eitthvað á þessa leið. Þeir sem komu að sjá dýrðina, en urðu að ganga snökkklæddir með jakkann á handleggnum, vegna sólarhitans, fá 10 kr. Þeir sem réru háhyrningana í land og unnu eins og menn, fá 15 krónur.

Þeir sem urðu blautir í fæturnar, fá 20 kr. En hásetarnir á vélbátunum sem úteftir fóru, fá 200 kr. Þeir sem voru farþegar á vélbátunum fá að sögn ekki neitt, enda þótt þeir hljóðuðu eins og hinir og hentu grjóti af mikilli snild, — en fargjald sleppa þeir við að greiða. En hvað þeir fá sem á árabátunum fóru og sem réru alt skinn af höndum sér, vitum vér ekki.

Ýmsar fleiri ráðstafanir höfum vér heyrt nefndar, svo sem að Sjúkrasamlagið ætti að fá 500 kr. og Sjúkraskýlissjóður hreppsins stóra upphæð; en hvort þetta er satt eða logið getum vér ekki sagt um, því þó einn af nefndarmönnunum hafi fullyrt það, þá hefir annar neitað því.
------------------------------------------------ 

Sóknarpresturinn hefir fest upp á götum bæjarins svohljóðandi auglýsingu: »Eftir ósk biskups og áskorun Synodusor, verður hér í kirkjunni eins og flestum öðrum kirkjum landsins haldin opinber guðsþjónusta á hádegi miðvikudaginn 31. þ. m. til minningar um siðabót Lúthers er byrjaði þann dag fyrir 400 árum

Er þess óskað að verzlunarbúðum sé lokað kl. 11 til 3 og frí gefið í skólanum þann dag.«
--------------------------------------------

Fram - 27. október 1917

Hve mikið allir háhyrningarnir gerðu að krónutali samtals, vita menn ekki, — og nefndin veit það naumast sjálf. — Hve mikið búið er að borga út í verkalaun, skotfæri, kaðla og hnífa o. fl. vita menn heldur ekki og ekki hve miklu nemur úthlutun sú sem getið var í síðasta blaði, til þeirra er hjálpuðust að, að koma háhyrningunum á land.

Einn sjöundi allra háhyrninganna fór til Reykjavíkur, en þaðan eru engin reikningsskil komin, og fullyrða kunnugir menn, að þaðan komi aldrei neitt eða mjög lítið, því mikið af kjöti og spiki hafi orðið þar ónýtt. Ennfremur mun talsvert óinnheimt hjá einstökum mönnum bæði hér og annarsstaðar. Verður ekki betur séð en þetta sé ódugnaður í hæðsta máta.

Því ekki ætti það að vera ofvaxið 9 mönnum, að innkalla ekki fleiri þúsund en þetta er, á 5 mánuðum. En um söluna til Reykjavíkur er það að segja að vér viljum ekki fyr en vér megum til, trúa því, að nefndin hafi sent háhyrningana og látið þá liggja í Reykjavík á sína ábyrgð. En hafi svo ekki verið, hafi nefndin selt vöruna hér, og sent hana á ábyrgð kaupanda, eins og alment er í viðskiftalífinu, þá getur ekki komið til mála annað en Reykvíkingar borgi fulla upphæð, enda þótt alt hefði orðið ónýtt.

Annaðhvort hefir nefndin því selt vöruna á þann klaufalegasta hátt sem hægt var, eða hún hefir sýnt af sér einstakt ósjálfstæði gagnvart Reykvíkingum, og er hvorutveggja óverjandi. Þá er það álit margra, og það mikils meirihluta manna, að nefndin sé komin útfyrir starfsvið sitt, þar sem hún er farin að taka áhvarðanir um endanleg afdrif peninganna. Segja, að hún hafi til þess eins verið kosin, að standa fyrir sölu á þessari himnagjöf, og koma henni í »afl þeirra hluta sem gjöra skal.«

Vér skulum að svo komnu máli engan dóm á það leggja, til hvers nefndin var kosin og til hvers ekki. Sjálfsagt þykist nefndin hafa óskerta heimild til fullnaðar ráðstöfunar peninganna, annars væri hún ekki farin að borga 200 kr. »premíu« til einstakra manna, eða 100 kr. verðlaun fyrir skot, eða leyft sér að fara í mál við Hafnarbændur á kostnað háhyrninganna.

En hvort sem fullnaðarráðstöfun peninganna er hlutv. þessarar nefndar, eða nýrrar nefndar, þá er óhætt að fullyrða að ráðstöfun þeirra peninga, sem komnir eru inn fyrir jafn óvænt og sjaldgæft happ, sem hver einstakur virðist með svo mikilli sanngirni geta tileinkað sjálfum sér jafnt og öðrum, verður ekki látin afskiftalaus af almenningi.
------------------------------------------------------ 

Skilsemi.

Í fyrra vetur í desembermánuði kom mótorbátur frá Akureyri, sem varð fyrir því óhappi, að missa útbyrðis nokkuð af flutning þeim er á þilfari var. Meðal annars, er þar fór í sjóinn var poki sem eg átti, var í honum um 30 pund af tólg, og ein útidyra skrá. Pokinn var merktur mér fullu nafni.

Eg gat ekki ímyndað mér annað, en poki þessi væri mér algjörlega tapaður og fékkst ekki mikið um, slíkt getur altaf komið fyrir; en nokkru eftir nyár fæ eg bréf frá Arna bónda Guðmundssyni í Vík á Skaga, um að hjá honum hafi rekið poka með tólg í, sem sé merktur mínu nafni, og sé því að líkindum mín eign, sé hann geymdur hjá sér, og verði það þar til eg vitji hans, eða geri aðrar ráðstafanir um hann.

Eg skrifaði manni þessum aftur, sem mér er að öllu ókunnugur, og bað hann, þar sem eg myndi ekki sjálfur verða með neitt skip þetta ár, og ætti því ekki leið þar vestur eftir, að reyna að koma pokanum til mín, annað hvort með því að koma honum til Sauðárkróks, og þaðan með ferð, eða á einhvern annan hátt. Leið svo tíminn, þar til í sumar að eg eitt sinn fæ boð frá skipstjóranutn á s.s. Maí um að eg eigi poka hjá honum, er þar þá tólgarpokinn kominn, með öllu innihaldi ósnertu, hafði finnandinn gert sér ferð með hann út í skipið, til þess að geta komið honum til mín.

Enginn reikningur eða skilaboð fylgdu með um borgun fyrir fyrirhöfn. Eg get ekki annað en dáðst að skilvísi þessa manns, er óvíst að margir hefðu gert sér far um að leita uppi eiganda að reka, er svo langt var að kominn og flestir myndu hafa að minsta kosti kosið sér ómakslaun fyrir. Eg skrifa þessar línur til þess, að votta bónda þessum þakklæti mitt fyrir skilsemi hans og fyrirhöfn alla, og til þess, að menn taki hann sér til fyrirmyndar undir líkum kringumstæðum. Siglufirði 20. okt. 1917. Jón Jóhannesson skipstjóri.  
-------------------------------------------------------

Á flestu má eitthvað græða.

Nú fyrir stuttu fékk Hvanneyrarhreppur, eða öllu heldur Siglufjörður 25 tonn af kolum, góðum enskum kolum, og þó þetta væri lítill skamtur í mörg eldstæði, mun þó brúnin hafa hækkað á mörgum þeim, sem kviðu fyrir vetrarkuldanum. Eftir töluvert mikil umsvif var afráðið annaðhvort af hreppsnefndinni eða Landsstjórninni — að selja kol þessi með mismunandi verði, ekki af því að kolin væru mismunandi góð, heldur af hinu, að mennirnir væru mismunandi efnum búnir til þess að kaupa þau og borga.

Petta var falllega hugsað. Ég, karlinn -;- einyrki — með 5 börn á pallinum, taldi "mér víst að fá kolin fyrir 135 kr. tonnið eða máske bara á 100 kr. og brýrnar flugu uppí hársrætur, og er það þó sjaldgæft.

En sú dýrð stóð ekki lengi; eg lét brýr síga, þegar eg sá að mér var ætlað að greiða 170 kr. fyrir tonnið, sama verð og efnuðustu menn þessa þorps. En bíddu við. Þarna er eg þá kominn í tölu bestu og efnuðustu manna þorpsins, það er þó dálítil bót í máli. En ef eg á að segja alveg satt, þá hefði eg heldur kosið að fá þessi kol nokkrum krónum ódýrari og eiga heldur auraráð til annara lífsnauðsynja, heldur en vaxa í augum almennings, nei ekki almennings vaxa í augum hreppsnefndarinnar, því fyrir þann vegsauka, vil eg lítið gefa. Mér leikur líka grunur á að þessi upphefð vari ekki lengi, líklega ekki lengur en á meðan eg er að kaupa og borga kolin.
Flóvent Jóhannsson.
--------------------------------------------- 

Færeysk uppgötvun. Sjómaður nokkur frá Kloksvík í Færeyjum hefir nýlega fundið aðferð til þess að brenna lýsi í stað olíu á mótorum. Nota nú flestir eða allir vélbátar Færeyinga lýsi. Mundu þeir eigi geta sótt sjó að öðrum kosti, vegna þess að enginn steinolía er til í eyjunum. Sami maður hefir fundið upp nýja lýsislampa, eða aðferð til þess að brenna lýsi í stað olíu á venjulegum steinolíulömpum. (Morgunbl.)
------------------------------------------

Auglýsing
Tíeyringa kaupir verzlun Friðb. Níelssonar.
---------------------------------------------------- 

Fram - 03. nóvember 1917

Hvalnefndin. III.

Vér höfum nýlega átt tal við einn af nefndarmönnunum — Flóvent Jóhannsson — um gjörðir hvalnefndarinnar. Staðfesti hann að mestu leyti frásögn vora um úthlutun til hinna einstöku manna, er þátt höfðu tekið í samanrekstri háhyrninganna, Ennfremur sagði hann, að búið væri að borga eigendum þeirra 2 mótorbáta sem úteftir fóru, 300 kr. hvorum í bátslán. Sjúkrasamlagið sagði hann að sig minti að ætti að fá 300 kr. en þorði þó ekki að fullyrða hvort það væri rétt, hvort það ætti að fá 300, 500 eða als ekkert.

(Til samanburðar má geta þess hér, að Þorst. Pétursson hefir sagt að það hafi verið samþykt og bókað, að samlagið fengi 500 kr., en Jón Guðmundsson segir að það hafi aldrei verið samþykt að samlagið fengi neitt.)

Vér spurðum hann um ýmislegt fleira, en hann vildi sem allra minst segja. Frá Reykjavík sagði hann að ekkert væri komið enn, en von um 1400 til 2000 kr. fljótlega, og er það þó vitanlega ekki helmingur þess er þangað fór. Engar upplýsingar gat hann gefið viðvíkjandi sölunni suður, eða með hvaða skilmálum varan hefði verið seld, sagði að séra Bjarni Þorsteinsson og Hjalti Jónsson hefðu staðið fyrir því, og að sér væri það atriði ókunnugt.

Ekki var Flóvent í neinum vafa um það, að nefndin hefði fult vald til allra ráðstafana viðvíkjandi háhyrningunum, jafnt síðast sem fyrst, og að ekki gæti því komið til mála að hún færi nokkurn tíma út fyrir starfsvið sitt.

Því, — hver á þessa peninga? — Er það almenningur, eða nefndin? Og þegar vér bentum honum á, að nefndin hefði þó verið kosin af almenningi, og á opinberum borgarafundi og það benti þó á að enginn einn maður, eða níu menn, væru eigendurnir, heldur allir, sagði hann að nefndin hefði als ekki verið kosin, það væri nú það fína við það. — Svona sagðist honum frá, og þegar vér skyldum við hann, var sigurbros á vörum hans.
-------------------------------------------

Eins og sagt var frá hér í blaðinu í vor, var boðað til almenns fundar strax eftir að háhyrningarnir voru komnir á land. Var fundarstj. valinn séra Bjarni Þorsteinsson. Var þvínæst rætt um fyrst og fremst hvernig ætti að koma öllum þessum ósköpum í peninga, og svo hvaða verði ætti að selja það sem selt yrði.

Þá var og lítillega minst á hvað gera ætti við peningana, og hver eiginlega ætti þá; en af umræðunum yfirleitt var ekki annað að heyra en það mál væri ekki hér til umræðu, heldur aðeins það, hvernig koma mætti hvölunum í peninga, og það sem fyrst. Stungið var upp á að kjósa 9 manna nefnd, og bar fundarstjóri þá uppástungu upp til atkvæða, og var hún samþ. Þá var stungið upp á að nefndin skyldi ekki kosin, heldur tilnefndi einhver fyrst einn, og svo _sá tilnefndi annan og svo koll af kolli uns komnir voru níu. —

Var þá beðið um að bera þessa nýju útnefningaraðferð undir samþykki fundarins, en því neitaði fundarstjóri. Nefndin var svo tilnefnd á þennan hátt og fundi slitið. Það verður ekki séð, hvað vakað hefir fyrir uppástungumanni þessarar nýju útnefningaraðferðar, og ekki verður heldur séð, hvað vakað hefir fyrir fundarstjóra, er hann synjaði um að bera aðferðina upp til atkvæða.

En undarlega lætur það í eyrum manna, þegar nefndin sjálf fer að hælast um yfir því, að hún hafi ekki verið kosin á fundinum, og að almenningur eigi engan þátt í tilveru hennar. Lítur það nærri því þannig út, sem nefndin þykist sjálf alt eiga og að hún hafi tilnefnt sig sjálf, og engum komi gjörðir hennar við. —

Það er líklega synd að, álíta að útnefningaraðferðin hafi verið viðhöfð að yfirlögðu ráði, til þess að geta tekið öll fjárforráðin í sínar hendur, og sagt svo á eftir — »við kusum okkur sjálfir og ráðum því öllu sjálfir; engum kemur þetta við nema okkur sjálfum.« — En það er auðvitað synd og þess vegna ætlum vér ekki að álíta að svo hafi verið. —

En, hversvegna var fundurinn boðaður í vor? Þetta er því miður alt sem vér getum sagt um nefndina að sinni, en það er eins og vér tókum fram í upphafi, bæði fátt og lítið. Alla þá, sem átt hafa von á mikilvægum upplýsingum frá oss, verðum vér að biðja afsökunar á vonbrigðunum. En jafnskjótt sem vér verðum einhvers vísari, er málið skiftir, munum vér leitast við að segja sem sannast og nákvæmast frá því.
------------------------------------------------ 

Fram - 10. nóvember 1917

Þá höfum við það !  „Vísindi“ í vikublaðinu FRAM árið 1917

Hvernig lokar þú hurðum? (10 boðorð ?)
Það er sagt, að hægt sé að dæma um lyndis einkunni manna eftir handskrift þeirra, og ýmsu þess háttar; þetta getur vel verið, en í daglegu lífi er margt smávegis, sem hægra er að fara eftir, ef vita skal um náungans innri mann.
Tökum eftir hvernig menn loka á eftir sér hurðum.
1) Sá ónærgætni hrindir hurðum aftur með óvarkárni svo hávaði verður af,
2) Sá bráðlyndi skellir þeim á eftir sér svo brakar í.
3) Sá forvitni læðir hurðum opnum, og lokar þeim eins, til þess sem minnst beri á um ferð hans, ef ske kynni að hann gæti heyrt eitthvað af því sem talað er í kringum hann.
4) Óreglusamur maður gleymir að loka hurðunum, og sá skeytingarlausi gerir það svo illa, að þær lokast ekki.
5) Sá sem altaf þykist eiga annríkt, þó ástæðulaust sé, hrindir með olnboganum á hurðirnar
6) Letinginn rekur í þær fótinn.
7) Sá hrokafulli opnar hurðina svo mikið sem hægt er þegar hann gengur um,
8) Sá óframfærni smeygir sér um sem minnsta rifu.
9) Menn með sterkan viljakraft ganga um hurðir ákveðnir og örugglega,
10 Sá góðhjartaðir menn, sem taka tillit til annara, loka þeim hægt og umhyggjusamlega.
---------------------------------------------- 

Fram - 17. nóvember 1917

Ráðlegging.

Af því eg er staddur hér í Siglufirði og hefi heyrt fólk kvarta yfir dýrtíðinni og vöruverði í verzlunum hér, þá datt mér í hug hvort ekki mundi borga sig betur að fara til Haganesvíkur og kaupa nauðsynjar sínar þar, hjá hinum sameinuðu ísl. verslunum.

Til leiðbeiningar skal eg setja hér verð á ýmsum vörutegundum þar, svo sem: Steinolía 1,00 kg. Flourmjöl 1,10 kg., Haframjöl 1,10 kg., Export 2,60 kg., Kaffi 3,20 kg. og verð á öðrum vörum eftir þessu. Mér þykir nú líklegt að menn fari ekki að gera kaup sín annarsstaðar en í Haganesvík, eftir að þeir frétta um þetta gæðaverð. Þar bætir líka upp verslunina hve fljót og góð afgreiðslan er.
Árni.
------------------------------------------------- 
Atvinna. Það hefir orðið að samkomulagi milli hreppsnefndar og hafnarnefndar, að hreppsnefndin láti rífa skipið »Alfred Gibbs« sem liggur hér á leirunni. Þá hefir hreppsnefndin ákveðið að láta taka upp grjót upp í fjalli og aka því hér niður á eyrina. Láta moka göturnar í vetur og ýmislegt fleira, sem alt er gert í því skyni að veita mönnum atvinnu.
------------------------------------------------

Fram - 15. desember 1917

Hafnarbryggjan.

Þá er nú þetta stórmál okkar það á veg komið, að ákveðið hefir verið fyrir fult og fast hvar hafnarbryggjan skuli bygð, n. 1. fyrir utan Söbstað. Hafa hafnarnefnd og hreppsnefnd til þess keypt ca. 150 álna breiða spildu af Söbstað, er nær frá ytri takmörkum lóðar hans og suður á syðri kant á ysta síldarpalli hans, fyrir 15 þús. kr., gegn því þó að nota það ekki til annars en hafnarbryggjubyggingar.

Mjög eru skiftar skoðanir manna á því, hve heppilegur staður þessi sé, enda rétt marðist það í gegn í hreppsnefndinni að kaupa þessa lóð. í þetta sinn verður það þó ekki gert að umræðuefni hér, en máske athugað við tækifæri síðar. í ráði er að fá verkfræðing hingað með vorinu, til þess að gera frekari áætlanir og uppdrætti af bryggjunni, en þegar hafa verið gjörðir, svo hægt verði að byrja á verkinu strax að stríðinu loknu.