Guðmundur Kristjánsson - Guðmundur góði
Morgunblaðið - 21. október 1994
Guðmundur Kristjánsson var fæddur
á Gíslabæ á Snæfellsnesi 18. júlí 1902. Hann lést á Siglufirði 10. október 1994.
Foreldrar hans voru Kristján Kristjánsson bátasmiður og Helga Ingibjörg
Helgadóttir. Móður sína missti hann ungur.
Átti hann einn albróður, Helgi Kristjánsson vélstjóra.
Faðir hans kvæntist aftur og eru hálfsystkini hans
- Jóhanna,
- Oliver og
- Magnús.
Guðmundur Krstjánsson stundaði sjómennsku á unga aldri, nam síðar málmsmíði og rak vélaverkstæði á Siglufirði í áratugi. Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag.
GUÐMUNDUR Kristjánsson, eldsmiður og hugsjónamaður, er látinn níutíu og tveggja ára gamall. Guðmundur vandist ungur smíðum og fiskveiðum hjá afa sínum og ömmu í Skógarnesi á Snæfellsnesi enda var hann af miklum hagleiksmönnum og sjósóknurum kominn. Flestir hlutir voru smíðaðir heima fyrir, bæði úr tré og járni, og notaði Guðmundur t.d. fram á síðustu ár nokkur verkfæri sem hann smíðaði sér í æsku.
Frá tíu ára aldri og fram yfir tvítugt stundaði hann sjóróðra á seglbátum frá Snæfellsnesi. Síðar var hann við fiskveiðar á Selvogsbanka á vetrum og síldveiðar fyrir Norðurlandi á sumrum. Á Siglufirði settist Guðmundur svo að upp úr 1930, var mótoristi á síldarbátum og stofnsetti eigin vélsmiðju skömmu fyrir 1940 og rak hana í 40 ár. í smiðjunni vann hann með starfsmönnum sínum við viðgerðir á vélum og tækjum og smíðaði margs konar verkfæri, svo sem járnkarla, kúbein, axir, dixla sem hann seldi víða um land.
Að vinnu sinni gekk Guðmundur með hugarró og nákvæmni hagleiksmannsins eins og öll verk hans báru merki um. Hugur þessa manns, sem mótaði glóandi málma með sleggju sinni, var ákaflega næmur fyrir hinu smáa og fíngerða í tilverunni. Ekki er ólíklegt að sár móðurmissir í bernsku hafi gert skynjunina næmari en ella fyrir fegurð og leyndardómum náttúrunnar og í samræmi við það stóð skilningur Guðmundar opinn fyrir austrænum dulvísindum sem hann kynntist ungur.
Lífssýn hans og heimspeki var miðuð við þær víðáttur sem guðspekistefnan lauk upp fyrir þeim sem henni vildi kynnast. Þannig fór Guðmundur lítt troðnar slóðir í fleiri greinum. Hann gerðist ötull fylgismaður náttúrulækningastefnunnar, valdi sér fæðu í anda hennar og studdi Náttúrulækningafélagið með ráðum og dáð. Guðspekifélag Íslands naut einnig gjafmildi Guðmundar en samúðin og örlætið beindist fyrst og fremst að fátækum og sjúkum á Indlandi. í þeim efnum var Guðmundur lengi traustur samverkamaður Móður Teresu og Þóru Einarsdóttur.
Mörg Önnur málefni styrkti Guðmundur á langri leið. Löngu áður en það fór að tíðkast almennt í hinum vestrænu samfélögum að gefa gaum að mengun og náttúruspjöllum barðist Guðmundur gegn eitrun andrúmsloftsins með skrifum í siglfirsk blöð. Kannski var hann litinn hornauga af sumum samferðamönnum sínum fyrir tiltækið rétt eins og fyrir „sérviskulegt" mataræðið. Nú eru mörg ár liðin og líffræðingar og læknavísindin hafa kveðið upp úr með það hvernig mönnum er hollast að breyta og hvað að borða.
Eftir að störfum lauk í eldsmiðjunni í vélaverkstæðinu flutti Guðmundur öll smærri verkefnin í kjallarann á íbúðarhúsi sínu í Grundargötu. Þar vann rennismiðurinn gamli margs konar muni úr tré og málmi sem hann seldi síðan í þágu hjálparstarfsins á Indlandi. Einnig málaði hann myndir og skrifaði smásögur sem hinir hrjáðu og smáðu nutu góðs af.
Í þessum verkum birti Guðmundur okkur fagrar og barnslegar hugsýnir sínar. Myndirnar eru ýmist af fiskimiðum ungdómsáranna eða af fjöllum frá innlöndum málarans. Skútu- og skipamálverkin eru nánast sagnfræðilegar lýsingar á sjósókn og siglingum í sólskini og góðum byr á himinbláu hafi og sagt er að sjálfur meistari skútumyndanna, Kjarval, hafi hrifist af nákvæmni og einlægri sjón Guðmundar í Selvogsbankamynd frá 1932.
Nú er þessi aldni stuðningsmaður Lífsins fallinn frá. Hann batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir, en átti því láni að fagna að sjá iðju sína bera ávöxt og njóta velvildar og hlýhugar margra vina og kunningja.
Örlygur Kristfinnson.
------------------------------------
Gamall nágranni og vinur hefur nú kvatt þetta líf. Hver minningin á fætur annarri kemur ljóslifandi upp í hugann. Ég sit inni í stofu fyrir norðan. Út um gluggann sést yfir í næsta garð. Í þessum garði vaxa hvönn og fífill óáreitt og færa eigenda sínum ómælda gleði. Sunnan við skúrinn eru kartöflugrös í örum vexti og skarfakál í fjörusandi sem fær sína réttu vökvun á hverjum degi. Einhvers staðar nálægur var Guðmundur, oftast við einhver verk, kannski að dytta að húsinu sínu eða bara sitjandi upp við húsvegg að láta sólina verma sig. Guðmundur var einsetumaður og fór sína eigin leiðir í mataræði og öðrum lifnaðarháttum.
Hann bakaði sitt eigið brauð, orkuríkt og nærandi, og jurtafæði var á borðum hans því að hann vildi þyrma lífi saklausra dýra. Umhyggju Guðmundar fyrir lífinu var engin takmörk sett. Hann fann til með þeim sem minna máttu sín og sat ekki hjá eins og við hin, heldur rétti fram hjálparhönd. Hann átti það eitt markmið þau ár sem ég þekkti hann að bæta líf bágstaddra í heiminum.
Að þessu markmiði vann hann með starfi sínu sem listamaður. Hann málaði myndir, samdi sögur og renndi ýmsa muni úr tré. Alla hluti vann hann af einlægni og með fegurðina að leiðarljósi og í hvert sinn sem verk seldist vænkaðist hagur einhvers barns úti í hinum stóra heimi. Nú þegar ég kveð Guðmund Kristjánsson er mér efst í huga innilegt þakklæti fyrir að hafa fengið að vera honum samferða nokkurn spöl.
Guðný.
-----------------------------
Fátækleg orð segja lítið um það þakklæti, sem ég óska að koma á framfæri til vinar míns Guðmundar Kristjánssonar, vélsmiðs frá Siglufirði, sem er látinn eftir langa vanheilsu. Eftir margra ára höfðinglegan styrk til Indversku barnahjálparinnar er mér þó á þessari stundu efst í huga það hugarfar, sem að baki bjó gjöfinni og traust, sem hann sýndi nefndinni sem kom róti á hugann og kallaði fram hvort tveggja gleði og sekt og tilfinningu fyrir þeirri ábyrgð, sem gjöfunum fylgdi.
Á tímum þegar einstaklingurinn er metinn eftir stöðu, fjármunum eða því sem mestu máli virðist skipta var í huga hins látna vinar annað viðhorf. „Ábyrgðartilfinningin er undirstaða siðmenningarinnar. Réttlætið er helgidómur lífsins. Stjörnurnar eru draumar Guðs, en kærleikurinn er stórveldi allra stórvelda." Guðmundur Kristjánsson var ekki maður hávaðans, en gæddur heitum tilfinningum og heitu hjarta. Gott var að mæta honum á „veginum", handtakið þétt, ylur í augum og festa í svip, vörður vina sinna og tryggur í lund. Hvar sem göfug sál nemur land er gott að dvelja.
Sagt er að dauðinn sé öllum líkn sem lifa vel. Við sem eftir lifum samfögnum við sólrás þess lífs, sem leysir fjötur af fæti. Guðmundur fórnaði öllu sínu lífi fyrir bágstadda. Öllu starfi fylgir þó nokkur fórn eins og skáldið okkar góða, Einar Benediktsson, orðaði það: „Þitt verðmæti gegnum lífið er fórnin." Annar vitur maður sagði: „Fórn og þjónustan er manninum tímanleg og varanleg." Eitt sinn heyrði ég ræðumann gefa eftirfarandi heilræði: „Teldu aldrei mínúturnar, sem þú vinnur, gerðu ávallt eitthvað sem þú tekur ekki peninga fyrir né metur til fjár. Með öðrum orðum: gefðu eitthvað af sjálfum þér." Þannig og aðeins þannig verða menn ríkir að þeim auðæfum sem ein hafa nokkurt gildi.
Guðmundur Kristjánsson var ríkur maður. Hann var hagur, líklega á allt sem hann lagði fyrir sig. Hann var mjög góður málari, málaði fjölda mynda, sem hann seldi til gjafar fátækum. Hann var mikill náttúruunnandi og beitti sér fyrir mörgu sem snerti þau málefni. Menn eru sjaldan lofaðir að óþörfu, en Guðmundur var lofaður og virtur af öllum, sem til hans þekktu og meðal fólks kallaður „Guðmundur góði"! Ekki eingöngu vegna jarðneskra úthluta heldur vegna hugarfars síns og hjartagæsku sem hann miðlaði af hvert sem hann fór.
Hann var guðspekingur og lifði samkvæmt þeirri hugsun einföldu lífi í ætt við heiðríkjuna og fjöllin að mæta hverri stund lífsins eins og hún er. Innilegar þakkir færi ég þér að lokum. Megi birta lífs þíns, sem þú hefur áunnið þér með elskusemi og fórnfýsi, fylgja þér næsta tilverustig.
- Síst vil ég tala um svefn við þig.
- Þreyttum anda er hægt að blunda,
- og þannig bíða sælla funda.
- Það kemur ekki mál við mig.
- Flýt þér vinur í fegra heim.
- Krjúptu að fótum friðarbogans og
- fljúgðu á vængjum morgunroðans
- meira að starfa guðs um geim.
(J.H.)
Fyrir hönd Indversku barnahjálparinnar.
Þóra Einarsdóttir.
-----------------------------------------------------------------
Kveðjuorð frá Náttúrulækningafélagi Akureyrar.
Kynni Náttúrulækningafélags Akureyrar
og Guðmundar stóðu aðeins yfir í fá en einstök ár. Þau hófust með því að góður vinur hans hér á Akureyri færði félaginu þau boð
að Guðmundur vildi leggja fram eina og hálfa miljón til ákveðins verkefnis í Kjarnalundi. Síðar bætti hann enn um betur og færði Náttúrulækningafélaginu erfðaskrá
þar sem hann arfleiddi það að nær öllum eigum sínum.
Við þessari einstöku vináttu og rausn gat félagið aðeins brugðist með þeim hætti að útnefna hann heiðursfélaga sinn. Guðmundur var á Siglufirði jafnan nefndur „Guðmundur góði", enda fóru góðverk hans víða innanlands sem utan.
Á Indlandi var hann í sambandi
við „Móður Theresu" og studdi hennar merka starf fyrir fátæk börn með ómældum framlögum.
Náttúrulækningafélag Akureyrar kveður nú þennan velgjörðarmann
sinn með virðingu og miklu þakklæti og biður honum blessunar á Guðs vegum.
Jón Kristinsson.
-----------------------------------------------
Þær fréttir bárust okkur
suður yfir fjöll að Guðmundur „góði" Kristjánsson frá Siglufirði, sem Grétar Fells nefndi eitt sinn Leynijógann, hefði kvatt þetta tilverusvið hinn 10. október og haldið
sem leið liggur til friðsamari lendna.
Undirritaður átti því láni að fagna að kynnast Guðmundi lítillega fyrir um tuttugu árum, en þá gerði hann sér stöku
sinnum ferð inn á Akureyri til að vera með okkur guðspekifélögum á fundum þar. Ég man vel að Guðmundi fylgdi kyrrð og birta þess hjartalags, sem hann var jafnan þekktur af.
En það er í nafni íslandsdeildar Guðspekifélagsins og sérstaklega fyrir hönd þeirra félaga, sem samleið áttu með honum, að ég vil nú færa honum sérstakar þakkir, kveðjur og góðar óskir á vegferðinni miklu. Guðmundur var fæddur 18. júlí 1902 og hafði því liðlega tvö ár um nírætt er hann kvaddi þennan heim. Hann gekk ungur í Guðspekifélagið og það kom fljótlega í ljós hvað hinn hagsýni völundur hafði þar til málanna að leggja. Segja má að hann hafi tekið þar upp þráðinn við að sjá um að umgjörð félagsins væri í hinu stakasta lagi, þegar Lúðvígs Kaaber naut ekki lengur við. Því jafn mikilvægar og hugsjónir félagsins eru gagna þær lítt ef þ ær standa ekki á traustum veraldlegum grunni.
Guðmundur gaf ekki einvörðungu háar fjárhæðir og hagnýta hluti, heldur starf sitt og líf, ljúft viðmót og gott hjartalag, svo aðrir mættu njóta. Félaginu gaf hann látlaust af auðlegð þeirri sem líf hans var og eftir situr digur Menningar- og fræðslusjóður þess. En góðsemi Guðmundar náði ekki einvörðungu til Guðspekifélagsins. Hún flæddi yfir heiminn, kannski fyrst og fremst á vængjum andans, en einnig í formi kærleiksríkra gjafa til góðra málefna. Þannig mun hann hafa styrkt vel hjálparstarf á Indlandi og víðar.
Líf hans var ein samfelld gjöf. Við sem eftir sitjum ættum að minnast þess sannleika,
að hið eina sem hæg t er að hafa með sér yfir móðuna miklu, er það sem við sjálf gefum í þessu lífi. Þar fer því sannkallaður auðjöfur.
Einar Aðalsteinsson, deildarforseti Guðspekifélagsins.