Víglundur Jónsson

Víglundur Jónsson, Túngötu 24, andaðist aðfaranótt þess 27. des. 1947,  67 ára að aldri, f. 20 ágúst 1880 -

Víglundur heitinn var einn af beztu og traustustu meðlimum Verkamannafélagsins Þróttar og boðin og búin til að vinna þau störf, sem honum voru falin að inna af hendi í þágu stéttarsamtaka verkalýðsins. Hann var um nokkur ár húsvörður Alþýðuhússins og leysti það starf af hendi með hinni mestu prýði og samvizkusemi.

Mörg önnur störf voru Víglundi falin af verkalýðs hreyfingunni, meðal annars kosinn fulltrúi á ráðstefnur og þing verkalýðsins, enda naut hann mikils trausts félaga sinna. Víglundur var um mörg ár hringjari Siglufjarðarkirkju. — Bókband stundaði hann um mörg ár, aðallega á vetrum og á sumrin vann Víglundur aðallega sem beykir.

Við fráfall Víglundar Jónssonar á verkalýðshreyfingin á Siglufirði á bak að sjá einum af sínum beztu mönnum. Við Þróttar-félagar á Siglufirði þökkum Víglundi hin ágætu störf hans í þágu siglfirzkrar verkalýðshreyfingar og það verður með söknuði í hjarta sem við kveðjum hann nú hinztu kveðju.

Víglundur heitinn var giftur hinni ágætustu konu, Maríu Jóhannsdóttir er lifir mann sinn og á nú á bak að sjá hinum góða eiginmanni. —

Þau hjón eignuðust 4 drengi og eru tveir þeirra á lífi og búsettir hér í bænum.

Allir, sem þekktu Víglund heitinn Jónsson munu minnast hans sem hins mesta drengskaparmanns og hins ágætasta félaga.

G. Jóh.
-------------------------------------------------------

Börn þeirra Víglundar Jónssonar og Maríu Jóhannsdóttur,  fædd 26.12.1882 eru:  

  • Jóhann Anton Víglundsson f. 13.12.1908 d. 08.07.1986
  • Hilmar Víglundsson 13.06.1912
  • Garðar Víglundsson 31.10.1915
  • Jón Stefán Víglundsson 28.12.1918

 Heimild: Espolin ættfræðirforritið - ábend; Már Jóhannsson