Jóna Jakobína Þorgeirsdóttir (Bína)

Jakobína Þorgeirsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Mbl.is  12. apríl 2014 | Minningargreinar

Jakobína Þorgeirsdóttir fæddist 30. október 1933. Hún lést 5. apríl 2014.

Foreldrar hennar voru Þorgeir Bjarnason og Ágústa Guðmundsdóttir. Jóna Jakobína var elst fimm systkina, hin eru Þórunn Freyja, Bjarni, Kristín og Guðmundur.

Jóna Jakobína giftist 7. maí 1955 Reyni Árnasyni, sem lést 2007.
Þau eignuðust tvö börn:

 • 1) Þorgeir, áður giftur Sóleyju Sigurðardóttur,
  börn þeirra eru:
  • Atli,
  • Jóna Jakobína og
  • Guðmundur. 

 • 2) Guðrún, gift Jóhannesi I. Lárussyni,
  börn þeirra eru:
  • Guðlaug,
  • Þórunn,
  • Reynir, Lárus,
  • Rebekka og
  • Aron.

Langömmubörnin eru átta.

Jóna Jakobína og Reynir voru búsett á Siglufirði allan sinn búskap. Hún vann til starfsloka á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.

Útför Jónu Jakobínu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 12. apríl 2014, kl. 14.

Elsku Bína mín, mig langar að minnast þín með fáum orðum.

Fyrir 40 árum kynntist ég syni þínum honum Þorgeiri og við hófum sambúð. Þú tókst mér opnum örmum og bauðst mig velkomna í fjölskylduna þína. En þó að aðstæður okkar breyttust breyttist ekki okkar vinátta. Varst þú mér ómetanleg aðstoð þegar við fluttum til Siglufjarðar. Þú varst alltaf til staðar ef ég þurfti að leita til þín og alltaf var mjög stutt í grínið og hnitmiðuðu setningarnar þínar sem komu öllum í gott skap. Að vera fúll eða reiður við þig var alveg ómögulegt.

Þú gast alltaf talað þig skemmtilega frá hlutunum og áttir alltaf síðasta orðið, sama hvað við hin reyndum að gera þig kjaftstopp, það var bara ekki hægt. Allt sem þú sagðir frá sagðir þú á svo skemmtilegan hátt og hefur mikið verið hlegið og gert grín í kringum þig. Þú varst hrókur alls fagnaðar hvar sem var, á mannamótum, heima eða í vinnu.

Lengst bjugguð þið Reynir á Hvanneyrarbrautinni og var alltaf opið hús hjá ykkur, hvort sem þið voruð heima eða ekki, og gátu krakkarnir alltaf komið við hjá ykkur, hvort sem það var til að biðja afa að keyra sig heim eða fá ástarpunga hjá þér. Ástarpungarnir þínir voru þeir bestu sem fyrirfinnast og reyndir þú alltaf að eiga þá til en það var ekki auðvelt því þeir voru borðaðir svo fljótt upp. Veit ég ekki hvort ég á að minnast á það þegar þú litaðir mig í fyrsta sinn og sjokkið sem ég og þú líka fengum. Það er bara eitthvað sem þú og ég skiljum og gátum við hlegið að alla tíð síðan og getum enn, þú myndir hlæja núna ef þú læsir þetta.

Eru stundirnar sem við áttum saman ótalmargar og mikið að segja frá sem yrði of langt mál hér. En eitt er víst, að hafa þekkt þig hefur gert líf mitt ríkara. Komið er að leiðarlokum Bína mín og langar mig að þakka þér fyrir allar stundirnar sem við höfum átt saman og það sem þú hefur verið fyrir mig og mín börn.

Elsku Þorgeir, Guðrún og fjölskyldur, sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur, er hjá ykkur í huganum.

Kveðja, Sóley.
-------------------------------------------------------

Elsku amma, það hefur aldrei verið auðvelt að búa svona langt í burtu frá þér, en við erum þakklát fyrir allan þann tíma sem við höfum fengið.

Þið afi veittuð okkur margar og góðar minningar. Allar útilegurnar, ættarmótin, veiðiferðirnar og þegar þú kenndir okkur á gönguskíði. Það var einnig alltaf skemmtilegt þegar við komum í heimsókn til þín í vinnuna á sjúkrahúsinu á Sigló, þar sem þú kynntir okkur fyrir öllum. Já, með þér voru gleðistundirnar margar. Og kímnigáfa þín var yndisleg, hnyttnar athugasemdir virtust koma á færibandi og við hlógum oft saman. 

Þú komst oft í heimsókn til Noregs, en þér þótti afskaplega vænt um að vera heima líka. Við erum þess vegna þakklát fyrir alla þá ást og umhyggju sem þú hefur fengið frá fjölskyldu og vinum á Siglufirði. Takk fyrir að passa ömmu okkar.

Elsku amma, það er sárt að hugsa til þess að kveðja, en við þökkum fyrir allan þann tíma sem við fengum með þér, fyrir væntumþykjuna og ástúðina. Við varðveitum allar minningarnar í hjörtum okkar. Við elskum þig og söknum þín.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér,
 • og það er svo margs að minnast
 • svo margt sem um hug minn fer,

 • þó þú sért horfinn úr heimi
 • ég hitti þig ekki um hríð,
 • þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guðlaug, Þórunn, Reynir, Lárus, Rebekka, Aron og fjölskyldur.
----------------------------------------------------------------------------

Kær mágkona mín og vinkona, hún Bína, er látin. Mér er ljúft að minnast hennar með þakklæti fyrir öll okkar ár og samverustundir. Enda var hún eiginkona Reynis bróður míns í meira en 50 ár. Og húmorinn og léttleikinn aldrei langt undan hjá þeim.

Aðeins í eitt skipti á ævi minni varð ég reið við hana. Það var þegar mér fannst hún hafa tekið bróður minn frá mér og ég grét fögrum tárum þegar hann flutti dótið sitt að heiman. En við höfum átt margar skemmtilegar stundir saman þar sem húmorinn var ofarlega og synir mínir elskuðu stundirnar með þeim bæði á Sigló og eins þegar þau skruppu suður. Alltaf var tekið vel á móti þeim með kjötsúpu þegar þau höfðu keyrt alla leið frá Sigló til Njarðvíkur og við alltaf velkomin norður.

Ég minnist þeirrar stundar þegar Þorgeir kom í heiminn, þá var ég tólf ára. Og sat ég með Reyni bróður mínum frammi í eldhúsi –því að þá var sá tími að fætt var í heimahúsum og hann mátti ekki vera viðstaddur fæðinguna, eingöngu ljósmóðirin og ömmurnar.

Og andartakið þegar við heyrðum barnsgrátinn –var Reynir orðinn „faðir“ það var mikil gleði. Einnig þegar Bína varð barnshafandi í annað sinn og þau komu í heimsókn til okkar mömmu, þá strauk Reynir yfir bumbuna og sagði „þetta er Guðrún“. Og það varð.

Reynir fór í Iðnskólann eftir að þau fóru að búa og þá þurftu þau að hafa fyrir hlutunum. Eldaður grjónagrautur –næsti dagur upphitaður og þriðji dagur voru búnar til lummur.

En svona má láta hugann reika og rifja upp. Við tvær fórum saman í eina ógleymanlega utanlandsferð í tilefni afmælis hennar. Elsku Bína –takk fyrir samveruna. Nú ertu komin til Reynis og þið getið farið saman í sólarlandaferðina.

Innileg samúð til ykkar elsku Þorgeir og Guðrún og til fjölskyldna ykkar.

Og vegna þess að ég hef búið núna á Siglufirði í rúmt ár, hefur mér áskotnast að vera samvistum við Bínu og Guðmund bróður minn í þeirra veikindum.

Kveðja frá sonum mínum og okkur Stefáni

Brynja Árnadóttir.
----------------------------------------------------------------------

Elsku besta vinkona Bína, það er alltaf erfitt að kveðja góðan vin, en þá er gott að minnast allra góðu samverustundanna í leik og starfi. Við Bína störfuðum saman í tæpa fjóra áratugi. Fyrir utan að starfa saman, gerðum við margt skemmtilegt, eins og að fara á gönguskíði. Við fórum í marga leiðangra yfir fjöll og firnindi, einnig fjöldann allan af skemmtiferðunum, bæði innanlands sem og utanlands.

Uppúr stendur ferðin til Búdapest, sem að farið var í þegar Bína varð sjötug. Á sjálfan afmælisdaginn var tekið á móti okkur á veitingastað í Pest eins og við værum konungsbornar, með rauðum dregli og dýrindis veigum. Þá skemmti Bína sér eins og henni var einni lagið.

Bína hafði að mínu mati gríðarlega eftirsóknarverða mannkosti. Hún var glaðlynd, trygglynd, vinsæl, mikill gleðigjafi og sérlegur vinur vina sinna. Húmorinn hjá henni var með einsdæmum. Að auki var hún sérstaklega orðheppin og eldsnögg að svara fyrir sig ef svo bar undir og hitti mjög oft beint í mark.

Bína veigraði sér varla undan nokkru og oftast til í að reyna nýja hluti. Jóga var þó eitthvað sem að hún var ekki reiðubúin að prófa, enda fannst henni hún ekki þurfa að læra að anda. Hún var mjög söngelsk og söng í fjölda kóra, nú síðast í kór eldri borgara Fjallabyggðar, þar sem kórstjórinn kallaði hana oft á tíðum söngdívu, en af mikilli virðingu þó.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér,
 • og það er svo margs að minnast
 • svo margt sem um hug minn fer,

 • þó þú sért horfinn úr heimi
 • ég hitti þig ekki um hríð,
 • þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég minnist Bínu með mikli eftirsjá og söknuði. Gullvagninn bíður eftir þér í sumarlandinu. Guð styrki og umvefji ykkur sínum kærleika. Samúðarkveðjur til Guðrúnar, Þorgeirs og fjölskyldna.

Björg Sæby Friðriksdóttir.
-----------------------------------------------------------

Kæra vinkona og skólasystir.

Það smá saxast úr hópnum okkar úr árgangi 1933 frá Sigló. En eftir eru kærar minningar. Ég kynntist þér hjá fröken Láru þar sem við fengum okkar fyrstu barnakennslu, ég kom ofan af brekku en þú af eyrinni. Þarna byrjaði vinátta okkar. Við fylgdumst að í skóla þar til barnabasl og vinna tók við.

Við bjuggum nokkur ár hlið við hlið á brekkunni og þar léku börnin okkar, Þorgeir og Þórður sér saman og Guðrún og Lísa. Lífið var svo einfalt í gamla daga, börnin léku sér á götunni og á túnunum í fjallinu,. Fáir bílar á ferð. Á veturna var farið á skíði, grafin snjóhús og rennt sér á sleðum.

Þarna kenndu þið Reynir okkur Ragga að spila brids á dimmum vetrarkvöldum, það tók nú heilan vetur, þar til við urðum forfallin og spiluðum hverja stund sem gafst.

Árið 1963 eignuðumst við Raggi okkar fyrsta bíl.

Við fjögur fórum í dásamlegt ferðalag með eitt tjald. Skoðuðum Vaglaskóg og síðan lá leiðin til Mývatns, fórum í Dimmuborgir, fengum lánaðan bát og rérum út í Slútnes. Við böðuðum okkur í Grjótagjá, sváfum í tjaldinu í tveggja stiga frosti (17. júní) og ókum síðan að Jökulsá á Fjöllum, skoðuðum Dettifoss, Selfoss Hafragilsfoss og Vígabergsfoss.

Tjölduðum í Forvöðunum næstu nótt og vöknuðum þar næsta morgun í 27 stiga hita. Sóluðum okkur og skaðbrunnum og klifum Vígabergið. Næst lá leiðin í Ásbyrgi, og Hljóðakletta. Þar tjölduðum við í rjóðri við fjallalæk. Þarna vorum við ein í heiminum. Þetta var okkar fyrsta ferðalag, og gleymist aldrei.

Við vorum saman í saumaklúbb sem oft stóð fram á nætur, urðum bara að komast heim áður en mennirnir okkar fóru í vinnu. Þessi hópur skemmti sér saman á árshátíðum og þorrablótum. Mennirnir okkar voru í karlakórnum Vísi og með þeim fórum við í kórferðalag. Kórinn söng á Akureyri, Akranesi, Reykjavík og í kirkjunni á Eyrarbakka og þar var okkur boðið á bernskuheimili söngstjórans, Hauks Guðlaugssonar, var mjög gaman.

Svo skyldu leiðir, nokkrar úr klúbbnum fluttu suður og héldu hópinn, en þið Reynir voruð áfram á Sigló og alltaf þegar við Raggi komum norður heimsóttum við ykkur og gistum oft. Okkur var alltaf tekið opnum örmum og rifjuðum upp gamlar og góðar stundir og það var alltaf svo gaman hjá okkur og mikið hlegið og sungið.

Árið 1988 hittumst við skólasystkinin á Sigló og dvöldum saman eina langa helgi á Hóli. Það var dásamlegt, eins og við hefðum aðeins skroppið út í frímínútur. Öll föðmuðumst við og kysstust og skemmtum okkur konunglega. Við færðum bænum okkar, Siglufirði hringsjá að gjöf og er hún stað sett á Álfhóli.

Bína mín, ég held þú hafir farið í gegnum lífið á þinni léttu lund. Þið Reynir voruð óaðskiljanleg. Þið eignuðust tvö börn sem hafa reynst ykkur vel og gefið ykkur barnabörn og barnabarnabörn sem eru gimsteinar ykkar og gleðigjafar. Ég veit að síðasti mánuður þinn hér á jörðu var þeim Guðrúnu og Þorgeiri ómetanlegur og dýrmætur.

Elsku vinkona, berðu kveðju mína til Reynis og Ragga og allra vinanna sem farnir eru á undan okkur.

Þín æskuvinkona Erla Þórðardóttir.