Jóel Hjálmarsson

Jóel Hjálmarsson -1960

Neisti - 25. nóvember 1949

Fimmtugsafmæli. Miðvikudaginn 23. nóv. sl. (1949) átti Jóel Hjálmarsson, Háveg 37, fimmtugsafmæli. Jóel Hjálmarsson hefur nú um nokkurt skeið verið verkstjóri og lagerstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og hefur gegnt því starfi, svo og öðru, sem hann hefur séð um, af mikilli kostgæfni og skyldurækni.
Jóel er drengur hinn bezti og vel liðinn af öllum, sem kynnast honum. Neisti sendir Jóel hugheilar hamingjuóskir fjölda vina, sem gjarna hefðu vilja taka í hönd hans á þessum tímamótum með beztu óskum um gæfuríka framtíð.
-------------------------------------------------------------------

Fréttir frá Bridgefélagi Siglufjarðar Undanfarið hefur staðið yfir hér í bæ firmakeppni í bridge og tóku 32 firmu þátt í keppninni. Úrslit urðu þau, að Lyfjabúð Siglufjarðar vann, en fyrir hana spilaði Björn Þórðarson. Bridgefélagi Siglufjarðar þakkar öllum þessum firmum fyrir þátttökuna, og sérstaklega þakkar félagið Litlu búðinni fyrir hina fallegu verðlaunabikara, er hún 'gaf til þessarar keppni. Um páskana kom hingað bridge sveit frá Akureyri og háði hér þrjá kappleiki, vann tvo og tapaði einum.

Sveitin, sem vann Akureyringana var sveit Valtýs Jónassonar. Að síðustu fór fram tvímenningskeppni með þátttöku Akureyringanna og þar urðu fyrstir þeir Jóel Hjálmarsson og Eðvarð Eiríksson.

Einnig um páskana fór fram Íslandsmótið í bridge og var það haldið í Rvík. Send var ein sveit héðan, sveit Ármanns Jakobssonar, en í henni eru auk Ármanns, Gísli Sigurðsson, Hólmar Frímannsson og Eggert Bergsson. Þeir félagarnir stóðu sig með mikilli prýði, urðu nr. 3 með 8 stig, en efst var sveit Brynjólfs Stefánssonar, Rvík með 11 stig.
Alls tóku átta sveitir þátt í keppninni.

Morgunblaðið - 22. júní 1961

Slys í S.R. SIGLUFIRÐI, 21. júní. f dag skeði það slys í Síldarverksmiðjum ríkisins að Jóel Hjálmarsson lagerstjóri varð fyrir meiðslum á fótum er öryggisloki sprakk af súrhylki.

Brotnaði annar fótur hans illa og var Jóel fluttur með sjúkraflugvél til Reykjavíkur í dag. —

Stefán.
-----------------------------------------------------

Jóel Hjálmarsson, var fyrsti verkstjórinn minn þegar ég var 16 ára og réði mig til starfa hjá SR, þar sem ég vann í um á 35-36 ára tímabili.

Hann var þá  lagerstjóri hjá SR og fyrsta verkefnið mitt hjá honum á lagernum, eftir að hann hafði rétt mér skíðmál og málband, var vörutalning á stálöxlum, og allskonar málmstöngum, sem geymdar voru úti í stórum rekka norðan við Mjölhús SRN -  Hús sem í dag 2020 er þetta er skrifað, hýsir Segull 67, Brugghúsinu við Vetrarbraut .

Mest af þessu efni var talsver ryðgað  nema öxlarnir sem voru vafðir olíubornu bréfi. Þetta var frekar óþrifalegt verk sem stóð yfir í rúma þrjá dag.
Jóel kom oft á dag til að fylgjast með og fá hjá mér „nýjustu tölur“, auk þess að leiðbeina mér.

Þegar verkinu var lokið og upp á leger var komið, þá sagði hann mér að þvo mér vel og slappa síðan af, ég hefði verið degi fljótari en hann hefði reiknað með, samanber þá tvo sem sama verk hefðu unni árinu áður.

Næstu 2-3 daga hafði ég það mjög náðugt, og nánast ekkert að gera, nema nokkrar sendiferðir innan og utan lóðar.

Jóel var vel liðinn af öllum , kátur og brosmildur og vildi allt fyrir alla gera.

Steingrímur Kristinsson