Jóhannes Jónsson kennari.

Jóhannes Jónsson - Ljósmynd Kristfinnur

Morgunblaðið - 24. júlí 1987    61 árs

Minning: Jóhannes Jónsson kennari. Fæddur 26. febrúar 1926 Dáinn 15. júlí 1987

Nú þegar Jóhannes Jónsson er ekki lengur á meðal okkar, fylla hugann ljúfar minningar og þakklæti fyrir að hafa átt hann að samferðamanni og vini, því fáum kynnist maður á lífsleiðinni sem í jafn ríkum mæli og hann miðla náunganum af bjartsýni, lífsgleði v o g smitandi dugnaði. Jóhannes Jónsson var handmenntakennari við Öldutúnsskóla í u.þ.b. aldarfjórðung, og var mjög áhugasamur, vinsæll og virtur í sínu starfi.

Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og nemenda sinna og lagði metnað í að vinna þeirra væri fjölbreytt og vönduð. Smíðisgripirnir sem unnir voru undir handleiðslu Jóhannesar hafa alla tíð vakið mikla athygli, ekki síst á skólasýningum Öldutúnsskóla f gegnum árin. Jóhannes kappkostaði að fylgjast vel með í sinni grein og á mörgum sviðum má telja hann í hópi frumkvöðla hérlendis.

Um stöðnun var aldrei að ræða, þrátt fyrir alllangan "starfsaldur, og til marks um það má geta þess að fyrir 5 árum síðan héldu þau hjónin til ársdvalar í Noregi, þar sem þau stunduðu framhaldsnám. Þegar heim kom hófst hann svo handa við að móta nýja smíðastofu í Öldutúnsskóla, þar sem hann starfaði síðan meðan kraftar entust. í einkalífinu var Jóhannes einkar farsæll maður.

Kona hans, Guðrún Þórhallsdóttir myndmenntakennari, stóð ætíð sem klettur við hlið hans, og sameiginlegur dugnaður þeirra, áhugamál og lífsskoðanir gerðu þau samhent um allt sem þau tóku sér fyrir hendur. Börn sín, sjö talsins, bjuggu þau af kostgæfni undir lífsbaráttuna, enda eru þau upp til hópa dugnaðarfólk sem komið hefur sér vel áfram, og ber foreldrum sínum gott vitni.

Gestrisni þeirra hjóna og hlýhugur hefur ævinlega þótt framúrskarandi, og á heimili þeirra ávallt gott að koma, enda var þar oft gestkvæmt, og ófá voru þau skiptin sem samstarfsfólkið úr Öldutúnsskóla naut rausnar þeirra. Jóhannes var ætíð léttur í lund og félagslyndur með afbrigðum. í vinahópi var hann hrókur alls fagnaðar og átti ákaflega auðvelt með að samlagast sér yngra fólki, enda ekkert kynslóðabil fyrir hendi þar sem hann var.

Hann var ræðinn og fróður og hvergi skorti umræðuefni, hver sem viðmælandinn var. Eigi að síður hafði Jóhannes fastmótaðar skoðanir á mönnum og málefnum, þótt honum væri eðlislægt að líta fyrst og fremst á það jákvæða í fari manna. Hann var málsvari þeirra sem eiga á brattann að sækja 5 lífsbaráttunni, var launþegahreyfingunni trúr, og mótuðust stjórnmálaskoðanir hans af því. Sjálfur hafði Jóhannes reynslu af því að þurfa að leggja hart að sér til að sjá stórri fjölskyldu farborða.

Þegar litið er til baka yfir rúmlega tveggja áratuga kynni af Jóhannesi, höfum við margs að minnast. Samverustundirnar sem lifa í minningunni eru ótal margar, svo og hið hressa og hlýja andrúmsloft sem jafnan fylgdi honum. Þegar við bræðurnir vorum að koma okkur upp heimilum, gerði Jóhannes sér far um að gefa okkur góð ráð og af heilum hug samgladdist hann okkur yfir hverjum nýjum áfanga. Alltaf var hann uppörvandi og fyllti mann bjartsýni og framtakssemi til að ráðast í það sem áður óx manni í augum.

Við eigum Jóhannesi Jónssyni margt að þakka, en þótt okkur finnist á kveðjustundinni missirinn mikill, á hans jákvæða lífsviðhorf lengi eftir að lýsa okkur fram á veginn. Að lokum viljum við og fjölskyldur okkar færa Guðrúnu, börnum þeirra Jóhannesar og fjölskyldum þeirra, okkar dýpstu samúðarkveðjur með von um að minningin um góðan dreng styrki þau í sorginni. Guðmundur og Gunnlaugur Sveinssynir Horfinn er á braut frækinn félagi og vinur. Jóhannes Jónsson kennari lést að morgni miðvikudagsins 15. júlí sl. eftir stranga sjúkdómslegu.

Af miklu sálarþreki og ómældum lífsvilja háði hann langa baráttu með þeirri reisn sem þeim einum er lagið sem stórt er skammtað í vöggugjöf. Oft mátti ekki f milli sjá hvor hafa mundi betur, hann eða maðurinn með ljáinn, en enginn fær flúið sín örlög. Við sem stóðum hjá drupum höfði af söknuði og virðingu fyrir miklum kappa sem nú er til foldar hniginn.

Jóhannes var fæddur á Siglufirði 26. febrúar 1926. Foreldrar hans voru þau Jón Anton Gíslason, skipstjóri, og kona hans, Helga Jóhannesdóttir.

A Siglufirði ólst Jóhannes upp í stórum systkinahópi. Hjálpsemi hans og dugnaður komu snemma í ljós og rétti hann foreldrum sínum trausta hjálparhönd strax og hann gat. Sú hönd var útrétt meðan þau lifðu og veitti ómetanlegan styrk í langri sjúkdómslegu föður hans. Hugur Jóhannesar stoð til mennta. Á þessum tíma var meira en að segja það að fara f nám fyrir unglinga úr stórum systkinahópi þar sem öll orka heimilisins fór í það að eiga til hnífs og skeiðar.

Honum tókst samt að komast í Héraðsskólann í Reykholti, ljúka kennaraprófi frá íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni, og kennaraprófi frá Handiðnaskólanum.  Með þetta veganesti hóf Jóhannes kennaraferil sinn á Siglufirði 1949. Nokkru seinna eða 1962 réðst hann að Öldutúnsskóla f Hafnarfirði, en þar lá starfsvettvangur okkar saman í aldarfjórðung. Traustari og duglegri starfsmann en Jóhannes var ekki hægt að fá. Dugnaður og kapp hans smitaði bæði nemendur og samkennara.

Á mörgum skólasýningum báru verk nemenda hans lærimeistaranum fagurt vitni. Þjálfun huga og handar nemenda sinna var honum slíkt kappsmál að frá honum slapp enginn nemandi án þess að færa heim smíðisgrip sem borinn var af stoltum höndum. Öldutúnsskóli hafði nýtekið til starfa þegar Jóhannes réðst þangað. Alla tíð tók hann verulegan þátt í mótun skólans bæði inn á við og út á við.

Oft minnist ég þess að hann kom inn á skrifstofu mína, lokaði dyrum, settist fyrir framan mig og hóf ræðu sína með þessum orðum: „Heyrðu elsku drengurinn, nú þarf ég að tala alvarlega við þig." Þá vissi ég að hann ætlaði að taka mig á beinið og stinga út á kortinu með mér rétta leið úr þessu eða hinu vandamálinu. Leiðsögn hans var mér mikils virði. Sá er vinur sem til vamms segir.

Í hópi starfsfólks var Jóhannes hvers manns hugljúfi, hrókur alls fagnaðar á góðri stundu, og rétti hverjum manni hjálparhönd sem til hans leitaði. Sívakandi áhugi hans og eldmóður í starfi ollu því að hann sótti fjölda námskeiða í sinni starfsgrein og veturinn 1982-83 réðist hann til náms í Statens Lærerhögskola í Blæker, Noregi, en þann vetur kenndi hann fyrst þess sjúkdóms sem síðar varð honum að aldurtila.

13. september 1949 gekk Jóhannes að eiga Guðrúnu Þórhallsdóttur kennara.
Þau eignuðust 7 börn.

  • Helgu félagsráðgjafa og kennara,
  • Höllu hjúkrunarfræðing,
  • Þórhall prentara,
  • Þorleif kennara,
  • Börk arkitekt,
  • Pétur Bolla arkitekt og
  • Grétar sjúkraskósmið

Auk fjölda barnabarna. Allt er þetta mikið mannkostafólk. Heimili þeirra var einstakt af smekkvísi og hlýleika. Sameiginlega hafa þau gert þar flesta hluti. Samheldni fjölskyldunnar hefur einkennst af hinum fornu dyggðum ættarsamfélagsins. Þar hefur hver borið annars byrðar.

Þetta kom best í ljós á síðustu vikum þegar Guðrún tók mann sinn heim af sjúkrahúsinu til þess að hann gæti átt sínar síðustu stundir í faðmi fjölskyldunnar. Þá stóð hún eins og klettur dyggilega studd af börnum sínum. Þeim öllum votta ég dýpstu samúð og virðingu. Það er erfitt að minnast með orðum góðs vinar eftir aldarfjórðungs samfylgd.

Orð fá svo lítið sagt af þeim hafsjó tilfinninga og minninga sem belja fram á slíkri stundu. I Jóhannesi birtust í senn Bjartur í Sumarhúsum og þeir fornkappar sem ríkastir voru af drengskap og baráttuþreki. Fyrir mér var hann þó umfram allt vinur, sem hopaði hvergi þegar á reyndi heldur rétti fram styrka hönd. Þökk sé Jóhannesi.

Haukur Helgason
-------------------------------------------------------------

 Vinur minn, Jóhannes Jónsson, hefur kvatt okkur eftir stutta en erfiða sjúkralegu. Það er rúmur áratugur síðan okkar kynni hófust er ég gerðist kennari við Öldutúnsskóla, Hafnarfirði, þar sem Jóhannes heitinn kenndi handavinnu. Þrátt fyrir mikinn aldursmun tókust strax miklir kærleikar með okkur og áttum við ófáar samverustundirnar bæði innan sem utan skólaveggja. Jóhannes var mjög heilsteyptur persónuleiki og svo sannarlega vinur vina sinna.

Var hann ætíð reiðubúinn til hjálpar ef eitthvað bjátaði á og hrókur alls fagnaðar á gleðistundum, enda félagslyndur með afbrigðum og vinsæll af öllum. Hann sinnti skólamálum af lífi og sál og metnaður hans fyrir hönd nemenda sinna og sjálfs sín var til fyrirmyndar og hvatning fyrir alla samstarfsmenn. Hann hafði einstakt lag á nemendum og þeir hændust að honum.

Gleggsta dæmið um markviss vinnubrögð og afbragðs kennslu Jóhannesar voru skólasýningar á vinnu nemenda á vorin en verk nemenda hans skipuðu þar stóran sess. Með Jóhannesi er farinn mikill persónuleiki sem hefur haft jákvæð áhrif á mig og mín viðhorf. Ég kveð vin minn, Jóhannes, og færi eftirlifandi konu hans, Guðrúnu Þórhallsdóttur, og börnum þeirra svo og öðrum ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur. Hvíl vinur minn Jóhannes í friði.
Þórir Jónsson