Helga Gísladóttir
Morgunblaðið - 04. september 1985
Minning: Helga Gísladóttir frá Siglufirði. Fædd 31. maí
1910 Dáin 2. ágúst 1985
Helga Gísladóttir fæddist á Tjörnum í Sléttuhlíð, Skagafirði, 31. maí 1910. Foreldrar hennar voru hjónin Gísli
Kristinsson bóndi á Tjörnum og Ásta Jóhannesdóttir.
Helga var næstyngst 9 systkina. Fjölskyldan fluttist síðan til Siglufjarðar 1914 svo að Helga hefir að
mestu leyti alist upp hér. Hún mun hafa hlotið venjulega barna- og unglingamenntun á Siglufirði og síðan farið að vinna fyrir sér. Hún stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands
og lauk þaðan prófi 1932.
Eftir heimkomuna þaðan kenndi Helga bókfærslu í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og var elskuð og virt af nemendum sínum.
Helga giftist 21. október 1933 Kjartani Bjarnasyni þá starfsmanni í Sparisjóði Siglufjarðar. Þau eignuðust saman 6 börn, en misstu eitt í æsku.
Hin 5:
- Bjarni Kjartansson,
- Svanhildur Kjartansdóttir,
- Ásthildur Kjartansdóttir,
- Gísli Kjartansson og
- Sigurjón Kjaransson
Þau hafa nú öll eignast sínar fjölskyldur, og voru barnabörnin Helgu sérstakur gleðigjafi.
Náin kynni tókust með okkur Helgu vorið 1947 þegar ég hóf störf í Sparisjóði Siglufjarðar með Kjartani eiginmanni hennar. Þau hjón voru samhent mjög, og var vinur annars beggja vinur. Var ég boðin í kaffi á heimili þeirra síðasta dag hvers mánaðar í nokkur ár eða þegar mánaðaruppgjör var í Sparisjóðnum og vinnudagur því lengri en venjulega, enda var ekki kaffi á hverjum vinnustað í þá daga.
Þannig atvikaðist það að ég var í kaffiboði á afmælisdegi Helgu 6 ár í röð eða á meðan ég starfaði í Sparisjóðnum, þar eð hún var fædd síðasta dag maímánaðar eins og fyrr getur. Annars var sama hvenær komið var á heimili Helgu og Kjartans, öllum var boðið inn upp á kaffi. Helga stóð alltaf sína vakt. Hún var gestrisin og glaðvær húsmóðir og sönn móðir börnum sínum.
Þau hjón voru vinföst og þegar ég giftist rénaði ekki vinátta okkar, heldur jókst um helming þar eð eiginmaður minn var að sjálfsögðu tekinn í vinahópinn. Helga var, mjög fróðleiksfús og víðlesin kona og var því sérstaklega gaman að koma á heimili hennar um eða rétt eftir jól og heyra hana fara lifandi orðum um innihald jólabókanna sem hún var þá oftast búin að lesa ótrúlega margar.
Það kenndi margra grasa í bókahillunum á hinu hlýlega heimili, Hlíðarvegi 1c, enda áttu hjónin mikið og gott bókasafn. En það var ekki einungis hlýlegt innandyra, heldur var hin stóra lóð umhverfis húsið einn sannkallaður gróðurreitur og bar vott um dugnað, fegurðarsmekk og næma tilfinningu eigendanna fyrir umhverfi sínu. Núna er það sérstök bæjarprýði að sjá skóginn þeirra blasa við sjónum manna í hlíðinni fyrir ofan kirkjuna.
Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna er snjóflóð féll á húsið og garðinn 14. febrúar 1971, stórskemmdi húsið og reif upp stór tré með rótum. Það alvarlegasta við þann atburð var þó að Helga grófst í snjó, en náðist fljótt fyrir dugnað og snarræði yngsta sonar síns. Þau höfðu setið þrjú saman í stofu, hann og hjónin, og áttu sér einskis ills von.
Eftir þetta áfall mun Helga aldrei hafa orðið fyllilega heil heilsu og setti ávallt að henni kvíða þegar mikið snjóaði í fjallið. Árið 1979 þegar Kjartan lét af störfum eftir hálfrar aldar samfellt starf hjá Sparisjóði Siglufjarðar, þar af síðustu 17 árin sem sparisjóðsstjóri, fluttust þau hjón til Reykjavíkur í Stóragerði 20. Húsið hér á Siglufirði áttu þau samt áfram og hingað norður leitaði hugurinn, einkum þegar tók að vora og auðnaðist þeim að dvelja í sínum sælureit í fjallinu hér nokkurn tíma á hverju sumri meðan þeim entist aldur.
Kjartan lést 25. október 1982 og var það Helgu mikið áfall. Hún komst samt norður á sumrin með aðstoð barna sinna, og var einnig búin að dvelja hér í mánaðartíma á þessu sumri ásamt yngsta syni sínum og fjölskyldu hans og njóta þeirrar dvalar. Stuttu eftir að hún kom suður veiktist hún og lést 2. ágúst sl. í Landspítalanum eftir stutta legu.
Hún þurfti því ekki lengur að
bíða eftir kallinu mikla til eilífðarstrandarinnar þar sem ég veit að Kjartan hefur beðið og tekið á móti henni. Ég og Knútur eiginmaður minn erum þakklát fyrir
að hafa kynnst þessum góðu hjónum og átt þau að vinum. Blessuð sé minning þeirra. Við vottum eftirlifandi börnum þeirra, systkinunum fimm og fjölskyldum þeirra, okkar dýpstu
samúð og biðjum þeim blessunar guðs.
Anna Snorradóttir, Siglufirði