Bjarnveig Guðrún Guðlaugsdóttir hjúkrunarkona
mbl.is 18. nóvember 1986
Bjarnveig G. Guðlaugsdóttir: Fædd 16. september 1903 Dáin 11. Nóvember 1986
Frú Bjarnveig Guðlaugsdóttir, hjúkrunarkona, andaðist í Landakotsspítala þann 11. nóvember sl. eftir stutta legu, en hún hafði átt við vanheilsu að stríða í mörg ár.
Bjarnveig fæddist þann 16. september 1903 að Björgum á Skagaströnd í Húnavatnssýslu, þar sem faðir hennar, Guðlaugur Bjarnason, var bóndi, en móðir hennar, Sigurlaug Ólöf Jónsdóttir, var þangað komin úr Fljótunum í Skagafirði.
Bjarnveig ólst upp hjá einum móðurfrænda sinna á Siglufirði, Guðmundi Bjarnasyni, en var yfirleitt í sveit í Skagafirði á sumrin.
Árið 1924 fór hún út til Danmerkur til systur sinnar, Vigdísar, sem þar bjó, og var þar í námi í eitt ár við Grundtvig-lýðháskólann. Þaðan lá leið hennar í hjúkrunarnáms á Narskov-sjúkrahúsinu, sem hún lauk í apríl 1934.
Í millitíðinni hafði hún komið heim til Íslands og starfað sem hjúkrunarkona á Eskifirði í nokkur ár, en að afloknu námi í Narskov, fór hún í sjö mánaða framhaldsnám í geðhjúkrun á Middlefart-sjúkra húsinu á Fjóni, þar sem hún síðan starfaði sem hjúkrunarkona til 1. júní 1935.
Þá fór hún til Íslands og lagði nú leið sína til heimabyggðarinnar á Siglufirði, þar sem hún starfaði við sjúkrahúsið í eitt ár.
Á Eskifirði kynntist Bjarnveig eftirlifandi eiginmanni sínum, Hallgrími Kristjánssyni, bryta, sem hún giftist árið 1936, en árið eftir fluttu þau til Siglufjarðar, þar sem Bjarnveig vann síðar við ýmis hjúkrunarstörf, m.a. bæjarhjúkrun, og einnig var hún skólahjúkrunarkona um hríð, svo dæmi séu tekin.
Á Siglufirði fæddist þeim einkadóttirin,
- Halldóra Hafdís Hallgrímsdóttir, sem hingað til hefur starfað hjá Ferðaskrifstofunni Útsýn.
Eftir að Bjarnveig og Hallgrímur fluttust frá Siglufirði til Reykjavíkur 1956, aðstoðaði hún móðursystur sína í nokkur ár í vefnaðarvöruverslun hennar, Bjólfi, sem var forðum tíð á Laugaveginum, en þær voru samtímis í hjúkrunarnámi í Naskov, þar sem grundvöllurinn var lagður að kunningsskap, sem entist þeim alla ævi.
Árið 1965 hóf Bjarnveig svo störf á Kleppsspítalanum og var þar hjúkrunarkona í mörg ár.
Ég kynntist Bjarnveigu á heimili móðursystur minnar, en brátt varð hún einnig fjölskylduvinur á heimili foreldra minna.
Það má með sanni segja, að ekki hafi fyrirfundist kynslóðabil í vináttu okkar Bjarnveigar, þótt áratugir skildu í milli. Hún var með eindæmdum barnelsk kona og hafði mjög gott lag á börnum.
Það er mikil list að geta haldið athygli barna vakandi og hrífa þau svo með sér, að þau geti verið stillt og róleg í marga klukkutíma samfleytt. Þetta var Bjarnveigu til lista lagt, eins og svo margt annað, enda hefur hún sjálfsagt þurft eins og margar aðrar hjúkrunarkonur að hafa einhver ráð til að halda litlum sjúklingum kyrrum og þolinmóðum í rúmunum.
Ég fékk sem barn að kynnast þessum hæfileikum Bjarnveigar, þegar við ferðuðumst um lönd og álfur í ævintýrum hennar, og komu þar frásagnar- og leikarahæfileikar hennar vel í ljós, en einnig rík kímnigáfa, sem gat fengið áheyrandann til að skelli hlæja þegar minnst varði, enda glaðværð ríkjandi skapgerðarþáttur í fari Bjarnveigar. Það var líka enginn vafi á því, að á þessum stundum var Bjarnveig í essinu sínu. Ég þreyttist og seint á sögum hennar.
Gjafmildi var líka ein af ríkjandi skapgerðareinkennum Bjarnveigar, og minnist ég þess ekki, að hún hafi nokkru sinni komið tómhent í heimsókn til okkar. Oft kom líka fyrir, að hún laumaði einhverju að mér í boðum hjá móðursystur minni, hvort sem hún var þá nýkomin heim frá Kaupmannahöfn, þar sem hún dvaldist alltaf hluta úr sumri hjá Vigdísi, systur sinni, ellegar ferðalögum annars staðar frá, eða þá að hún var boðin til okkar í einhverju sérstöku tilefni, sem þótti sjálfsagt, eða leit inn af tilefnislausu. Þær eru því ótaldar gjafirnar, sem hún hefur gefið mér um ævina.
Áhugi hennar á listum, blómarækt og dýrum kom vel í ljós, er komið var inn á heimili hennar, þar sem hún var höfðingi heim að sækja. Það var líka hægt að komast að því í viðtölum við hana, og að listelskir unglingar, sem voru að reyna að skapa eitthvað sjálfstætt, áttu sinn stuðningsmann þar sem Bjarnveig var. Það fékk ég að reyna á árunum, svo um munaði.
Þegar ég nú að leiðarlokum kveð þessa vinkonu mína hinstu kveðju er efst í huga mínum þakklæti fyrir að hafa kynnst þessari ágætu konu og blessa hana fyrir allar vel gerðirnar í minn garð og foreldra minna fyrr og síðar, sem líður manni seint úr minni.
Sá sem kynntist Bjarnveigu, átti vináttu hennar alla og traust ævilangt. Það er mikil guðs gjöf, sem seint verður metin að verðleikum.
Eftirlifandi eiginmanni, dóttur og öðrum aðstandendum votta ég mína innilegustu samúð.
Blessuð sé minning hennar. Guðbjörg Snót Jónsdóttir