Jón Jónsson verkamaður á Siglufirði- Kallaður: Jón skinkk

Jón Jónsson - Jón snikk - ókunnur ljósmyndari

Morgunblaðið: 03.07.1948

Jón Jónsson verkamaður á Siglufirði

HANN HÉT blátt áfram og einfaldlega Jón Jónsson, Honum var það nóg-

Hann var ættaður héðan úr Siglufirði og nágrenninu, var fæddur her og uppalinn, og hér dvaldi hann alla sína ævi, að undanskildum örfáum árum, er hann gerðist vinnumaður einhversstaðar í austursveitum Skagafjarðar. Það skiptir heldur engu máli hverrar ættar hann var, —

þótt ætt hans sé raunar að fullu kunn, — né heldur hvar hann dvaldi fá ár sinnar löngu ævi utan Siglufjarðar. Hitt skiptir öllu máli, að hann var drengur góður og vammlaus, sem minnisstæðari mun samtíð sinni en margir þeir, er meira bárust á í samfélagi siglfirskra borgara. Jón var maður rauplaus og hjartahreinn.

Hann var svo trúr í öllu, er verkahringur hans náði til, að lengra verður tæplega komist. Og ekki munu vinnuveitendur hans hafa feng ið margar eftirkröfur af hans hálfu, þótt hann ynni nokkuð umfram löghelgaðan vinnutíma. Hann var maður gamla tímans og þjónslund hans of rík til að standa í brösum við „húsbóndann" um nokkra aura til eða frá fyrir vinnustundina. Hann var því langt frá því að vera stéttvís, sem nú er kallað.

En ekki kom það til af neinum rótarskap í garð samverkamanna hans, heldur af rót grónu eðli hans og samtíðar og uppeldisáhrifum, er hann var að komast til sjálfráðs þroska. Aldrei heyrðist frá honum æðruorð eða kvartanir út af eigin högum- Var þó aðbúnaður hans og ævikjör oft með þeim hætti, að engan mun hann hafa eignast öfundarmann þeirra vegna.

Hann hirti ekki um að berast á, og hversdagsleg snyrting var honum ekkert sáluhjálparatriði, enda bar útlit hans oft þess ljósan vott. Hann var ákaflega hversdagsgæfur maður og sá stundum lítt á honum hvort honum líkaði betur eða ver, en þó gat það komið fyrir að hann segði fulla skoðun sína, og það gerði hann fumlaust og ekki með neinu offorsi. öllum var vel til Jóns og aldrei varð hann fyrir aðkasti unglinga eða annarra, sem oft er þó títt, er einkennilegir menn eiga í hlut.

Aldrei lagði hann nokkrum manni misjafnt til, en mörgum vék hann góðu, og tryggð hans til þeirra, er hann taldi vini sína, var óbrigðul og fölskvalaus. Ekki var hann mikill fyrir manni að sjá, en eigi að síður sópaði þó að honum á sinn hátt, og vakti hann eftirtekt því nær allra, er sáu hann, og eitthvað var við manninn, sem vakti hlýleik og virðingu, þótt ekki væri það ytra útlitið.

Það var eins og hann vekti hjá mönnum þann grun, að á bak við líkams tötrana byggi eitthvað göfugra og glæsilegra en útlitið bar vott um. Og þessi grunur varð oft að fullri vissu. Skapgerð hans var föst og ókvikul. Þeir, sem ætluðu sér þá dul að snúa honum til annarra skoðana en hann taldi réttar, fóru fullkomna erindisleysu. Þessháttar sálnadorgara kunni hann góð skil á að humma fram af sér.

Galt hann mælsku þeirra og fortölum hlutlausri þögn og fálæti í svipmóti. Jón var vel greindur og hefði hann nokkurntíma notið snefils af tilsögn og menntun í æsku og á þroskaárum, hefði hann ekki staðið að baki mörgum, er meira létu yfir sér, og undarlega fróður var hann um marga hluti, sem ætla mátti í svip, að hann kynni engin skil á og léti sig engu skipta. Að þessu komst einstaka maður, ef hann hitti vel á, og vann traust gamla mannsins.

En þá var Iíka gaman að ræða við Jón, og hann sjálfur hafði af því mikla ánægju, en hann átti sjaldan kost á að deila geði við aðra menn og olli því ekki sést hlédrægni hans sjálfs. Og einmitt sakir hlédrægni og stundum fullkominnar minnimáttarkenndar, komst hann aldrei til neinna metorða. Ekki einu sinni að hann slampaðist 18. maður á lista til bæjarstjórnarkosninga né í sóknarnefnd eða neitt trúnaðarmannaráð.

En ekki það fyrir: Hann hafði til alls þessa næga hæfileika og mun meiri en sumir, er þessi tvísýnu höpp hafa hlotið. Hinsvegar er það vafalaust, að öll störf, sem honum hefði verið trúað fyrir og hann tekið að sér, hefði hann rækt af hjartans trúmennsku, því að hann var æ og ævinlega trúr yfir hverri þeirri þjónustu er lífið og samtíð hans kvaddi hann til.

Þegar Dr. Paul hinn þýski reisti verksmiðju sína gerðist Jón þar starfsmaður, og svo mjög dáði þessi þýski verksmiðjueigandi trúmennsku Jóns að þegar þessi verksmiðja var seld Síldarverksmiðjum ríkisins gerði Dr. Poul það að skilyrði, eða mæltist til þess, að Jón fengi þar atvinnu meðan hann vildi og gæti stundað þá vinnu, enda vann Jón þarna til dauðadags. Jón hafði yndi af sönglist og hljómlist og kunni sæg af sönglögum.

Þá hafði hann mjög gaman af stökukveðskap og kunni fjölda lausavísna, og vissi glögg skil á, hvar þar var feitt á stykkinu. Raulaðj hann oft slíkar stökur við vinnu sína sér til afþreyingar og hugarhægðar- Skellti hann þá oft upp úr ef smellin hending hraut. En ógjarna kom slíkt þó fyrir, nema hann teldi sig örugglega einan, en þá hýrnaði svipurinn og bliki brá fyrir í gráum augum hans, sem hvers dagslega horfðu hlutlaus og fjarrænt á fyrirbrigði mannlífsins. Honum var fjarri skapi að skipta sér af verkum annarra.

Lagði hann aldrei dómsorð á slíka hluti nema þeir kæmu í bága við störf þau, er honum var trúað fyrir. En þá hafði hann það til að beina skeytum sínum þangað, er maklegast var, og átaldi harðlega þá, er honum fannst vinna af slíku kæruleysi, að hans eigin störf nýttust lítt eða ekki. Þar kom enn í ljós trúmennska og húsbóndahollustan. Þessháttar vinnusvik voru höfuðglæpur í hans augum, og þá, er gerðu sig bera að slíku athæfi, kallaði hann ganta og drussa og valdi þeim kaldar kveðjur. Hann gat sem sé átt það til að vera meinyrtur og orðheppinn í besta lagi.

Jæja, Jón minn. ég sakna þess að eiga þess eigi oftar kost að mæta þér á götunni og njóta hýrunnar í tilliti þínu, heyra þig spá fyrir um veðrið, og láta í ljós von þína um batnandi tíðarfar og hækkandi sól, — þá vissir þú að beið þín enn starfið „niðri í doktor Pál" eins og öll undanfarin ár. Ég hefði gjarnan viljað fá að þrýsta vinnulúna hönd þína að skilnaði og þakka þér margar ágætar samverustundir og allt gott. En ég átti þess ekki kost að kveðja þig svo sem maklegt var og þú áttir skilið. Þú hvarfst svo skyndilega af vettvangi daglegs lífs.

En ég og margir starfsbræður þínir minnast þín með verðskuldaðri hlýju. En ég minnist þess lengst, yfir hve miklu og hlutlausu lífs og sálarþreki þú bjóst þegar umkomuleysið svarf sem fastast að. Ævi þín var í rauninni vonlaus og þrotlaus sókn gegn ömurleika lífsins og einstæðingsskap, en sífelld þjónusta, oft vanmetin og misskilin af þeim, er þú fórnaðir þreki þínu og lífsorku.

Með þínum hlutlausa hætti settir þú svip á þennan bæ, sem þú unnir innst inni heitt og falslaust. Hér stóð vagga þín, hér barðist þú vonlausri baráttu við amstur og önn, og hér hlaust þú gröf, sem þú ef til vill þráðir mest af öllu. Farðu nú heill, og sé til nokkurt réttlæti, hlotnist þér vafalaust trúrra þjóna verðlaun.

Sigurður Björgólfsson