Síbería - Primex Óskarsgötu 7 Siglufirði

Síbería - Ljósmynd; Gísli Halldórsson

Húsið Síbería, má telja með merkari húsum á Siglufirði. Ekki er það þó vegna útlitsins, heldur vegna þeirrar umfjöllunar sem bygging og notkun þessa húss olli.
Ekki aðeins á Siglufirði, heldur á hinu pólitíska sviði á landsvísu, þar sem skrifað var í nánast öll blöð á Íslandi, (og einnig erlendis) þó aðalega í vikublöðin hér á Siglufirði, sem þá voru orðin fjögur talsins, Einherji, Neisti, Mjölnir og Siglfirðingur.

Svo og Alþýðublaðið, Morgunblaðið, Tíminn og Þjóðviljinn. Oftar en ekki voru skrifin neikvæð, jafnvel allt fram á seinnihluta síðustu aldar, og að mestu annað hvort skrifað af pólitískri neikvæðni í bland við fávisku.

Það fullyrði ég Steingrímur Kristinsson, sem vann hjá SR í um 35 ár og ræddi mikið við "gömlu karlana" um gamla tímann.  það er fyrir  þann tíma sem ég þekkti, eftir að  ég hóf þar störf 16 ára gamall. Ég spurði þá um ýmsar uppákomur hjá SR, sem ég hafði heyrt talað um og lesið, ég vildi nálgast sannleikann frá þeim sem voru á "vettvangi" viðkomandi tímabila.

Einn af þeim sem sagði mér mest frá og ávalt tilbúinn þegar tækifæri gafst að setjast niður í pásum og öðrum tækifæru var Hallur Garibaldason. -  Auk þess sem ég hefi síðar, þaul lesið áður nefnd blöð, hjá www.timarit.is -

Húsið teiknaði og lét byggja Gísli Halldórsson verkfræðingur, þáverandi framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins. (1935 - 1937)

Húsið var í fyrstu, notað sem síldarþró strax og það var tilbúið seinnipart sumars 1937. Allar þrær þess voru fylltar og geymt þar í um mánuð.
 
Jafnhliða og síldin var móttekin og deilt í þrærnar, var að ískurl og salt blandað saman og "sprautað" yfir síldina með sérstökum búnaði, til að auka geymsluþol hráefnisins, sem allt gekk eins og til var ætlað.

Hinsvegar gekk ekki jafnvel að losa þrærnar, þar sem síldin nánast fraus saman og mikill þrældómur var að miklu leiti, að losa þrærnar nánast með handafli að þróardragaranum,  og tafði bræðsluna samhliða, sem lauk með því  að  verksmiðjan var stöðvuð á meðan hráefninu var komið í aðra þró, SR 30 þróna og síðan hófst bræðslan aftur, og gekk eins og í sögu, og skilaði fyrsta flokks mjöli og lýsi.

En eftir þennan þrældóm við losunina, fékk húsið nafnið "Síbería" og voru það starfsmennirnir sem þarna unnu sem gáfu húsinu þetta táknræna nafn, með tilvísun í þrælabúðir kommúnista í Síberíu Rússlands.

Um það, fór aftur á móti lítið fyrir í flestum blaðanna, heldur hamast á fyrri hlutanum, og ekki minnst á gæði hráefnisins og afurða eftir að hafa verið geymd í um mánuð. Vanalega þegar mikið barst að af síld, og verksmiðjurnar höfðu ekki undan, þá var algengt að síldin færi að rotna, eftir viku geymslu, sértaklega á heitum sumrum, og þess vegna mjög lélegar afurðir í þeim tilfellum

Í Síberíu var einnig kaffistofa, vélasalur og fleira í húsinu. Einnig var þar komið fyrir baðaðstöðu (sturtum) og gufubaði fyrir starfsmenn og síldarsjómenn.

Á stríðsárunum var Síbería merkt sem loftvarnarbyrgi, þar sem þar var talið nokkuð öruggt að sprengjur nasistanna gætu vart grandað.

Sú aðstaða var fyrir hendi og notuð  allt til ársins 1980. (amk) Mikið notuð, meðal annara af mér í hundruðum skipta, eftir vaktir í verksmiðjunni,
Þar geymdi í í skápum sem mér voru merktir, fötin mín til skiptana á sumrin á árunum 1950-1960. Til að fara ekki heim í "drullugallanum" eða annað eftir vinnu og losna með því að anga af peningalyktinni.

Ég man ekki ártalið, en sennilega var það á sjöunda áratugnum að endurbyggð var flutningsbúnaður, frá aðalfæribandi vegna síldar, og loðnu síðar blandaðri formalín, sem komið var í þrær á neðri hæð Síberíu, sem og einnig flutningsbúnaði frá þrónum. Það gekk allt eins og til var ætlast.

Síðar var byggt viðhengi áfast  norðan við húsið, og þar komi fyrir sigtibúnaði til að skilja frá vatn/sjó áður en síld og loðnu var beint í þrærnar. Og enn síðar var það pláss notað til að þvo og þurrka stóra mjölflutningspoka.

Viðhengið, húsið/skúrinn er enn í notkun eftir að innviðum Síberíu var gjörbreytt og brotið niður, vegna rækjuskeljarverksmiðu sem tók til starfa í húsinu og starfar þar enn í dag 2021, nú undir nafninu Primex. Óskarsgötu 7 Siglufirði.
Fleiri upplýsingar tengdar Síberíu má skoa á eftirfarandi tenglum: http://www.sk2102.com/437193483 og myndasyrpa hér:  http://www.sk2102.com/449480089 

Saga þeirra aðgerða á ljósmyndum hér neðar.

Teikningar Ljósmynd Gísli Halldórsson

Grunnurinn grafinn, engar vinnuvélar, aðeins skóflur, hakar og hjólbörur - Ljósmynd Gísli Halldórsson

Hluti neðstu hæðar kominn á skrið- Hábryggjurnar í bak grunni, Allri síld á þessum tímum var ekið í þrær verksmiðjanna í stóru handknúnum kerrum -- Ljósmynd Gísli Halldórsson

Síldar þrær SRN til vinstri - Hrímnir til hægri -Ljósmynd Gísli Halldórsson

Ljósmynd Gísli Halldórsson

Reisugilli - Ljósmynd Gísli Halldórsson

Móttakan hafin -Ljósmynd Gísli Halldórsson Ískurli og salti sprautað jöfnum höndum yfir síldina.

Ljósmynd Gísli Halldórsson

Skopmyndin hér fyrir ofan, lýsir vel þeim hatursanda sem ríkti hjá sumum pólitískunum. Allt öfugsnúin ósannindi og háð.
Samkvæmt því sem Hallur Garibaldason verkamaður sem sagði mér aðspurður um þennan tíma, löngu seinna.

En hann lenti þarna í vinnu við að losa þróna. Þá var þetta mjög erfitt verk og raunar þrældómur sagði hann, þar sem ekki var hægt að nota skóflu, heldur gaffla til að hreifa við síldinni sem þarna hafði verið vel á annan mánuð. Síldin var í raun einn frosinn massi.

ENGINN ÓÞEFUR, og eftir að hún þiðnaði og var síldin eins og fersk, enda eitt besta hráefni og afurðir sem kom frá henni eftir að skriður kom á þróarlosunina.
Ástæðan var, að Gísli lét útbúa sérstaka vél sem úðaði í bland salti og klaka (ískurli) yfir síldina jöfnum höndum og henni var komið í þróna, mynd hér neðst á síðunni.
Þar til viðbótar skaut Hallur því að almennt hefði Gísli verið mjög vinsæll á meðal verkafólks, ekki síst vegna þess að hann gaf sér tíma til að ræða við verkafólkið og jafnvel biðja um álit á hinu þessu, sem verksmiðjuna og búnað varðaði.

Og við þetta má bæta, að það var almennt fullyrt á SR lóðinni, þegar Gísli yfirgaf SR og fór til annarra starfa. Að hann hefði verið rekin, og ein af megin ástæðum þess hafi verið sú að hann hefði bruðlað með of mikið steypustyrktarjárni í viðkomandi byggingu, það er um 80 tonn af steypustyrktarjárni. (þetta ma. sögðu gömlu verksmiðjukarlar mér mörgum árum seinna)

Nokkuð sem sennilega allir verkfræðingar í dag (2021) mundu telja eðlilega notkun steypustyrktarjárns í svona byggingu, miðað við hlutverk hússins, það er þunga þess sem í þrærnar áttu að fara.
Steingrímur