Herbert Sigfússon málarameistari. Siglufirði.

Herbert Sigfússon

Herbert Sigfússon f. 18. maí 1907. d. 19. júní 1984

Morgunblaðið - 18. maí 1967

SEXTUGUR er í dag, 18. maí, Herbert Sigfússon, málarameistari, Siglufirði.
Hann er Eyfirðingur að ætt og uppruna fæddur að Arnarstöðum í Saurbæjar hreppi 18. maí, 1907.
Voru foreldrar hans þau Sigfús Jónsson, bóndi þar, og kona hans, Halldóra Randversdóttir. Hann missti ungur móður sína og ólst upp með föður sínum og stjúpu.

Stundaði hann eftir fermingaraldur öll algeng störf við Eyjafjörð og víðar, en flutti tæplega tvítugur að aldri til Siglufjarðar, sem þá var í örum vexti og hefir hann búið þar samfleytt síðan. Nam hann fljótlega eftir að hann flutti þangað málaraiðn, sem hann hefir stundað síðan af mikilli leikni og kunnáttu, enda hefir mjög verið eftir honum sóst til starfa ekki aðeins á Siglufirði, heldur einnig um nærsveitir og víðsvegar um land.

Herbert er maður smekkvís og listfengur. Er það ekki aðeins að hann sýnd þá eiginleika i verkum sínum í iðngrein sinni, heldur fæst hann einnig við gerð landslags mynda og annarra málverka. Bera þau vott vandvirkni og snyrtiJegs handbragðs. Maðurinn sjálfur er einnig snyrtimenni hið mesta hár, íturvaxinn og fríður sýnum. Skyldi engan gruna, að hann væri kominn á þennan aldur, heldur miklu fremur, að þar færi fertugur maður þar sem hann er.

Herbert er glaðlyndur maður, fyndinn og skemmtilegur í viðræðum og hefir óvenju glöggt auga fyrir öllu sem skoplegt er. Hefir hann oft skemmt þeim, sem þetta ritar með spaugi sínu og hnyttnum tilsvörum, enda er hann hrókur alls fagnaðar á góðra vina fundi. Hann er höfðingi hinn mesti heim að sækja og hafa margir Siglfirðingar og aðrir fyrr og síðar notið rausnar hans og höfðingsskapar á hinu vistlega og hlýlega heimili, sem kona hans Gunndóra Jóhannsdóttir, ættuð af Siglufirði (og Siglunesi), hefir búið honum að Hvanneyrarbraut 32 og nú að Hólavegi 10 á Siglufirði.

Herbert er maður greiðvikinn með afbrigðum og vill hvers manns vanda leysa, enda er hann í hvívetna drengur hinn besti. Á þessu merkisafmæli munu margir hugsa hlýtt til Herberts Sigfússonar og konu hans Gunndóru og þakka þeim margar liðnar ánægjustundir. Sjálfur óska ég þessum vini mínum þess, að hann megi enn um mörg ókomin ár halda æsku sinni og atgjörfi, andlegu og líkamlegu óskertu og lifi þessi sextugi unglingur svo heill, vel og lengi.
 E.I