Sigurður Njálsson
mbl.is - 30. janúar 2012 | Minningargreinar
Sigurður Njálsson fæddist á Siglufirði 27. mars 1922. Hann lést á Landspítalanum 23. janúar 2012.
Foreldrar hans voru Njáll Jónasson, f. 5.2. 1891, d. 25.11. 1976, og Ólöf Þorkelsdóttir, f. 25.11. 1889, d. 2.11. 1925.
Bróðir hans var
- Guðjón Njálsson, f. 1917, d. 1989, kvæntur Heiðdísi Eysteinsdóttur, f. 1921, d. 2006 og systir hans var
- Sigurlaug Njálsdóttir, f. 1924, d. 2008, gift Óskari Friðjóni Jónssyni, f. 1921, d. 1991.
Sigurður missti móður sína þegar hann var þriggja ára og leystist fjölskyldan þá upp og var systkinum hans komið fyrir á Akureyri en hann varð eftir á Siglufirði og ólst upp hjá föður sínum.
Sigurður kvæntist árið 1948 Guðnýju Þorsteinsdóttur, f. 1925. Guðný er einnig Siglfirðingur, dóttir Halldóru Sigurðardóttur og Þorsteins Péturssonar.
Þau eignuðust þrjú börn,
- Halldóra, f. 1949,
- Anna Sjöfn, f. 1952 og
- Ólafur Njál, f. 1958.
Halldóra er gift Viðari Símonarsyni, f. 1945. Þeirra börn eru Sigurður, f. 1976 og Dóra, f. 1981. Sigurður er kvæntur Sigurbjörgu Ólafsdóttur og eru börn þeirra Ólafur Viðar og Halldóra Sól. Anna Sjöfn er gift Guðmundi Páli Ásgeirssyni, f. 1947, og eiga þau dótturina Guðnýju, f. 1980. Ólafur Njáll er kvæntur Birnu Hildi Bergsdóttur, f. 1959, og eiga þau börnin Signýju, f. 1984, Kristínu, f. 1988, og Daníel, f. 1993. Signý er í sambúð með Leon Má Hafsteinssyni og eiga þau dæturnar Natalíu Rán og Emilíu Brá.
Sigurður Njálsspn brautskráðist frá Verslunarskóla Íslands 1941. Hann var bókari og gjaldkeri útibús Útvegsbanka Íslands hf., Siglufirði, 1941-44, aðalbókari og gjaldkeri Síldarverksmiðja ríkisins, Siglufirði 1944 og skrifstofustjóri sama fyrirtækis 1945-1958. Hann var framkvæmdastjóri fyrir Hafskip hf. frá stofnun 1959 til 1970 og var einnig stjórnarformaður í Verslunarfélagi Siglufjarðar hf. um árabil.
Árið 1970 keypti hann Alþjóða líftryggingarfélagið og var forstjóri þess til 1989. Í mörg ár flutti hann inn stál frá Póllandi og aðstoðaði Pólverja á margan hátt á Íslandi. Var hann sæmdur heiðursorðu Póllands árið 1988. Hann hlaut ennfremur Melvin Jones viðurkenningu frá Lionshreyfingunni en hann var félagi í Lionsklúbbnum Ægi. Fyrir utan Verslunarskólaárin átti hann heima á Siglufirði uns fjölskyldan flutti suður 1958 og settist að á Rauðalæk í Laugarneshverfi í Reykjavík. Árið 1966 fluttu þau í Mávanes í Garðabæ og þaðan 1992 í Efstaleiti.
Útför Sigurðar
fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. janúar 2012, og hefst athöfnin kl. 15.
-------------------------------------------
Í dag kveð ég tengdaföður minn Sigurð Njálsson eftir tæplega fjörutíu ára samneyti. Þegar ég lít til baka er mér efst í huga þakklæti og orðin „hann var höfðingi heim að sækja“ fá dýpra innihald í merkingu sinni. Hefðir og samheldni var nokkuð sem hann mat mikils sennilega vegna þess að sjálfur missti hann móður sína ungur og í uppvexti sínum upplifði hann lítið fjölskyldulíf í kringum sig. Fjölskyldan var honum kærust allra og aldrei kom maður í húsið öðruvísi en hann innti eftir því hvar barnabörnin væru og nú seinni árin hvað langafabörnin væru að gera og hvernig þau hefðu það.
Að vera saman, að gleðjast saman og að eiga hvort annað að en nokkuð sem honum fannst best. Þær eru ófáar þær gleðistundir sem við höfum átt og hann stóð fyrir veiði, sumarbústaðaferðir eða utanlandsferðir. Oft á tíðum var fundið tilefni til að allir færu út að borða og þá sérstaklega þegar barnabörnin luku ákveðnum áföngum í lífi sínu, því þá var stund til fagnaðar.
Sunnudagskaffið var fastur liður og púrtvínið var framreitt á sunnudögum þegar klukkan sló fimm og jafnvel oftar nú í seinni tíð ef tilefnið var. Alltaf stóð hann fremstur til að fullvissa sig um að allir væru með og hefðu það sem allra best. Allt sem hann vann að gerði hann af metnaði og óskaði þess að svo væri einnig hjá sínu fólki því hann var sannfærður um að það skilaði sér til baka.
Sigurður átti gersemi í lífi sínu sem er tengdamóðir mín og sér hún nú á eftir lífsförunauti sínum í yfir sextíu ár. Samneyti þeirra var einstakt og má segja að það er okkur hinum það besta veganesti sem þau gátu gefið okkur, að geta speglað sig í þeirri virðingu og umhyggju sem hann sýndi er mikils virði.
Tímarnir framundan verða henni eflaust ekki auðveldir og vona ég að fjölskyldan komi til með að létta undir með henni, þess hefði hann óskað.
Ég kveð með söknuði og vil þakka samfylgdina
Birna Bergsdóttir.
--------------------------------------------------------
Þegar ég minnist tengdaföður míns Sigurðar Njálssonar sé ég hann fyrir mér ásamt Guðnýju konu sinni heima hjá þeim við stofuborðið á sunnudegi. Börn, tengdabörn og barnabörn ræða um daginn og veginn, þjóðmálin eða heimsmálin og Sigurður fylgist íhugull með og skýtur inn orði ef hann telur ástæðu til. Fjölskyldan og heimilið var þungamiðjan í lífi Sigurður Njálssonar, þess mikla heimsborgara sem hann annars var. Sigurður ferðaðist mikið vegna starfa sinna en þau Guðný ferðuðust einnig víða um framandi lönd, á meðan slík ferðalög voru ekki algeng meðal Íslendinga.
Sigurður ólst upp á Siglufirði hjá föður sínum Njáli eftir að móðir hans lést úr berklum. Þar stofnaði hann ásamt Guðnýju konu sinni sitt fyrsta heimili. Á uppgangstímum Siglufjarðar breyttist plássið í önnum kafið heimsþorp á hverju sumri og umsvifin náðu langt út fyrir landsteinana.
Þarna nýttist menntun Sigurðar frá Verslunarskólanum vel og hann tók strax að sér ábyrgðar- og stjórnunarstörf í öflugustu fyrirtækjum á staðnum. Hann trúði því að framtak einstaklingsins og öflugt atvinnulíf gætu skapað öllum gott samfélag og breytti samkvæmt því allt sitt líf. Ef hann minntist á gamla tíma, þá var það helst til að undirstrika hvað samfélaginu hefði farið fram síðan þá og hve velsæld hefði aukist.
Sigurður Njálsson var miklum mannkostum búinn. Hann var skarpgreindur og kunni fram á síðasta dag skil á flestu sem gerðist í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi og stjórnmálum. Hann var jafnan með hugann við það sem var að gerast allt um kring og við það sem framundan var. Hann hafði mun meiri áhuga á að ræða stjórnmál og atvinnulíf heima og erlendis en að rifja upp gamla daga.
Í veikindum sínum núna síðustu mánuðina ræddi hann hvað hann gæti gert til að ná bata og einbeitti sér að því. Ég held að Sigurður hafi nálgast öll verkefni með því að horfa á lausnina en ekki vandann, framtíðina en ekki hið liðna. Hann var bjartsýnn og hvetjandi og góð fyrirmynd.
Sigurður og Guðný höfðu einstakt lag á að tengja börn sín, tengdabörn og þeirra börn saman og skapa aðstæður þar sem allir nutu lífsins. Hátt ber minningar frá árlegri veiðiferð fjölskyldunnar í Gljúfurá sem Sigurður bauð fjölskyldunni í allt frá árinu 1985. Sigurður fylgdist mjög ákveðinn með því undanfarnar vikur að við sæktum tímanlega um hjá Stangveiðifélaginu fyrir ferðina næsta sumar. Þegar litið er til baka er eins og við í fjölskyldu Sigurðar og Guðnýjar höfum sífellt haft tilefni til að eiga skemmtilegar samverustundir að þeirra frumkvæði. Sigurður var hinn fasti og öruggi hornsteinn þessarar fjölskyldu og verður hans sárt saknað af okkur öllum.
Guðmundur Páll
Ásgeirsson.
--------------------------------------------------------
Tengdafaðir minn, Sigurður Njálsson, var einstaklega vandaður maður. Hann var hjartahlýr, skapgóður og traustur sem klettur. Trygglyndi einkenndi hann alla tíð og var hann sannur vinur vina sinna. Frá fyrstu tíð fann ég hversu mikill fjölskyldumaður hann var. Hann bar hag fjölskyldunnar öðru fremur fyrir brjósti. Hann hafði þægilega og góða nærveru. Hann var einstakur afi og langafi og var afkomendum sínum góð fyrirmynd. Hann var aðeins þriggja ára þegar hann missti móður sína og ólst hann upp hjá föður sínum, Njáli Jónassyni.
Hann var afar lánsamur maður í sínu einkalífi. Hann hitti draumadísina, hana Guðnýju Þorsteins, á Siglufirði. Samband þeirra var einstaklega fallegt og hamingjuríkt. Sigurður og Guðný höfðu yndi af að ferðast, bæði innanlands og utan. Við Dóra vorum svo heppin að vera með þeim á Ítalíu og Frakklandi og voru þau sérlega skemmtilegir ferðafélagar. Hér heima voru þeirra sælureitir sumarhús við Þingvallavatn og í Kjarnaskógi norðan heiða.
Árlega buðu þau allri fjölskyldunni í veiði að Gljúfurá í Borgarfirði. Þetta hafa verið sannkallaðar fjölskylduferðir, allir skemmt sér vel, veitt og útiverunnar notið í yndislegu umhverfi.
Í júlí 2011 var haldið ættarmót á Siglufirði fyrir afkomendur Guðnýjar. Á þeim tíma var heilsu hans farið að hraka, en hann ætlaði norður og honum tókst það. Hann gladdist mjög yfir því hvað ungir athafnamenn á Siglufirði höfðu breytt gömlu húsunum við höfnina og gert þau sem ný. Hann var ánægður með gamla bæinn sinn og sá hann ný tækifæri fyrir Siglfirðinga með tilkomu Héðinsfjarðarganga.
Hann naut þess að horfa á íþróttir og fylgdist vel með öllum landsleikjum í handbolta og fótbolta. Þar náðum við vel saman.
Að leiðarlokum kveð ég minn kæra tengdaföður með virðingu og þakklæti fyrir samfylgdina og vináttuna í 40 ár.
Viðar Símonarson.
-------------------------------------------------------------
Elsku afi, það er mjög skrítið að vera svona langt í burtu þegar kallið kom. Að upplifa þau ævintýri sem þú varst svo spenntur að heyra um þegar ég kæmi heim, ævintýri sem þú varst sjálfur búinn að upplifa.
Nú fæ ég ekki tækifæri til að segja þér frá ævintýrum mínum eins og þú sagðir mér frá þínum og öllu því sem þú hafðir upplifað. En ég veit að það er í lagi því núna getur þú komið og fylgst með mér á meðan ég er að upplifa þetta allt. Ég kveð þig með söknuði, ást og loforði um að njóta þess sem ég er að gera því ég veit að það er það sem þú hefðir viljað.
Þín Kristín.
---------------------------------------
Elsku afi minn. Nú kveður þú þennan heim eftir langa og farsæla ævi. Eftir sitja ljúfar og góðar minningar sem mér þykir óendanlega vænt um. Allar góðu stundirnar í Mávanesinu, á Þingvöllum og síðar í Kjarnaskógi munu ylja mér um hjartaræturnar um ókomna tíð. Þú varst mér alltaf mikil fyrirmynd og berð að stærstum hluta ábyrgð á þeirra leið sem ég ákvað að feta í lífinu. Það er vart hægt að hugsa sér betri fyrirmynd.
Yfirvegun þína og kurteisi hef ég haft að leiðarljósi alla tíð. Ég gleymi því aldrei þegar þú sagðir mér að kurteisi kostaði ekkert. Þetta hljómaði ekki merkilega á þeim tíma en þetta er líklega eitt mikilvægasta heilræði sem ég hef fengið um ævina. Undir þessari miklu yfirvegun leyndist gríðarlegt keppnisskap.
Það var gaman að fylgjast með hversu vel þú lifðir þig inn í íþróttakappleiki þegar landsliðið var að spila. Þá sastu yfirleitt fyrir framan útvarp eða sjónvarp, kófsveittur og iðulega kominn úr skyrtunni af æsingi. Það eru þessar minningar og dýrmæt augnablik sem ég mun aldrei gleyma og mér þykir svo vænt um. Takk fyrir öll heilræðin, hlýjuna og samveruna öll þessi ár. Hvíldu í friði, elsku afi minn.
Sigurður Viðarsson.
---------------------------------------------------
Þegar kær fjölskylduvinur okkar er kvaddur koma upp í hugann ótal góðar minningar um samskipti við Sigurð Njálsson frá því að hann giftist Guðnýju Þorsteinsdóttur föðursystur okkar á Siglufirði fyrir rúmum 60 árum, en miklir kærleikar hafa verið með þeim frá fyrstu tíð og góð samheldni innan þeirra fjölskyldu svo að eftir var tekið.
Sigurður og Guðný ferðuðust mikið sem var ekki algengt í lok heimsstyrjaldarinnar 1939-1945. Þau hjón fóru í ferðalög til útlanda og nutum við systkinin í æsku góðs af því, en þau tóku ávallt glaðning með fyrir okkur eins og aðra.
Þegar Sigurður var á Siglufirði vann hann hjá Óla Tynes síldarsaltanda og kunni hann margar skemmtilegar sögur af samskiptum Óla og starfsmanna hans, en Óli var norskur og talaði bjagaða íslensku og var auk þess fljótmæltur, svo menn skildu hann illa og komu þeir því oft til Sigurðar sem túlkaði fyrir þá tilskipanir Óla þannig að menn vissu hvað átti að gera. Hafði Sigurður mikinn húmor fyrir þessu og hermdi vel eftir Óla Tynes þegar hann sagði frá.
Sigurður reyndist góður og gegn maður og duglegur að koma sér áfram, en hann var ráðinn fyrsti forstjóri skipafélagsins Hafskips og óx félagið undir hans stjórn hægt og bítandi þar til hann lét af störfum til að stofna eigið fyrirtæki – Alþjóðalíftryggingafélagið, sem hann lagði alla krafta sína í og gekk það félag mjög vel.
Ég minnist þess þegar ég átti leið fram hjá skrifstofu hans og datt í hug að heimsækja hann og var hann ekki við, þá hringdi starfsmaður hans í hann og tilkynnti honum komu mína, kom þá Sigurður eins og skot þar sem hann var að sinna málum úti í bæ, bara til að hitta mig þó að erindi mitt væri bara að spjalla við hann. Þannig virtist Sigurður hafa ótakmarkaðan tíma fyrir vini sína og fjölskyldu þó að mikið væri hjá honum að gera.
Þannig var þessi maður, háttprúður í alla staði, kurteis og orðvar, það held ég að komi frá föður hans Njáli, sem var grandvar og strangheiðarlegur maður. Móður sína missti Sigurður í frumbernsku.
Sigurður var íþróttamaður í æsku og bar sig alla tíð vel og hélt sér ávalt vel í klæðaburði svo að af bar. Guðný og Sigurður áttu barnaláni að fagna og er fjölskyldan ákaflega samrýnd og ferðuðust þau öll mikið saman og nutu náttúru og veiðiskapar og þegar barnabörnin komu fóru þau ekki varhluta af gæðum afa og ömmu, öll elskuð og virt af þeim.
Voru þau hjón einstaklega gestrisin og eru fjölskyldu- og vinaveislur þeirra sérstaklega eftirminnilegar fyrir frábærar móttökur og var létt yfir þeim svo að allir nutu sín vel, eldri sem yngri enda hjónin spaugsöm og glaðlynd.
Með Sigurði er genginn heilsteyptur maður og vinsæll og er ég ekki í neinum vafa um að vel sé tekið á móti honum í æðri heimi af látnum vinum og ættingjum. Honum fylgja góðar fyrirbænir frá okkur öllum í fjölskyldu Péturs mágs hans og Sigríðar ekkju hans og börnum þeirra og barnabörnum.
Við biðjum góðan Guð að blessa Sigurð og fjölskyldu hans, sem hann lifði og starfaði fyrir af mikilli væntumþykju. Far þú í eilífðina, kæri vinur, í Guðs friði.
Fyrir hönd fjölskyldu Péturs og Sigríðar,
Ásgeir
Pétursson.
-------------------------------------------------
mbl.is/minningar
Látinn er öðlingurinn Sigurður Njálsson, samferðarmaður okkar hjóna um hálfrar aldar skeið. Þó eru kynni okkar raunar heldur eldri vegna þess að honum hlaust sú gæfa að eignast fyrir eiginkonu sveitunga sinn Guðnýju Þorsteinsdóttur. Hún var bekkjarsystir okkar Bentu úr Verslunarskólanum, árgangi 1943.
Við þessi tímamót koma mörg atvik upp í hugann. Sum brosleg, öll ánægjuleg.
Ferðalög utan lands sem innan skipa þar drjúgan sess. Ber þá einna hæst árlegar veiðiferðir. Rennt var í Haffjarðará og Haukadalsá, Gljúfurá og Grímsá og fleirum. Úti við á og eftir veiði var spjallað og notið samvista. Það leiddist engum í návist Sigurðar og Guðnýjar. Sigurður var kappsamur við veiðarnar eins og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur og í minnum er haft þegar hann var kominn út í á og búinn að setja í fisk meðan aðrir voru enn að setja saman. Í öðrum ferðalögum var hann óþreytandi að gera okkur til geðs. Austur í Fljótshlíð, norður í Fljót og út í Fjörðu lá leið okkar og á marga aðra staði. Það voru unaðsstundir.
Við bættust svo ótal utanferðir. Af þeim er ef til vill minnisstæðust skíðaferð til Austurríkis. Voru þá áratugir síðan Sigurður hafði unnið til verðlauna á skíðamótum á Siglufirði en ekki að sjá að hann hefði nokkru gleymt.
Sigurður minntist oft æskustöðva sinna á Siglufirði, síldaráranna þegar brætt var og saltað nær allan sólarhringinn. Þar var vettvangur athafna og uppspretta auðs. Ungur tók hann þátt í hringiðu framkvæmdanna, var ráðinn skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins og gegndi því starfi uns honum þótti athafnaþrá sinni þar fullþröngur stakkur skorinn og hélt suður til að leita sér stærri verkefna.
Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Hafskipa og í hans höndum stækkaði félagið og dafnaði í harðri samkeppni við risana tvo Eimskip og Sambandið.
Hann fann þrótt sinn og getu og keypti hlut í líftryggingarfélagi og síðan það allt. Í hans höndum óx Alþjóða líftryggingafélagið og dafnaði meðan hann stóð þar í stafni.
Ein veigamikil ástæða fyrir velgengni hans í viðskiptum var hve reikningsglöggur hann var og átti létt með að fara með tölur. Vinir hans nutu þessara kosta og þáðu af honum góð ráð þegar fjármál voru annars vegar.
Vafalaust hefur hrunið valdið Sigurði tjóni eins og svo mörgum öðrum en þegar það bar á góma, dreifði hann talinu og vildi sem minnst úr því gera.
Hann var í eðli sínu íþróttamaður og tók jafnt sigri sem tapi.
Sigurður var einlægur sjálfstæðismaður en fylgdi ekki flokknum í blindni, heldur með opin augu og gagnrýni á forystu hans eftir því sem við átti hverju sinni.
Við hjónin minnumst ótal ánægjustunda með Sigurði og Guðnýju. Gestrisni þeirra voru engin takmörk sett, Sigurður vildi jafnan veita betur í mat og drykk en gestum þótti nóg.
Þegar við nú kveðjum Sigurð Njálsson hinsta sinni og vottum Guðnýju og börnunum Halldóru, Önnu Sjöfn og Ólafi Njáli innilega samúð, hugleiðum við hve óskaplega dýrmætt það er að hafa átt vináttu þeirra svo langan veg.
Benta og Valgarð.
---------------------------------------------------------
Sigurður Njálsson var í sveit hinna vösku skíðamanna frá Siglufirði er settu mark sitt á skíðaíþróttina í upphafi. Siglufjörður var þekktur fyrir tvennt, framúrskarandi skíðamenn, síld og meiri síld. Við þetta ólst Sigurður upp sem og fleiri Siglfirðingar, kornungur starfaði hann við öll þau verk er til falla við síldarverkun. Sigurður fór til náms í Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1941. Á þessum árum treystu námsmenn á sumarvinnu við síldina og eru þeir ófáir sem miðuðu nám sitt við þær tekjur.
Að loknu námi starfaði Sigurður hjá Sparisjóði Siglufjarðar
og Síldarverksmiðjum ríkisins. Siglufjörður þess tíma var einkennilegur bær, um leið og síldin kom tífaldaðist fjöldi bæjarbúa, þar iðaði allt af lífi.
Þetta voru tímar þess að eiga allt eða ekkert, samanber Íslands-Bessa.
Árið 1958 flytja þau Sigurður og Guðný til Reykjavíkur, nokkru síðar er Sigurður ráðinn
fyrsti forstjóri nýstofnaðs skipafélags, Hafskip hf., þetta var krefjandi starf þar sem um nýtt skipafélag var að ræða og nýtt skip í smíðum er hentaði slíku
félagi.
Þegar félagið var komið vel á legg fóru utanaðkomandi aðilar að ásælast hið ágæta félag, sem þá var selt. Upp úr þessu keypti Sigurður tryggingafélag sem hann rak af miklum krafti í fjölda ára en seldi síðan til SPRON og tengdra aðila. Sigurður og Guðný hafa ferðast mjög mikið bæði innanlands og utan, þeim tíma fannst þeim vel varið. Síðasta ferð þeirra var þátttaka í niðjamóti á Siglufirði síðastliðið sumar.
Þessi ferð var þeim mjög gefandi, að hafa allan niðjahópinn samankominn í fæðingarbæ þeirra. Við þetta tækifæri afhentu Sigurður og Guðný safni Bjarna Þorsteinssonar fallega innbundna frumútgáfu ljóðmæla Bjarna. Sigurður gerðist félagi í Lionsklúbbnum Ægi og var þar forseti þegar mikilvægar ákvarðanir voru teknar varðandi Sólheima í Grímsnesi en klúbburinn hefur styrkt starfsemi þeirrar stofnunar í áratugi. Stuðningur klúbbsins gerði gæfumun enda var þar um heila húseign að ræða sem hýsti stóran hluta starfseminnar á þeim tíma.
Sigurður og Guðný unnu listum og góðum bókum, heimili þeirra bar þess merki, ekkert of eða van, málverk og list nákvæmlega á þeim stað er þeirra naut best. Sigurður og Guðný voru gæfunnar hjón, ávallt tilbúin að gleðja og gefa með sinni útgeislun. Sigurður var óvenju heilsuhraustur alla tíð nema síðasta ár var honum erfitt.
Sigurður lagði gjörva hönd á margt á sínu langa æviskeiði, ávallt til góðs bæði fyrir ástvini og samferðafólk sitt. Vinir hans þakka honum fyrir þá einstöku tryggð er hann sýndi þeim alla tíð og lúta höfði í þögn. Gleðistundir með Sigurði verða ekki fleiri en minningin lifir, með djúpstæðum söknuði kveðjum við Sigurð og sendum innilegustu samúðarkveðjur til ástvina hans.
Þórir Jónsson.
--------------------------------------------------------
Það var haustið 1958, sem fundum okkar Sigurðar bar fyrst saman. Við gengum þá í Lionsklúbbinn Ægi og vorum þar virkir félagar upp frá því. Félagar í klúbbnum hafa beðið mig að flytja samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og þakkir til Sigurðar fyrir frábær störf í klúbbnum. Það var svo ekki fyrr en við Þóra fluttum í fjölbýlishúsið Breiðablik, sem veruleg vinátta varð með okkur hjónunum.
Þau Guðný Anna og Sigurður voru þar næstu nágrannar okkar og nánari vinir eftir því sem árin liðu. Leið varla sá dagur að við hefðum ekki samband. Seinni árin sóttum við svo fundi saman í Ægi. Ég sá Sigurð raunar fyrst á landsmóti skíðamanna á Akureyri, líklega árið 1943, glæsilegan ungan mann, þar sem hann varð Íslandsmeistari í skíðastökki, en stökkstíll hans var einstakur. Þau hjónin voru miklir Siglfirðingar, enda alin þar upp til fullorðinsára.
Fylgdust þau náið með Siglfirðingum, enda heimahagarnir þeim ákaflega kærir. Þar ólst Sigurður upp og starfaði einmitt á síldarárunum. Það hýrnaði nú heldur yfir honum og glampi kom í augun þegar hann rifjaði upp umsvifin á síldarárunum. Lýsti hann því þegar fjörðurinn hans fylltist af erlendum og íslenskum skipum með fullfermi dag eftir dag og bærinn iðaði af lífi og fjöri.
Sigurður lauk námi við Verslunarskólann og starfaði fyrst hjá Útvegsbankanum á Siglufirði og síðan skrifstofustjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í samtals 15 ár, eða þar til þau fluttu suður. Hann var fullur af fróðleik um lífið á Siglufirði á þessum uppgangstímum. Skömmu eftir að þau hjónin fluttu suður byggðu þau fallegt hús í Arnarnesinu, en heimili þeirra var glæsilegt enda vel hugsað um allt. Í Reykjavík starfaði Sigurður í heilan áratug sem framkvæmdastjóri Hafskipa. Dugnaður hans og útsjónarsemi fleytti félaginu áfram í harðri samkeppni.
Síðan keypti hann Alþjóðalíftryggingafélagið og stýrði af miklum dugnaði um margra ára skeið eða allt til þess að hann seldi félagið og settist í helgan stein. Þótt hann hætti vinnu var hann vakinn og sofinn með hugann við þjóðlífið, bæði þjóðmál og viðskipti. Hann fylgdist ákaflega vel með enda mjög töluglöggur. Við höfðum gjarnan þann sið að setjast við gluggann með frábæru útsýni yfir Fossvoginn og umhverfi og ræða almennt um þjóðmálin og það sem var að gerast í þjóðfélaginu. Þótti okkur á stundum ærið nóg um.
Sigurður var einstakur lánsmaður í einkalífi. Hann giftist frábærri konu, Önnu Guðnýju Þorsteinsdóttur, sem bjó honum óvenjuvinalegt og fallegt heimili. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn, sem vöktu yfir heimilinu og velferð gömlu hjónanna. Síðan komu sex barnabörn, sem lífguðu upp á tilveruna.
Síðustu 20 árin bjuggu þau hamingjusamlega í Breiðabliki, virt og vinmörg. Að leiðarlokum færi ég Guðnýju og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur með þakklæti fyrir óvenjuánægjulega vináttu. Minningin um vaskan drengskaparmann mun lifa.
Tómas Árnason.
---------------------------------------------------------
Sigurður Njálsson.
Ég kynntist honum fyrst þegar hann kenndi mér bókfærslu í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar sem þá var til húsa á loftinu í Siglufjarðarkirkju, en sú staðsetning mun trúlega með eindæmum, en svona var þetta og lukkaðist ágætlega. Sigurður var góður kennari, sérstaklega prúður og hógvær með alveg einstaklega fágaða framkomu en náði samt tilætluðum árangri. Síðar kynntumst við ennþá betur því örlögin fléttuðu okkur fjölskylduböndum.
Hann sótti sína glæsilegu eiginkonu Guðnýju Þorsteinsdóttur í hús foreldra hennar að Aðalgötu 9 á Siglufirði og ég mína fyrri konu Önnu í sama hús, en hún var uppeldissystir Guðnýjar og frænka að skyldleika. Og enn lágu leiðir okkar saman, þegar Sigurður og Guðný fluttu til Reykjavíkur þá keyptu þau sér íbúð í húsinu að Rauðalæk 40 en þar höfðum við Anna fest kaup á íbúð nokkrum árum fyrr.
Sigurður ólst upp á Siglufirði á þeim árum þegar síldveiðar skópu landinu okkar ómældar tekjur. Athafnalífið í þessum innilokaða bæ (á þessum árum var ekkert vegasamband við Siglufjörð) var engu öðru líkt. Síldin var söltuð og síldin var brædd og vinnufúsar hendur úr öllum landshornum þyrptust til bæjarins á hverju vori og unnu hlífðarlaust allt sumarið og öfluðu tekna til framfærslu og/eða til að kosta skólagöngu og allir voru glaðir og ánægðir. Ekki spillti það ánægjunni að um hverja helgi fylltist bærinn af innlendum og erlendum sjómönnum sem áttu helgarfrí og nutu þess.
Þegar haustaði fór utanbæjarfólkið til síns heima en bæjarbúar tóku fram skíðin sín, enda snjóaði yfirleitt snemma og skíðabrekkurnar voru óspart notaðar. Þegar fjöllin höfðu hjúpast hvítri mjöll, þá voru síðkvöldin ógleymanleg er öll víðáttan sindraði í mánaskini. Þetta var töfraheimur. Við eigum þessar minningar saman, þær gleymast ekki.
Sigurður lagði gjörva hönd á margt. Hann var bókari við Útvegsbankann á Siglufirði, hann var skrifstofustjóri Síldarverksmiðju ríkisins, hann var framkvæmdastjóri skipaútgerðar, hann stofnaði og rak líftryggingafélag og allt lék í höndum hans. Hann var farsæll í rekstri sínum og öðrum fyrirmynd. Hann var verðleikamaður, víðsýnn og hæfileikaríkur og hann var einstakur fjölskyldufaðir. Hans verður sárt saknað.
Nú á kveðjustund þökkum við fyrir samfylgdina og sendum ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur öll.
Hreinn Sumarliðason og fjölskylda.
-------------------------------------------------------------------
mbl.is - 30. janúar 2012 | Minningargrein
Sigurður Njálsson fæddist á Siglufirði 27. mars 1922. Hann lést á Landspítalanum 23. janúar 2012. Foreldrar hans voru Njáll Jónasson, f. 5.2. 1891, d. 25.11. 1976, og Ólöf Þorkelsdóttir, f. 25.11. 1889, d. 2.11. 1925. Bróðir hans var Guðjón Njálsson, f. 1917, d. 1989, kvæntur Heiðdísi Eysteinsdóttur, f. 1921, d. 2006 og systir hans var Sigurlaug Njálsdóttir, f. 1924, d. 2008, gift Óskari Friðjóni Jónssyni, f. 1921, d. 1991.
Sigurður missti móður sína þegar hann var þriggja ára og leystist fjölskyldan þá upp og var systkinum hans komið fyrir á Akureyri en hann varð eftir á Siglufirði og ólst upp hjá föður sínum. Sigurður kvæntist árið 1948 Guðnýju Þorsteinsdóttur, f. 1925. Guðný er einnig Siglfirðingur, dóttir Halldóru Sigurðardóttur og Þorsteins Péturssonar. Þau eignuðust þrjú börn, Halldóru, f. 1949, Önnu Sjöfn, f. 1952 og Ólaf Njál, f. 1958. Halldóra er gift Viðari Símonarsyni, f. 1945.
Þeirra börn eru Sigurður, f. 1976 og Dóra, f. 1981. Sigurður er kvæntur Sigurbjörgu Ólafsdóttur og eru börn þeirra Ólafur Viðar og Halldóra Sól. Anna Sjöfn er gift Guðmundi Páli Ásgeirssyni, f. 1947, og eiga þau dótturina Guðnýju, f. 1980. Ólafur Njáll er kvæntur Birnu Hildi Bergsdóttur, f. 1959, og eiga þau börnin Signýju, f. 1984, Kristínu, f. 1988, og Daníel, f. 1993. Signý er í sambúð með Leon Má Hafsteinssyni og eiga þau dæturnar Natalíu Rán og Emilíu Brá.
Sigurður brautskráðist frá Verslunarskóla Íslands 1941. Hann var bókari og gjaldkeri útibús Útvegsbanka Íslands hf., Siglufirði, 1941-44, aðalbókari og gjaldkeri Síldarverksmiðja ríkisins, Siglufirði 1944 og skrifstofustjóri sama fyrirtækis 1945-1958. Hann var framkvæmdastjóri fyrir Hafskip hf. frá stofnun 1959 til 1970 og var einnig stjórnarformaður í Verslunarfélagi Siglufjarðar hf. um árabil.
Árið 1970 keypti hann Alþjóða líftryggingarfélagið og var forstjóri þess til 1989. Í mörg ár flutti hann inn stál frá Póllandi og aðstoðaði Pólverja á margan hátt á Íslandi. Var hann sæmdur heiðursorðu Póllands árið 1988. Hann hlaut ennfremur Melvin Jones viðurkenningu frá Lionshreyfingunni en hann var félagi í Lionsklúbbnum Ægi. Fyrir utan Verslunarskólaárin átti hann heima á Siglufirði uns fjölskyldan flutti suður 1958 og settist að á Rauðalæk í Laugarneshverfi í Reykjavík. Árið 1966 fluttu þau í Mávanes í Garðabæ og þaðan 1992 í Efstaleiti. Útför Sigurðar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. janúar 2012, kl. 15.
Þegar kær fjölskylduvinur okkar er kvaddur koma upp í hugann ótal góðar minningar um samskipti við Sigurð Njálsson frá því að hann giftist Guðnýju Þorsteinsdóttur föðursystur okkar í Siglufirði fyrir rúmum 60 árum síðan, en miklir kærleikar hafa verið með þeim frá fyrstu tíð og góð samheldni innan þeirra fjölskyldu svo að eftir var tekið.
Sigurður og Guðný ferðuðust mikið sem var ekki algengt í lok heimstyrjaldarinnar 1939-1945 nema hvað togarasjómenn sigldu með aflann til Evrópu og komu heim með björg í bú.
Þau hjón fóru fljótlega í sín ferðalög til útlanda og nutum við systkinin í æsku góðs af því, en þau tóku ávallt glaðning með fyrir okkur eins og aðra.
Þegar Sigurður var á Siglufirði vann hann hjá Óla Tynes síldarsaltanda og kunni hann margar skemmtilegar sögur af samskiptum Óla og starfsmanna hans, en Óli var norskur og talaði bjagaða íslensku og var auk þess fljótmæltur, svo menn skildu hann illa og komu þeir því oft til Sigurðar sem túlkaði fyrir þá tilskipanir Óla þannig að menn vissu hvað átti að gera. Hafði Sigurður mikinn húmor fyrir þessu og hermdi vel eftir Óla Tynes þegar hann sagði frá.
Þegar ég byrjaði minn togaraferil 14 ára með föður mínum, var Sigurður byrjaður að vinna á skrifstofu sem hafði með útgerð togaranna Elliða og Hafliða að gera auk síldarverksmiðjanna. Þegar togararnir voru í landi komu allir togarakarlarnir í einu á skrifstofuna til að fá aura fyrir hressingu, og gekk á ýmsu á milli sjómannanna og skrifstofumannanna, sem sjómennirnir höfðu ekki mikið álit á. Þó var á þessu góð undantekning.
Sigurður var einstakt prúðmenni og bar virðingu fyrir þessum mönnum og leysti vel úr þeirra málum með bros á vör, enda báru þeir mikla virðingu fyrir honum. Ekki síst Pétur faðir minn enda voru þeir mjög góðir vinir alla tíð og á milli fjölskyldna þeirra var einstaklega gott samband. Naut ég svo sannarlega góðs af því þegar að ég gekk í Stýrimannaskólann í Reykjavík á árunum 1962-1965, en þá voru Sigurður og Guðný flutt til Reykjavíkur og kom ég oft til þeirra í mat á sunnudögum í hádegis lambakjötið en einnig til annarra föðurbræðra minna en þau vildu öll fylgjast með mér fyrir foreldra mína og gefa þeim reglulega skýrslu um skóladrenginn, enda á þessum árum ekki komnir farsímar til að fylgjast með eins og í dag. Kann ég öllu þessu góða fólki miklar þakkir fyrir góðar móttökur á þeirra heimili alla tíð, sérstakar þakkir til Sigurðar fyrir að vera á fyrsta skólaári mínu fjárgæslumaður fyrir mig.
Sigurður reyndist góður og gegn maður og duglegur að koma sér áfram, en var hann ráðinn fyrsti forstjóri skipafélagsins Hafskips og óx félagið undir hans stjórn hægt og bítandi þar til hann lét af störfum til að stofna eigið fyrirtæki - Alþjóða líftryggingafélagið, sem hann lagði alla krafta sína í og gekk það félag mjög vel. Ég minnist þess þegar að ég átti leið fram hjá skrifstofu hans og datt í hug að heimsækja hann og var hann ekki við, þá hringdi starfsmaður hans í hann og tilkynnti honum komu mína, kom þá Sigurður eins og skot þar sem hann var að sinna málum úti í bæ, bara til að hitta mig þó erindi mitt væri bara að spjalla við hann. Þannig virtist Sigurður hafa ótakmarkaðan tíma fyrir vini sína og fjölskyldu þó að mikið væri hjá honum að gera. Þannig var þessi maður, háttprúður í alla staði, kurteis og orðvar, það held ég að komi frá föður hans Njáli, sem var grandvar og strangheiðarlegur maður.
Móður sína missti Sigurður í frumbernsku. Sigurður var íþróttamaður í æsku og bar sig alla tíð vel, og hélt sér ávalt vel í klæðaburði svo að af bar.
Á stóru ættarmóti í Siglufirði í júlí 2011, sást vel að elli kerling var byrjuð að ná honum niður á annað hnéð en með þrautseigju og hörku fór hann ásamt Guðnýju á alla þá staði sem planað var, nema að ganga allan Héðinsfjörðinn að Vík, en þau létu sér nægja að fara að Vatnsenda.
Við hin gengum að Vík en þar ólst upp Halldóra tengdamóðir Sigurðar, en ættarmótið var haldið í minningu hennar og Þorsteins Péturssonar.
Fór þetta mót ákaflega vel fram og var vel heppnað í alla staði, og sérstaklega var gaman að eldri kynslóðin gat mætt og notið samskipta við alla afkomendur Halldóru og Þorsteins.
Guðný og Sigurður áttu barnaláni að fagna og er fjölskyldan ákaflega samrýmd og ferðuðust þau öll mikið saman og nutu náttúru og veiðiskaps, og þegar barnabörnin komu fóru þau ekki varhluta af gæðum afa og ömmu, öll elskuð og virt af þeim.
Voru þau hjón einstaklega gestrisin og eru fjölskyldu og vina veislur þeirra sérstaklega eftirminnilegar fyrir frábærar móttökur og var létt yfir þeim svo að allir nutu sín vel, eldri sem yngri enda hjónin spaugsöm og glaðlynd.
Með Sigurði er genginn heilsteyptur maður og vinsæll og er ég ekki í neinum vafa um að vel sé tekið á móti honum í æðri heimi af látnum vinum og ættingjum.
Honum fylgja góðar fyrirbænir frá okkur öllum í fjölskyldu Péturs mágs hans og Sigríðar ekkju hans og börnum þeirra og barnabörnum.
Við biðjum góðan guð að blessa Sigurð og fjölskyldu hans, sem hann lifði og starfaði fyrir af mikilli væntumþykju.
Far þú í eilífðina kæri vinur í guðs friði.
Fyrir hönd fjölskyldu Péturs og Sigríðar,
Ásgeir Pétursson.
-------------------------------------------------------------------
Það er fyrst og fremst mikið þakklæti sem er okkur bræðrum efst í huga þegar við kveðjum Sigurð Njálsson. Þakklæti fyrir einstakan hlýhug í garð fjölskyldu okkar.
Sigurður var glæsimenni á velli, virðulegur, hógvær og glaðlyndur. Sannur herramaður með fágaða framkomu og afar velviljaður þeim sem voru honum kærir.
Liðlega 60 ára hjónaband þeirra Guðnýjar, föðursystur okkar, var okkur fyrirmynd. Þar var ástin, gagnkvæm virðing og tillitssemi í forgrunni alla tíð. Návist þeirra var einkar notaleg og ávallt skemmtileg, stutt í húmorinn. Einkar samrýmd hjón sem áttu farsælt hjónaband á langri og viðburðaríkri æfi.
Sterkt í minningunni á uppvaxtarárum okkar eru jólaboðin þar sem stórfjölskyldan kom saman svo og fjölmargar heimsóknir í sumarbústað þeirra hjóna við Þingvallavatn. Bátsferðir, veiði, sólbað, spil við arininn og aðrar skemmtilegar stundir með þeim hjónum og börnunum eru góðar minningar sem fylgja okkur. Á heimilinu var gestrisnin í fyrirrúmi, áhugi fyrir öllu því sem snerti velferð okkar, glaðbeittar samræður um menn, málefni og fjármál, en þar var Sigurður svo sannarlega á heimavelli.
Stórfjölskyldan skipti Sigurð miklu máli og lagði hann mikið á sig til að fyrir hana. Síðasta sumar var ættarmót á Siglufirði hjá fjölskyldu Guðnýjar. Þar voru hjónin geislandi af gleði og með nærveru sinni gerðu ættarmótið ógleymanlegt. Dagana á undan hafði heilsa Sigurðar ekki verið góð en norður fór hann til að vera með. Mikið þrekvirki fyrir mann á hans aldri þar sem einbeittur vilji skipti sköpum.
Á skilnaðarstundu dvelur hugur okkar með Guðnýju, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum. Biðjum Guð að vernda þau og styrkja í sorg og söknuði.
Þorsteinn Skúli og Guðmundur Ingi Ásmundssynir.