Kjartan Ólason

Kjartan Ólason - ókunnur ljósmyndari

mbl.is  13. mars 2008 | Minningargreinar 

Kjartan Ólason fæddist á Siglufirði 3. apríl 1935. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 5. mars 2008.

Foreldrar hans voru hjónin Óli Ólsen frá Skálavík á Sandey í Færeyjum, f. 8.11. 1899, d. 21.3. 1964 og Þuríður Pálsdóttir frá Skógum í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu f. 11.9. 1902, d. 9.7. 1968.

Bróðir Kjartans er Páll Ólason, f. 22.7. 1937. Eiginkona Páls er Súsanna K. Stefánsdóttir.

Kjartan kvæntist 4.6. 1960 Kristínu Valgerði Matthíasdóttur, f. 15.9. 1937.
Foreldrar hennar voru Matthías Hallmannsson og Sigríður Jóhannesdóttir. Þau eru bæði látin.

Börn Kjartans og Kristínar eru:

 • 1) Matthías, f. 18.6. 1955, maki Anna Guðrún Tómasdóttir. Börn þeirra: a) Kristín Vala , f. 18.3. 1981, sambýlismaður Sindri Sveinsson, barn Viktor Már , f. 24.10. 2005, b) Sigrún, f. 20.12. 1983, sambýlismaður Stefán Karl Sævarsson, c) Tómas Óli, f. 2.9. 1985, d) Alma Gulla, f. 23.7. 1989, unnusti Helgi Eyjólfsson.
 • 2) Óli Þór, f. 5.12. 1959, maki Jóhanna Grétarsdóttir, sonur þeirra er Kjartan, f. 13.6. 1986. Sonur hans og Sheylu Ferreira er Óli de Mello, f. 28.2. 2006. Dóttir Jóhönnu af fyrri sambúð er Guðbjörg Ragna Sigurjónsdóttir, f. 29.3. 1982, sambýlismaður Björgvin Guðnason.
 • 3) Hólmfríður, f. 24.10. 1965, maki David Urick. Þau slitu samvistum. Börn þeirra a) Georg Morris, f. 9.8. 1994, b) Mary Jane, f. 18.1. 1996, c) Elizabeth Anne, f. 6.10. 1999, d) Nicole Kristin, f. 14.7. 2001.

Kjartan lærði vélvirkjun í Dráttarbraut Keflavíkur og starfaði sem vélstjóri á fiskiskipum fram til ársins 1970 er hann venti sínu kvæði í kross og hóf rekstur fiskbúðarinnar að Gnoðavogi 44. Fiskbúðina rak hann af miklum myndarskap í 11 ár og í framhaldi af því Fiskverkunina Bás í Keflavík fram til ársins 2003. Eftir það vann hann ýmis störf.

Kjartan var mikill áhugamaður um brids og stundaði það af miklum móð í áratugi og vann til fjölda verðlauna. Hann var gjaldkeri Bridsfélags Suðurnesja um árabil og í stjórn Bridssambands Reykjanesumdæmis (BRU) til fjölda ára. Ennfremur sá hann um rekstur félagsheimilisins að Mánagrund í nokkur ár.

Útför Kjartans fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Í fáeinum orðum langar mig að drepa á það helsta sem stendur eftir í minningunni um pabba. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er þegar hann fékk þá hugmynd að keyra á milli sveitabæja og selja nýjan fisk. Þetta var á sjöunda áratugnum og fékk ég stundum að fara með. Það brást ekki að hver einasti bóndi keypti fisk. Sumir keyptu 15 og 20 kíló. Það næsta sem kemur upp er þegar Skotta dó. Þannig var mál með vexti að beint á móti okkur í Háaleitinu áttu Bubbi Einars og Gunni heitinn bróðir hans tík sem hét Skotta.

Einhvern veginn féll ég fyrir þessari tík og fékk ég leyfi hjá þeim bræðrum að vera mikið með tíkina og fékk hún yfirleitt að vera hjá mér yfir nætur en svo var hún meira og minna á heimili þeirra á meðan við vorum í skólanum. Mamma bauð mér síðan til Glasgow. Þegar við komum til baka nokkrum dögum síðan kom áfallið. Skotta hafði glefsað í einhvern og lögreglan var fengin til að aflífa hana. Ég brotnaði gjörsamlega niður af sorg. Heimtaði síðan að pabbi hefði uppi á henni.

Hann fór til lögreglunnar og fékk þær upplýsingar að þeir hefðu hent hræinu á haugana á Miðnesheiði, sem voru opnir sorphaugar fyrir öll Suðurnesin og þar á meðal fyrir herinn líka. Ég bað pabba að koma með mér og leita að henni. Hann gerði það og við keyrðum upp á heiðina. Af tillitssemi bað pabbi mig um að bíða í bílnum á meðan hann færi að leita. Það leið langur tími áður en hann kom aftur.

Loksins kom hann til baka, grútskítugur upp fyrir haus og sagði setninguna sem ég mun aldrei gleyma: „Ég fann hana.“ Þannig var hann, alltaf ósérhlífinn gagnvart sjálfum sér. S

kotta fékk því virðulega útför. Einar, pabbi Bubba og Gunna, smíðaði kistu og við þrír félagarnir jörðuðum hana uppi á Iðavöllum við hliðina á verkstæðinu hans Einars.

Á tímabili í kringum 1970 var pabbi ansi duglegur við að safna brotajárni, eir, kopar og blýi. Hann var að finna rafmagnskapla út um allt á varnarsvæði hersins. Hann bræddi blýið með því að brenna kaplana. Oft sátum við og horfðum á loganna langt fram á nætur. Í augum guttans voru þetta eðalmálmar, nánast eins og gull. Ég man eftir því þegar ég fór með honum í bæinn og hann seldi þetta. Allt var borgað út í hönd með seðlum. Ég hafði aldrei á ævinni séð svona marga seðla.

Eftir að ég og fjölskyldan mín fluttum aftur til Keflavíkur úr Grundarfirði 1994 gerðist ég makker pabba í brids. Við spiluðum óslitið saman þangað til hann veiktist og gat ekki lengur haldið á spilum síðastliðið vor. Það gekk nú á ýmsu, mikið karpað, oft skammast, stundum aðeins meira en það.

Spilið veitti honum líka mikla gleði og var honum mjög annt um bridsfélagið sitt. Árangurinn hjá okkur var mjög góður, það hlýtur allavega að vera, því bara núna í vikunni var ég að skoða verðlaunasafnið hans og hætti ég að telja þegar gripirnir voru orðnir á annað hundrað.

Hér er komið að leiðarlokum. Síðasta spilið er komið í stokkinn, leiknum er lokið. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur veitt mér og minni fjölskyldu í gegnum tíðina, uppeldið á Kjartani meira og minna á hans yngri árum. Hvíl í friði.

Þinn sonur, Óli.
-------------------------------------------------

Elsku pabbi og afi.

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.
 • Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.

 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Dóttir og barnabörn í Bandaríkjunum.
-----------------------------------------------------------

Pabbi var ekki allra. Oft kaldur, smámunasamur, afskiptasamur, stjórnsamur og húmorslaus en hafði stórt hjarta. Hann var fljótfær og snöggur upp en þá tók hjartað yfirhöndina og iðraðist hann fljótt. Margir nutu góðs af örlæti hans og greiðvikni og er ég ekki þar undanskilinn. Við pabbi áttum ekki skap saman og oft sló í brýnu milli okkar. Ég galglopi en pabbi jarðbundinn og gerði ekkert vanhugsað. Oft fljóthuga og snöggur upp en samt framkvæmdi hann allt vel úthugsað.

Pabbi ólst upp á Siglufirði á fyrri hluta síðustu aldar og Sigló mótaði hann mjög og hugsaði hann ávallt hlýtt þangað. Hann heimsótti staðinn reglulega þrátt fyrir að flestir sem hann þekkti væru annaðhvort fluttir á brott eða látnir. Við rökræddum ítrekað um Siglufjörð. Mér var alveg sama um plássið en hann varði það af elju. Sagði Sigló og sambærileg pláss og síldina sem þar barst á land hafa stuðlað að þeirri velmegun sem við núna byggjum við.

Mínar skoðanir á Héðinsfjarðargöngunum og að peningunum í þau væri betur varið annars staðar voru ekki til umræðu. Skoðun hans varð ekki hnikað og málið útrætt. Frekari umræða hefði bara endað á einn hátt.

Hann hafði taugar til Færeyja og ræktaði samband við frændgarð sinn þar. Pabbi var mikið jólabarn og bar húsið að Fagragarði merki þess á hverjum jólum. Það tók marga daga að skreyta húsið smekklega. Veikindi breyttu þar engu um og um síðustu jól kom hann upp seríunum. Á menntaskólaárum mínum fór ég ótal ferðir með honum til Reykjavíkur. Ferðin tók heila eilífð því sá Guli komst varla í 60 og var ég viss um að allir bílar landsins hefðu farið fram úr okkur á leiðinni. Þessar ferðir eru þær leiðinlegustu sem ég hef farið um ævina.

Pabbi og mamma voru mjög ólík en bökkuðu hvort annað upp og áttu saman rúmlega hálfa öld í ástsælu sambandi. Þau ferðuðust víða en Spánn var í miklu uppáhaldi. Helsta áhugamálið var brids og eru mínar æskuminningar frá spilakvöldum þar sem komið var saman heima í Háaleiti og spilað langt fram eftir nóttu. Bölvið og ilmurinn af vindlunum er meitlað í minningabókina. Annað áhugamál var berjatínsla, og var með ólíkindum dugnaður hans í við hana.

Síðan tók við margra daga vinna við að safta og setja á flöskur. Þrátt fyrir veikindi komst hann í berjamó í haust og saftaði eftir kúnstarinnar reglum. Þetta er nokkuð sérstakt því á öðrum ferðalögum hans og mömmu um landið var ferðahraðinn mikill og nánast ekkert stoppað nema til að fá sér kaffisopa eða sinna líkamlegum þörfum. Sjávarútvegurinn stóð honum ávallt nærri og fylgdist hann með sjósókn til hins síðasta.

Einhver síðasta spurning hans var hvernig loðnuveiðarnar gengju, hverjar aflaheimildirnar væru. Nú er hann horfinn á önnur mið og örugglega farinn að taka slagi við bridsaranna vini sína fyrir handan og að skoða aflabrögð eða huga að jólaskreytingum hjá Almættinu. Hvað svo sem hann hefur fyrir stafni, þá get ég fullyrt að hann er sáttur við að hafa fyrir andlátið náð því að skila mömmu aftur heim í Garðinn.

Matthías.
------------------------------------------------------------

Það eru þrjátíu ár síðan ég kynntist Kjartani Ólasyni, tengdaföður mínum. Við fráfall hans koma upp í hugann minningar um fróðleiksfúsan, harðduglegan mann sem sjaldan féll verk úr hendi.

Fyrstu minningarnar eru af manni sem var nýbúinn að vera á námskeiði í matreiðslu. Hann bauð fjölskyldunni stoltur í matarboð og hafði gaman af að útbúa kjarngóðan mat fyrir okkur sem kunnum vel að meta.

Minningar um mann sem hafði einstaklega gaman af því að ferðast bæði innanlands og utan. Eftir að Kjartan hætti að vinna fóru þau Lilla tengdamamma í margar ferðir um landið, ekki endilega langar ferðir, en alltaf var frá einhverju að segja eftir hverja ferð. Oft tók Kjartan eftir hlutum sem við hin hugsuðum lítið um og var það jafnan tengt sjómennsku eða atvinnulífi. Miðlaði hann til okkar hinna og opnaði oft augu yngra fólksins fyrir ýmsu sem vel var gert eða betur mátti fara.

Á haustin var farið í ber og saftað úr afrakstri ferðanna. Utanlandsferðirnar voru margar og víða farið, en mér er sérstaklega minnisstætt þegar hann kom í heimsókn til okkar Matta þegar við bjuggum á Flórída. Hann vildi skoða, fræðast og sjá sem mest með eigin augum.

Minningar um afann Kjartan sem allt vildi fyrir barnabörnin sín gera. Þegar börnin okkar voru lítil fengu þau stundum að gista í Keflavík. Þar var afi alltaf boðinn og búinn að gera allt fyrir börnin og reyndi að uppfylla óskir þeirra í hvívetna. Nú eftir að langafadrengirnir fæddust hafði hann mikla unun af því að fylgjast með þeim, þroska þeirra og framförum.

Nokkur ár eru síðan Kjartan greindist með krabbamein, en hann var ákveðinn í að takast á við það og láta það raska lífi sínu sem minnst. Síðustu mánuðir hafa á margan hátt verið erfiðir en samt var farið í ferðalög til útlanda síðastliðið haust. Þrautseigja og dugur einkenndi hann svo lengi sem heilsan leyfði. Á þessum tíma hefur Lilla tengdamamma verið stoð og stytta Kjartans og var aðdáunarvert að horfa á samspil þeirra allt til hins síðasta.

Tengdamóður minni votta ég mína dýpstu samúð, missirinn er mikill þegar lífsförunautur kveður eftir langa samfylgd. Hún hefur alltaf staðið þétt við hlið hans og er hetja í mínum huga. Ég bið þess að góður Guð styrki hana, börnin þeirra, bræður og okkur öll í fjölskyldunni á erfiðum tímum sem og í framtíð.

Ég kveð Kjartan Ólason og þakka honum samfylgdina í gegnum árin.

Blessuð sé minning hans.

Anna Guðrún Tómasdóttir.
--------------------------------------------------------------------

Ég varð orðlaus þegar ég fékk fréttirnar, ég áttaði mig ekki á því að þetta myndi gerast svo snemma. Ég var búinn að ákveða að koma heim í sumar til þess að eyða fleiri stundum með þér og ömmu. Af öllum hafðir þú mest áhrif á líf mitt. Allt sem ég hef afrekað eða lært er að svo mörgu leyti þér að þakka. Þú varst mjög sterkur síðustu stundirnar og vorum við í stöðugu sambandi í síma og tölvupósti. Það er mjög erfitt að kveðja þig en gott að vita að þú hafir loksins fengið hvíld eftir baráttuna við þessi erfiðu veikindi.

Þegar ég var lítill fannst mér alltaf gaman að koma til afa og ömmu, því þú vissir svo mikið um heiminn og gast kennt mér svo margt. Áður en ég lærði að lesa sýndir þú mér hvernig mótor var búinn til, og leyfðir mér að taka í sundur útvörp til þess að skoða innihaldið, þó svo ég hafi ekki náð að setja þau saman aftur. Ég man líka eftir því þegar ég hjálpaði þér í fiskhúsinu niðri á Básveg. Þar byrjaði ég að vinna ungur og lærði að vera alltaf duglegur.

Ég gleymi því aldrei þegar þú komst með fyrstu tölvuna okkar af fiskmarkaðinum. Þetta var eiginlega ekki tölva, heldur skjár sem hægt var að tengja við móðurtölvu. Fyrir mér var þetta algjört undur og saman vorum við tímunum saman að reyna að ná einhverju öðru en gulum texta á skjáinn, án árangurs, en við áttum mjög góðar stundir saman. Þá var ákveðið að kaupa Victor-tölvu, sem var 286-vél með Windows 1.0. Þetta fannst mér algjör bylting og ákveðið var að setja upp skrifstofu á háaloftinu, þar sem ég var frá morgni til kvölds að fikta í tölvubúnaði.

Ég elskaði líka að ferðast með ykkur ömmu og fór með ykkur til Spánar, Portúgals og Bandaríkjanna. Með því að sýna mér heiminn kenndirðu mér að hugsa út fyrir boxið og ég tel það einn mikilvægasta lærdóminn í lífinu. Í þessum ferðum vöknuðu alltaf ótal spurningar, og alltaf áttirðu svar við öllu. Þegar ég horfi til baka, þá eigið þið amma stóran þátt í öllum bestu minningum æsku minnar.

Með þinni visku og hvatningu veittir þú mér innblástur í hverju ég ætti að helga líf mitt, og kenndir mér að hætta ekki við þótt eitthvað tækist ekki við fyrstu tilraun. Ég er stoltur af því að vera nafni þinn og minningin um góðan afa mun ávallt fylgja mér.

Ég kveð þig nú með tárum og miklum söknuði,

Þinn Kjartan Ólason.
--------------------------------------------------------

Elsku afi. Minningarnar eru margar og góðar frá veru okkar hjá ykkur ömmu og afa í Kefló. Fáar voru þær heimsóknirnar til ykkar að Tommi og Jenni væru ekki settir í tækið og þegar við vorum yfir nótt fengum við alltaf að leigja vídeó. Lögguskólinn var þar efst á vinsældalistanum ásamt Annie og fleiri gömlum og góðum myndum. Þær voru líka ófáar ferðirnar niður í fiskhús að ná í harðfisk og stundum fengum við meira að segja að hjálpa smá, það var æði, sérstaklega þegar við fengum borgað fyrir. Okkur er líka mjög eftirminnilegt að þú fórst alltaf á stuttermabolnum inn í frysti í fiskhúsinu.

Þú fórst líka alltaf með okkur í bíltúr niður á höfn að skoða bátana og þá var skemmtilegast ef við máttum sitja aftan í pikkupnum og kastast þar til í hverri beygju. Í einni heimsókninni vorum við í plastsundlaug úti á palli og fórum eitthvað að fikta í slöngunni. Þú varst ekki sáttur þegar slangan fór í sundur og bílskúrinn fór á flot. Í heimsóknunum fengum við að upplifa að vera ofdekruð í nokkra daga og þið gerðuð allt fyrir okkur.

Í seinni tíð fækkaði ferðum okkar suður en þú fylgdist alltaf jafn vel með okkur. Þú lærðir á tölvu og fylgdist með okkur í gegnum netið sama hvar við vorum stödd í heiminum. Þú fylgdist líka alltaf vel með langafastrákunum þínum eftir að þeir komu í heiminn. Þú lést þig aldrei vanta í afmæli og veislur og keyrðir á milli þó að heilsan væri farin að gefa sig. Elsku afi, við þökkum fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Minning þín mun lifa með okkur, hvíldu í friði.

Kristín Vala, Sigrún, Tómas Óli og Alma Gulla.
-----------------------------------------------------------------------

Bróðurkveðja

Ævi bróður er samofin ævi manns – rætur beggja svo samtvinnaðar að gagnkvæm áhrif endast ævilangt. Mikið er gott að vita til þess, að þegar ég á að vera virðulegur, skynsamur og klár er einn meðal viðstaddra sem lítur til mín og brosir. Hann veit nákvæmlega hver ég er og hvernig mér er innanbrjósts. Áminning um uppruna okkar. Órjúfanlegur hlekkur sem tengir mig veruleikanum.

Nýir félagar og nýir ástvinir verða að geta sér til um það sem hefur mótað þig. Við höfum hins vegar deilt ótta og sorgum, sigrum og ævintýrum og öllu þessu skemmtilega sem fjölskyldur halda upp á og enginn annar skilur. Við vorum frábærir bræður. Ævi okkar beggja er samtvinnuð allt frá rótum. Hvað sem úr okkur hefur orðið og hversu ólíkar brautir sem við höfum valið lifir minningin um leyndarmálin, sorgina, sigrana og ævintýrin með okkur um aldur og ævi. Nú ert þú genginn til austursins eilífa, til birtunnar, fegurðarinnar og kærleikans.

Elsku bróðir, besti vinur.

Páll Ólason.
----------------------------------------------------

Margs ber að minnast er ég kveð Kjartan, frænda minn, hinstu kveðju. Kynni okkar og Lillu, konu hans, urðu nánari eftir að ég flutti suður á mölina. Alltaf var jafn gaman að heimsækja þau enda höfðingjar heim að sækja, bæði í orði og rausnarskap öllum. Þar var alltaf eins og þau ættu von á gestum, þvílíkar voru kræsingar og hlýhugurinn er mann bar að garði. Gjarnan voru þjóðfélagsmálin leyst á farsælan hátt meðan staldrað var við.

Kjartan var mikill sælkeri hvað mat snerti en þó fannst honum alveg yndislegt er ég bauð þeim hjónum í mat að það væri annaðhvort á borðum sviðalappir eða skata og sigin grásleppa enda voru þessi matarboð orðin árlegir viðburðir.

Nú er höggvið stórt skarð í frændgarðinn en sagt er að tíminn lækni flest sár. Það verður tómlegra að koma í Fagragarðinn þó að í dyrum standi yndisleg kona með útbreiddan faðminn sem býður manni brosandi velkomin.

Elsku frændi, ég veit að þú varst hvíldinni feginn þó að þú værir ekki alveg sáttur við að fara alveg strax. En nú eru þrautirnar vonandi horfnar og þitt fólk hefur tekið vel á móti þér fyrir handan.

 • Ég kveð þig með ljúfri bæn:
 • Þegar raunir þjaka mig
 • þróttur andans dvínar
 • þegar ég á aðeins þig
 • einn með sorgir mínar.
 • Gef mér kærleik, gef mér trú,
 • gef mér skilning hér og nú.
 • Ljúfi drottinn lýstu mér,
 • svo lífsins veg ég finni
 • láttu ætíð ljós frá þér
 • ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum.)

Elsku Lilla mín, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á erfiðum tímamótum. Guð geymi ykkur.

Sigurveig Buch.
------------------------------------------------------

 • Á kveðjustund er þungt um tungutak
 • og tilfinning vill ráða hugans ferðum,
 • því kærum vini er sárt að sjá á bak
 • og sættir bjóða drottins vilja og gerðum.

 • En Guðs er líka gleði og ævintýr
 • og góð hver stund er minningarnar geyma.
 • Farðu vel, þér fylgir hugur hlýr
 • á ferð um ljóssins stig, og þagnarheima.

(Kolbeinn Gíslason)

Bognar ekki en brestur í stóra bylnum síðast. Okkur komu þessi orð í hug þegar ég sá þig nýlátinn að morgni 5. mars.

Undanfarna mánuði varst þú búinn að vera mikið veikur af sjúkdómi sem leggur svo margan manninn að velli. En alltaf barstu þig vel. Stóðst meðan stætt var og vildir sem minnst um það tala. Þú sagðir oft að við ættum að tala um eitthvað annað.

Við í Grænagarði vorum tengd þér sterkum fjölskylduböndum. Mikill samgangur var á milli heimila, ég, Gummi og Hjölli söknum þess mikið að fá þig ekki lengur í kaffi og spjall. En svona er lífið, það gefur og tekur. Kjartan var mikill heimilismaður og liðtækur í eldhúsinu. Oftar en ekki ræddum við um matargerð og innkaup. Hann var maður sem breiddi sig yfir fjölskyldu sína og vini. Gott var að leita til hans til að fá hjálp og góð ráð. Hann var vélstjóri að mennt og var á bátum frá Suðurnesjum í mörg ár. Hann rak fiskverkun í Reykjavík í 11 ár, síðan fór hann út í fiskverkun, ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vinna með þeim hjónum þegar þau hófu reksturinn í Básnum í Keflavík, kringum árið 1980. Marga ýsuna vorum við búin að flaka og pakka.

Kjartan var fæddur og uppalinn á Siglufirði hjá góðum og ástríkum foreldrum.

Hann unni sinni heimabyggð, oft fóru þau hjón norður á sumrin í mörg ár. Alltaf gáfu þau sér tíma til að koma við hjá aldraðri móður minni í Skagafirðinum. Það þakka ég af heilum hug.

Elsku Kjartan, takk fyrir allar góðu stundirnar og það sem þú hefur gert fyrir okkur. Minning þín lifir með okkur um ókomin ár.

Elsku Lilla okkar, Matti, Anna, Óli, Jóa, Fríða, afabörn og langafabörn, Páll og Súsanna, þið hafið misst mikið.

Guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Inga Björk, Guðmundur og Hjörleifur.
-----------------------------------------------------------

Elskulegur vinur minn, Kjartan Ólason, er látinn eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Þegar hann fékk fréttina um krabbameinið fyrir tveim árum og að hann ætti þá aðeins sex mánuði eftir ólifað tók hann því með ótrúlegri ró og æðruleysi. Eftir mánuðina sex gladdist hann yfir hverjum degi með þeirri innri gleði og kímnigáfu sem honum einum var lagið.

Ég kynntist Kjartani fyrst þegar hann og Lilla ákváðu að kaupa neðri hæðina í húsi sem ég og þáverandi eiginmaður minn vorum að byggja að Lyngholti 7 í Keflavík. Þar hófst 50 ára yndisleg vinátta við Kjartan og Lillu sem aldrei bar skugga á. Við fluttum öll inn í húsið á svipuðum tíma.

Við ungu konurnar vorum heimavinnandi eins og þá tíðkaðist og mennirnir okkar að vinna, oftast á sjónum og stundum á sama bát. Lyngholt 7 varð þannig eins og eitt heimili uppi og niðri. Börnin okkar voru á svipuðum aldri og tókst með þeim góð vinátta enda kom þeim vel saman. Þetta var skemmtilegur tími með góðu fólki og við öll svo ánægð með lífið og tilveruna.

En svo kom að því nokkrum árum síðar að íbúðin niðri var orðin of lítil fyrir Kjartan og Lillu og þau fluttust í einbýlishús á Háaleitinu. Við söknuðum þeirra hjóna mikið og ákváðum að selja líka og svo fór að við keyptum hús í sömu götu svo það var aldrei langt á milli okkar.

Sem vinur og félagi var Kjartan ákaflega skemmtilegur og þægilegur maður. Hann var sérlega skapgóður og virtist hafa þann eiginleika að horfa alltaf á björtu hliðarnar. Hjálparhönd var hann, stöðugt reiðubúinn til að rétta vinum og vandamönnum ef á þurfti að halda.

Þegar ég fluttist af landi brott fyrir tuttugu árum kom í ljós hversu sterk vináttuböndin voru. Þau Kjartan og Lilla töldu þau ekki eftir sér að koma í heimsóknir alla leið á vesturströnd Bandaríkjanna og þegar ég kom heim voru þau alltaf fyrsta fólkið sem ég hringdi í. Og alltaf var sama notalega svarið hjá Kjartani: Ertu komin, Erna mín, vertu velkomin. Við Lilla ætlum að koma rétt strax til að sjá þig.

Kjartan var líka lánsamur maður að eiga hana Lillu. Það kom betur fram en nokkru sinni í veikindunum þar sem hún stóð hún við hlið hans eins og klettur.

Kjartan var mikill og kær vinur og í besta skilningi góður maður og mun ég sakna hans mikið. Ég kveð hann með þakklæti fyrir trygga og góða vináttu. Elsku Lilla mín, guð gefi þér, börnum þínum og barnabörnum styrk í þessari miklu sorg.

Erna Sigurbergsdóttir.
------------------------------------------------------------

Við andlát Kjartans koma upp margar ógleymanlegar minningar í huga okkar systkinanna sem ólumst upp á Hafnargötu 6 á Siglufirði, þegar við hugsum til hans að leiðarlokum, þær minningar tengjast æsku okkar á Siglufirði.

Foreldrar hans bjuggu í næsta húsi og á milli húsanna var engin girðing þannig að krakkahópurinn var eins og úr einu húsi.

Þeir voru tveir bræðurnir en við fimm systkinin. Samgangur milli heimilanna var mikill, Þura og mamma okkar voru miklar vinkonur og faðir okkar og Óli bæði vinir og spilafélagar.

Það voru ljúf ár sem við upplifðum í æsku okkar við leik á sumrin á bryggjunum sem lágu út í sjóinn neðan við Hafnargötuna og leik á skíðum á vetrum í fjallinu ofan við bæinn.

Við byrjuðum öll að hjálpa til við síldarsöltun á plönunum strax þegar við gátum, og taka þátt í því athafnalífi sem var í bænum.

Þegar síldin hvarf fluttu Óli og Þura suður eins og það hét fyrir norðan.

Kjartan bjó sér heimili og starfsvettvang í Keflavík.

Samskipti minnkuðu með árunum en við vissum alltaf hvert af öðru.

Þegar Kjartan og Lilla komu til Siglufjarðar í heimsóknir litu þau alltaf til foreldra okkar meðan þeirra naut við.

Viljum við þakka fyrir þá ræktarsemi og vináttu sem þau sýndu þeim.

Kjartan var alla tíð mikill Siglfirðingur og finnst okkur við hæfi að kveðja hann með þessu ljóði eftir Bjarka Árnason.

 • Hér við íshaf byggð var borin,
 • bærinn okkar SIGLUFJÖRÐUR.
 • Inn í fjöllin skarpt var skorinn,
 • Skaparans af höndum gjörður.

 • Til að veita skjól frá skaða
 • skipunum á norðurslóðum
 • sem að báru guma glaða,
 • gull er fundu í hafsins sjóðum.

 • Hér er skjól og hér er ylur,
 • hart þó ís að ströndum renni.
 • Þó að hamist hörku bylur,
 • hlýju samt hið innra kenni.

 • Fólkið sem að byggir bæinn
 • bestu lofgjörð honum syngur
 • um að bæti öllum haginn
 • eitt: að vera SIGLFIRÐINGUR.

Ástvinum öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur við andlát og útför Kjartans með þökk fyrir vináttu og tryggð.

Þórir Björnsson og systkini.
------------------------------------------------------------

Ágætur kunningi minn og samferðamaður, Kjartan Ólason, er látinn. Kjartan var einn af máttarstólpum Bridsfélags Suðurnesja hin síðari ár. Hann hefir verið gjaldkeri félagsins í áraraðir og var það til dánardags. Eins og í mörgum litlum félögum er barist við að ná endum saman fjárhagslega og eru þau ófá sporin sem Kjartan fór í erindagjörðum félagsins og aflaði fjár til starfsins.

Kjartan var meðal sterkustu spilara félagsins. Hæst bar þá er hann spilaði í átta sveita úrslitakeppni við son sinn Óla Þór um Íslandsmeistaratitilinn í sveitakeppni ásamt nokkrum félaga sinna í bridsfélaginu. Hann vann til allra titla sem í boði voru hjá Bridsfélagi Suðurnesja og Munin í Sandgerði og þá oftast með syninum Óla Þór.

Bridsspilarar á Suðurnesjum þakka Kjartani Ólasyni samfylgdina og senda eiginkonunni, Kristínu Valgerði Matthíasdóttur, Óla Þór og öðrum ástvinum samúðarkveðjur.

Arnór Ragnarsson.
-----------------------------------------------------------

Hinsta kveðja.

 • Stundin líður, tíminn tekur,
 • toll af öllu hér,
 • sviplegt brotthvarf söknuð vekur
 • sorg í hjarta mér.

 • Þó veitir yl í veröld kaldri
 • vermir ætíð mig,
 • að hafa þó á unga aldri
 • eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson)

Farðu í friði. Friður guðs þig blessi

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Eiginkona.

 

 

 

 

Óli Ólsen f. 8/11/1899 og kona hans Þuríður Pálsdóttir f. 11/9/1902 og synir þeirra Kjartan Ólason f. 3/4/1935 og Páll Ólason f. 22/7/1937