Sigríður Júlíusdóttir
mbl.is 17. mars 2020 | Minningargreinar | 1064 orð | 1 mynd
Sigríður Júlíusdóttir fæddist 16. ágúst 1930
á Siglufirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi Reykjanesbæ 7. febrúar 2020.
Foreldrar hennar voru Júlíana Ingibjörg Guðmundsdóttir,
f. 25.6. 1912, d. 6.4. 1999, og Jóhann Júlíus Einarsson, f. 15.5. 1901, d. 29.9. 1941.
Hinn 13. júní 1960 giftist Sigríður Halldóri Péturssyni, fyrrverandi sjómanni, f. 21.1. 1926, d. 22.3. 1991.
Síðar var Sigríður í sambúð með Gísla Emilssyni, f. 16.9. 1924, d. 28.4. 2010.
Börn Sigríðar og Halldórs eru
- 1) Jóhann Pétur Halldórsson,
f. 14.3. 1946, d. 14.1. 2010. Hann var giftur Ingileifi H. Björnsdóttur, f. 17.12. 1951, og eiga þau 4 drengi og 13 barnabörn.
- 2) Júlíus Einar Halldórsson, f. 12.10. 1950 og
á hann 6 börn og 11 barnabörn og 1 barnabarn.
- 3) Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 29.8. 1952, gift Ólafi Guðmundssyni, f. 20.12. 1948, og eiga þau 3 börn, 7 barnabörn
og 1 barnabarnabarn.
- 4) Rafn Halldórsson, f. 11.8. 1954, var giftur Huldu Haraldsdóttur, f. 19.12. 1952, d. 5.7. 2017, og eiga þau 3 börn, 7 barnabörn og 5 barnabarnabörn.
5) Björg Halldórsdóttir, f. 27.3. 1960, í sambúð með Nigel Kerr, f. 3.8. 1956, og eiga þau 1 barn og með Davíð Peers 2 börn og 6 barnabörn. - 6) Sigurður Halldórsson, f. 21.6. 1965, giftur Jónu Báru Jónsdóttur, f. 10.10. 1971, og eiga þau 3 börn.
Sigríður átti 6 systkini.
- Sigríður Sólborg, f. 28.3. 1932,
- Kristján, f. 30.7. 1933, d. 6.8. 2013,
- Steinþór, f. 6.4. 1938, d. 24.1. 2001,
- Bergmann, f. 5.9. 1939, J
- óhanna, f. 13.6. 1941, og
- Erlingur Björnsson, f. 23.11. 1946.
Sigríður var mikill námsmaður og stóð hugur hennar til frekara náms en við fráfall föður hennar þegar hún var 11 ára var hún send til vinnu til móðurættingja sinna á Seyðisfirði til að aðstoða móður sína sem stóð uppi með 5 börn án fyrirvinnu. Sigríður flutti síðar til Hafnarfjarðar frá Siglufirði með eiginmanni og börnum og síðar til Keflavíkur 1976. Sigríður vann ýmis störf um ævina, þar á meðal við afgreiðslustörf í blómabúð í Hafnarfirði, rak söluturn bæði í Hafnarfirði og Reykjavík. Eftir að hún flutti til Keflavíkur vann hún hjá Flughóteli Keflavíkur og síðast hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli þar til hún hætti að vinna. Sigríður var félagi í Lionessuklúbbi Keflavíkur í nokkur ár.
Útför hennar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 17. mars 2020, klukkan 13.
-------------------------------------------
Elsku mamma, þá er komið að því að við göngum saman síðustu sporin og svo skilur leiðir. Það er svo sárt og skrítið að koma til landsins og þú ert ekki lengur hér. Þú sem alltaf tókst mér opnum örmum í hvert skipti sem ég kom og varst svo blíð og góð og vildir allt fyrir mig gera.
Minningarnar eru margar. Vaka langt fram á nótt með þér, spjalla um allt og ekkert, leggja kapal, hlæja út í eitt og stundum tókum við lagið.
Þú kunnir sko alla þessa útilegusöngva orð fyrir orð. Þér fannst svo gaman að fara í útilegur og svo auðvitað bíltúra. Mér eru minnisstæðar ferðirnar norður á Sauðárkrók að heimsækja Sollu frænku. Þar keyrðum við út um allar sveitir og skoðuðum allt það sem okkur fannst merkilegt. Stoppuðum oft til að fá okkur kaffi og kökur og hlógum svo mikið að það stóð í okkur.
Mömmu þótti gaman að ferðast og kom til Nýja-Sjálands og heimsótti okkur í þrjá mánuði. Það voru yndislegir tímar og hún kynntist ömmubörnunum Agli, Önnu og Henri betur. Ein af mörgum minningum frá þeim tíma er þegar við ákváðum að fara í ferðalag. Öllu var pakkað í bílinn; töskum, hjólum og mat. Okkur datt í hug að keyra að nóttu til, minni umferð. Svo er lagt af stað. Þegar komin er mið nótt lít ég í afturspegilinn til að vita hvort mamma sé ekki sofnuð. Nei, þá situr hún með galopin stjörf augun. Mér bregður náttúrlega við og spyr hvort hún geti ekki sofnað. „Nei,“ segir hún. „Ég hef nú aldrei getað sofið í bíl!“ Eftir þetta ævintýri fórum við bara í dagsferðir.
Löngu seinna heimsótti Anna ömmu sína og var hjá henni í heilt ár. Mamma var henni afskaplega góð, þær kynntust vel og gerðu mikið saman. Svo komu Henri og Jessica konan hans 2017 og voru hjá henni í tvo mánuði. Þá voru íslenskukennslustundir á morgnana sem voru hver annarri fyndnari en samt lærðist margt og mömmu fannst þetta voða gaman. Það var því viðeigandi þegar Henri minntist ömmu sinnar í brúðkaupinu sínu og sagði að þegar hann var að byrja sitt líf hefði amma Sissa verið hjá honum og passað hann og þegar hún var komin á efri ár hefði hann verið hjá henni og passað upp á hana.
Mamma gat verið svolítið fyndin á köflum. Hún átti það til að kvarta yfir að enginn kæmi í heimsókn og enginn hefði hringt. Nema náttúrlega kom Hanna við og Ingibjörg kom í kaffi. Nú svo hringdi Solla og Siggi líka. Jú svo komu Fríða og Sigga seinnipartinn. En fyrir utan það, þá kom enginn!
Hún mamma mín var yndisleg kona. Hún vildi öllum vel, gerði aldrei mannamun og fann alltaf til með þeim sem minna máttu sín. Hún var alltaf til staðar að taka til hendinni. Hún var með svo mjúkar hendur sem héldu um höfuð manns og kyssti svo á báða vanga, bara eins og mamma ein getur. Já svona getur maður verið heppin að hafa átt svona góða mömmu. Það er eitthvað svo voðalega tómlegt núna og ég sakna hennar óendanlega.
Elsku mamma mín nú kveð ég þig í hinsta sinn og hvíldu vel. Þú átt stóran stað í hjarta mínu og ég mun ávallt minnast þín sem elskulegu góðu mömmunnar minnar.
Björg og fjölskyldan þín á Nýja-Sjálandi.
-----------------------------------------------------
Mig langar að kveðja hana Sissu með örfáum línum því öll mín æsku- og unglingsár var ég nánast daglegur gestur inni á hennar heimili á Vesturbraut í Hafnarfirði. Ástæðan var sú að ég og Björg dóttir hennar vorum óskiljanlegar vinkonur öll okkar æskuár. Það sem einkenndi Sissu fyrst og fremst var einskær góðvild og hjartahlýja í minn garð. Sissa elskaði að rifja upp fyrir okkur Björgu uppákomurnar sem við lentum í þegar við vorum litlar og var mikið hlegið að þeim.
Elsku Sissa mín, vil ég þakka þér fyrir allt, þú varst mér ávallt svo góð og umhugað um mig og mína fjölskyldu alla tíð og vil ég þakka þér samfylgdina í gegnum árin. Vil ég votta öllum hennar afkomendum og nánustu aðstandendum samúð mína. Minning um góða manneskju lifir áfram í hjörtum okkar.
Steinþóra Þorsteinsdóttir.