Lúther Einarsson rafvirki

Lúther Einarsson

Mjölnir - 14. júní 1978

Lúther Einarsson rafvirki, f. 25. maí 1910 d. 2. júní 1978

Lúther Einarsson Þeim fer fækkandi gömlu kempunum sem á fyrrihluta aldarinnar börðust af lífi og sál fyrir betri heimi, þar sem gæðum jarðar yrði réttlátlega skipt milli allra manna. Þá trúðu margir því og treystu að draumur þeirra um réttlætið væri að rætast austur í Rússlandi. Það var að birta af nýjum degi í myrkum og stríðshrjáðum heimi. Þá var eldmóður og baráttumóður í mörgum á Siglufirði eins og víða úti um lönd. Hér skyldu menn líka hrinda af sér aldagömlum fjötrum kúgunar og fátæktar. Lúther Einarsson var einn þessara baráttuglöðu manna.

Um skeið var hann formaður í félagi ungra kommúnista á Siglufirði. Þessi ár hafa eflaust mótað Lúther sem margan ungan manninn. Á þeim áratugum sem eftir fylgdu með margskonar mótbyr og vonbrigði reyndi verulega á þolrif sósíalistanna frá kreppuárunum. Sumir gáfust upp og gengu til liðs við fyrrum fjendur sína, aðrir héldu baráttunni ótrauðir áfram og enn aðrir drógu sig í hlé. Það er orðið langt síðan Lúther dró sig í hlé frá allri félagsstarfsemi, en ætíð fylgdi hann sósíalistum að málum.

Við þekktum Lúther sem einrænan og fáskiptinn. Hann var oft alvörugefinn og þurr á manninn en í aðra röndina var hann gamansamur og hlýr.
Á góðum stundum var Lúther glaðastur allra og margir nutu hjálpsemi hans og velvilja þegar rafmagnstæki þeirra biluðu. í iðn sinni var hann starfsamur og vandvirkur svo af bar.

Lúther hafði mjög ákveðnar og sérstæðar skoðanir á mönnum og málefnum og var ófeiminn að láta þær í Ijós ef því var að skipta. Nú er Lúther Einarsson horfinn af sjónarsviðinu og það eru margir sem sakna hans. Með þessum fáu orðum vil ég þakka Lúther góð kynni og velvild í minn garð.

Ö.K.