Sigurður Árnason skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins

Sigurður Árnason

Morgunblaðið - 27. apríl 1986

Sigurður Árnason skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins, lést að morgni föstudagsins 18. apríl 1986, 66 ára að aldri.
Útför hans verður gerð frá Fossvogskirkju á morgun, mánudag, klukkan hálf tvö miðdegis.

Sigurður fæddist að Kúskerpi í Húnavatnssýslu 17. dag aprílmánaðar árið 1920.
Foreldrar hans voru Guðrún Jónasdóttir og Árni Sigurðsson.

Ungur að árum fór hann í fóstur til Kristjönu Sigfúsdóttur og Sigmundar Sigurðssonar í Siglufirði, sem eldri Siglfirðingar muna vel og virtu mikils að maklegheitum. Siglufjörður varð síðan, lengst af, heimabyggð Sigurðar heitins og starfsvettvangur, sem hann bar hlýjar tilfinningar til.

(Einnig tóku fósturforeldara hans Stefán Baldvinsson í fóstur)

Sigurður Árnason sótti nám í Verzlunarskóla íslands og brautskráðist þaðan árið 1940. Hann vann nokkur ár við heildverslun í Reykjavík en lagði síðan leið sína heim í Siglufjörð. Hann réðst sem gjaldkeri til Síldarverksmiðja ríkisins árið 1948, sem þá voru veigamikill hlekkur í „síldarævintýrinu", sem fjármagnaði að hluta fárra áratuga hraðferð þjóðarinnar frá fátækt til velmegunar.

Sigurður varð síðan skrifstofustjóri SR árið 1959 og gegndi því starfi til dauðadags. Sigurður flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur árið 1982 er aðalbókhald fyrirtækisins var flutt til Reykjavíkur.

Sigurður Arnason var einn af eigendum Verslunarfélags Siglufjarðar hf. og stjórnarformaður þess fyrirtækis um langt árabil. Hann kenndi um árabil bókfærslu við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og sinnti því starfi af sömu samviskusemi sem öðrum. Kynni mín og Sigurðar hafa lengi staðið. Við störfuðum saman í stjórn Félags ungra sjálfstæðismanna í Siglufirði endur fyrir löngu og var hann þá, sem löngum síðar, hollráður, glöggsýnn og gætinn.

Var ekki laust við hann hefði taumhald á okkur hinum, sem þar störfuðu með honum, vorum yngri og kunnum ekki ævinlega skil á því, að kapp er best með forsjá. Sigurður vann Sjálfstæðisflokknum í Siglufirði farsælt starf. Hann var um langt árabil oddviti kjörstjórnar á staðnum. Við Sigurður áttum og samleið í Lionsklúbbi Siglufjarðar í rúma tvo áratugi. Þar var hann sami ljúfi félaginn og hvarvetna og sat oft í stjórn klúbbsins.

Við áttum einnig samleið í bridge-klúbbi í tæpa tvo áratugi, ásamt tveimur góðvinum okkar norður þar. í þessum félagsskap var Sigurður hrókur alls fagnaðar og sýndi á sér hliðar sem hann hampaði ekki hvunndags. Ekki dró það úr kynnum okkar Sigurðar að dóttir hans, Guðrún, og sonur minn, Kjartan, gengu í hjónaband og við urðum afar sömu barnanna. Það var raunar kórónan á löng kynni okkar.

Sigurður Árnason kvæntist eftirlifandi konu sinni, Sigríði Sigurðardóttur, árið 1949. Hjónaband þeirra var eins og best verður á kosið og margra ánægjustunda nutum við, vinir hans, á vistlegu heimili þeirra hjóna.
Þeim hjónum varð þriggja barna auðið:

  • Guðrún Kristjana Sigurðsdóttir, gift Kjartani Stefánssyni, ritstjóra.
    Þau eiga tvö börn.
  • Klara Sigurðardóttir gift Þresti Lýðssyni, framkvæmdastjóra.
    Eiga þau þrjú börn.
  • Árni Geir Sigurðsson, nemur rafmagnsverkfræði. Unnusta hans er Pálína Magnúsdóttir, nemi í bókasafnsfræðum.

Sigurður Arnason var um margt eftirtektarverður persónuleiki. Það sem einkenndi hann öðru fremur var vinnusemi, vandvirkni og samviskusemi. Vinnuframlag hans í þágu Síldarverksmiðja ríkisins var langt umfram það sem venjulegt getur talist. Allir, sem áttu við hann samskipti, virtu hann og báru til hans velvilja. Ég held að hann hafi ekki átt einn einasta óvildarmann. Hann kveður því þetta tilverustig með þá einkunn í lok lífsgöngunnar sem allir gætu vel við unað.

Ég og fjölskylda mín þökkum ljúfmennsku og vináttu Sigurðar Arnasonar. Megi hann eiga góða heimkomu sem hann hefur til unnið. Sigríði og börnum þeirra sendum við samúðarkveðjur.

Stefán Fríðbjarnarson.
------------------------------------------

Fréttin um lát Sigurðar Árnasonar, skrifstofustjóra, á föstudagsmorgun, 18. apríl sl., kom öllum, sem hann þekktu mjög á óvart og ekki síst okkur sem unnum með honum.

Undanfarið hafði hann verið að vinna að lokauppgjöri reikninga SR fyrir árið 1985 og hafði hann orð á því daginn áður en hann lést, að það væri á lokastigi. Á þessum degi átti Sigurður 66 ára afmæli.
Þegar Sigurður fór heim að lokinni vinnu á fimmtudeginum talaði hann um einhverja vanlíðan en gerði lítið úr, enda var Sigurður ekki vanur að kvarta yfir hlutunum.
Sigurður Árnason lauk verslunarskólaprófí frá Verslunarskóla Íslands árið 1940.

Hann réðist til Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði 1948, er hann tók þar við starfi gjaldkera. Sigurður hafði unnið áður við skrifstofustörf í Reykjavík, en fluttist nú til síns heimabæjar, Siglufjarðar, en þar ólst hann upp hjá fósturforeldrum sínum, Sigmundi Sigurðssyni og Kristjönu Sigfúsdóttur.

Árið 1959 tók Sigurður Árnason við starfi skrifstofustjóra, sem hann gegndi til dauðadags. Fyrir utan fjögur sl. ár starfaði Sigurður á Siglufirði, en hann fluttist til Reykjavíkur 1982, þegar aðalbókhald SR var flutt á skrifstofuna í Reykjavík. Með Sigurði er genginn einn mætasti starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins, sem vann sín störf af alúð, trúmennsku og framúrskarandi vandvirkni.

Hann bjó yfir mikilli bókhaldsþekkingu, sem hann hafði ánægju af að miðla öðrum og hefur undirritaður heyrt það frá mörgum nemendum hans úr Gagnfræðaskóla Siglufjarðar að hann hafi verið frábær kennari, en Sigurður kenndi bókfærsiu við skólann í mörg ár. í starfi sínu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins þurfti Sigurður eðlilega að hafa samskipti við hina mörgu viðskiptamenn fyrirtækisins og þá ekki síst við hina ýmsu útgerðarmenn, sem lögðu upp afla hjá SR.

Á síldar- og loðnuvertíðum var oft mikið um að vera og stundum heitt í kolunum og þeir, sem til þekkja, vita að samskipti við útgerðarmenn og sjómenn á annatímum eru ekki vandalaus. Með prúðmennsku sinni og rósemi leysti Sigurður vandamál, sem upp komu í þessum samskiptum á farsælan hátt, þannig að báðir máttu vel við una og hefur sá sem þetta skrifar ekki heyrt Sigurði hallmælt af neinum hinna fjölmörgu viðskiptavina fyrirtækisins.

Maður eins og Sigurður, sem svo lengi hefur unnið hjá sama fyrirtækinu verður hluti af því sjálfur og fyrirtækið hluti af manninum. Það er því erfitt að hugsa sér SR án Sigurðar Árnasonar og geta ekki lengur slegið á þráðinn til hans til að fá upplýsingar af ýmsu tagi, sem hann ætíð gaf fúslega og fljótt. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið lánsamar að hafa mann eins og Sigurð Árnason svo lengi í sinni þjónustu, en kallið er komið og það verður ekki aftur tekið.

Starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins kveðja góðan vin og félaga, samstarfsmann, sem ekki mátti vamm sitt vita og ætíð var reiðubúinn að leysa hvers manns vanda með einstæðri prúðmennsku. Við, samstarfsmennirnir, vottum eiginkonu Sigurðar, Sigríði Sigurðardóttur, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum samúð okkar vegna hins skyndilega fráfalls ástríks eiginmanns, föður og afa. Jón

Reynir Magnússon.
--------------------------------------------------------

Mánudaginn 28. apríl verður til moldar borinn Sigurður Árnason. Það er ekki ætlun mín að rekja æviferil Sigurðar, til þess eru aðrir miklu hæfari, en ég get ekki látið hjá líða að minnast hans nokkrum fátæklegum orðum. Fundum okkar Sigga bar fyrst saman 1973 er ég kom til Siglufjarðar í heimsókn á heimili hans. Það sem þá strax vakti athygli mína í fari Sigga var hógværð, ljúfmennska og vinnusemi. Þessir eiginleikar komu æ skýrar í ljós eftir því sem ég kynntist honum betur.

Aldrei heyrði ég hann hæla sjálfum sér né miklast af sínum verkum. Öll börn sem hann umgengust, löðuðust að honum og sú þolinmæði og hlýja sem hann sýndi þeim var mikil. Vinnusemi hans var með ólíkindum og það sem honum féll verst var að hafa ekkert fyrir stafni. Þannig maður var Siggi.

Eitt af því sem hann hafði mikið gaman af, var að setjast að tafli. Sennilega skipta þær þúsundum skákirnar sem við Siggi tefldum saman og einhvern veginn finnst mér ótrúlegt að við eigum ekki eftir að taka nokkrar skákir á næstunni, en öruggt er að er ég hverf yfir móðuna miklu, mun Siggi bíða mín með uppraðað tafl. Það hvarflaði ekki að mér að kvöldi 17. apríl, er ég drakk kaffi hjá Sigga og Sirrý í tilefni 66 ára afmælis hans, að morguninn eftir yrði hann allur.

Tíminn sem honum var skammtaður í skák lífsins, rann út öllum að óvörum og eftir standa eiginkona hans, Sigríður Sigurðardóttir og börn þeirra hjóna, Guðrún, Klara og Árni Geir. Þeirra huggun eru ljúfar minningar um góðan dreng, minningar sem aldrei verða frá þeim teknar. Megi góður Guð veita ykkur styrk í ykkar sorg svo og öllum þeim sem Sigurði unnu.

Þ.L.
--------------------------------------

Siglfirðingur - 05. maí 1986

Sigurður Árnason skrifstofustjóri F.17. apríl 1920 D. 18. apríl 1986

Mér brá ónotalega er ég heyrði andlátsfregn góðs kunningja míns og samferðamanns i Sigurðar Árnasonar skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins. Svo skyndileg brottför vekur mann ósjálfrátt til umhugsunar um rök tilverunnar, tilgang hennar og þess er allt þetta skóp. — Sigurður hafði haldið upp á afmælisdag sinn daginn áður og engan óraði fyrir svo skjótum endalokum — en kallið var komið — og undan því varð ekki vikið.

Sigurður fæddist 17. apríl 1920 á Kúskerpi í Engihlíðarhreppi A-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Árni Sigurðsson bóndi á Rútsstöðum í Svínavatnshreppi A-Húnavatnssýslu og kona hans Guðrún Jónasdóttir skipstjóra á Akureyri Sigfússonar.

Hann fór ungur í fóstur til elskulegra hjóna, Sigmundar Sigurðssonar og Kristjönu Sigfúsdóttur en þau bjuggu að Eyrargötu 15 hér í bæ. Sigurður útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Siglufjarðar 1936 og brautskráðist úr Verslunarskóla íslands 1940. Hann stundaði verslunarstörf frá 1940—43, gerðist síðan fulltrúi hjá heildsölu í Reykjavík frá 1943—47.

Flutti til Siglufjarðar og gerðist gjaldkeri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins 1948 og skrifstofustjóri 1959 til dauðadags. Flutti til Reykjavíkur 1982 er aðalbókhald fyrirtækisins var flutt þangað. Hann kenndi bókfærslu við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar um árabil. Sigurður átti því láni að fagna að upplifa mestu umbrotaár í sögu Siglufjarðar,  en fjörðurinn með fallega fjallahringinn var á unglingsárum Sigurðar sveipaður ljóma síldarævintýrisins.

Þetta tímabil hefir án efa mótað hug hans eins og sérhvers unglings er hér var skipafjöldinn mannmergðin — og hið ólgandi líf og fjör er var samfara þessu ævintýri, gat ekki látið nokkurn mann ósnortinn og hefir trúlega átt sinn þátt í því að Sigurður ílentist hér. Hann kvæntist eftirlifandi konu sinni Sigríði Sigurðardóttur árið 1949 og má segja að þá hafi hann stigið sitt mesta gæfuspor, svo innileg var þeirra sambúð.

Þau áttu hlýlegt og gott heimili að Suðurgötu 63. Þau eignuðust þrjú mannvænleg og elskuleg börn, sem öll eru uppkomin, en þau eru Guðrún, Klara og Árni Geir. Sigurður var starfsmaður með afbrigðum og ekki þurfti að óttast það sem fór í gegnum hendur hans væri ekki til fyrirmyndar um nákvæmni og snyrtimennsku. Það var því mikið happ fyrir S.R. að fá slíkan mann í þjónustu sína  mann, sem mátti ekki vamm sitt vita og sem iðjusemi og trúmennska var í blóð borin.

Þessir eiginleikar eru trúlega fágætir nú til dags en það var annað í fari Sigurðar, sem samferðamenn hans mátu svo mikils, en það var hin meðfædda prúðmennska og hlýleiki, sem einkenndi allt hans dagfar hvernig sem á stóð hafði hann alltaf tíma til að sinna manni og var þó oft erilsamt á skrifstofu hans. Haft var á orði að hvergi væri betur unnið en á skrifstofu S.R. Hann var kröfuharður við sjálfan sig um of að manni fannst á stundum, en iðjuleysi var eitur í hans beinum.

Hann var eindreginn sjálfstæðismaður og á þeim vettvangi lágu leiðir okkar saman bæði í stjórn Félags ungra sjálfstæðismanna, svo og í Félagi sjálfstæðismanna hér í bæ og það var gott að vinna með honum. Alltaf reyndist hann sami trausti og ötuli félaginn. Hann var um átta ára bil formaður kjörstjórnar. Ég vil fyrir hönd sjálfstæðisfélaganna hér þakka þetta óeigingjarna starf hans í þágu þeirrar stefnu er hann taldi happasælasta fyrir þjóð vora.

En við áttum einnig margar skemmtilegar samverustundir á öðrum vettvangi en það var í Lionsklúbbi Siglufjarðar sem var fyrsti klúbbur utan Reykjavíkur. En þar eru engar stjórnmálaskoðanir hafðar uppi  heldur unnið að ýmsum framfara- og mannúðarmálum í sátt og samlyndi. Átti þessi félagsskapur sérstaklega vel við skapgerð Sigurðar, sem vildi helst öll vandamál leysa með friði og spekt.

Og í þessum félagsskap hafði hann gamanmál uppi eins og aðrir en þó aldrei á kostnað annarra, eins og svo oft vill verða, hann vildi engan særa, hvorki í orði né verki. Nú er komið að leiðarlokum. Sigurður var jarðsettur mánudaginn 28. apríl. Vinir og samferðamenn trega þennan ljúfa dreng og þakka samfylgdina og senda eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur og biðja þann sem öllu ræður að styðja þau og styrkja.
Guð blessi minningu Sigurðar Árnasonar.

Óli J Blöndal